• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Mar

Fundi stjórnar VLFA og forsvarsmanna SGS var að ljúka

Rétt í þessu var að ljúka fundi með forsvarsmönnum Starfsgreinasambands Íslands með hluta af stjórn félagsins. Forsvarsmenn SGS voru að hefja fundarherferð til aðildarfélaga SGS og var þetta fyrsta heimsókn þeirra í þeirri herferð.

Þetta var afar ánægjulegur og gagnlegur fundur og mikið var rætt um komandi kjarasamninga. Afstaða Verkalýðsfélags Akraness til komandi kjarasamninga er hvellskýr, það er að verja það markaðslaunakerfi sem nú er í gildi á íslenskum vinnumarkaði og færa lágmarkstaxta SGS upp að markaðslaunum. Til þess að það náist þurfa lágmarkslaun að hækka um allt að 43%.

Einnig var mikið rætt um þær hugmyndir að stofna nýjan áfallatryggingasjóð og um breytingar á veikinda- og slysarétti en fram kom í máli formanns félagsins að hann telji að fara verði afar varlega í þessum breytingum.

26
Mar

Fundað með forsvarsmönnum Starfsgreinasambandsins

Í hádeginu mun stjórn félagsins funda með formanni, varaformanni og framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins. 

Dagskrá fundarins er í megin atriðum þessi:

 

  • Kristján Gunnarsson, formaður SGS fer yfir helstu viðfagsefni SGS og ASÍ eins og þau blasa við SGS.
  • Þjónustukönnun SGS, helstu niðurstöður könnunarinnar og samanburður heildarinnar við viðkomandi félag.
  • Kjarakönnun SGS, lykilniðurstöður. Hvernig getum við tengt þær við komandi kjarasamninga.
  • Breytingar á veikindarétti, nýjar hugmyndir í tengslum við skýrslu nefndar um endurskoðun örorkumats og eflingu starfsendurhæfingar.
  • Önnur mál.
24
Mar

Skelfilegt slys í Norðuráli í dag

Alvarlegt vinnuslys varð í álveri Norðuráls á Grundartanga rétt fyrir klukkan þrjú í dag. Slysið varð fyrir utan einn af kerskálum álversins þegar stórum lyftara var ekið á starfsmann sem var á gangi.

Stjórn VLFA leggur mikla áherslu á að öryggismál starfsmanna séu í góðu lagi og á þeirri forsendu fór formaður félagsins á slysstað í dag til að kynna sér hvað hafi valdið þessu hörmulega slysi. Lögreglan og vinnueftirlitið voru að störfum þegar formann bar að garði og er afar erfitt að segja á þessari stundu hvað hafi valdið þessu slysi.

Formaður hitti öryggistrúnaðarmann Norðuráls í dag en fram kom hjá honum að aðkoman að slysinu hafi verið afar ljót og aðstæður á slysstað hafi verið afar erfiðar.  Slysið varð utandyra og þegar það gerist var veður afar slæmt, hávaðarok og mikil úrkoma.  Það var alveg ljóst að starfsmönnum var verulega mikið brugðið við þetta hræðilega slys í dag.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem formaður hefur fengið þá eru umtalsverðar líkur á að starfsmaðurinn missi annan fótinn í þessu hræðilega slysi. 

Stjórn félagsins sendir þeim starfsmanni sem lendi í umræddu slysi ósk um eins skjótan bata og hægt er og ekki síður þeim er varð fyrir því óláni að aka á starfsmanninn.  Einnig er mikilvægt að hlúa að þeim starfsmönnum sem komu fyrstir á slysstaðinn og veita þeim áfallahjálp.  Sem dæmi má nefna er áfallateymi starfrækt hjá Íslenska járnblendifélaginu og er það ræst út þegar alvarleg slys verða hjá Íslenska járnblendinu.   Formanni er ekki kunnugt um hvort slíkt teymi sé starfrækt hjá Norðuráli. 

23
Mar

Fara verður varlega í breytingu á veikinda-og slysarétti

Í gær var haldinn ráðstefna sem bar yfirskriftina Ný tækifæri til atvinnuþátttöku.  Þeir sem stóðu fyrir ráðstefnunni voru Öryrkjabandalagið og Vinnumálastofnun í samstarfi við Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins.

