• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Jan

Útgreiðslur úr sjúkrasjóði og menntastyrkjum námu 210 milljónum króna árið 2025

Á árinu 2025 greiddi félagið samtals 210 milljónir króna í styrki og greiðslur til félagsmanna. Alls nýttu 2.518 félagsmenn sér hina ýmsu styrki og réttindi sem standa félagsmönnum til boða hjá félaginu.

Útgreiðslurnar skiptust þannig:

  • 37 milljónir króna fóru í menntastyrki af ýmsum toga,

  • 65 milljónir króna voru greiddar úr sjúkrasjóði,

  • 108 milljónir króna fóru í sjúkradagpeninga.

Það er afar ánægjulegt að sjá hversu hátt hlutfall félagsmanna nýtir sér þá þjónustu og styrki sem félagið býður upp á. Félagið leggur ríka áherslu á að veita félagsmönnum sínum öflugan stuðning, bæði þegar kemur að menntun, heilsu og tekjuöryggi.

VLFA mun áfram leggja sitt af mörkum til að tryggja félagsmönnum sínum eins góða þjónustu og styrki og kostur er, enda eru öflugir sjóðir og virk nýting þeirra einn af hornsteinum sterks verkalýðsfélags.

05
Jan

Nýtt félaga- og orlofskerfi

Verkalýðsfélag Akraness er að taka í notkun nýtt félaga- og orlofskerfi - Félagakerfi Tótal

Félagið er að fara úr áratuga gömlu kerfi sem hefur þjónað félaginu vel en fyrirséð var að uppfærslum yrði hætt. 

Félagakerfi Tótal er þróað og hannað með þarfir og verkefni stéttarfélaga í huga og í dag eru 9 stéttarfélög um allt land að nota kerfið, 5 félög eru að innleiða kerfið og fleiri félög eru að skoða að taka þetta kerfi upp. Tótal er í eign stéttarfélaganna sem nota það sem geta því haft bein áhrif á þróun og rekstur þess.

Opnað verður fyrir Mínar síður sem eru notendavænar í tölvu, síma og spjaldtölvum í janúar - mitt.vlfa.is

Við innskráningu kemur félagsmaður á upphafssíðu þar sem viðkomandi hefur yfirsýn yfir sín félagsgjöld, umsóknir og hvernig réttindi hafa verið nýtt.

Mínar síður bjóða jafnframt upp á að skoða laus orlofshús, bóka og greiða, vefverslun sem og að sækja rafrænt um styrki í sjúkra- og menntasjóði.

Ath. ekki verður hægt að bóka orlofshús næstu daga á meðan yfirfærsla stendur yfir.

personublad

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Leiðbeiningar á nýju kerfi má finna hér

Tótal kerfið er í stöðugri þróun og inniheldur m.a. kosningakerfi, orlofskerfi og iðgjaldakerfi.

Nýtt kerfi býður upp á ýmsa möguleika fyrir félagsmenn að nálgast upplýsingar og fyrir starfsfólk félagsins að veita þjónustu og hafa yfirsýn.

Hægt er að vinna fjölda skýrslna úr kerfinu en Tótal tengist BC bókahaldskerfi með veflausn og með þeirri tengingu verður inheimta iðgjalda og afgeiðsla umsókna sjálfvirk á milli þessara kerfa.

Starfsfólk félagsins hvetur félagsmenn til að fara á Mínar síður og uppfæra upplýsingar eins og símanúmer og netfang, en það gefur okkur aukinn möguleika á að veita félagsmönnum viðeigandi upplýsingar og sem besta þjónustu. 

29
Dec

Laun á Grundartangasvæðinu hækka um 6,21% 1. janúar 2026

Laun starfsfólks hjá Norðuráli, Elkem Ísland, Klafa og öðrum fyrirtækjum á Grundartangasvæðinu hækka um 6,21% frá og með 1. janúar 2026, samkvæmt gildandi kjarasamningum.

