• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
 • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Jul

Sumarfrí

Kæru félagsmenn

Vikuna 26.-30 júlí er skrifstofa félagsins lokuð vegna sumarleyfa.  Við opnum aftur þriðjudaginn 3. ágúst.

Hér á heimasíðunni er hægt að nálgast umsóknareyðublöð, kjarasamninga og fleira. 

Leigusamninga vegna orlofshúsa er hægt að nálgast á félagavef.

Ef erindið er mjög brýnt má senda okkur tölvupóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og við munum reyna svara eftir bestu getu.

21
Jul

Félagsmenn VLFA athugið!

Verkalýðsfélag Akraness vill minna þá hundruð félagsmanna VLFA sem eru á faraldsfæti vítt og breitt um landið í sumarfríum að þeir eiga rétt á endurgreiðslu vegna hótelgistingar og dvalar á tjaldsvæðum og nemur endurgreiðslan 50% af reikningi að hámarki 10.000 kr.

Orlofsstjórn Verkalýðsfélags Akraness ákvað á fundi sínum að styðja félagsmenn í sumar að ferðast innanlands með því að niðurgreiða fyrir félagsmenn hótelgistingu og dvöl á tjaldsvæðum um 50% að hámarki 10.000 kr.

Afar mikilvægt að félagsmenn passi uppá kvittanir og komi með þær þegar sótt er um umrædda niðurgreiðslu. VLFA hvetur félagsmenn menn sína að nýta sér þessa niðurgreiðslu sem félagið bíður félagsmönnum uppá

20
Jul

Norðurál ræðst í 15 milljarða fjárfestingu- 40 ný störf skapast

Það eru gjörsamlega frábærar fréttir fyrir okkur Akurnesinga og nærsveitunga sem og fyrir þjóðarbúið allt að Norðurál og Landsvirkjun hafi náð nýjum raforkusamningi sem mun leiða til þess að fyrirtækið mun ráðast í 15 milljarða fjárfestingu í nýjum steypuskála.

Það er ekki bara að þessi fjárfesting muni skapa 100 störf á uppbyggingartímanum heldur mun þessi stækkun skapa 40 varanleg störf sem og tryggja framtíð fyrirtækisins um komandi ár. En það er löngu ljóst að framleiðslugeta núverandi steypuskála hefur torveldað fráflæði frá kerskálanum og væntanlega mun þessi stækkun steypuskálans leiða til þess að álagið á bæði kerskála og steypuskála mun verða minna. Einnig mun þessi nýja fjárfesting tryggja framtíð Norðuráls til næstu ára ef ekki áratuga.

Það er morgunljóst að þessi framkvæmd mun auka útflutningstekjur og um leið styrkja rekstrarstöðu fyrirtækisins enn frekar en í nýja steypuskálanum verða framleiddir 150 þúsundtonn af svokölluðum álboltum sem eru mun verðmeiri en sú framleiðsla sem unnin er hjá Norðuráli í dag

Fjárhagslegur ávinningur þjóðarbúsins er ótvíræður en formaður myndi áætla að nýr raforkusamningur og 20 MW viðbót við raforkusamninginn muni skila Landsvirkjun auknum tekjum sem nema á bilinu 2 til 3 milljörðum á ári. Eftir að nýr raforkusamningur við Landsvirkjun má áætla að NA sé að greiða uppundir 7 milljarða til LV á ári fyrir raforkuna. En síðan er Norðurál með raforkusamning við Orkuveitu Reykjavíkur og nemur kostnaður við þann samning milli 7 til 8 milljörðum á ári. Samtals mun Norðurál því greiða uppundir 15 milljarða á ári fyrir raforkuna og ljóst að munar um minna fyrir umrætt orkufyrirtæki sem eru í eigu ríkis og sveitafélaga.

Það er ekki bara að tekjur Landsvirkjunar muni aukast heldur mun staðgreiðsla til ríkis og sveitafélaga aukast um allt að 100 milljónir á ári vegna þess að 40 ný varanleg störf munu skapast.

Það hefur enginn barist eins kröftuglega fyrir atvinnuöryggi starfsmanna stóriðjufyrirtækja eins og Verkalýðsfélag Akraness eins sagan sýnir. Formaður hefur barist fyrir því að bæði Norðurál og Elkem Ísland á Grundartanga næðu samningum við Landsvirkjun sem myndi leiða til þess að rekstarforsendur þessara fyrirtækja myndu ekki ógna atvinnuöryggi starfsmanna stóriðjufyrirtækjanna á Grundartanga. Hefur formaður VLFA m.a. fundað með forstjóra Landsvirkjunar og ráðamönnum vegna þeirra alvarlegu stöðu sem upp var komin um tíma en nú sér loksins fyrir endann á þessari ógn og nú er bara að vona að Elkem nái einnig nýjum raforkusamningi við LV.

