• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15

Lög Verkalýðsfélags Akraness

I. KAFLI,  NAFN FÉLAGSINS OG TILGANGUR.

 

 

                                                        1.gr. 

Félagið heitir Verkalýðsfélag Akraness. Félagssvæði þess er Akraneskaupstaður og Hvalfjarðarsveit. Félagið og deildir þess eru aðilar að viðkomandi sérsamböndum, sem eiga aðild að Alþýðusambandi Íslands. Heimili félagsins og varnarþing er á Akranesi. 

 

                                                        2.gr.

Tilgangur félagsins er að efla og styðja hag og menningu alþýðunnar á því sviði sem félagið nær yfir, með því að vinna að sjálfsbjargarviðleitni almennings, ákveða vinnutíma og kaupgjald. Þetta skal gert í samvinnu við önnur verkalýðsfélög, landssamböndin sem félagið á aðild að og Alþýðusamband Íslands ef því verður komið við. Fyrst og fremst er félagið þó frjálst og áháð öðrum í þessum efnum. 

  

                                                        3.gr. 

Félagið er starfsgreinaskipt í deildir eftir því sem þurfa þykir á hverjum tíma, með sameiginlegri stjórn og sameiginlegum fjárhag. Deildirnar ráða sérmálum sínum, kjósa sér stjórnir, setja sér starfsreglur og fara með samninga um kaup og kjör innan viðkomandi starfsgreinar.

 

Að fengnu samþykki  trúnaðarráðs er heimilt að stofna nýjar deildir innan félagsins.

 

II. KAFLI,   RÉTTINDI OG SKYLDUR.

 

                                                        4.gr.

Inngöngu í félagið geta þeir fengið sem:

 

          a)       Vinna við þau störf, sem samningar félagsins ná til.

 

          b)      Eru fullra 16 ára að aldri.

 

          c)       Standa ekki í óbættum sökum við félagið eða önnur stéttarfélög innan A.S.Í., sem viðkomandi hefur verið í.

 

          d)      Eru ekki fullgildir félagsmenn í öðru félagi innan A.S.Í.

 

          e)       Eru ekki atvinnurekendur eða verkstjórar, sem eingöngu stunda verkstjórn eða atvinnurekstur.

 

                                                        5.gr.

Ákvæði um aukafélaga:

 

Heimilt er að taka í félagið sem aukafélaga unglinga innan 16 ára aldurs og þá sem stunda vinnu á starfssvæði félagsins um stundarsakir en eru fullgildir félagar í öðru félagi innan ASÍ.

 

Aukafélagar greiða fullt félagsgjald, hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins, hafa atkvæðisrétt en ekki kjörgengi. Aukafélagar hafa forgangsrétt til vinnu næst fullgildum félögum og njóta allra þeirra kjara og réttinda, sem samningar eða gildandi kauptaxtar félagsins ákveða.

 

Hafi félagsmaður ekki unnið í vinnu, sem fellur undir samningssvið félagsins síðastliðna 12 mánuði, skal hann skoðast sem aukafélagi og hafa réttindi skv. því.

 

6.gr.

Hver sem vill verða félagi í Verkalýðsfélagi Akraness, gefi sig fram á skrifstofu þess eða við formann þeirrar deildar, sem hann starfs síns vegna æskir að verða félagi í. Starfsmaður félagsins, formaður eða trúnaðarmaður viðkomandi vinnustaðar, gefur umsækjandanum kost á að skrifa nafn sitt á þar til gerða inntökubeiðni og skoðast undirskrift hans sem sönnun fyrir inngöngu og staðfesting þess að hann skuldbindi sig til að hlýta samþykktum félagsins í einu og öllu.

 

Hver félagsmaður og innsækjandi segir til þess hverri deild hann vill tilheyra, ef atvinnu hans er þannig háttað, að hann þess vegna geti tilheyrt tveimur deildum. Þó skal félagi færast sjálfkrafa milli deilda, hafi hann ekki unnið á starfssviði þeirrar deildar, sem hann er skráður í, síðastliðna 24 mánuði. Færsla milli deilda skal miðast við áramót.