Launahækkunin byggir á ákvæðum kjarasamninga þar sem miðað er við þróun launavísitölu á hinum almenna vinnumarkaði á tímabilinu frá september 2024 til september 2025. Á því tímabili hækkaði launavísitalan um 6,53%, en samkvæmt samningunum skulu laun hækka um 95% af þeirri hækkun, sem leiðir til 6,21% launahækkunar.

Hækkunin hefur veruleg áhrif á laun starfsfólks. Sem dæmi má nefna að grunnlaun með hæfnisálagi hjá Norðuráli hækka um 29 þúsund krónur upp í um 35 þúsund krónur á mánuði, eftir stöðu og launaflokki. Þá má reikna með að heildarlaun vaktavinnufólks í kerskála hækki um 49 þúsund krónur upp í um 59 þúsund krónur á mánuði.

Auk mánaðarlauna hækka einnig orlofs- og desemberuppbætur um 6,21%. Hvor uppbót hækkar úr 308.776 krónum í 327.957 krónur, sem nemur 19.181 krónu hækkun hvor um sig. Samtals nema orlofs- og desemberuppbætur því 655.914 krónum og hækka samtals um 38.362 krónur.

Launahækkunin endurspeglar sjálfvirka tengingu kjarasamninga við þróun launa á almennum vinnumarkaði og tryggir að starfsfólk á Grundartangasvæðinu fylgi almennri launaþróun í landinu.

 

29
Dec

Verkalýðsfélag Akraness tapaði máli gegn Norðuráli um stórhátíðarálag – niðurstaðan vekur mikla undrun

Verkalýðsfélag Akraness (VLFA) höfðaði mál gegn Norðuráli fyrir Félagsdómi vegna ágreinings um greiðslur fyrir vinnu á stórhátíðardögum. Félagið krafðist þess að viðurkennt yrði að starfsfólk Norðuráls í vaktavinnu ætti rétt á sérstökum greiðslum fyrir vinnu á stórhátíðum og helgidögum, líkt og almennt gildir um annað launafólk á íslenskum vinnumarkaði. Félagsdómur hafnaði kröfunni og sýknaði Norðurál, með þeim afleiðingum að VLFA tapaði málinu.

Niðurstaða dómsins þykir afar undarleg og vekur alvarlegar spurningar um túlkun kjarasamninga. Félagsdómur byggir niðurstöðu sína á þeirri forsendu að fast meðalvaktaálag vaktavinnufólks eigi að dekka vinnu á þeim dögum sem vaktir falla, þar á meðal á rauðum dögum og stórhátíðardögum. Að mati VLFA er sú niðurstaða gjörsamlega óskiljanleg.

Í dóminum er í raun gengið út frá því að 30% vaktarálag á kvöldin, 55% vaktarálag um helgar og 60% vaktarálag á næturvinnu eigi jafnframt að dekka vinnu á rauðum dögum sem falla á virka daga, mánudaga til föstudaga, sem og alla stórhátíðardaga. Þetta er með öllu óútskýranlegt, enda eru þessir dagar ekki hluti af hefðbundnu vaktamynstri heldur sérstakir helgidagar sem njóta sérstakrar verndar í kjarasamningum.

Í kjarasamningum er skýrt kveðið á um hvernig greiða skuli fyrir vinnu á helgidögum og stórhátíðardögum. Þar segir að vinna á helgidögum skuli greidd með yfirvinnukaupi, 1,14%, og vinna á stórhátíðardögum með stórhátíðarkaupi, 1,57%. Þessi ákvæði eru skýr og afdráttarlaus. Þrátt fyrir það kemst Félagsdómur að þeirri niðurstöðu að þessi grein eigi einungis við um dagvinnufólk.

VLFA bendir á að ekkert í orðalagi greinarinnar styðji slíka túlkun. Í greininni er hvergi tekið fram að hún eigi aðeins við um dagvinnumenn né eru þar að finna undanþágur fyrir vaktavinnufólk í stóriðjum. Að mati félagsins er hér um að ræða túlkun sem hvorki byggir á texta samningsins né á almennum lögskýringarsjónarmiðum.