Rétt er að geta þess að í dag vinna um 600 manns hjá Norðuráli fyrir utan afleidd störf og um 200 manns hjá Elkem og eru þar einnig afleidd störf undanskilin og því eru þessi fyrirtæki gríðarlega mikilvæg fyrir okkur Akurnesinga og Verkalýðsfélag Akraness en um 80% starfsmanna þessara fyrirtækja tilheyra VLFA.

Eins og áður sagði eru þetta frábærar fréttir enda er þessi fjárfesting í stækkun á steypuskálanum að tryggja og festa atvinnuöryggi minna félagsmanna sem og tryggja búsetuöryggi okkar Akurnesinga og nærsveitunga.

19
Jul

VLFA hefur fest kaup á bústað í Hvalfirði.

Verkalýðsfélag Akraness hefur gert kauptilboð Í sumarbústað í Hvalfirði, en um er að ræða einn af þeim sex bústöðum sem eru beint fyrir neðan hótel Glym. Um er að ræða afar glæsilegan bústað sem byggður var árið 2010, en bústaðurinn er með tveimur svefnherbergjum sem bæði eru með aðgengi að salerni og sturtu. Bústaðurinn er með heitum potti og er með svefnaðstöðu fyrir sex manns.

Rétt er að geta þess að aðsókn félagsmanna í sumarbústaði sem Verkalýðsfélag Akraness á hefur verið mjög góð og er langt umfram eftirspurn og á þeirri forsendu ákvað stjórn orlofssjóðs VLFA að festa kaup á þessum bústað til að mæta umræddri eftirspurn félagsmanna.

Félagið nær að koma bústaðnum í útleigu frá og með 28 júlí og eru því 5 vikur sem koma til úthlutunar á þessu sumri. En hægt verður að sækja um eftirfarandi vikur til hádegis á næsta fimmtudag en þeir sem sækja um og eiga flesta orlofspunkta munu fá þær vikur sem eru í boði.

Umsóknir: sendið okkur tölvupóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it., þar sem fram kemur kennitala félagsmanns, símanúmer og sú vika sem óskað er eftir.  Einnig er hægt að hringja í  okkur í  síma 430-9900 eða koma við á Þjóðbraut 1 

Eftirfarandi vikur er hægt að sækja um en leigutímabilið er frá miðvikudegi til miðvikudags.

Vikurnar eru:

 • 28 júlí til 4.ágúst
 • 4. ágúst til 11. ágúst
 • 11. ágúst til 18. ágúst
 • 18. ágúst til 25. ágúst
 • 25. ágúst til 1. september

Eftir að sumarúthlutun lýkur mun taka við hefðbundin vetrarúthlutun en þar gildir fyrstur kemur fyrstur fær. Við minnum félagsmenn á sem hafa í hyggju að sækja um í þessum nýja valkosti sem félagið býður uppá, að frestur til að sækja um er eins og áður hefur komið fram til hádegis á fimmtudaginn 22. júlí.

IMG 1230IMG 1230IMG 1230IMG 1230IMG 1230

06
Jul

Seðlabankinn og stjórnvöld taka enn og aftur stöðu með fjármálaelítunni

Þegar lífskjarasamningurinn var undirritaður kom yfirlýsing frá stjórnvöldum í 6 liðum sem laut að því að draga jafnt og þétt úr vægi verðtryggingar hjá almennum neytendum. Því miður hunsuðu og sviku stjórnvöld umrædda yfirlýsingu.

Það vita allir sem vita vilja að vextir og verðtrygging hafa verið eitt af baráttumálum verkalýðshreyfingarinnar á liðnum árum enda ljóst að mikill fjármagnskostnaður heimilanna hefur gríðarleg áhrif á ráðstöfunartekjur heimilanna.

Það hefur verið afar erfitt að brjóta á bak aftur þetta skefjalausa dekur stjórnvalda og Seðlabankans í þágu fjármálakerfisins.

Almennt hafa stjórnvöld á hverjum tíma fyrir sig komið í veg fyrir að almenningur njóti sambærilegra vaxtakjara og án verðtryggingar eins og tíðkast í þeim löndum sem við viljum einna helst bera okkur saman við.

Seðlabankastjóri var í viðtali við Viðskiptablaðið á dögunum þar sem hann sagðist ekki sjá tilgang með því að banna verðtryggingu á neytendalánum til heimilanna. Svo skýtur hann á verðalýðshreyfinguna og segir að hún ætti frekar að leggja lóð á vogarskálarnar við að tryggja stöðugt verðlag.

Formaður verður að spyrja seðlabankastjóra hvort hann sé virkilega að halda því fram að það hafi verið íslensku launafólki að kenna að hér varð bankahrun sem gerði það að verkum að verðbólgan fór upp í 20% nánast á einni nóttu. Afleiðingarnar voru að verðtryggðar skuldir heimilanna stökkbreyttust um 400 milljarða, í dag nemur þessi upphæð núvirt rúmum 600 milljörðum. Það voru þúsundir fjölskyldna sem misstu heimili sín með skelfilegum afleiðingum.