 

Þá sem greitt  hafa félagsgjöld til félagsins, án þess að hafa undirritað inntökubeiðni, skal telja sem aukafélaga. Þegar einstaklingu hefur þannig greitt til félagsins samfleytt s.l. 24 mánuði er skrifstofu félagsins skylt að gera þeim aðilum grein fyrir stöðu sinni á sannanlegan hátt og gefa þeim kost á að fullgilda félagsaðild sína með undirskrift þar um. 

 

Þeir félagar sem falla undir e) lið 9.gr. laga þessara teljast félagar í þeirri deild, sem þeir tilheyrðu þegar þeir síðast greiddu félagsgjöld.

 

                                                        7.gr.

Réttindi félagsmanna eru eftirfarandi:

 

          a)       Allir fullgildir félagar í Verkalýðsfélagi Akraness hafa aðgang að fundum hverrar deildar með málfrelsi, þó þeir séu ekki skráðir í viðkomandi deild.

                   Aðalstjórn félagsins hefur málfrelsi og tillögurétt í öllum deildum félagsins, en atkvæðisrétt einungis í þeirri deild sem þeir eru félagar í, þó getur  deildarfundur með einföldum meirihluta atkvæða þeirra sem á fundi eru, samþykkt að allir fundarmenn, sem eru fullgildir félagar Verkalýðsfélags Akraness, hafi tillögu- og atkvæðisrétt í máli, sem fyrir liggur á þeim fundi.

 

                   Allir fullgildir félagsmenn eru kjörgengir til trúnaðarstarfa fyrir félagið.

 

          b)      Réttur til styrkja úr sjóðum félagsins, að uppfylltum nánari ákvæðum í reglugerðum sjóðanna.

 

          c)       Réttur til að vinna eftir þeim kjörum sem samningar félagsins ákveða hverju sinni.

 

          d)      Réttur til aðstoðar félagsins vegna vanefnda atvinnurekenda á samningum.

 

                                                        8.gr.

  Skyldur félagsmanna eru:

 

          a)       Að hlíta lögum félagsins, fundarsköpum og fundarsamþykktum og uppfylla samninga, sem það hefur gert við atvinnurekendur eða aðra.

 

          b)      Að greiða félagsgjöld skv. samþykktum félagsins.

 

          c)       Að gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið. Þó getur starfandi stjórnarmaður, sem verið hefur þrjú ár eða lengur í stjórn félagsins eða deildar samfellt, skorast undan stjórnarstörfum í jafnlangan tíma. Hafi félagsmaður gegnt trúnaðarstarfi fyrir félagið í fjögur ár eða lengur getur hann skorast undan endurkjöri.

 

          d)      Að vinna ekki með ófélagsbundnum mönnum í greininni og er skylt að tilkynna til félagsins ef þeir verða varir við brot í þessum efnum.

 

          e)       Að stuðla að því að ófélagsbundnir menn gangi í verkalýðsfélagið.

 

          f)       Hver félagsmaður, sem verður þess vís, að lögbrot hafi átt sér stað í félaginu, er skyldur að lýsa því yfir við formann félagsins, skrifstofumann þess eða á fundi.

 

                                                        9.gr.

          a)       Félagsgjöld eru ákveðin á aðalfundi og skal félagsstjórnin og trúnaðarráð leggja fyrir aðalfund ákveðnar tillögur um félagsgjöld. Tillaga til lækkunar á félagsgjöldum nær því aðeins samþykki að 2/3 atkvæða séu með henni.

 

          b)      Félagsgjöld skulu ákveðin hundraðshluti af öllum launum, en þó er heimilt að ákveða lágmarks- og hámarksgjald.

 

          c)       Hver sá félagsmaður, sem skuldar lögboðin gjöld til félagsins fyrir 12 mánuði eða meira, nýtur ekki fullra félagsréttinda, svo sem atkvæðisréttar og kjörgengis. Félagsréttindi öðlast hann ekki á ný, fyrr en skuldin er að fullu greidd.

 

          d)      Tveggja ára skuld varðar útstrikun af félagsskrá.

