• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

11
Feb

Starfsmenn Elkem - munið fundina í dag!

Verkalýðsfélag Akraness minnir starfsmenn Elkem á opna fundi um kjaramál, sem haldnir verða í dag á Gamla Kaupfélaginu. Fyrri fundurinn hefst kl. 13:00 og sá síðari kl. 19:00. Formaður félagsins mun fara yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins vegna sérkjarasamnings félagsins við Elkem Ísland, en kjarasamningurinn rann út 1. desember 2013 og þrátt fyrir ítrekuð fundarhöld hefur ekki náðst nein niðurstaða í þessari deilu.

Krafa félagsins er að byrjunartaxti hjá starfsmönnum Elkem Ísland hækki um kr. 20.000, en Samtök atvinnulífsins hafa algjörlega hafnað slíkri kröfu og ítrekað að einungis sé það í boði sem um var samið á hinum almenna vinnumarkaði 21. desember sl.  Það gætir gríðarlegrar gremju meðal starfsmanna yfir því að Samtök atvinnulífsins skuli ætlast til þess að verið sé að semja um launaliði sérkjarasamnings starfsmanna Elkem í öðrum kjarasamningum en þeirra eigin. Með þessu telja menn að verið sé að taka af þeim sjálfstæðan samningsrétt sem þeir hafa haft um áratugaskeið, með því að skylda þá til að taka launahækkunum sem um er samið í öðrum samningum heldur en þeirra eigin.

Félagið hvetur félagsmenn til að mæta, því á þessum fundum verða teknar ákvarðanir um hvernig skuli bregðast við þessu smánartilboði sem starfsmönnum Elkem hefur verið boðið, en æði margt bendir til þess að starfsmenn muni á engan hátt sætta sig við slíkt smánartilboð. Rétt er að geta þess að starfsmenn Elkem eru að vinna við erfiðar og hættulegar aðstæður og því mikilvægt að launakjör þeirra endurspegli þær vinnuaðstæður sem þeir þurfa að starfa við.

04
Feb

Fundur hjá ríkissáttasemjara - Lagt til að verðtryggja laun

Formaður félagsins fundaði með forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins í morgun hjá Ríkissáttasemjara, en eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær hafði Ríkissáttasemjari boðað til þessara fundar. Þeir kjarasamningar sem voru til umfjöllunar voru kjarasamningur starfsmanna Elkem Ísland á Grundartanga,  sérkjarasamningur fiskimjölsverksmiðjunnar, kjarasamningur starfsmanna Klafa, sem sér um út- og uppskipanir á Grundartanga, auk kjarasamningsins á hinum almenna vinnumarkaði.

Það er óhætt að segja að viðræðurnar við Samtök atvinnulífsins, sem ríkissáttasemjari stjórnaði, hafi verið gagnlegar og uppbyggilegar þar sem menn hafi skipst á skoðunum án þess að nein niðurstaða hafi náðst. Formaður lagði t.d. fram nokkrar tillögur til lausnar á deilunni, í fyrsta lagi að laun lágtekjufólks yrðu hækkuð umtalsvert, til dæmis með krónutöluhækkun og breytingum á innröðun í launatöflu, þar sem sérstakt tillit yrði tekið til starfsmanna í útflutningsfyrirtækjum eins og t.d. hjá ferðaþjónustunni og fiskvinnslunni. Í öðru lagi nefndi formaður hvort ekki mætti skoða að gengið yrði frá nokkurs konar þjóðarsátt þar sem samið yrði um fasta krónutöluhækkun sem gæti numið 20.000 krónum, sem hugsanlega gæti leitt til þess að kostnaðarauki atvinnulífsins yrði ekki meiri en fyrirliggjandi samningur kveður á um. Slík hækkun myndi ganga jafnt yfir alla óháð því hvort fólk sé með milljón í laun eða 200.000 krónur. Slíkan samning væri svo sannarlega hægt að kalla þjóðarsáttarsamning þar sem allir tækju á sig sambærilega launahækkun og horfið yrði frá prósentu-hækkun í samningnum.

Þriðja tillagan sem formaður nefndi snerist um að verðtryggja núverandi samning verkafólks út samningstímann. Með því væri ábyrgðinni varpað yfir á atvinnulífið og stjórnvöld að halda hér stöðugleika út samningstímann. Ef verðbólgan yrði 2% í lok samningstímans þá kæmi samkvæmt þessari tillögu 2% launahækkun til viðbótar því sem um hafði verið samið. Ef verðbólgan yrði hins vegar 5% þá kæmi 5% launahækkun í lok samningstímans. En með því að verðtryggja þennan samning væri verið að varpa ábyrgðinni meira yfir á ríki, sveitarfélög, verslun og í raun og veru atvinnulífið í heild sinni við að halda verðbólgu hér niðri. Formaður telur að þessi leið sé alveg fær út samningstímann og sérstaklega í ljósi þess að verðtrygging hefur ekki enn verið afnumin af fjárskuldbindingum heimilanna.