Margir góðir aðilar fluttu erindi á ráðstefunni t.d Laila Gustavsen ráðuneytisstjóri í atvinnumálaráðneyti  Noregs. Fram kom í máli hennar að Norðmenn eru að gjörbylta þessum málum hjá sér og t.d hefur Norska Vinnumálastofnunin og Tryggingastofnun verið sameinuð.  Fram kom í máli hennar að Norðmenn eru að einfalda kerfið svo fólk þurfi aðeins að leita á einn stað.  Með áðurnefndri sameiningu verður atvinnu-og félagsleg ráðgjöf á einum stað.  Einnig kom fram hjá Laila að Norðmenn hafa virkilega trú á því að þær umbætur sem þau vinna nú að hafi þau áhrif að það hægi verulega á fjölgun öryrkja.

Bolli Þór Bollason ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu fór yfir helstu niðurstöður úr örorkumatsnefndinni sem skipuð var af forsætisráðherra.  Í máli hans kom fram að nefndin var sammála um að stórefla þyrfti starfsendurhæfingu hér á landi í því skyni að hjálpa einstaklingum sem af einhverjum ástæðum hafa ekki náð að festa rætur á vinnumarkaðnum sökum örorku.

Einnig var Gylfi Arnbjörnsson frá ASÍ með erindi sem bar heitið,,Endurskoðun samningsbundinna veikinda- og slysaréttinda í ljósi nýrra viðhorfa til endurhæfingar". 

Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa verið að ræða saman að undanförnu um breytingu á veikinda- og slysarétti, en megin markmið ASÍ og SA er að stofna nýjan Áfallatryggingarsjóð.  Í þeim tillögum sem Gylfi fór yfir á fundinum í gær er gert ráð fyrir verulegum breytingum á veikinda- og slysarétti launafólks á hinum almenna vinnumarkaði og einnig er gert ráð fyrir því að stór hluti framlags atvinnurekanda í sjúkrajóði stéttarfélaganna muni renna í þennan nýja áfallatryggingarsjóð.  Einnig er gert ráð fyrir aðkomu ríkisins, sveitarfélaga og lífeyrissjóða að þessum nýja sjóði.  Rétt er að geta þess að þessar viðræður eru á algjöru byrjunarstigi. 

Það sem Gylfi kynnti á ráðstefnunni í gær hugnast formanni félagsins alls ekki og telur formaður að stíga verði afar varlega í þessu máli.  Hugmyndir um breytingu á sjúkrasjóðum félaganna og einnig breytingu á veikinda-og slysaréttinum hugnast formanni félagsins ekki og það eru verulega skiptar skoðanir varðandi þessar hugmyndir innan aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins. 

 Vissulega eru allir sammála því að stórefla verði starfsendurhæfingu og það er eitthvað sem stéttarfélögin geta svo sannarlega tekið þátt í að gera í fullri samvinnu við ríkið, sveitarfélögin, lífeyrissjóðina og alla þá sem hafa hagsmuni af því að efla starfsendurhæfingu. 

En umpólun sjúkrasjóða stéttarfélaganna og hugmyndir um að skerða veikindarétt er eitthvað sem formaður VLFA hræðist.  Vissulega er rétt að geta þess enn og aftur að þessi mál eru á byrjunarstigi og erfitt að leggja endanlegt mat á þessa fyrirhuguðu breytingu.

Reyndar undrast formaður félagsins af hverju við Íslendingar förum ekki sömu leið í þessum málum og Norðmenn eru að gera.  En í máli Lailu var ekki annað að skilja en að norska ríkið sæi alfarið um alla þá þætti er lúta að þeim breytingum sem þar er verið að gera í þessum sama málaflokki.   

Fyrir örfáum vikum skilaði öryrkjanefnd sem skipuð var af forsætisráðherra skýrslu um endurskoðun örorkumats og eflingu starfsendurhæfingar en nefndinni var ætlað að koma með tillögur til úrbóta í þessum málum.  Það er lítið mál að leggja fram fagrar skýrslur sem eiga að taka á þessum málum er lúta að starfsendurhæfingu þeirra sem dottið hafa út af vinnumarkaðnum.  Hins vegar er öllu meira mál  hver eigi að fjármagna þessa auknu starfsendurhæfingu og hver á að hafa umsjón með henni, en þeim spurningum hefur ekki verið svarað.