 

          e)       Stjórn félagsins getur heimilað þeim, sem sjúkir eru og fallið hafa af launaskrá eða stunda nám, eftirgjöf á félagsgjaldi. Þeir sem eru 70 ára að aldri, eða þiggja eftirlaun eingöngu, eru gjaldfríir til félagssjóðs, en halda fullum félagsréttindum. Veikir menn eru gjaldfríir til félagssjóðs meðan þeir eru ekki vinnufærir vegna sjúkdóms. 

 

                                                       10.gr.

Ef félagsmaður er sakaður um lagabrot, skal leggja það mál í gerðardóm, ef félagsfundur eða trúnaðarráð álítur þess þörf. Skal fundur sá, er það gerir, ákveða hvað margir menn skulu vera í dóminum og hvernig hann á að haga störfum að öðru leyti, ef fundurinn telur það nauðsynlegt. Dæma má mann til fésekta eða brottreksturs úr félaginu. Skjóta má þeim dómi til viðkomandi landssambands og eða Alþýðusambands Íslands, en dómurinn gildir þar til sambandið ákveður annað.

 

11.gr.

Hver sá maður er rækur úr félaginu, sem að dómi félagsfundar eða gerðardóms hefur unnið því ógagn, bakað því tjón eða gert því eitthvað til vansa, sem ekki er álitið að bætt verði með fé, svo og hver sá maður, sem ekki hlýðir lögum þess, eftir gefna áminningu eða uppkveðinn dóm í félaginu.

 

12.gr.

Ef manni er vikið úr félaginu má ekki taka hann í félagið aftur, fyrr en hann hefur bætt fyrir brottrekstrarsök sína.

 

                                                       13.gr.

Félagsmenn halda félagsréttindum eftir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hefur verið auglýst, eða ákvörðun um vinnustöðvun hefur verið tekin af félaginu eða trúnaðarráði, og þar til vinnustöðvuninni hefur verið formlega aflýst. Einnig er óheimilt að segja sig úr félaginu til þess að taka upp störf félagsmanna í öðru félagi, er lagt hefur niður vinnu vegna deilu.

 

 

 

III. KAFLI  STJÓRN OG TRÚNAÐARRÁÐ.

 

                                                       14.gr.

Stjórn félagsins er skipuð 12 félagsmönnum, formanni, varaformanni, ritara, vararitara, tveimur meðstjórnendum og 6 formönnum deilda. Varamenn í stjórn eru 6, þ.e. varamenn formanna deilda. Taka þeir sæti í stjórn í forföllum formanna deilda.  

 

Óheimilt er öðrum en formönnum deilda og varaformönnum deilda að sitja bæði í stjórn félagsins og stjórn deilda.

 

Kjörtímabil stjórnar er fjögur ár.  Kosið skal listakosningu.  Fer um framkvæmdina samkvæmt 29. gr.  Kjörstjórn lýsir kjöri strax eftir að úrslit eru ljós. Stjórnarskipti skulu fara fram um áramót eða eftir tvo mánuði frá því að kjöri lauk ef lengri tími er til áramóta.  

 

                                                       15.gr.

Ef mál veldur ágreiningi og er fellt á stjórnarfundi með jöfnum atkvæðum skal það lagt undir dóm félagsfundar sem er þá fullnaðarafgreiðsla á  því máli.

  

                                                       16.gr.

Stjórn hefur á hendi yfirstjórn allra félagsmála milli félagsfunda. Stjórnin boðar til félagsfunda sbr. 27. gr. Hún ræður starfsmenn félagsins, ákveður laun þeirra og vinnuskilyrði. Stjórnin ber sameiginlega ábyrgð á eigum félagsins. Heimilt er stjórn félagsins að velja úr sínum hópi framkvæmdastjórn sem fer með málefni stjórnar skv. nánari ákvörðun hennar þar um. Skylt er stjórn félagsins að stuðla að því, að allt er varðar sögu félagsins sé sem best varðveitt. Í þessum tilgangi skal að jafnaði séð svo um að gögn félagsins séu varðveitt á skrifstofu þess. Láti félagsmaður af trúnaðarstörfum, er hann gegnir fyrir félagið, er honum skylt að skila af sér öllum gögnum er trúnaðarstarf hans varða. 

