• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
03
Apr

Fundað með Michael Tanchuk forstjóra Norðuráls

Í morgun hélt Michael Tanchuk forstjóri Norðuráls ásamt Rakel Heiðmarsdóttur starfsmannastjóra fyrirtækisins kynningu á hinum ýmsu málefnum er lúta að starfsemi fyrirtækisins fyrir formönnum þeirra stéttarfélaga sem eiga aðild að kjarasamningi Norðuráls.

Fram kom í máli Michael Tanchuk forstjóra að hann leggur gríðarlega mikla áherslu á öryggismál fyrirtækisins með hagsmuni starfsmanna að leiðarljósi.  Kynnti hann fyrir formönnum félaganna hinar ýmsu leiðir og hugmyndir í því að bæta öryggismál fyrirtækisins og sagði að öryggismál starfsmanna Norðuráls væru forgangsmál hjá sér.

Formaður félagsins fagnar þessum áformum hjá forstjóra Norðuráls og telur að hægt sé að bæta öryggismál starfsmanna töluvert.  Það er afar mikilvægt að allir leggist á eitt um bæta öryggismál fyrirtækisins þar sem slysatíðni á síðasta ári var því miður alltof há. Reyndar er eitt slys einu of mikið.  Það fór hins vegar ekki á milli mála að það er einlægur vilji forstjórans að bæta öryggismál fyrirtækisins með það að markmiði að útrýma slysum í verksmiðjunni.

Einnig var rætt um fyrirhuguð fíkniefnapróf sem til stendur að taka á starfsmönnum fyrirtækisins.  Afstaða félagsins til þess máls er hvellskýr. Ef lögfræðideild ASÍ og Persónuvernd skrifa uppá að slík fíkniefnapróf stangist ekki á við lög og reglugerðir þá sér félagið enga meinbugi á slíkri lyfjaskimun. 

02
Apr

Glæsileg útkoma félagsins úr könnun Capacent Gallup

Í byrjun mars 2007 framkvæmdi Capacent Gallup könnun fyrir SGS um viðhorf félagsmanna til starfsemi aðildarfélaga SGS og hvaða áherslur félagsmenn vilja sjá í starfi þeirra. Endanlegt úrtak var 1229 félagsmenn landsbyggðarfélaga SGS víðs vegar um landið. Fjöldi svarenda var 721 og var svarhlutfall 58,7%. 

Það er óhætt að segja að útkoma Verkalýðsfélags Akraness hafi verið glæsileg í þessari könnun Capacent Gallup.  Ein spurningin í könnuninni hljóðaði eftirfarandi:  

Á heildina litið finnst þér stéttarfélagið standa sig vel eða illa?  Svarmöguleikarnir voru Mjög vel, Frekar vel, Hvorki né, Frekar illa, Mjög illa

Einungis eitt stéttarfélag innan Starfsgreinasambands Íslands kom betur út úr þessari spurningu heldur en Verkalýðsfélag Akraness. Skipting á milli svarmöguleikanna hjá Verkalýðsfélagi Akraness var eftirfarandi:

Mjög vel 40,5%
Frekar vel 45,2%
Hvorki né 9,5%
Frekar illa 2,2%
Mjög illa 2,2%

Á þessu sést að 85,7% félagsmanna sem tóku þátt í könnuninni eru ánægðir með starfsemi Verkalýðsfélags Akraness.  Eins og áður sagði er það næstbesti árangurinn innan SGS en 20 stéttarfélög innan SGS tóku þátt í könnuninni. 

Hægt er að skoða samantekt þeirra sem eru ánægðir með starfsemi félaganna hjá öllum félögum innan SGS með því að smella á meira.

