• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
12
Apr

Michael Tanchuk lætur af störfum sem forstjóri Norðuráls

Michael Tanchuk forstjóri hefur tilkynnt að hann sé að hætta sem forstjóri Norðuráls.

Samkvæmt fréttatilkynningu, sem meðal annars er birt á Business Wire í dag, hefur Tanchuk verið ráðinn forstjóri bandaríska álsfyrirtækisins Ormet Corp.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness telur þónokkra eftirsjá vera af forstjóra Norðuráls. Ástæða þess er til að mynda sú að forstjórinn lagði mikla áherslu að vera í góðu sambandi við stéttarfélögin og hefur til að mynda komið í heimsókn á skrifstofu félagsins til að fá upplýsingar um hin ýmsu hagsmunamál er lúta að starfsmönnum Norðuráls.

Formaður félagsins hafði sterklega á tilfinningunni að Michael Tanchuk forstjóri Norðuráls hefði mikinn vilja til að lagfæra það sem starfsmenn og stéttarfélögin hafa verið ósátt með.

Formaður hefur átt þónokkra fundi með forstjórnum frá því hann tók við fyrirtækinu og hafa áherslur hans t.d. í öryggismálum starfsmanna lofað nokkuð góðu. 

Verkalýðsfélag Akraness óskar  Michael Tanchuk velfarnaðar í nýju starfi.

12
Apr

Verkalýðsfélag Akraness greiddi tæplega 2,5 milljónir í starfsmenntastyrki á síðastliðnu ári

Verkalýðsfélag Akraness er aðili að starfsmenntasjóðum Landsmenntar, Ríkismenntar, Sveitamenntar og Sjómenntar og í þessum sjóðum eiga félagsmenn umtalsverðan rétt til endurgreiðslu á hluta kostnaðar vegna hinna ýmsu starfstengdu námskeiða sem og frístundarnámskeiða. Á síðastliðnu ári greiddi Verkalýðsélag Akraness tæplega 2,5 milljónir í starfsmenntastyrki úr áðurnefndum sjóðum. 

Hjá Landsmennt og Sjómennt eiga fullgildir félagsmenn rétt á endurgreiðslu sem nemur 75% af starfstengdum námskeiðskostnaði, þó að hámarki 50.000 á ári.  Vegna aukinna ökuréttinda eiga fullgildir félagsmenn rétt á endurgreiðslu sem nemur 81.000.  Frístundastyrkur er að hámarki 15.000. 

Hjá Sveitamennt og Ríkismennt eiga fullgildir félagsmenn rétt á endurgreiðslu sem nemur 75% af starfstengdum námskeiðskostnaði, þó að hámarki 60.000 á ári.  Vegna aukinna ökuréttinda eiga fullgildir félagsmenn rétt á endurgreiðslu sem nemur 81.000.  Frístundastyrkur er að hámarki 18.000. 

Félagsmenn eru hvattir til að nýta sér þessa þjónustu starfsmenntasjóðana eins og kostur er.  Félagið hvetur einnig félagsmenn hafa samband við skrifstofu félagsins vilji þeir frá nánari upplýsingar hvaða námskeið það eru sem félagið styrkir, en þau eru æði mörg.

11
Apr

Greiðslur úr sjúkrasjóði félagsins námu tæpum 20 milljónum á síðasta ári

Greiðslur úr sjúkrasjóði félagsins hafa aukist um 8% á milli ára og er það fyrst og fremst vegna þess að fleiri styrkir eru nú í boði til handa félagsmönnum heldur en mörg undanfarin ár.  Einnig er ein skýring sú að töluverð breyting varð á greiðslu sjúkradagpeninga  til félagsmanna eftir að greiðsluskyldu atvinnurekanda líkur.  Nú eru sjúkradagpeningar félagsmanna 80% af þeirra launum en þó að hámarki 250.000 og miðast það við laun síðustu sex mánaða fyrir veikindi. 

Sjúkrasjóður félagsins greiddi tæpar 20 milljónir í styrki og bætur á síðasta ári til félagsmanna.  Á næsta aðalfundi mun liggja fyrir breyting á reglugerð sjúkrasjóðsins sem mun tryggja félagsmönnum að minnsta kosti þrjá nýja styrki.  Þessi tillaga að reglugerðarbreytingu er lögð fram vegna góðrar afkomu sjóðsins og er einnig einn liður í því bæta þjónustuna við félagsmenn enn frekar.

09
Apr

Mikið annríki framundan í starfsemi félagsins

Mikið annríki er framundan í starfsemi félagsins en undirbúningur fyrir aðalfund félagsins stendur nú yfir.  Verið er að leggja lokahönd á reikninga félagsins og er allt útlit fyrir að síðasta rekstrarár sé það albesta í sögu félagsins. 

Einnig er verið að vinna að breytingum á reglugerð sjúkrasjóðs en til stendur að fjölga um allt að þrjá nýja styrki til félagsmanna.  Er það gert í ljósi góðrar afkomu sjóðsins.

