• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
31
May

Málþing Landsmenntar var haldið í skíðaskálanum í Hveradölum í gær

Málþing Landsmenntar um starfsmenntun í atvinnulífinu var haldið í Hveradölum í gær.  Margir góðir aðilar voru með erindi á þessu málþingi og t.d. var Steinunn K. Pétursdóttir, starfsmannastjóri Smellins frá Akranesi, með nokkuð gott erindi.  Hún gerði málþinginu grein fyrir því hversu mikla áherslu Smellinn leggur á að starfsmenn nýti sér þá starfsmenntun sem í boði er, með það að markmiði að auka enn frekar framleiðni fyrirtækisins og starfsánægju starfsmanna.

Það kom einnig fram hjá Ásmundi Pálssyni framkvæmdastjóra Fræðslunets Suðurlands að hann undrast örlítið hversu fáir í raun notfæra sér starfsmenntasjóði stéttarfélaganna sé tekið tillit til allra þeirra möguleika sem í boði eru.  Vissulega á þessi gagnrýni rétt á sér og við í verkalýðshreyfingunni þurfum að skoða hvað við getum gert til að auka starfsmenntun okkar félagsmenn enn frekar.

29
May

Ekki tímabært að hefja viðræður um breytingar á veikinda- og slysarétti í komandi kjarasamningum

Eins fram hefur komið hér á heimasíðunni þá eru þreifingar hafnar hjá nokkrum landsbyggðarfélögum innan Starfsgreinasambands Íslands um að semja sér í komandi kjarasamningum.  Eru þessar þreifingar til komnar vegna þess að Flóabandalagsfélögin Efling stéttarfélag, Verkalýðsfélag Hlíf og Verkalýðs-og sjómannafélag Keflavíkur hafa tekið þá ákvörðun um að fara ein og sér í komandi kjarasamningaviðræður. 

Það er alveg ljóst að meginkrafa næstu kjarasamninga verður að færa lágmarkslaunin upp að markaðslaununum og til að það takist verður að koma til veruleg hækkun á lægstu taxtana.  Hækkun lægstu taxtanna verður að vera forgangsmál í komandi kjarasamningum einfaldlega vegna þess að lágmarkstaxtarnir eru til skammar fyrir verkalýðshreyfinguna.

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri SA segir í viðtali við DV fyrir nokkrum dögum að stærsta málið í komandi samningum sé að stokka upp tryggingaréttinn sem snýr að veikindum og örorku.  Formaður félagsins veit að það er mikill áhugi hjá Samtökum atvinnulífisins fyrir því að breyta veikinda- og slysarétti í komandi kjarasamningum. 

Formaður félagsins telur alls ekki tímabært að hefja viðræður um breytingar á veikinda- og slysarétti í næstu samningum og er alveg ljóst að hann er ekki einn um þá skoðun meðal formanna félaga innan Starfsgreinasambands Íslands. 

Hins vegar er breið samstaða meðal formanna SGS um að knýja íslensk stjórnvöld til að stórefla starfsendurhæfingu hér á landi með það að markmiði að draga úr þeirri miklu aukningu sem orðið hefur á örorku meðal landsmanna.

25
May

Nokkur landsbyggðarfélög íhuga að semja sér í komandi kjarasamningum

Á fundi Starfsgreinasambands Íslands á Siglufirði í vikunni voru kjaramál og undirbúningur viðræðna við Samtök atvinnulífsins til umræðu, en eins og flestir vita þá renna kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði út um áramótin.

Á fundinum kom nokkuð skýrt fram að Flóabandalagsfélögin ætli að viðhalda sínu samstarfi í komandi kjarasamningum eins og þau hafa reyndar gert í undangengnum samningum. Þessi félög ætla með öðrum orðum að semja sér.  Þau félög sem mynda Flóabandalagið eru Efling stéttarfélag, Verkalýðsfélagið Hlíf í Hafnafirði og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur.

Innan Starfsgreinasambands Íslands eru 26 stéttarfélög og því verður það að teljast afar undarlegt að umrædd félög sem mynda Flóabandalagið vilji fara ein og sér í komandi kjarasamninga sérstaklega í ljósi þess að kjörorð SGS eru sameinuð til sóknar.

Í ljósi þeirra staðreynda að Flóabandalagið ætlar að semja sér eins og í undanförnum kjarasamningum þá hafa nokkur félög á landsbyggðinni verið að kanna kosti þess og galla að mynda bandalag í komandi kjarasamningum.  Á næstu dögum og vikum munu standa yfir þreifingar á milli nokkurra félaga og er allt eins líklegt að nokkur landsbyggðarfélög semji algerlega sér í komandi kjarasamningum. 

Stjórn VLFA mun fjalla um þessa hugmynd á stjórnarfundi sem boðað hefur verið til næstkomandi þriðjudag.  Eins og áður sagði þá íhuga nokkur kraftmikil stéttarfélög á landsbyggðinni það sterklega að koma sameinuð að samningsborðinu í komandi kjarasamningum.

23
May

Ályktað um atvinnuástandið á Flateyri

Formaður Verkalýðsfélags Akraness sat framkvæmdastjórnar fund sem haldinn var á Siglufirði.  Þar var meðal annars samþykkt harðorð ályktun yfir því fiskveiðistjórnunarkerfi sem nánast er að leggja margar byggðir þessa lands í rúst.