Það er skemmst frá því að segja varðandi verðtryggingu launa, þá höfnuðu fulltrúar Samtaka atvinnulífsins því algerlega og sögðu slíkt ekki koma til greina því reynslan af verðtryggingu launa væri ekki góð.

Varðandi sérkjarasamningana þá voru þeir einnig til umræðu og það kom alveg skýrt fram hjá forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins að ekki verður gengið frá sérkjarasamningunum fyrr en kjarasamningur á hinum almenna vinnumarkaði hefur verið frágenginn. Einnig kom fram hjá þeim að þær launabreytingar sem um semst í aðalkjarasamningi muni verða þær sömu og sérkjarasamningarnir muni fela í sér. Slíkt á Verkalýðsfélag Akraness afar erfitt með að sætta sig við enda eru sérkjarasamningar félagsins t.d. við Elkem ísland sjálfstæðir samningar og ekki eðlilegt að starfsfólki þar sé stillt þannig upp við vegg að samið sé um kjör þeirra í allt öðrum samningum en þeirra eigin.

Eins og áður sagði þá var þetta bara nokkuð góður fundur hjá ríkissáttasemjara í dag þótt niðurstaðan væri engin, því grunnforsenda til að leysa kjaradeilur er að menn geti talað saman, skipst á skoðunum og reynt að finna lausnir til þess að leysa vandann. Því það er morgunljóst að vandinn er umtalsverður og það er skylda beggja samningsaðila að leggja sig í líma að finna lausn sem báðir samningsaðilar geta fallist á.

03
Feb

Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar

Ríkissáttasemjari hefur boðað fulltrúa Verkalýðsfélags Akraness til fundar á morgun þriðjudag, en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur félagið vísað kjaradeilum Elkem Ísland, Klafa og fiskimjölsverksmiðjunnar til sáttasemjara. Þessu til viðbótar er kjarasamningurinn á hinum almenna vinnumarkaði einnig kominn til Ríkissáttasemjara og verða því þessir fjórir samningar til umræðu á fundinum á morgun.Það er ljóst að töluvert ber á milli aðila, en krafa Verkalýðsfélags Akraness vegna allra þessara samninga er að grunntaxtar hækki um 20.000 kr. á mánuði, en þeirri kröfu hafa fulltrúar Samtaka atvinnulífsins algerlega hafnað.

Það liggur fyrir að félagsmenn VLFA sendu félaginu skýr skilaboð varðandi kosningu um aðalkjarasamninginn á hinum almenna vinnumarkaði, en upp undir 93% félagsmanna höfnuðu þeim samningi og sendu því skýr skilaboð til samninganefndar um að gera þurfi betur til að hægt sé að bera nýjan samning upp til atkvæðagreiðslu.

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands kom saman fyrir helgi og eygði formaður þá von að samstaða myndi ríkja á milli aðildarfélaga SGS um að fara sameinuð í viðræður við atvinnurekendur, því eins og áður hefur komið fram er staða aðildarfélaga SGS nokkuð sterk í ljósi þess að margar atvinnugreinar sem félagsmenn SGS starfa í hafa verið að skila góðri afkomu á undanförnum árum og nægir í því samhengi að nefna ferðaþjónustuna og fiskvinnsluna. En því miður þá ríkti ekki mikil samstaða, alla vega á þessum fyrsta fundi, um áframhaldandi samstarf og voru skiptar skoðanir um hvaða leið ætti að fara. Kom fram að sumir vildu halda áfram sameiginlegu samstarfi við önnur landssambönd, en slíkt telur formaður VLFA að sé ekki happadrjúgt fyrir íslenskt verkafólk.

Krafan er afar hógvær, enda byggist hún á að hækka lágmarkstaxta verkafólks um 20.000 kr. á mánuði. En rétt er að benda á í því samhengi að lágmarkstaxtar og laun verkafólks duga á engan hátt fyrir lágmarksframfærslu samkvæmt öllum opinberum viðmiðum. Því verður að lagfæra þessa taxta í skrefum og 20.000 króna hækkun taxtalauna er örlítið skref í þá átt.

