• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
19
Mar

Landburður hjá Ísaki Ak 67

Það er óhægt að segja að það sé líf og fjör á bryggjunni þessa dagana.  Það er ekki aðeins að mikið berist af loðnu heldur er alger landburður hjá smábátnum Ísaki Ak 67.

Rétt í þessu lagðist Ísak að bryggju með rúm 7 tonn og var einungis búinn að draga þrjár trossur og átti aðrar þrjár úti.  Um leið og búið var að landa héldu þeir félagar Eiður Ólafsson og Kristófer Jónsson út til að vitja þeirra neta sem eftir voru. 

Ekki óvarlegt að áætla að heildaraflinn verði nálægt 15 tonnum þegar þeir félagar hafa vitjað þeirra neta sem þeir áttu eftir að draga. Ísak AK er 11,6 tonn að stærð.  Það hefur gengið ótrúlega vel hjá þeim félögum á þessari vertíð enda er hér um algera harðjaxla um að ræða.  Það verður hins vegar ekki tekið af Eiði Ólafssyni að hann er  einstaklega fengsæll skipstjóri. 

Rétt er að geta þess að þeir félagar á Ísaki Ak eru báðir félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness.

19
Mar

Uppgrip hjá skipverjum á Víkingi Ak

Víkingur Ak var snöggur að fylla sig af loðnu en það tók einungis rétt rúman sólahring að fá um 1.300 tonn.  Formaður fór á bryggjuna í morgun og fékk þær upplýsingar að loðnan hafi veiðst við Malarrifið á Snæfellsnesi.

Faxi Re lá einnig við bryggju með fullfermi þannig að það er nóg að gera við hrognatöku sem og í síldarbræðslunni. 

Það er óhætt að segja að það hafi verið uppgrip hjá skipverjunum á Víkingi Ak.  Formaður félagsins heyrði að hásetahluturinn sé að nálgast þrjár milljónir króna og það á rétt tæpum tveimur mánuðum. Skýrist þessi góði aflahlutur fyrst og fremst af því að afurðaverð er mjög gott þessa stundina, einnig hefur áhöfninni á Víkingi gengið mjög vel við loðnuveiðarnar sjálfar. Víkingur Ak á hugsanlega einn til tvo fullfermistúra eftir sé tekið tillit til þess að ekki verði bætt enn frekar við loðnukvótann.

16
Mar

Gríðarlegt annríki vegna skattaframtalsaðstoðar

Gríðarlegt annríki hefur verið á skrifstofu félagsins vegna skattaframtalsaðstoðar sem félagið bíður uppá. Mun fleiri hafa nýtt sér þessa þjónustu í ár sé miðað við árið í fyrra.

Núverandi stjórn ákvað þegar hún tók við árið 2003 að bjóða uppá þessa þjónustu og eins og áður sagði hefur hún svo sannarlega fallið í góðan jarðveg hjá félagsmönnum.

Tugir erlendra starfsmanna hafa þegið þessa þjónustu á undanförnum dögum og er afar ánægjulegt að sjá að erlent vinnuafl er að nýta sér þá þjónustu sem félagið bíður uppá.

Þær Hugrún Olga Guðjónsdóttir og Björg Bjarnadóttir hafa borið hitann og þungann af þessari þjónustu og hafa gert það með glæsibrag.

15
Mar

Formaður félagsins og framkvæmdastjóri SGS fóru á fund sérnefndar Alþingis í morgun

Formaður félagsins fór í morgun ásamt framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins á fund sérnefndar Alþingis sem hefur það verkefni að fjalla um frumvarp um auðlindaákvæði í stjórnarskrá (þjóðareign á náttúruauðlindum).

Hafði Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður nefndarinnar óskað eftir áliti SGS á umræddu frumvarpi. 

Skúli Thoroddsen framkvæmdastjóri SGS fór yfir afstöðu SGS í þessu máli og kom fram í hans máli að SGS vill að náttúruauðlindir Íslands séu í þjóðareign og þær nýttar til hagsbóta fyrir þjóðina.  

