• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Apr

Aðalfundarmenn ánægðir starfsemi félagsins

Rétt í þessu var að ljúka aðalfundi Verkalýðsfélags Akraness.  Á fundinum kom fram hjá endurskoðendum félagsins að afkoma félagsins væri einkar góð og ljóst að rekstur félagsins er til mikillar fyrirmyndar.

Heildarhagnaður allra sjóða félagsins nam tæpum 55 milljónum króna á síðasta ári og jókst um 15 milljónir á milli ára.  Í skýrslu stjórnar fór formaður vítt og breitt og kom t.d. fram í máli hans að þegar ný stjórn tók við 19. nóvember 2003  hafi félagssjóður nánast verið fjárvana og var rekinn til að mynda á 2,5 milljóna yfirdrætti og peningalegar innistæður félagssjóðs voru engar.  Á árinu 2006 var hagnaður 15 milljónir og innstæður félagssjóðs rúmar 30 milljónir.  Á þessum þremur árum hefur félagið tekið algerum stakkaskiptum, ekki aðeins fjárhagslega heldur einnig félagslega.

Afkoma sjúkrasjóðs var einnig mjög góð þrátt fyrir stóraukin réttindi félagsmanna frá því ný stjórn tók við og var hagnaður sjúkrasjóðs á síðastliðnu ári tæpar 30 milljónir.  Á grundvelli góðrar afkomu sjóðsins lagði stjórnin fram á aðalfundinum reglugerðabreytingu á  sjúkrasjóðnum sem tryggir félagsmönnum fimm nýja styrki úr sjúkrasjóði félagsins.  Aðalfundur samþykkti þessa reglugerðabreytingu með öllum greiddum atkvæðum.   Það er stefna stjórnar að láta félagsmenn njóta afrakstur á góðri afkomu félagsins og er þessi reglugerðabreyting einn liður í því.  Þeir styrkir sem koma nýir inn eru eftirfarandi:

  • Styrkur vegna ættleiðingar
  • Gleraugnastyrkur
  • Heyrnatækjastyrkur
  • Styrkur vegna skoðunar hjá Hjartavernd
  • Heilsueflingarstyrkur

Á þessu sést að stjórn félagsins vill klárlega láta félagsmenn njóta afraksturs góðrar afkomu félagsins.

Fram kom í máli þeirra sem tóku til máls á fundinum að þeir væru afar ánægðir með það hvernig núverandi stjórn hefði tekist að vinna félagið upp úr þeim dimma dal sem það var komið í áður en núverandi stjórn tók við. 

Formaður félagsins sagði einnig á fundinum að stefna stjórnar væri hvellskýr, það væri að vera það stéttarfélag sem þjónustar sína félagsmenn hvað best.

27
Apr

Aðalfundur félagsins verður haldinn á morgun

Á morgun verður haldinn    aðalfundur félagsins og hefst fundur kl. 13:00 í sal félagsins að Kirkjubraut 40 3. hæð.  Félagsmenn eru eindregið hvattir til að mæta og hafa þannig áhrif á starfsemi félagsins.

                     Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

 

  • Skýrsla stjórnar
  • Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til afgreiðslu
  • Breytingar á reglugerð sjúkrassjóð  (Tillögur að breytingum liggja frammi á skrifstofu félagsins) 
  • Kosningar sem þurfa að fara fram samkvæmt 28. grein laga félagsins
  • Ákvörðun félagsgjalda
  • Önnur mál

Boðið verður uppá kaffiveitingar.

27
Apr

Fréttablað félagsins kemur út í dag

Fréttablað félagsins verður borið út til allra Akurnesinga og nærsveitunga í dag. 

Blaðið er uppfullt af hinum ýmsu fréttum úr starfsemi félagsins.  Í blaðinu er t.d fjallað um könnun sem Starfsgreinasamband Íslands lét gera á viðhorfi félagsmanna til starfsemi stéttarfélaga innan SGS.  VLFA kom glæsilega út úr þeirri könnun og sýnir niðurstað hennar að stjórn félagsins er á réttri leið hvað varðar þjónustu við félagsmenn. 

Hægt verður að nálgast fréttablaðið hér á heimasíðunni von bráðar.