Formður tók það saman hversu mörg þorksígildistonn hafa horfið héðan frá Akranesi á undanförnum 5 til 10 árum og nam það í kringum 1500 tonnum á umræddu tímabili. 

,,Framkvæmdastjórn SGS krefst þess að unnið verði að markvissri stefnumörkun um atvinnuöryggi verkafólks í fiskvinnslu," segir í ályktun framkvæmdastjórnar SGS, sem var að ljúka á Siglufirði, ,,þannig að geðþóttaákvarðanir kvótaeigenda geti ekki lagt lífsgrundvöll fjölda manns í rúst í einum vettvangi.” Ályktunin fer hér á eftir:

,,Enn eitt áfallið blasir við í atvinnumálum sjávarbyggða. Fiskvinnslan Kambur ehf., á Flateyri hættir starfsemi og selur allar aflaheimildir sínar burtu af svæðinu og skilur 120 manns eftir á vonarvöl atvinnuleysis. Verstu afleiðingarnar kvótakerfisins blasa enn á ný við fólki.

Kvótaeigendur sem velja að hætta starfsemi og selja frá sér kvótann halda eftir milljarðahagnaði fyrir sig. Ójöfnuður og óréttlæti kerfisins blasir við, þar sem þeir sem skópu verðmætin, verkafólk og sjómenn liggja óbætt hjá garði. Í því sambandi eru rök eiganda um háa vexti, hátt gengi krónunnar, hátt verð á aflaheimildum og leigukvóta sem megin ástæða fyrir því að ekki er lengur rekstargrundvöllur fyrir starfseminni, afar léttvæg. 

Þegar atvinnulífi og hagsmunum fiskvinnslufólks er ógnað á jafn afgerandi hátt og raun ber vitni, þá erum við minnt óþyrmilega á, að við höfum í reynd enga tryggingu fyrir því að íslenskir kvótaeigendur landi ekki öllum afla sínum annars staðar, jafnvel í útlöndum. Þeirra er valið að fara með kvótann þangað sem þeim þóknast. Flateyrarmálið vekur einnig spurningar um það hvernig komið er fyrir rekstargrundvelli annarra smærri útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækja hér á landi. Munu þau leggja upp laupana eitt af öðru, af sömu ástæðum og Kambur ehf. og eigendur selja frá sér kvótann með hagnaði. Eftir situr fiskvinnslufólkið bundið átthagafjötrum verðlausra eigna í byggðarlögum lítilla atvinnutækifæra. 

Framkvæmdastjórn SGS krefst þess að unnið verði að markvissri stefnumörkun um atvinnuöryggi verkafólks í fiskvinnslu, þannig að geðþóttaákvarðanir kvótaeigenda geti ekki lagt lífsgrundvöll fjölda manns í rúst í einum vettvangi." 

21
May

Undirbúningur fyrir komandi kjarasamninga að hefjast að fullu

Fundur framkvæmdastjórnar Starfsgreinasambands Íslands verður haldinn á Siglufirði þriðjudaginn 22. og miðvikudaginn 23. maí.  Megin dagskrá fundarins lýtur að undirbúningi fyrir komandi kjarasamninga og einnig fyrirhuguðum breytingum á veikinda- og slysarétti.

Afstaða Verkalýðsfélags Akraness til komandi kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði er hvell skýr.  Það verður að vera meginmarkmið komandi kjarasamninga að verja það markaðslaunakerfi sem byggt hefur verið hér upp á undanförnum árum og áratugum.  Lágmarkstaxtar verða að hækka til samræmis við þau markaðslaun sem almennt er verið að greiða.  Markaðslaun fyrir fulla dagvinnu eru samkvæmt könnun sem SGS lét gera um 176 þúsund á mánuði. Hins vegar eru lágmarkslaunin einungis 125 þúsund.  Bilinu á milli markaðslauna og lágmarkslauna verður að eyða algerlega í komandi samningum. 

Það er alvitað að nú eru um 20 þúsund erlendir verkamenn á íslenskum vinnumarkaði og samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun er stór hluti þeirra að vinna eftir berstrípuðum lágmarkstaxta.

18
May

Verkalýðsfélag Akraness undirritar samkomulag um sumaruppbót við Launanefnd sveitarfélaga

Verkalýðsfélag Akraness gerði samkomulag við Launanefnd sveitarfélaga um greiðslu sumaruppbótar til þeirra starfsmanna sem voru að vinna eftir kjarasamningi Launanefndar sveitafélaga og Starfsgreinasambands Íslands og voru í starfi hjá Akraneskaupstað fyrir 29. maí 2005. 

Sumaruppbótin hljóðar uppá 19.000 kr. og mun verða greidd afturvirkt til þeirra sem eiga rétt á henni samkvæmt fyrirliggjandi samkomulagi.

Þetta sérákvæði gildir eins og áður sagði fyrir þá sem voru í starfi hjá Akraneskaupstað fyrir 29 maí 2005 og fengu greidda sumaruppbót grundvelli eldri kjarasamnings LN og SGS.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image