 

                                                       17.gr.

Formaður félagsins kveður til stjórnarfunda og stjórnar þeim. Formanni er skylt að halda stjórnarfund óski a.m.k. 2 stjórnarmenn eftir því. Formaður undirritar gerðarbækur félagsins og gætir þess að allir stjórnarmenn geri skyldu sína. Hann hefur eftirlit með starfsemi félagsins og eftirlit með því, að lögum þess og samþykktum sé fylgt í öllum greinum. Varastjórnarmenn taka sæti í stjórn í forföllum aðalmanna. Varaformaður gegnir öllum störfum formanns í forföllum hans.

 

18.gr.

Ritari ber ábyrgð á að gerðarbækur félagsins séu haldnar og færðar í þær allar fundargerðir og lagabreytingar. Hann undirritar gerðarbækur félagsins ásamt formanni. Heimilt er að hljóðrita fundi félagsins.

                                                       19.gr.

Starfsmaður hefur á hendi fjárhald og bókfærslu, sem að því lýtur eftir nánari fyrirmælum stjórnarinnar. Þó má, ef félagið hefur opna skrifstofu, fela skrifstofustjóra að annast alla innheimtu á ársgjöldum félagsmanna og veita viðtöku öllum tekjum, sem félagið kann að hafa. Hann skal þá ennfremur annast öll útgjöld þess og allt bókhald fjármálum félagsins áhrærandi. Aðalstjórn hefur eftirlit með starfi hans og aðstoðar hann ef þörf gerist.

 

Sjóði félagsins skal geyma á vöxtum í banka, sparisjóði eða á öðrum jafntryggilegum stað, eftir nánari fyrirmælum stjórnarinnar.  

 

 

 

IV. KAFLI DEILDIR.

 

                                                       20.gr.

Félagsstjórninni ber að fylgjast með gjörðum deildanna, sem hafa sjálfræði í sínum sérhagsmunamálum. Þó getur stjórnin lagt hvaða mál, sem henni þykir ástæða til, undir dóm félagsfundar, enda þótt deild hafi samþykkt það, og gildir einfaldur meirihluti allra fundarmanna.

 

Ef deild eða einstaklingi þykir rétti sínum hallað, getur viðkomandi skotið máli sínu til landssambands og miðstjórnar ASÍ.

 

                                                       21.gr.

Stjórn hverrar deildar er skipuð 3 mönnum, formanni, ritara og meðstjórnanda. Varamenn eru 3.  Formaður og varaformaður skulu kosnir listakosningu við kosningu á félagsstjórn, sbr. 14. gr. Ritari og meðstjórnandi og varamenn þeirra skulu kosnir á aðalfundi deildarinnar sem haldinn skal í janúar ár hvert. Ef fleiri en einn eru í kjöri um embætti skal atkvæðagreiðsla vera skrifleg. Löglega kosinn telst sá er fengið hefur flest atkvæði viðstaddra fundarmanna.

 

Heimilt er stjórn og trúnaðarráði að veita undanþágu frá tímasetningu aðalfundar séu til þess fullgildar og rökstuddar ástæður.  Slík undanþága má þó ekki leiða af sér að aðalfundur deildar sé ekki haldinn á hverju almanaksári.  

Hafi aðalfundur einhverrar deildar ekki verið haldinn á almanaksárinu skal stjórn félagsins halda aðalfund viðkomandi deildar.

 

                                                     22.gr. 

Deildarformaður er sjálfkjörinn í stjórn félagsins. Hann kveður til deildarfunda og stjórnar þeim. Formanni er skylt að halda deildarfund ef 10 deildarfélagar óska þess.

  

23.gr.

Deildarritari heldur gerðarbók deildarinnar og færir í hana allar fundargerðir hennar.

 

                                                       24.gr. 

Deildarformaður kveður til deildarfunda og stjórnar þeim. Formanni er skylt að halda deildarfund ef 10 deildarfélagar óska þess.

 

                                                       25.gr.