Sérstaka athygli vekur að málið tapaðist meðal annars vegna bréfs frá árinu 1999. Í því bréfi var viðurkennt að stórhátíðarálag væri hvorki innifalið í né tekið tillit til þess við útreikning á meðalvaktaálagi. Í kjölfarið samþykkti Norðurál einhliða að greiða stórhátíðarkaup á stórhátíðardögum, að frádregnu yfirvinnukaupi. Sú framkvæmd mun halda áfram, enda byggir hún á umræddu bréfi frá árinu 1999, sem Félagsdómur lagði til grundvallar í niðurstöðu sinni.

VLFA telur þessa framkvæmd algerlega fráleita og án allrar stoðar í kjarasamningum. Slíkur frádráttur á yfirvinnukaupi frá stórhátíðarkaupi þekkist ekki á íslenskum vinnumarkaði og er ekki sambærilegur við neina almenna framkvæmd. Enginn á íslenskum vinnumarkaði „er á yfirvinnukaupi“ á stórhátíðardögum með þeim hætti að heimilt sé að draga það frá sérstökum stórhátíðargreiðslum.

VLFA bendir jafnframt á að félagið hefði mun frekar getað skilið þá niðurstöðu að dregið yrði meðalvaktaálagið frá stórhátíðarkaupi, enda væri þá um að ræða frádrátt á greiðslu sem ætlað er að dekka vaktavinnu almennt. Slíkt var hins vegar ekki niðurstaða Félagsdóms, heldur var viðhaldið frádrætti á yfirvinnukaupi sem á sér enga stoð í kjarasamningum.

Þrátt fyrir þessa viðurkenningu að stórhátíðarálag sé ekki innifalið í meðalvaktaálagi komst Félagsdómur engu að síður að þeirri niðurstöðu að ekki væri um samningsbundna skyldu að ræða. VLFA telur það með ólíkindum og telur að niðurstaðan leiði til þess að starfsfólk í vaktavinnu í stóriðjum á Grundartanga standi verr að vígi en annað launafólk þegar kemur að greiðslum fyrir vinnu á helgidögum og stórhátíðum.

VLFA bendir jafnframt á að þróun kjarasamninga á íslenskum vinnumarkaði síðustu ár hafi gengið í þveröfuga átt við niðurstöðu Félagsdóms. Í nánast öllum kjarasamningum hefur verið lögð rík áhersla á að styrkja stöðu vaktavinnufólks, bæði á almennum markaði og hjá hinu opinbera, meðal annars með hækkandi vaktarálögum og skýrari ákvæðum um greiðslur vegna vinnu á helgidögum og stórhátíðum. Sú þróun byggir á rannsóknum sem sýna að vaktavinna er krefjandi og getur verið heilsuspillandi til lengri tíma.

Þrátt fyrir þessa viðurkenndu þróun kemst Félagsdómur að þeirri niðurstöðu að starfsmenn Norðuráls eigi ekki rétt á slíkum greiðslum, ólíkt því sem gildir um launafólk almennt á íslenskum vinnumarkaði. Að mati VLFA er þessi niðurstaða bæði í andstöðu við texta kjarasamninga og við þá stefnu sem vinnumarkaðurinn í heild hefur markað um að bæta kjör og vernd vaktavinnufólks.

Enn fremur vekur athygli að þau stéttarfélög sem eiga aðild að kjarasamningum við Norðurál eru þau sömu og eiga aðild að kjarasamningum við Elkem. Þrátt fyrir það hefur starfsfólk Elkem í vaktavinnu nánast ekkert fengið greitt sérstaklega fyrir vinnu á stórhátíðardögum, þrátt fyrir að vinnufyrirkomulag sé í grundvallaratriðum hið sama í báðum verksmiðjum. VLFA telur óskiljanlegt að þessi mismunur hafi ekki verið gerður að umtalsefni fyrr.