Það er grundvallaratriði að ef menn ætla að ná árangri í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins þá verða aðildarfélög Starfsgreinasambandsins að standa saman. Sameinuð er alveg ljóst að æði margt væri hægt að gera, en sundrung er ávísun á að skila ekki viðunandi niðurstöðu fyrir okkar félagsmenn. Það er mikilvægt fyrir forystumenn í verkalýðshreyfingunni að átta sig á þessari bláköldu staðreynd, sérstaklega í ljósi þess að hinn almenni félagsmaður hefur send forystumönnum verkalýðshreyfingarinnar skýr skilaboð, síðasti samningur var of innihaldsrýr svo gerið þið betur! 

24
Jan

Kjarasamningum Elkem, Klafa og Fiskimjölsverksmiðjunnar vísað til Ríkissáttasemjara

Kjaraviðræðum vegna þriggja sérkjarasamninga hefur nú verið slitið, en í morgun fól samninganefnd Elkem Ísland formanni Verkalýðsfélags Akraness að vísa kjaradeilu starfsmanna til ríkissáttasemjara. Hið sama gerði samninganefnd Klafa ehf, sem sér um upp- og útskipanir á Grundartangasvæðinu, svo og samninganefnd fiskimjölsverksmiðju HB Granda. Formaður VLFA á von á því að ríkissáttasemjari boði til fundar fljótlega eftir helgi.

Verkalýðsfélag Akraness mun boða til opins fundar með starfsmönnum Elkem og Klafa í næstu viku til að ræða þá stöðu sem upp er komin og kanna til hvaða aðgerða starfsmenn vilja grípa. Nánari tímasetning fundarins verður auglýst síðar.

24
Jan

Kjarasamningar - næstu skref

Eins og allir vita þá voru kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði víða kolfelldir og sem dæmi þá felldu upp undir 60% félagsmanna Starfsgreinasambands Íslands nýgerðan kjarasamning. Formaður Verkalýðsfélags Akraness er ánægður með að íslenskt verkafólk skuli hafa sýnt í verki að það sé ekki tilbúið að láta hvað sem er yfir sig ganga.

Það var æði margt í þessum samningi sem varð þess valdandi að hann fékk þá útreið sem raun bar vitni, nægir að nefna í því samhengi að launahækkanir til handa íslensku verkafólki voru einfaldlega allt of rýrar og smávægilegar til að verkafólk gæti sætt sig við þær. Þessu til viðbótar ákváðu stjórnvöld að skilja eftir tekjulægsta fólkið þegar kom að skattabreytingum, sem birtust í þeirri mynd að hátekjufólk með yfir 800.000 krónur á mánuði var að fá skattalækkun sem nam allt að 42.000 á meðan verkafólk með tekjur undir 250.000 fékk ekki eina einustu krónu í lækkun. Við slíkt er eðli málsins samkvæmt alls ekki hægt að una. Þessu til viðbótar mátti á engan hátt taka tillit til atvinnugreina sem svo sannarlega höfðu borð fyrir báru til að hækka laun sinna starfsmanna umtalsvert og nægir að nefna ferðaþjónustuna svo ekki sé talað um sjávarútvegsfyrirtækin sem hafa hagnast um 40 milljarða eftir skatta ár hvert á undanförnum árum.

Krafa Starfsgreinasambandsins var ekki aðeins skýr, heldur var hún í raun og veru hógvær. Hún gerði ráð fyrir 20.000 króna hækkun á launum verkafólks og tekið yrði tillit til launaflokkahækkana í greinum sem starfa í útflutningi, t.d. hjá fiskvinnslufólki.

Það er óhætt að segja að upp sé komin afar skrýtin og flókin staða innan verkalýðshreyfingarinnar, en verkalýðshreyfingunni ber skylda gagnvart sínum félagsmönnum að vinna úr þeirri flóknu stöðu sem upp er komin. Sú vinna er fólgin í því að hlusta á grasrótina í verkalýðshreyfingunni, hlusta á okkar félagsmenn og berjast af alefli fyrir bættum kjörum okkar fólks. Formaður Verkalýðsfélags Akraness vill undirstrika það að slík barátta skilar aldrei árangri nema með samstöðu. Samstaðan er það sem skilar árangri. Því ber félögum innan Starfsgreinasambands Íslands skylda til þess að taka höndum saman og vinna að því að ná þeim markmiðum sem voru fólgin í kröfugerðinni, og forystan verður að átta sig á því að þeir launataxtar sem íslensku verkafólki standa til boða eru einfaldlega allt of lágir og langt undir öllum opinberum framfærsluviðmiðum. Eða með öðrum orðum, lágmarkslaun á Íslandi duga ekki fyrir lágmarksframfærslu og að fólk geti haldið mannlegri reisn.