 

1. Verkalýðsfélag Húsavíkur 96%
2. Verkalýðsfélag Akraness 85,7%
3. Stéttarfélag Vesturlands 82,7%
4. Samstaða Blöndós 80,7%
5. Eining-Iðja Akureyri 74,7%
6. Aldan Sauðárkrókur 73,7%
7. Vlf-og sjómannaf Bolungavíkur 72,3%
8. Verkalýðsfélagið Báran Selfossi 70,9%
9. Afl-Starfsgreinafélag Austurlands 70,7%
10. Vaka Siglufirði 70%
11. Efling- stéttarfélag Reykjavík 69,8%
12. Verkalýðsfélag Vestfirðinga 66%
13.-14. Verkalýðsfélag Suðurlands 62,5%
13.-14. Verkalýðsfélag Snæfellsbæjar 62,5%
15. Hlíf, Hafnarfirði 56,4%
16. Verkalýðsfélagið Þorlákshöfn 55%
17. Vökull stéttarfélag, Hornafirði 54,8%
18. Drífandi, Vestmannaeyjum 50%
19. Verkalýðs- og sjómannaf. Keflav. 47,4%
20. Verkalýðsfélag Grindavíkur 33%
     

Eins og sést á þessu er niðurstaðan afar hagstæð fyrir Verkalýðsfélag Akraness og sýnir að stjórn félagsins er á réttri leið. Þessi árangur hefði ekki náðst nema með samstilltri stjórn og góðum starfsmönnum og er mikil hvatning um að gera ennþá betur.

30
Mar

Formaður fór í vinnustaðaheimsókn til HB Granda

Formaður félagsins fór á vinnustaðafund hjá HB-Granda.  Stjórn félagsins leggur mikla áherslu á að vera í eins góðu sambandi við sína félagsmenn og mögulegt er og var þessi heimsókn einn liður í því.  Formaður átti gott spjall við starfsmenn og trúnaðarmenn vinnustaðarins. 

Forsvarsmenn HB Granda hafa í hyggju að breyta fyrirkomulagi á greiðslu orlofslaunua starfsmanna og eru ekki allir starfsmenn á eitt sáttir við þá breytingu.  Formaður fór yfir þetta mál með starfsmönnum og vinnur nú að lausn á því máli í fullri sátt við starfsmenn og einnig í mjög góðu samráði við starfsmannastjóra HB Granda. 

Allt bendir til þess að farsæl lausn náist í þessu máli enda fullur vilji hjá forsvarsmönnum HB Granda að leysa málið í góðu samráði við trúnaðarmenn og Verkalýðsfélagið.  Formaður hefur lagt fram tillögur til lausnar á málinu og eru eins áður sagði yfirgnæfandi líkur á málinu verði landað báðum aðilum til góðs.

Eins og áður sagði leggur félagið mikla áherslu á að vera í góðu sambandi við sína félagsmenn og hefur formaður þá reglu að heimsækja sem flest af stóru fyrirtækjunum í það minnsta einu sinni í mánuði.  Formaður félagsins hvetur starfsmenn fyrirtækja til að hafa samband við skrifstofu félagsins, óski þeir eftir að formaður komi í vinnustaðaheimsókn.   

29
Mar

Er smábátaútgerð að leggjast af á Akranesi?

Formaður félagsins hefur að undanförnu verið að skoða hversu mörg þorskígildistonn tengd smábátaútgerð hafa verið seld héðan úr byggðarlaginu á undanförnum árum.  Í þeirri skoðun, sem byggð er á gögnum frá Fiskistofu, hefur komið í ljós að um 1000 þorskígildistonn hafa horfið frá Akranesi á síðustu fjórum árum.

Sé hins vegar horft tíu ár aftur í tímann er ekki óvarlegt að segja að um 1500 þorskígildistonn hafi horfið héðan af Akranesi.  Formaður veltir því fyrir sér hvort smábátaútgerð sé yfir höfuð að leggjast af hér á Akranesi og er það alls ekki að ástæðalausu þegar þessar bláköldu staðreyndir liggja fyrir.

Það er alveg ljóst að æði mörg vel launuð störf hafa hafa tapast hér á Akranesi vegna þeirrar þróunar sem orðið hefur á smábátaútgerð á liðnum árum og það bæði til lands og sjós.

Á Akranesi var gríðarlega öflug smábátaútgerð fyrir örfáum árum og reiknast formanni félagsins til að nálægt tuttugu smábátar hafi hætt starfsemi á síðustu tíu árum eða svo.

Það liggur fyrir að margir sjómenn og beitningarmenn sem eru félagsmenn í sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness sitja eftir með sárt ennið þegar útgerðamaður tekur þá ákvörðun um að selja sínar aflaheimildir og hætta allri starfsemi.  Á þessu sést að atvinnuöryggi þeirra sem stunda sjómennsku á smábátum er vægast sagt afar ótryggt.