Stjórn félagsins og varastjórn, stjórnir deilda þess og varastjórnir mynda trúnaðarráð innan félagsins, sem félagsformaður er formaður fyrir. Fastákveðnir fundir þess eru: Í byrjun janúar og að afloknum aðalfundi félagsins og deildanna. Að öðru leyti heldur það fundi, þegar formaður telur ástæðu til, eða ef 1/10 trúnaðarráðsmanna óska þess.

 

Trúnaðaráðsfundi skal boða með heimsendu fundarboði eða símleiðis og eru þeir löglegir ef löglega er til þeirra boðað. 

  

Trúnaðarráð kýs samninganefndir félagsins. Þá skal trúnaðarráð tilnefna formann kjörstjórnar þegar fram fara atkvæðagreiðslur sem ekki styðjast við reglugerð ASÍ um allsherjaratkvæðagreiðslur.  Trúnaðarráð skal koma með tillögu til aðalfundar um félagsmenn til starfa sem skoðunarmenn og varaskoðunarmenn.

 

Þegar til umfjöllnar eru málefni sem þegar hafa hlotið samþykki á löglegum fundi deilda félagsins þarf 4/5 hluta atkvæða til þess að trúnaðarráð geti breytt þannig fenginni niðurstöðu deildar. 

 

Formaður getur í nafni félagsstjórnar kallað saman trúnaðarráð stjórninni til aðstoðar, þegar ýmis önnur félagsleg vandamál ber að höndum og ekki eru tök á að ná saman félagsfundi og ræður úrslitum í slíkum málum einfaldur meirihluti fundar.

 

26. grein

Aðalfundur kýs 2 menn í kjörstjórn félagsins og 2 til vara. Trúnaðarráð kýs formann og varaformann kjörstjórnar þegar um er að ræða atkvæðagreiðslur sem ekki fara eftir reglugerð ASÍ um allsherjaratkvæðagreiðslu en annars skipar miðstjórn ASÍ formann og varaformann.

 

 

 

V. KAFLI   FUNDIR OG STJÓRNARKJÖR.

 

                                                     27. grein

Félagið heldur fundi þegar stjórninni þykir ástæða til, eða þegar deildarfundur eða trúnaðarráð óskar þess. Allir fundir eru lögmætir ef til þeirra hefur verið boðað með uppfestum eða lesnum auglýsingum.

 

Fundum félagsins skal stjórnað eftir almennum fundarsköpum. Ágreiningsatriði um fundarsköp úrskurðar fundarstjóri hverju sinni með rökstuddum úrskurði. Óski einstaka félagsmaður eftir skriflegri atkvæðagreiðslu á félagsfundi, er fundarstjóra skylt að verða við þeirri ósk.

 

                                                     28. grein

Aðalfund félagsins skal halda innan fimm mánaða frá lokum reikningsárs félagsins. Aðalfundur skal boðaður með dagskrá með 10 daga fyrirvara og er hann lögmætur ef löglega er til hans boðað. Reikningar sjóða félagsins skulu liggja frammi til skoðunar á skrifstofu félagsins frá sama tíma.

 

Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál.

 

1.      Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.

2.      Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu.

3.      Gerð grein fyrir undangenginni kosningu stjórnar og varamanna deildarformanna.

4.      Lagabreytingar ef fyrir liggja.

5.      Kosningar:

2 skoðunarmenn reikninga til tveggja ára og einn til vara til sama tíma.

2 aðalmenn í kjörstjórn og 2 til vara.

Stjórn Sjúkrasjóðs félagsins.

Stjórn Orlofssjóðs félagsins.

Aðrar kosningar sem þurfa að fara fram á aðalfundi.

            6,    Ákvörðun félagsgjalda.

            7.    Önnur mál.

 

Ekki verða á aðalfundi afgreiddar með atkvæðagreiðslu aðrar tillögur og ályktanir en sem borist hafa til skrifstofu félagsins 5 dögum fyrir aðalfund. Skulu þær liggja frammi á skrifstofu félagsins og kynntar á heimasíðu félagsins.

 

                                                     29. grein

Listakosning skal viðhöfð við kjör stjórnar sbr. 14. gr. 