26
Apr

Stjórn og trúnaðarráð fundaði á þriðjudaginn

Stjórn og trúnaðarráð félagsins kom saman til fundar á þriðjudaginn sl.  Fjölmörg atriði voru til umræðu á fundinum, en helstu málin sem voru til umræðu voru eftirfarandi:

  • Ársfundur lífeyrissjóðs Festu
  • Komandi aðalfundur
  • Afkoma félagsins
  • Breytingar á reglugerð sjúkrasjóðsins
  • Könnun sem Starfsgreinasambandið lét framkvæma
  • Önnur mál

Stjórn og trúnaðarráð félagsins var afar ánægt með útkomu félagsins í skoðanakönnun sem SGS lét framkvæma á viðhorfi félagsmanna til starfsemi félagsins.  En eins og fram hefur komið þá lenti VLFA í öðru sæti af öllum stéttarfélögum innan SGS.  Einnig voru trúnaðarráðsmenn mjög ánægðir með þannig mikla viðsnúning sem orðið hefur í rekstri félagsins sem og öllu félagsstarfi hjá VLFA.  Það var líka almenn ánægja með að góð afkoma sjúkrasjóðsins skuli skila sér strax í auknum styrkjum til handa félagsmönnum.

25
Apr

Vinnstaðafundur með starfsmönnum lifrabræðslunnar

Formaður félagsins fór á vinnustaðafund í gær hjá lifrabræðslu Jóns Þorsteinssonar ehf.  Á fundinum var farið yfir hin ýmsu mál er lúta að réttindum starfsmanna.  Helsta málið laut þó að sumarorlofi starfsmanna en til stendur að loka fyrirtækinu í nokkar vikur í sumar og munu starfsmenn taka sitt sumarorlof á meðan á sumarlokuninni stendur.

Einnig var rætt um komandi kjarasamninga og þær hugmyndir sem uppi eru um að færa kaupaukagreiðslur inní grunnlaunin.  Almennt voru starfsmenn nokkuð sáttir við þær hugmyndir og töldu þær verða til bóta fyrir fiskvinnslufólk.

Það fór samt ekki milli mála að starfsmenn telja að nú sé komið að lagfæringu á launakjörum hjá fiskvinnslufólki og það strax þegar kjarasamningar verða lausir um næstu áramót.  Formaður er algerlega sammála því að nú verður að bæta kjör fiskvinnslufólks til mikilla muna og aðalmálið fyrir bættum hag fiskvinnslufólks er að hækka launataxta fiskvinnslufólks umtalsvert enda eru þeir skammarlega lágir, og í raun eru þessir launataxtar til vansa fyrir okkur í verkalýðshreyfingunni.  

23
Apr

Skúli Þórðarson fyrrverandi formaður Verkalýðsfélags Akraness lést í gær

Skúli Þórðarson fyrrverandi formaður Verkalýðfélags Akraness og heiðursfélagi lést í gær 77 ára að aldri.  Skúli gegndi formennsku í Verkalýðsfélagi Akraness á árunum 1966 til 1981.

Það er alveg ljóst að félagið eignaðist sterkan forystumann þegar Skúli tók við formennsku í félaginu 1966 og skilaði hann því starfi með miklum sóma.  Við sem nú stjórnum VLFA verðum að halda hátt á lofti því fórnfúsa og óeigingjarna starfi sem frumkvöðlarnir lögðu grunninn að.

Það var afar ánægjulegt að sjá að Skúli hafði mjög mikinn áhuga á starfsemi félagsins þó svo hann væri hættur öllum trúnaðarstörfum fyrir félagið og sem dæmi þá kom hann margoft á skrifstofu félagsins til að taka púlsinn á starfsemi félagsins.  Það sýndi okkur hversu háan sess Verkalýðsfélag Akraness skipaði í lífi hans.

Í lok ávarps sem Skúli Þórðarson ritaði vegna 70 ára afmælisblaðs félagsins sagði hann orðrétt:

"Megi Verkalýðsfélag Akraness ávallt njóta þess, að þeir er til forustu veljast, beri gæfu til að halda uppi merki frumherjanna og halda áfram að auka hlutdeild hins vinnandi manns í afrakstri þess, er þeir framleiða og vinna að.  Ef þetta tekst mun starf þess blómgast."

Stjórn félagsins hefur og mun hafa þessa ráðleggingu frá Skúla Þórðarsyni að leiðarljósi í sínum störfum í náinni framtíð, félagsmönnum Verklýðsfélags Akraness til heilla.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image