Það er löngu orðið ljóst að það fiskveiðistjórnunarkerfi sem hér er við lýði á stóran þátt í þessari slæmu þróun sem orðið hefur á liðnum árum og þá sérstaklega framsalsþátturinn.  Er það eðlilegt að útgerðamaður geti gengið út úr greininni með tugi ef ekki hundruðir milljóna króna á meðan sjómaðurinn sem jafnvel hefur verið starfandi hjá viðkomandi útgerðamanni í tugi ára er réttindalaus og í raun allslaus? Auðlindir hafsins eru jú eign þjóðarinnar, ekki satt?

Þessu til viðbótar er nýliðun í greininni nánast útilokuð sökum hversu hátt verð er á aflaheimildum. Sem dæmi má nefna að kílóverðið á þorski í aflamarkskerfinu er að nálgast 3000 kr. Það er því greinilegt að ekki verður mikið um nýliðun í greininni á meðan slík verð eru fyrir aflaheimildir á þorski.

Það er algjört grundvallaratriði að sátt náist í sjávarútvegsstefnu okkar Íslendinga í komandi kosningum og atvinnuöryggi sjómanna verði tryggt með einhverjum hætti.  Það verður að tryggja að smábátaútgerð verði áfram starfrækt hér af fullum krafti því hér er um afar atvinnuskapandi útgerðarmynstur að ræða. Þessu til viðbótar er vert að benda á að hráefnið sem smábátar koma með að landi er fyrsta flokks og einnig er útgerðamynstur smábáta afar vistvænt.

Það er algjörlega óviðunandi að sjómenn þessa lands og reyndar heilu byggðarlögin búi við slíkt atvinnuóöryggi öllu lengur.

28
Mar

Fundað um bónsmál starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins

Eins og fram kom hér á heimasíðunni fyrir stuttu þá hefur formaður félagsins lagt fram tillögur um breytingar á bónuskerfi starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins.

Vissir þættir í bónuskerfinu hafa ekki verið að virka sem skyldi.  Nú hefur verið ákveðið að funda aftur um bónusmálin 3. apríl og mun þá koma í ljós hvort forsvarsmenn Íj gangi að þeim tillögum sem félagið hefur lagt fram.

Þegar kjarasamningur var gerður 2005 var reiknað með að bónusinn myndi vera að jafnaði 5,6% en því miður var meðaltalsbónusinn einungis 3,68% í fyrra.  Eins og áður sagði þá eru það aðallega tveir þættir í bónusnum sem ekki hafa virkað enda eru t.d. mælikvarðar í einum þætti bónussins kolrangir.

27
Mar

Áfallasérfræðingur Rauða kross Íslands kom strax eftir slysið

Í gær fóru formaður félagsins og öryggisfulltrúi Norðuráls yfir atburðarásina í því hræðilega slysi sem átti sér stað á laugardaginn var þegar starfsmaður Norðuráls varð fyrir stórum lyftara og missti við það annan fótinn.

Það er afar ánægjulegt að heyra að þeir starfsmenn sem fyrstir komu að slysinu virðast hafa brugðist hárrétt við hvað varðar fyrstu hjálp en rétt er að minna á að aðstæður á slysstað voru skelfilegar, hávaðarok og mikil úrkoma. 

Það er einnig jákvætt hvernig forsvarsmenn Noðuráls brugðust við hvað varðar áfallahjálp handa starfsmönnum.  Áfallasérfræðingur Rauða kross Íslands kom strax á svæðið og fundaði með öllum starfsmönnum kerskála ásamt viðhaldsmönnum í skautsmiðju og kranaverkstæðis. Eftir það talaði hann einslega við þá starfsmenn sem þess óskuðu.

Einnig funduðu Mike forstjóri og Trausti Gylfason öryggisfulltrúi með starfsmönnum steypuskála.

Þessu til viðbótar var ræst út sálrænt áfallateymi Sjúkrahúss Akraness og gátu þeir starfsmenn sem vildu fengið þjónustu frá umræddu áfallateymi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image