 

Á tímabilinu 1. ágúst til 15 september  það ár sem stjórnarkosning fer fram skal á fundi í trúnaðarráði kjósa félagsmenn á framboðslista stjórnar og trúnaðarráðs. Stjórn félagsins skal koma með tilnefningar.  Skal hver staða á framboðslista borin upp sérstaklega og skal atkvæðagreiðsla vera skrifleg ef tillögur koma um fleiri og kjósa þarf.  Innan viku frá afgreiðslu trúnaðarráðs á framboðslista sínum skal kynna hann á heimasíðu félagsins.

 

Á framboðslista skal tilgreina frambjóðendur með nafni, kennitölu og heimilisfangi og hvaða embætti innan stjórnar viðkomandi muni gegna nái listinn kjöri, þ.e. formaður, varaformaður, ritari, vararitari, 2 meðstjórnendur, formaður stóriðjudeildar, formaður almennrar deildar, formaður deildar opinberra starfsmanna, formaður matvæladeildar, formaður iðnsveinadeildar og formaður sjómannadeildar, alls 12 frambjóðendur.

 

Auk þess skal á framboðslista tilgreina á sama hátt varaformenn ofangreindra 6 deilda.

Þeir sem eru boðnir fram sem formenn deilda og varamenn þeirra skulu vera kjörgengir í viðkomandi deild.  

 

Að lokinni kosningu trúnaðarráðs á framboðslista, auglýsir stjórn félagsins á heimasíðu félagsins hverjir skipi listann og gefur félagsmönnum 10 sólarhringa frest þar til að bera fram aðra lista.

 

Skila skal öðrum framboðslistum inn til kjörstjórnar innan 10 sólarhringa eftir að listi stjórnar og trúnaðarráðs hefur verið auglýstur það ár sem kosning fer fram.  Ef einungis einn listi er í kjöri telst hann sjálfkjörinn.    

 

Skylt er að  viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu við kjör stjórnar ef fleiri en einn fullgildur framboðslisti berst og skal um meðmælendur lista og tilhögun kosninga fara að öllu leyti eftir reglugerð ASÍ um allsherjaratkvæðagreiðslur.  Framboðslisti stjórnar og trúnaðarráðs skal merktur A en aðrir listar skulu merktir í stafrófsröð í þeirri röð sem þeir berast kjörstjórn. 

 

Kosning skal fara fram fjórða hvert ár á tímabilinu 15.-30. október nema sérstakar ástæður kalli á annað að mati stjórnar og trúnaðarráðs,  þó má aldrei fresta kosningu lengur en í 3 mánuði.

Sá listi sem hlýtur meirihluta atkvæða tekur öll stjórnarsæti, þar á meðal formenn deilda og varamenn þeirra. Kjörstjórn lýsir kjöri stjórnar.

 

                                                     30. grein

Stjórn félagsins hefur, samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, rétt til að tilnefna til trúnaðarmannsstarfa, hafi trúnaðarmaður ekki verið kosinn á vinnustað, starfandi félagsmenn á hverri vinnustöð og getur enginn félagsmaður skorast undan að taka starfann að sér, sbr. 8. grein félagslaganna.

 

Trúnaðarmaður skal gæta þess, að gerðir vinnusamningar séu haldnir af atvinnurekanda og fulltrúa hans og ekki sé gengið á félagslegan eða borgaralegan rétt verkafólks. 

 

Nú telur verkafólk sig hafa ástæðu til að kvarta yfir atvinnurekanda eða fulltrúa hans, og ber því þá skylda til að gera umkvörtun við trúnaðarmann félagsins á sínum vinnustað, en honum ber strax og hann hefur fengið umkvörtun, eða hann telur sig hafa ástæðu til að ætla að gengið sé á rétt verkafólks eða verkalýðsfélagsins á vinnustað sínum af hálfu atvinnurekanda eða fulltrúa hans, að rannsaka málið þegar í stað. Komist hann að þeirri niðurstöðu, að umkvartanir eða grunur sinn um málið hafi við rök að styðjast, ber honum að snúa sér til atvinnurekandans eða umboðsmanns hans með umkvörtun og kröfu um lagfæringu. Jafnframt ber honum að gefa félagsstjórninni skýrslu um málið.