Vinna við úthlutun á orlofshúsum fyrir sumarið nær hámarki í þessum mánuði en að undanförnu hafa streymt inn umsóknir frá félagsmönnum og virðist vera mjög góð ásókn í orlofshús félagsins fyrir komandi sumar.

Undirbúningur er einnig hafin að fullu vegna 1. maí hátíðarhaldanna og allt útlit fyrir að hátíðarhöldin verði með sambærilegu sniði og undanfarin ár, en metþátttaka var í hátíðarhöldunum í fyrra. 

Vinna við fréttablað félagsins mun hefjast á næstu dögum og mun það berast öllum félagsmönnum sem og öllum Akurnesingum rétt fyrir 1. maí .  Verkalýðsfélag Akraness gefur tvö blöð út á ári annars vegar fyrir 1. maí og hins vegar rétt fyrir jól.

Það var núverandi stjórn sem tók þá stefnu að gefa út fréttablað, en það hafði vart þekkst áður í sögu félagsins.  Hægt er að skoða öll fréttablöðin á heimasíðu félagsins en þau eru til vinstri á síðunni undir liðnum Fréttablöð.

06
Apr

Breytingar fyrirhugðar á bónuskerfi starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins

Formaður félagsins ásamt aðaltrúnaðarmanni Íslenska járnblendifélagsins funduðu með forstjóra ÍJ og mannauðsstjóra fyrirtækisins.  Tilefni fundarins var að fara yfir tillögur sem Verkalýðsfélag Akraness hafði lagt fram sem lutu að breytingum á bónuskerfi fyrirtækisins.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hafa þættir í núverandi bónuskerfi ekki verið að virka eins og samningsaðilar væntust til.  Þess vegna lagði félagið fram tillögur um breytingar á bónuskerfinu með hagsmuni starfsmanna að leiðarljósi.

Samningsaðilar voru sammála um að D liður bónuskerfisins yrði skipt út fyrir nýjan þátt að undangengu samþykki trúnaðartengiliða.  D liður bónussins lítur að hittni í málmhreinsun en sá liður bónussins hefur einungis gefið 0,25% en sá þáttur getur gefið allt að 1,5%.

Eins og áður sagði þá stendur til að taka þann D liðinn út og taka nýjan þátt inn er lítur að fjarvistaslysum, nánar tiltekið H1 og H2 tölur.  Formaður félagsins er ekki í nokkrum vafa um að þessi breyting er til umtalsverða bóta fyrir starfsmenn.  Formaður mun funda með trúnaðartengiliðum strax eftir páska og kynna þessar hugmyndir fyrir þeim, ef trúnaðartengiliðir eru sammála þessari breytingu mun hún taka gildi frá og með 1. apríl 2007.  

04
Apr

Starfsmenn Akraneskaupstaðar eiga von á fimm miljóna króna glaðningi frá bæjarráði!

Bæjarráð Akraneskaupstaðar ákvað á fundi sínum 30. mars sl. að nýta sér ekki lengur heimild til að draga persónuálag starfsmanna bæjarins frá þeim eingreiðslum sem Launanefnd sveitarfélaga samþykkti að greiddar yrðu frá 28. janúar 2006.  Umræddar persónuálögur hafa allir þeir starfsmenn sem voru í starfi hjá Akraneskaupstað fyrir undirritun síðasta kjarasamnings.

Það er alveg ljóst að þessi ákvörðun bæjarráðs hefur mjög jákvæð áhrif á launakjör þeirra starfsmanna sem eiga hlut að máli.

Bæjarráð samþykkti einnig að þessi ákvörðun skildi verða afturvirk eða nánar tiltekið frá 28. janúar 2006.   Það mun þýða að Akraneskaupstaður mun endurgreiða í heildina tæplega fimm milljónir króna til starfsmanna Akraneskaupstaðar.  Hefur formaður heimildir fyrir því að einstaka starfsmenn muni fá endurgreiðslu sem numið getur tugum þúsunda. 

Formaður Verkalýðsfélags Akraness getur ekki annað fagnað þessari ákvörðun bæjarráðs.  Einfaldlega vegna þess að það er ætíð ánægjulegt þegar kjarabætur koma óvænt til launþega og það á miðju samningstímabili.  

Það er sérstaklega ánægjulegt að þessi ákvörðun mun hafa mjög jákvæð áhrif á þá starfsmenn bæjarins sem eru með hvað lægstu launin. 

Rétt er að minna á að bæjarráð samþykkti ekki alls fyrir löngu að greiða þeim sem taka laun eftir launaflokkum 115, 116 og 117 eingreiðslur frá 5000 kr á mánuði uppí 6000 kr. og eru þær eingreiðslur umfram samþykktir Launanefndar sveitafélaga frá 28. janúar 2006.

Það ber að fagna þeirri stefnu sem bæjarstjórn Akraneskaupstaðar hefur tekið hvað varðar hækkanir til þeirra sem lægstu hafa tekjurnar, þó vissulega megi alltaf gera enn betur í þeim efnum. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image