• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
20
Apr

Félagsmálaráðherra í heimsókn á skrifstofu félagsins

Nú í dag kom Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra í heimsókn á skrifstofu félagsins.

Formaður félagsins átti langt og gott spjall við félagsmálaráðherra en það voru aðallega tvo mál sem helst voru til umræðu.  Annars vegar var það mál er lýtur að erlendu vinnuafli og þeim félagslegu undirboðum sem því miður hafa stóraukist í kjölfar aukinnar þátttöku erlends vinnuafls á íslenskum vinnumarkaði.

Formaður félagsins tjáði félagsmálaráðherra að mjög brýnt væri að auka heimildir stéttarfélagana til eftirlits með þeim fyrirtækjum sem eru með erlenda starfsmenn í sinni þjónustu.

Það þarf að setja í lögin að atvinnurekendur skili ráðningarsamningum inn til stéttarfélaganna í stað Vinnumálstofnunar þegar þeir hafa ráðið erlendan starfsmann í sína þjónustu.  Einnig þurfa stéttarfélögin að hafa heimild til að kalla eftir launaseðlum og tímaskriftum án þess að fyrir liggi grunur um brot.  Þessi tvö atriði myndu hjálpa mikið við að koma í veg fyrir félagsleg brot á erlendu vinnuafli.

Félagsmálaráðherra var algerlega sammála formanni félagsins um að það sé með öllu ólíðandi að til væru fyrirtæki sem misbjóði erlendu vinnuafli eins og raun ber vitni.  Var ekki annað að heyra á ráðherranum en að taka verði á félagslegum undirboðum af fullri hörku.  Fram kom í máli ráðherrans að hann sé tilbúinn að skoða þau atriði sem formaður nefndi með jákvæðum huga.  Formaður og ráðherra voru sammála um að það verði að koma í veg fyrir þessi félagslegu undirboð, sem því miður eru alltof algeng á íslenskum vinnumarkaði í dag.

Félagsmálaráðherra kom einnig inn á atvinnuuppbygginguna sem orðið hefur á Grundartanga á undanförnum árum og telur ráðherra að stækkun Norðuráls hafi verið mikil lyftistöng fyrir Akurnesinga sem og Vesturland allt.  Formaður félagsins er algerlega sammála ráðherranum hvað það varðar.  Ef stækkun Norðuráls hefði ekki orðið að veruleika væri atvinnuástand hér á Akranesi verulega bágborið og er þó vægt til orða tekið.  Um 430 manns hafa nú atvinnu af álverinu á Grundartanga.

Eins og áður sagði þá var þetta gott spjall sem formaður átti við félagsmálaráðherra og vonandi skilar þetta góða spjall því að heimildir stéttarfélaganna, hvað varðar eftirlit með félagslegum undirboðum, verði auknar.

20
Apr

Stjórn og trúnaðarráð fundar á þriðjudaginn nk.

Fundi í stjórn og trúnaðarráði félagsins sem átti að vera á mánudaginn 23. apríl hefur verið frestað til þriðjudaginn 24. apríl kl. 20:00

Á fundinum verður farið yfir komandi ársfund lífeyrissjóðs Festu og sem dæmi þá verður gengið frá kjöri á fulltrúum á ársfundinn. 

Einnig verður til umræðu aðalfundur félagsins sem haldinn verður laugardaginn 28. apríl kl 13:00 en skrifstofa félagsins er að leggja lokahönd á undirbúning fyrir aðalfundinn.  Að lokum mun formaður fara yfir dagskrá vegna hátíðarhaldanna á 1. maí og einnig gera ráðinu grein fyrir þeim málum sem starfsmenn félagsins hafa verið að vinna að og lúta að réttindamálum félagsmanna.

18
Apr

Glæsileg afkoma félagsins skilar sér til félagsmanna

Í gærkvöldi funduðu endurskoðendur félagsins með stjórnum félagsins og kynntu þeim ársreikning fyrir árið 2006.  Það er óhætt að segja að afkoma félagsins er glæsileg en heildarhagnaður samstæðunar var 54.658.894. 

Í ljósi þessarar góðu afkomu hefur stjórn sjúkrasjóðs ákveðið að leggja fram breytingar á reglugerð sjúkasjóðs á næsta aðalfundi sem haldinn verður 28. apríl kl 13.00.  Það er og verður stefna félagsins að félagsmenn njóti ávinnings af góðri afkomu félagsins.  Í áðurnefndri reglugerðarbreytingu er lagt til að fimm nýir styrkir verði teknir upp hjá sjúkrasjóðnum og hefur styrkjum fjölgað um hvorki fleiri né færri en sjö frá því ný stjórn tók við 19. nóvember 2003.

Rétt er að minna félagsmenn enn og aftur á að þegar ný stjórn tók við árið 2003 þá var félagssjóður til að mynda rekinn á tveggja og hálfrar milljóna króna yfirdrætti og með tapi upp á 1,7 milljónir.  En óstjórn og óráðsía höfðu einkum einkennt rekstur félagsins áður en ný stjórn tók við 2003.

Frá því ný stjórn tók við 19. nóvember 2003 hefur orðið alger viðsnúningur bæði hvað varðar félagslega þáttinn sem og almennan rekstur og staðfestist það í könnun sem Capacent Gallup gerði á viðhorfi félagsmanna til starfsemi félagsins. Í henni kom fram að 86% aðspurðra félagsmanna eru ánægðir með starfsemi félagsins og er það næst besti árangurinn af öllum 26 stéttarfélögunum innan Starfsgreinasambands Íslands.  

Ársreikningar liggja nú frammi á skrifstofu félagsins.