 

Trúnaðarmaður hefur þær skyldur við félagið að gera stjórn þess grein fyrir hverjum þeim breytingum sem gerðar kunna að verða á atriðum sem snerta kaup og kjör félagsmanna, sem hann er í raun fulltrúi fyrir. Gildir þar einu hvers konar breytingar er um að ræða, breytingar á eldri samningum, vinnufyrirkomulagi og eða samningum byggðum á fyrirtækjaþætti kjarasamninga. Það telst brot á lögum þessum ef trúnaðarmaður undirritar eða lætur koma til framkvæmda slíkar breytingar án samþykkis félagsins.

 

Á sama hátt hefur félagið þær skyldur við trúnaðarmenn, skipaða af félaginu, að verja þá gagnvart atvinnurekendum, þ.m.t. að bæta þeim fjárhagslegt tjón sem þeir kunna að verða fyrir við störf sín sem trúnaðarmenn og þeir eiga ekki sök á sjálfir með framferði sínu.

 

 

 

VI. KAFLI  FJÁRMÁL.

 

                                                     31. grein

Af tekjum félagsins skulu greidd öll útgjöld við störf þess, svo sem húsaleiga, skattur til Alþýðusambands Íslands og landssambanda, starfslaun og annar kostnaður, sem stafar af samþykktum félagsins-, deildar-, trúnaðarráðs- eða stjórnarfunda.

 

                                                     32. grein

Ef deildir félagsins hafa til meðferðar mál, sem varðar fjárútlát úr félagssjóði og hafa samþykkt það fyrir sitt leyti, fær samþykktin þá fyrst gildi er aðalstjórn félagsins hefur samþykkt hana með einföldum meirihluta.

 

Tekjur félagsins skiptast milli sjóðanna samkvæmt ákvæðum í reglugerðum þeirra.

 

                                                     33. grein

Tveir skoðunarmenn skulu yfirfara reikninga félagsins fyrir liðið reikningsár og gera athugasemdir sínar við þá. Skoðunarmenn eru kosnir, sbr. 29. grein, á sama hátt og stjórn félagsins. Auk athugunar hinna félagskjörnu skoðunarmanna er stjórn félagsins skylt að láta löggiltan endurskoðanda endurskoða reikninga og fjárreiður félagsins í lok hvers reikningsárs. Reikningsár félagsins er almanaksárið.

 

34. grein

Sjóðir félagsins skulu vera: Félagssjóður, Sjúkrasjóður, Orlofssjóður, Vinnudeilusjóður, svo og aðrir sjóðir sem stofnaðir kunna að verða. Allir sjóðir félagsins aðrir en Félagssjóður skulu hafa sérstaka reglugerð samþykkta af aðalfundi. Reglugerðum sjóða má aðeins breyta á aðalfundi. Reglugerð hvers sjóðs skal tilgreina hlutverk sjóðsins, hverjar tekjur hans skulu vera, hvernig verja skuli fé hans og hvernig honum skuli stjórnað.

 

Félagssjóður greiðir allan kostnað af starfssemi félagsins.

 

Sjóðir félagsins skulu ávaxtaðir á tryggan hátt í bönkum, í sparisjóðum og skuldabréfum tryggðum með veði í fasteign og ríkistryggðum skuldabréfum.

 

 

 

VII. KAFLI  ALLSHERJARATKVÆÐAGREIÐSLA.

 

                                                     35. grein

Allsherjaratkvæðagreiðslu má beita um mikilsvarðandi málefni, ef ályktun þar um hefur verið samþykkt á félagsfundi eða trúnaðarráðsfundi, sem til þess hefur verið boðaður og Alþýðusambandi Íslands tilkynntir málavextir. Ennfremur getur 1/10 hluti fullgildra félagsmanna gert skriflega kröfu til Alþýðusambandsins um að það fyrirskipi allsherjaratkvæðagreiðslu um mál sem fyrir liggur. Til undirbúnings og framkvæmda skal farið eftir reglugerð A.S.Í. um allsherjaratkvæðagreiðslur.