Formaður félagsins telur það afar brýnt að auðlindir hafsins sem og aðrar auðlindir séu eign þjóðarinnar.  Hins vegar verður að tryggja að frumvarpið skapi ekki réttarfarslega óvissu. 

Það er með öllu óþolandi að horfa uppá hvernig kvótakerfið hefur leikið margar byggðir þessa lands.  

Það getur vart verið eðlilegt að útgerðamaður sem hefur umráðarétt yfir aflaheimildum geti ákveðið uppá sitt einsdæmi að hætta útgerð og selt allar aflaheimildir frá sér og skilið heilt byggðarlag í sárum.  Gengið í burtu með tugi ef ekki hundruði milljóna króna í vasanum og skilið sjómenn og fiskivinnslufólk eftir atvinnulaust og nánast allslaust. 

Þetta atvinnuóöryggi sem sjómenn og fiskvinnslufólk þarf að búa við er ekki nokkrum bjóðandi.  Við Skagamenn höfum að undanförnum misserum þurft að horfa eftir umtalsverðum aflaheimildum sem seldar hafa verið burt úr bænum.  Nægir þar að nefna að smábátaútgerð hér á Akranesi hefur dregist stórlega saman á síðustu mánuðum.  Einnig hefur starfsfólki Haraldar Böðvarssonar fækkað umtalsvert við sameiningu við Granda.  Starfsöryggi sjómanna og fiskivinnslufólks er verulega ótryggt í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi.

Það er gríðarlega mikilvægt að sátt náist í þjóðfélaginu um sjávarútvegsmál okkar Íslendinga.  Það sjávarútvegskerfi sem við búum við núna er eins ósanngjarnt og hugsast getur og því þarf að breyta, þjóðinni allri til hagsbóta.

14
Mar

Fast þeir sóttu sjóinn

Formaður félagsins kíkti á bryggjuna snemma í morgun og hitti þar harðjaxlana Eið Ólafsson og Kristófer Jónsson en þeir eru félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness.

Þeir félagar er á tólf tonna bát sem ber nafnið Ísak Ak 67.  Voru þeir Eiður og Kristófer að  koma úr róðri í skítabrælu, suðvestan 7 til 8 vindstigum með drekkhlaðinn bát samtals um 11 tonn.

Þeir tjáðu formanni að fiskiríið sé búið að vera með ágætum það sem af er vertíð.   Núna sé staðan hins vegar þannig að erfitt sé að fá leigukvóta og verðið sé einnig mjög hátt. 

Það er alveg óhætt að segja að trillusjómennskan sé ekkert sældarlíf þegar veður eru válynd eins og oft vill verða hér á Íslandi.  Nægir að heyra fréttir að sjóslysinu frá því í gærkveldi vestur á fjörðum til að sjá hversu hættulegt starf trillusjómennska getur verið.  En vissulega eru æði margir ljósir punktar varðandi trillusjómennsku, tekjurnar geta t.d verið mjög góðar þegar aflar vel.  Og í góðri tíð og góðu fiskiríi er fátt skemmtilegra en að vera í snertingu við hafið og anda að sér tærum sjávarilmi.

13
Mar

Formaður fór í vinnustaðaheimsókn til starfsmanna síldarbræðslunnar

Formaður félagsins fór í vinnustaðaheimsókn í síldar- og fiskimjölsverksmiðjuna í gær. 

Það kom fram hjá starfsmönnum að búið væri að landa um 26 þúsund tonnum að uppsjávarafla það sem af er þessu ári og er það umtalsvert meira heldur á sama tíma í fyrra.  Mikil törn hefur verið á starfsmönnum verksmiðjunnar að undanförnu og nægir að nefna í því samhengi að starfsmenn hafa staðið 62 vaktir og það nánast í einni lotu.

Í janúar gekk félagið frá nýjum sérkjarasamningi fyrir starfsmenn síldarbræðslunnar sem tryggir starfsmönnum mun betri kjör heldur en sjá eldri.  Það sem gert var í nýja samningum var að hinar ýmsu kaupaukagreiðslur voru færðir inní grunnlaun sem tryggir starfmönnum mun betri kjör þegar ekki eru staðnar vaktir.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image