• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Apr

1. maí 2025 - Kröfuganga - Hátíðarfundur - Bíó fyrir börn

1. maí 2025 

Verkalýðsfélag Akraness, VR, FIT, Kennarasamband Íslands, Sjúkraliðafélag Íslands og Sameyki standa fyrir dagskrá á baráttudegi verkalýðsins 1. maí á Akranesi.

Klukkan 14:00 fer af stað kröfuganga frá Þjóðbraut 1, trommusveit TOSKA undir stjórn Heiðrúnar Hámundar leiðir gönguna.

Hátíðar- og baráttufundur í sal eldri borgara, Dalbraut 4, að göngu lokinni. 

Hátíðarræðu flytur Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA og kvennakórinn Ymur flytur nokkur lög.

Að dagskrá lokinni verður boðið upp á kaffi og kökur að hætti kórfélaga.

Allir velkomnir

Kl. 13 og kl. 16 verður bíó fyrir börn í Bíóhöllinni - Hundmann með islensku tali ath. númeruð sæti.

Miða má nálgast á midix.is 

https://www.midix.is/is/hundmann-kl-1600-01-may-2025/eid/648/group/1

22
Apr

Kjarasamningar við Norðurál og Elkem samþykktir með miklum meirihluta greiddra atkvæða

Nú rétt í þessu lauk kosningu um kjarasamninga bæði Norðuráls og Elkem Ísland. Er skemmst frá því að segja að samningarnir voru báðir samþykktir með miklum meirihluta greiddra atkvæða. Rétt er að geta þess að fyrri kjarasamningur við Elkem hafði verið felldur með 58% atkvæða en nú var hann hins vegar samþykktur með 80,62% atkvæða.

 

Niðurstaðan hjá Elkem var eftirfarandi:

104 sögðu já eða 80,62%

19 sögðu nei eða 14,73%

6 tóku ekki afstöðu eða 4,65%

Kjörsókn var 85,43%

Niðurstaðan hjá Norðuráli var eftirfarandi:

366 sögðu já eða 72,76%

121 sögðu nei eða 24,06%

16 tóku ekki afstöðu eða 3,18%

Kjörsókn var 73,54%

 

Þessi niðurstaða kemur formanni ekki á óvart enda eru þessir kjarasamningar keimlíkir. Samningarnir tryggja starfsmönnum mjög góðar launahækkanir á fyrsta ári og launavísitölutengingu hin árin ásamt nokkrum atriðum til viðbótar sem skila þeim ágætis ávinningi. Formaður vill þakka trúnaðarmönnum fyrir vel unnin störf við gerð þessara kjarasamninga enda skiptir miklu máli að hafa öfluga trúnaðarmenn í slíku verkefni. 

16
Apr

Kosningar hjá starfsmönnum Norðuráls og ELKEM

Í dag var opnað fyrir rafrænar kosningar hjá starfsmönnum bæði Elkem og Norðuráls.

Við hvetjum alla starfsmenn sem eiga aðild að þessum samningum að taka þátt og kjósa.

Hér er hægt að nálgast kynningarefni fyrir báða samningana : 

NORÐURÁL

ELKEM

Eins og áður sagði, þá er kosningin rafræn og nauðsynlegt er að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum.

Kosningu lýkur svo kl. 12:00 á hádegi  þriðjudaginn 22. apríl.

Þitt atvæði skiptir máli !

 

 

14
Apr

Kynningar á nýjum kjarasamningi Norðuráls hafnar á fullu

Formaður byrjaði daginn snemma í morgun og var mættur upp í Norðurál kl. 6:30 til að kynna nýjan kjarasamning fyrir starfsmönnum sem voru að ljúka næturvöktum. Að þeirri kynningu lokinni kynnti hann samninginn fyrir þeim sem voru að koma á dagvakt. Fór formaður ítarlega yfir innihald samningsins og var ekki annað að skynja en að starfsmenn virtust almennt vera ánægðir með það sem samningurinn innihélt þó ugglaust sé það alltaf þannig að menn vilji "meira."

Samningurinn er að skila um eða yfir 50.000 kr. launahækkun eða 6,15% til allra starfsmanna á fyrsta ári og síðan er hann tengdur við launavísitölu Hagstofunnar og það sama á við um aðrar launabreytingar eins og orlofs- og desemberuppbætur. Formaður mun síðan síðar í dag kynna samninginn fyrir vöktunum sem eru að fara á kvöldvakt og ljúka síðan kynningunum á morgun 15. apríl kl. 17 með kynningu í Bíóhöllinni á Akranesi fyrir þær vaktir sem eru í vaktafríi.

Hægt er að skoða kynninguna hér og eru starfsmenn hvattir til að hafa samband við formann eða trúnaðarmenn ef einhverjar spurningar vakna. 

11
Apr

Kjarasamningur við Elkem Ísland undirritaður hjá Ríkissáttasemjara í dag

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni var kjarasamningur Elkem Ísland felldur ekki alls fyrir löngu. Því fékk samninganefndin það hlutverk að leita leiða til að ganga frá nýjum kjarasamningi og það skal fúslega viðurkennast að það hefur ekki gengið þrautalaust því það er ætíð erfitt að vinna með slík verkefni enda hafa samningsaðilar yfirleitt teygt sig eins langt og kostur er við gerð upphaflega kjarasamningsins.