VLFA leggur jafnframt áherslu á að morgunljóst sé að þessi niðurstaða verði ekki látin átölulaus. Undir engum kringumstæðum verður samþykkt að vaktavinnufólk í stóriðjum á Grundartanga njóti lakari réttinda en annað launafólk á íslenskum vinnumarkaði. Málið verður því óhjákvæmilega sett á dagskrá í næstu kjarasamningum og verður barist fyrir því af fullum þunga að réttur til greiðslna fyrir vinnu á helgidögum og stórhátíðum verði skýrður og tryggður með ótvíræðum hætti.

12
Dec

Breytingar á leigu orlofshúsa - sem taka gildi á nýju ári

Á nýju ári mun Verkalýðsfélag Akraness taka í notkun nýtt félaga- og orlofskerfi.

Rafrænar bókanir orlofshúsa munu færast frá félagavef og yfir á Mínar síður sem verða aðgengilegar í byrjun árs.

Af þessum sökum mun gamli félagvefurinn loka frá og með áramótum og ekki verður hægt að bóka orlofshús í nokkra daga á meðan yfirfærsla á sér stað.

Leiðbeiningar um bókanir verða aðgengilegar á heimasíðu félagsins. Starfsfólk mun leiðbeina og aðstoða enda getur oft verið erfitt að aðlagast nýjum leiðum.

Á sama tíma og nýtt félaga- og orlofskerfi verður tekið í notkun þá munu verða ákveðnar breytingar varðandi orlofshúsaleigur.

1. Við bókun orlofshúss verður innheimt staðfestingargjald, 1.000 kr., sem er óendurgreiðanlegt og greiðist innan tveggja daga.

2. Við bókun verður hægt að velja á milli þess að greiða strax með korti eða fá greiðsluseðil sendan í heimabanka. Greiða þarf greiðsluseðil 10 dögum fyrir upphaf leigu, annars fellur leiga niður.

3. Leiguverð hækkar frá 1. janúar. Helgarleiga í húsum í verðflokki 1 er 18.000 kr. og í verðflokki 2 er 20.000 kr. Helgarleiga er alltaf frá föstudegi til mánudags.

4. Leiguverð reiknast þannig upphafsgjald + verð fyrir hverja nótt reiknast sem leiguverð.

5. Sumarleiga verður áfram vikuleiga og úthlutun ákvarðast af fjölda punkta.

6. Leigurverð sumarið 2026 

Verðflokkur 1 - 20.000 kr.

Verðflokkur 2 - 30.000 kr. 

27
Nov

Ágreiningur um greiðslur á stórhátíðardögum hjá Norðuráli tekinn fyrir í Félagsdómi

Ágreiningur um greiðslu fyrir vinnu á stórhátíðardögum hjá Norðuráli var tekinn fyrir í Félagsdómi þriðjudaginn 24. nóvember. Verkalýðsfélag Akraness og nágrennis (VLFA) stefndi fyrirtækinu í kjölfar þess að félagið telur að Norðurál hafi ekki greitt starfsmönnum samkvæmt ákvæðum kjarasamnings um laun á stórhátíðardögum.

Forsendur málsins lúta að túlkun á greiðslufyrirkomulagi sem gildir um starfsmenn sem vinna yfir stórhátíðir. VLFA telur að Norðurál hafi ekki framfylgt skýrum ákvæðum kjarasamnings og leitaði því réttar með því að vísa málinu til Félagsdóms.

Formaður VLFA, sem gaf skýrslu fyrir dómnum, segir að málflutningurinn hafi farið vel fram og að sjónarmið félagsins hafi komið skýrt og rökstuddt fram. Hann ítrekar þó að eins og í öllum dómsmálum séu bæði niðurstöður og úrslit óviss, og að líkur séu jafnar á því hvort málið vinnist eða tapist.

VLFA gerir ráð fyrir að niðurstaða dómstólsins liggi fyrir fyrir jól.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image