 

 

 

VIII. KAFLI  LAGABREYTINGAR.

 

                                                     36. grein

Lögum þessum má breyta á lögmætum fundi í félaginu, hvenær sem er, ef breytingin hefur áður verið rædd á lögmætum fundi og breytinganna getið í fundarboði. Til þess að breyting nái gildi, verður hún að vera samþykkt með 2/3 atkvæða.

 

Lagabreytingar koma til framkvæmda strax og stjórn Alþýðusambands Íslands hefur staðfest þær.

 

37. grein

Félaginu verður ekki slitið nema 3/4 allra félagsmanna samþykki það að viðhafðri allsherjaratkvæðagreiðslu. Verði samþykkt að leggja félagið niður, skal Alþýðusamband Íslands varðveita eignir þess þar til annað verkalýðsfélag er stofnað með sama tilgangi á félagssvæðinu. Fær það félag  þá umráð eignanna, að áskyldu samþykki miðstjórnar Alþýðusambandsins.

 

Um sameiningu félaga skal fjallað á sama hátt og lagabreytingar.

 

 

·        Þannig samþykkt á aðalfundi 30. maí 1991, að undangenginni umræðu  á félagsfundi í desember 1989. Þá hafði áður verið fjallað um breytingarnar á félagsfundi í janúar 1989, samkv. lögum félagsins.

·        3. og 35. grein breytt á aðalfundi félagsins 18. maí 1993, að undangengnum umræðum á félagsfundi í desember 1992.

·        28. grein breytt á aðalfundum 18. maí 1993 og 17. maí 1994, að undangengnum umræðum á félagsfundum í desember 1992 og  í júní 1993.

·        1. gr. laganna breytt 1994 með hliðsjón af sameiningu félagsins og Trésmiðafélags Akraness.

·        Lögin í heild staðfest af miðstjórn ASÍ í október 1990, að tilskyldum breytingum á greinum 1, 3, 9 b-lið, 19, 20 og 30, sem samþykktar voru á aðalfundi í maí 1991. Breytingar sem seinna voru gerðar voru staðfestar af miðstjórn ASÍ. 

·        Þannig samþykkt með breytingum á 21. grein og 28. grein á aðalfundi félagsins 26. október 1996.

·        Þannig samþykkt með breytingum á 4., 5., 6., 7., 9., 10., 20. og 25 grein á aðalfundi félagsins 22. nóvember 1997.

·        Þannig samþykkt með breytingum á 2., 14., 16., 21., nýrri 26., 29., 30., og 33. grein á aðalfundi félagsins 29. júní 1999.

·        Þannig samþykkt með breytingum á 14.,15.,21 1.mgr.,22.,25 3.,mgr 28., og 29 grein á félagsfundi 6. júlí 2005.

·        Þannig samþykkt með breytingu á 2. grein á aðalfundi félagsins 24. apríl 2012.

·        Þannig samþykkt með breytingu á 1. grein á aðalfundi félagsins 15. apríl 2014 að undangenginni umræðu á félagsfundi 26. febrúar 2014.

·        Þannig samþykkt með breytingu á 5., 14. og 29. grein á aðalfundi félagsins 25. apríl 2018

        Þannig samþykkt með breytingu á 14. og 29. grein á aðalfundi félagsins 29. apríl 2019

Lögfræðiþjónusta

Félagsmenn geta fengið ókeypis lögfræðirágjöf hjá lögmanni félagsins með því að panta sér viðtalstíma á skrifstofu félagsins í síma 430-9900.

Sérkjör og afslættir

- Apótek Vesturlands   
- Brautin ehf 
- Galleri Ozone 
- LH bókhald ehf 
- Model 
- N1 
- Olís 
- Orkan 
- Omnis 
- Rafþjónusta Sigurdórs ehf 
- Verslunin Hans og Gréta
- Café Kaja
- Trésmiðjan Akur 
- VÍS  
- Ökukennsla Sigga Trukks  
- Ökukennsla Ágústu Friðriksd. 
- Knattspyrnufélag ÍA

Sjá nánar hér
Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image