Rétt að minna Seðlabankastjóra á að sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar sem skilaði skýrslu árið 2014 komst að þeirri niðurstöðu að 40 ára jafngreiðslulán væru baneitraður kokteill sem banna þyrfti tafarlaust enda gera slík lán ekkert annað en að hækka fyrstu 20 til 25 árin frá því þau eru tekin.

Formaður spyr seðlabankastjóra eftirfarandi spurninga:

 • Finnst þér eðlilegt að verðtryggð lán geri ekkert annað en að hækka fyrstu 20 til 25 árin eftir að þau eru tekin?
 • Er það launafólki að kenna að gengi krónunnar á það til að sveiflast upp og niður?
 • Er það launafólki að kenna að hér ríkir framboðs- og lóðaskortur sem leiðir til þess að fasteignaverð hækkar sem hefur áhrif til hækkunar á neysluvísitölunni?
 • Finnst þér eðlilegt að allri ábyrgðinni sé varpað á lántakann með veitingu á verðtryggðum lánum.
 • Af hverju eru aðrar þjóðir sem við viljum bera okkur saman við ekki að veita verðtryggð lán til heimila ef þetta eru svona skynsöm lán?
 • Er eðlilegt að verðtryggingarjöfnuður banka sé með þeim hætti að þeir hagnist á verðbólgu eins og fram kom í áliti sérfræðingahópsins um afnám verðtryggingar?
 • Er það eðlilegt að skatta- og tollahækkanir stjórnvalda leiði til þess að verðtryggðar skuldir heimilanna hækki?
 • Er eðlilegt að stríðsátök í miðausturlöndum leiði til þess að skuldir heimilanna hækki vegna hækkunar á olíuverði?
 • Af hverju var verðtrygging á launum afnumin árið 1983 en ekki á fjárskuldbindingum heimilanna?
 • Finnst þér eðlilegt að viðskiptabankarnir þrír séu búnir að skila um 800 milljörðum í hagnað frá hruni?

Formaður VLFA gæti svo sem haldið áfram með spurningar en þetta eilífa dekur stjórnvalda og seðlabankans við fjármálaelítuna er orðið óþolandi, enda er dekrið allt á kostnað almennings og heimilanna.

24
Jun

Mikilvægi stéttarfélaga gríðarleg við að verja réttindi sinna félagsmanna

Eins og ætíð er umtalsvert að gera við réttindavarðveislu fyrir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness en eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins þá hefur félagið innheimt vegna vangreiddra launa og ágreinings vegna túlkunar á ráðningarsamningum og kjarasamningum rétt rúman einn milljarð frá árinu 2004. Í þessu samhengi er ekki verið að taka tillit til margfeldisáhrifa sem sum réttindamálin hafa síðan leitt af sér til framtíðar. Stærsta einstaka málið sem félagið hefur innheimt fyrir sína félagsmenn er mál sem vannst fyrir dómstólum gegn Hval á síðasta ári en það skilaði um 100 milljónum.

Í þessari viku eru nokkur mál sem félagið vinnur að við að verja réttindi sinna félagsmanna. Einu lauk í gær með leiðréttingu til félagsmanns upp á 321.000 kr. vegna rangtúlkunar atvinnurekanda á hvernig hlutabótaleiðin skuli framkvæmd.

Annað lýtur að túlkun á starfslokum starfsmanns vegna atvinnusjúkdóms en það mál er í vinnslu en samkvæmt sérfræðingi í húðsjúkdómum eru umrædd veikindi að hans mati atvinnusjúkdómur en til þessa hefur fyrirtækið ekki fallist á þá niðurstöðu. Félagið mun klárlega fylgja þessu máli eftir alla leið enda eru það sérfræðingar í læknisfræðum sem vega og meta það hvort um atvinnusjúkdóm sé að ræða ekki atvinnurekendur.

Þriðja málið er um orlofsréttindi starfsmanna Norðuráls eftir að tekið var upp nýtt vaktakerfi eða hætt með 12 tíma vaktir og unnið þess í stað 8 tíma vaktir. Félagið hefur fært góð og gild rök fyrir sinni afstöðu í þessum ágreiningi og ljóst að um jafnvel tug milljóna hagsmuni er að ræða fyrir félagsmenn VLFA í þessu máli. Formaður hefur greint Samtökum atvinnulífsins frá því að ef ekki fæst niðurstaða í málið eins og VLFA túlkar þennan ágreining mun félagið láta á málið reyna fyrir Félagsdómi.

Það er morgunljóst að mikilvægi stéttarfélaga við að varðveita kjarasamningsleg réttindi sinna félagsmanna er gríðarlegt enda leikurinn á milli launamannsins og atvinnurekandans afar ójafn og er formaður nokkuð viss um að nánast ekkert af þessum málum hefðu fallið starfsmönnum í hag nema með aðkomu stéttarfélagsins.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image