Í Kastljósi á mánudaginn sl. var afar athyglisvert viðtal við Ástu Gunnarsdóttur kennara en hún átti við geðræn vandamál að stríða til langs tíma en hefur nú náð bata með aðstoð iðjuþjálfunardeildar Landsspítalans.  Ásta hefur verulegar áhyggur af því að iðjuþjálfun hjá geðdeild Landsspítalans verði lokað 1. maí nk. þar sem ekki fást iðjuþjálfar til starfa vegna lágra launa.  Hún telur að sú endurhæfing sem hún fékk hjá iðjuþjálfun Landsspítalans hafi algerlega bjargað sér og gert það að verkum að hún varð aftur vinnufær. 

Það er hálf kaldhæðnislegt að á sama tíma og verið er að skila skýrslu sem skipuð var af forsætisráðherra um að stórefla þurfi starfsendurhæfingu þá næst ekki að manna iðjuþjálfunardeild Landsspítalans og allt útlit að henni verði lokað 1. maí vegna þess að laun iðjuþjálfa eru alltof lág.   

Hvernig væri fyrir hið opinbera að það tæki á svona máli eins og Ásta bendir réttilega á af fullri einurð og ákveðni og bjargi því að iðjuþjálfun á Landsspítalanum leggist ekki af.  Flottar nefndir og fagrar skýrslur skila ekki miklu einnar og sér.  Það eru allir sammála um að það þarf að stórauka starfsendurhæfingu til að það takist þá þarf ríkið að koma að því máli af fullum þunga og leggja verulega aukið fé í það verkefni. Eigum við ekki að byrja á því að hlúa að þeim meðferðarúrræðum sem þegar eru til staðar áður en menn leggjast í stórbreytingar á kerfinu.

Hægt er að horfa á viðtalið við Ástu Gunnarsdóttur í Kastljósinu með því smella hér   

21
Mar

Stéttarfélag á hraðri uppleið

Stjórn félagsins fundaði á mánudaginn var og á fundinum var farið yfir hinn ýmsu mál sem nú eru í gangi hjá félaginu.  

Stjórn félagsins ákvað á fundinum í gær að aðalfundur félagsins skuli vera haldinn á svipuðum tíma og í fyrra eða nánar tiltekið seinni partinn í apríl.

Nú eru að verða liðinn fjögur ár frá því núverandi stjórn tók við Verkalýðsfélagi Akraness.  Það verður að segjast alveg eins og er að VLFA hefur tekið algjörum stakkaskiptum á þessum fjórum árum bæði hvað varðar félagslega þáttinn og alls ekki síður fjárhagslega, en félagsjóður var til að mynda rekinn á yfirdrætti þegar ný stjórn tók við 2003.

Stjórn félagsins hefur á þessum fjórum árum tekist að snúa þessari skelfilegu fjárhagsstöðu algjörlega við og er fjárhagsstaða félagsins mjög góð um þessar mundir.

Fjölgað hefur um rúma 500 félagsmenn á þessum árum og þjónustan við félagsmenn hefur verið stóraukin.  Vissulega er stjórnin þó meðvituð um að alltaf má gera betur hvað varðar þjónustu við félagsmenn.  En markmiðið er skýrt hjá stjórn félagsins, það er að vera það stéttarfélag sem býður sínum félagsmönnum uppá hvað bestu þjónustuna.

Til að nálgast þetta markmið hefur stjórn sjúkrassjóðs ákveðið að bæta við í það minnsta þremur nýjum styrktarflokkum úr sjúkrasjóði félagsins.  Þetta verður kynnt nánar á aðalfundi félagsins í apríl.

21
Mar

Hvaða orlofsstaðir eru í boði 2007?

Að undanförnu hafa starfsmenn félagsins unnið að því koma umsóknum um orlofshús/íbúð í póst.  Umsóknarblöðin ættu að vera búinn að berast öllum félagsmönnum um og eftir helgina.

Umsóknarfrestur er til kl. 14:00 föstudaginn 13.apríl.  Þau orlofshús sem félagið býður uppá í sumar eru á eftirfarandi stöðum:

  • Svínadalur Hvalfjarðastrandarhreppi.
  • Ölfusborgir við Hveragerði.
  • Húsafell í Borgarfirði.
  • Hraunborgir í Grímsnesi.
  • Íbúð í Stykkishólmi.
  • Þrjár íbúðir á Akureyri.
  • Sumarbústaður að Eiðum.
  • Bláfell Biskuptungum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image