Þrátt fyrir þá staðreynd þá náðist að bæta við kjarasamninginn en dagmenn eru að fá 0,11% viðbót við sínar launabreytingar og hjá vaktmönnum náðist samkomulag um svokallaða rauða daga sem falla frá mánudegi til föstudags en það var sett inn í vaktaálagið sem gerir það að verkum að vaktaálagið fer úr 37,62% í 38,26% sem skilar vaktmönnum 0,43% launahækkun eða tæpum 50.000 kr. á ársgrundvelli. Öll laun hækka um tæp 6,1% eða með sambærilegum hætti og var gert í Norðurálssamningnum. Einnig náðist að tryggja að greitt verði fyrir stórhátíðardaga sem sambærilegum hætti og gert er í Norðuráli en ágreiningur um þetta mál mun fara fyrir Félagsdóm og ef það mál vinnst þar mun koma til afturvirkni eða eins og dómur mun kveða á um. En þessi breyting mun skila því að starfsmenn munu fá allt að 20.000 kr. fyrir 8 tíma vakt á stórhátíðardegi en voru áður einungis að fá rétt um 2.900 kr. Hér er um umtalsverða kjarabót að ræða sem getur skilað, þegar allir stórhátíðardagar eru teknir með, allt að 80.000 kr. kjarauppbót á ársgrundvelli. 

Orlofs- og desemberuppbætur hækka umtalsvert eða í 308.776 kr. og verða samtals 617.551 kr. og hækka því um 35.595 kr. á ári. 

Samningurinn gildir í 4 ár og munu launabreytingar verða tengdar við 95% af launavísitölu en þá aðferðafræði þekkja starfsmenn stóriðju á Grundartanga mjög vel og hefur hún reynst ábatasöm fyrir þá á liðnum árum enda tryggir launavísitalan allt það launaskrið sem verður á íslenskum vinnumarkaði. Heildarlaun ofngæslumanna frá 1. janúar 2025 eru að hækka um 49.552 kr. hjá byrjanda og hjá starfsmanni með 10 ára starfsreynslu um tæpar 60.000 kr. eða 6,67%. Með hækkun á orlofs- og desemberuppbótum nemur prósentuhækkunin yfir 7%. Dagmenn eru að hækka frá 36.378 kr. upp í tæpar 43.000 kr. á mánuði og með orlofs- og desemberuppbótum nemur þeirra hækkun 6,5%. 

Hægt er að skoða kynningu um samninginn hér og skorar formaður VLFA á alla starfsmenn að kynna sér ítarlega hvað fellst í þessum samningi enda er það mat hans að kjarasamningurinn sé gríðarlega góður þó alltaf sé það þannig að menn vilji fá meira. En samningurinn er að skila meira en þeir samningar sem gerðir hafa verið í þessari kjarasamningslotu sé tekið tillit til meðaltals hækkunar launavísitölunnar á liðnum árum og áratugum. 

11
Apr

Kjarasamningur við Norðurál undirritaður í gær

Nýr kjarasamningur við Norðurál var undirritaður í húsakynnum ríkissáttasemjara í gær og er það mat formanns félagsins að niðurstaðan sé mjög góð fyrir starfsmenn Norðuráls. Laun starfsmanna Norðuráls munu hækka um 6,15% frá 1. janúar 2025 sem og orlofs- og desemberuppbætur en samningurinn gildir í 5 ár og munu laun starfsmanna hækka samkvæmt 95% af launavísitölu Hagstofunnar fyrir hin árin sem og aðrir kjaraliðir. 

Orlofs- og desemberuppbæturnar munu til að mynda í upphafi samnings verða 308.973 kr. hvor fyrir sig eða samtals 617.946 kr. og hækka um 35.790 kr. samtals. Rétt er að geta þess að laun vaktavinnufólks eru að meðaltali að hækka um rúmar 50.000 kr. á mánuði en samningurinn gildir afturvirkt frá 1. janúar 2025 og því munu starfsmenn eiga von á eingreiðslu vegna afturvirkni sem nemur um eða yfir 200.000 kr. 

Einnig var samið um að allir fastráðnir starfsmenn sem starfað hafa í 1 ár hjá fyrirtækinu fái einn auka frídag en fastráðið starfsfólk á 8 klukkustunda vöktum í 5 vakta kerfinu fær 1 dag að auki eftir 1 ár í starfi eða samtals 2 daga. 

Einnig verður meiri sveigjanleiki á orlofi starfsmanna en gert var samkomulag um að starfsmenn muni hafa heimild til að færa allt að 50% af vetrarorlofi yfir á sumarorlofstímabil sem á að gagnast fólki vel ef það vill lengja hjá sér sumarfríið. En þetta er heimildarákvæði sem starfsmenn munu hafa. 

Ítarleg kynning á samningnum mun fara fram í næstu viku og rafræn atvkæðagreiðsla um kjarasamninginn mun væntanlega hefjast á miðvikudaginn í næstu viku en verður auglýst nánar. Formaður skorar á félagsmenn sína að hafa samband vilji þeir nánari upplýsingar um atriði samningsins.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image