17
Apr

Herdís Ólafsdóttir heiðursfélagi er látin 96 ára að aldri

Herdís Ólafsdóttir fyrrverandi formaður kvennadeildar, ritari, heiðursfélagi og starfsmaður Verkalýðsfélags Akraness lést aðfaranótt mánudags 96 ára að aldri.

Óhætt er að segja að fallin sé frá ein af þeim mestu baráttukonum sem tilheyrt hefur Verkalýðsfélagi Akraness frá stofnun þess.

Herdís gekk í Verkalýðsfélag Akraness 27. júní 1931 og var hún kjörin varaformaður Kvennadeildarinnar 3. desember 1931.

Herdís Ólafsdóttir gerðist starfsmaður Verkalýðsfélags Akraness árið 1960 og gegndi því starfi farsællega í samfellt 30 ár, þangað til hún lét af störfum fyrir aldurs sakir.

Frá því hún gekk í félagið 1931 barðist hún af elju og atorkusemi fyrir bættum hag verkafólks, ekki síst verkakvenna.  Það er alveg ljóst að hagur verkafólks á Akranesi var bættur verulega á þeim erfiðu árum sem hún gegndi trúnaðarstörfum fyrir félagið.  Fyrir það vill Verkalýðsfélag Akraness þakka henni kærlega fyrir.

16
Apr

Skráningu vegna erlendra starfsmanna til Vinnumálastofnunar ábótavant

Formaður félagsins fór fyrir helgi í reglubundið eftirlit í fyrirtæki sem er að hefja byggingarframkvæmdir hér á Akranesi.  Viðkomandi fyrirtæki er með erlenda starfsmenn í sinni þjónustu.

Ástæðan fyrir þessu eftirliti er að kanna hvort launakjör og annar aðbúnaður samræmist ekki þeim lögum og reglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.

Í þessari úttekt kom í ljós að undirverktaki sem er með erlenda starfsmenn frá Lettlandi hafði ekki tilkynnt sína starfsmenn til Vinnumálastofnunar eins og lögin kveða á um. 

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálstofnun hefur undirverktakinn hvorki skráð Lettana né skilað inn ráðningarsamningum til Vinnumálstofnunar eins og lögin kveða skýrt á um.  Hluti af Lettunum hefur þó starfað hér á landi frá seinni hluta árs 2005. 

Þar sem ekki liggur fyrir ráðningarsamningur hjá Vinnumálastofnun fyrir Lettana hefur félagið ákveðið að kalla eftir launaseðlum frá umræddum verktaka til að ganga úr skugga um að verið sé að fara eftir gildandi kjarasamningum.

Þetta dæmi sýnir svo ekki verður um villst hversu gríðarlega mikilvægt það er að stéttarfélögin sinni skyldu sinni og fylgist með að skráningum til Vinnumálastofnunar sé framfylgt eins og kveðið er á um lögum.

14
Apr

Erlendir verkamenn hafa fengið leiðrétt laun fyrir 5,2 milljónir á síðastliðnum tveimur árum

 

Formaður félagsins hefur verið að skoða öll þau mál sem Verkalýðsfélag Akraness hefur unnið að á síðastliðnum tveimur árum og lýtur að brotum á réttindum erlendra verkamanna.  Í þeirri skoðun kemur í ljós að Verkalýðsfélag Akraness hefur fengið leiðréttingu á launakjörum fyrir erlenda verkamenn og nemur sú leiðrétting tæpum 5,2 milljónum króna á síðastliðnum tveimur árum. 

Þessi brot hafa verið margvísleg þó er algengast að launataxtar uppfylli ekki lágmarkstaxta og einnig er algengt að hvíldarákvæði kjarasamninga séu ekki virt. 

Hér eiga fjölmörg fyrirtæki hlut að máli allt frá mjög smáum fyrirtækjum uppí stór fyrirtæki sem formaður hefði að öllu jöfnu talið að væri annt um ímynd sína.

Verkalýðsfélag Akraness hefur tekið mjög fast á félagslegum undirboðum á félagssvæði VLFA og heldur úti reglubundnu eftirliti með þeim fyrirtækjum sem eru með erlenda starfsmenn í sinni þjónustu. Um það getur Vinnumálastofnun vitnað enda hefur verið mjög gott samstarf á milli Verkalýðsfélags Akraness og Vinnumálastofnunar hvað varðar eftirlit með brotum á erlendu vinnuafli.

Formaður félagsins hefur ítrekað bent á hér á heimasíðunni að þessi félagslegu undirboð á erlendu vinnuafli geri ekkert annað en að gjaldfella launakjör á íslenskum vinnumarkaði og við því verður verkalýðshreyfingin að bregðast af fullum þunga í komandi kjarasamningum. 

Það er með öllu ólíðandi að atvinnurekendur misbjóði erlendu vinnuafli hvað varðar launakjör, aðbúnað sem og önnur starfskjör í jafnmiklu mæli og raunin er.  Formaður fer ekkert dult með þær áhyggjur sínar að það markaðslaunakerfi sem við Íslendingar höfum komið okkur upp á liðnum árum og áratugum sé í hættu.  Er það vegna stór aukinnar ásóknar atvinnurekenda í ódýrt vinnuafl frá Austur-Evrópu.  Það er til að mynda alvitað að stór hluti af þeim 20 þúsund erlendu verkamönnum og iðnaðarmönnum sem hafa komið til starfa hér á landi hafa verið settir á berstrípaða lágmarkstaxta.

Eins og áður sagði þá verður verkalýðshreyfingin að bregðast við þessu í næstu kjarasamningum og eina leiðin til þess er að hækka lágmarkstaxta upp að markaðslaunum og stór auka eftirlit með félagslegum undirboðum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image