Næstu skref verða því að vera að formenn SGS fundi og taki ákvörðun um hvort menn ætli að vera saman og vinna að því að bæta kjör okkar félagsmanna og reyna eftir fremsta megni að ná eins langt í þeim efnum og kostur er. En það er morgunljóst eins og formaður hefur ætíð sagt á öllum samningafundum SGS að til að ná árangri þá verður að ríkja samstaða.  

22
Jan

Kjarasamningar kolfelldir á Akranesi

Nú rétt í þessu lauk talningu atkvæða í kosningu um tvo kjarasamninga sem Verkalýðsfélag Akraness er aðili að í gegnum tvö landssambönd, annars vegar í gegnum Starfsgreinasamband Íslands og hins vegar Samiðn og undirritaðir voru þann 21. desember síðastliðinn. Formaður Verkalýðsfélags Akraness skrifaði ekki undir þessa samninga, en eftir sem áður eru það félagsmenn sjálfir sem taka lokaákvörðunina. Á kjörskrá hjá SGS voru 794 félagsmenn í Almennri deild og Matvæladeild og á kjörskrá hjá Samiðn voru 56 félagsmenn Iðnsveinadeildar VLFA.

Niðurstaðan er sú að samningarnir voru báðir felldir, með 93% atkvæða félagsmanna SGS og með 63,6% atkvæða félagsmanna Samiðnar, en það eru félagsmenn í Iðnsveinadeild VLFA sem tilheyra Samiðn. Það er því ljóst að félagsmenn hafna þessum kjarasamningum með afgerandi hætti.

Kjarasamningur Verkalýðsfélags Akraness/SGS við Samtök atvinnulífsins:

Fjöldi á kjörskrá: 794  
Fjöldi atkvæða/Kjörsókn 271 34,1%
Já sögðu: 19 7%
Nei sögðu: 252 93%

 

Kjarasamningur Verkalýðsfélags Akraness/Samiðnar við Samtök atvinnulífsins:

Fjöldi á kjörskrá: 56  
Fjöldi atkvæða/Kjörsókn 22 39,3%
Já sögðu: 8 36,4%
Nei sögðu: 14 63,6%

17
Jan

Kosning um nýgerða kjarasamninga fer vel af stað

Kosning um nýgerða kjarasamninga er nú í fullum gangi og er þátttakan einstaklega góð það sem af er. Kynningarfundurinn sem haldinn var í vikunni á var afar gagnlegur, þátttakan hefði mátt vera betri en það var þó hiti í fundarmönnum og heilmiklar umræður spunnust um innihald samninganna. Þeir sem þess óska geta haft samband við skrifstofu félagsins og fengið kynningu á vinnutíma, eða eftir samkomulagi.

Frestur til að skila kjörseðli er til kl. 12:00 miðvikudaginn 22. janúar og er félagsmönnum bent á að póststimpill gildir ekki því talningu verður lokið fyrir kl. 16:00 þann saman dag. Eru félagsmenn hvattir til að láta í sér heyra og skila atkvæðinu fyrir tilskildan tíma.

13
Jan

Félagsmenn munið kynningarfundinn í kvöld!

Kynningarfundur vegna nýrra kjarasamninga verður haldinn í kvöld á Gamla Kaupfélaginu, Akranesi kl. 20:00.

Á fundinn eru boðaðir þeir félagsmenn sem tilheyra Almennri deild, Matvæladeild og Iðnsveinadeild. Formaður félagsins mun kynni efni kjarasamninga og opið verður fyrir umræður. Kaffiveitingar verða í boði.

Athugið er að þeir sem komast ekki á fundinn í kvöld geta haft samband við skrifstofu VLFA og fengið kynningu eftir samkomulagi.

Póstatkvæðagreiðsla um nýju kjarasamningana er hafin og kjörgögn hafa verið póstlögð til félagsmanna. Félagar eru hvattir til að láta skoðun sína í ljós og koma atkvæðaseðlinum til skila fyrir hádegi 22. janúar en þá lýkur kosningu.
 

09
Jan

Póstatkvæðagreiðsla um nýja kjarasamninga

Nú í þessari viku eru að hefjast kosningar um kjarasamningana sem undirritaðir voru þann 21. desember síðastliðinn. Kosið er hjá flestöllum stéttarfélögum vítt og breitt um landið og lýkur henni þann 22. janúar 2014. Hjá Verkalýðsfélagi Akraness fer fram póstatkvæðagreiðsla um samninginn og voru kjörgögn póstlögð til félagsmanna Almennrar deildar, Matvæladeildar og Iðnsveinadeildar í dag. Atkvæðaseðlar þurfa að hafa borist kjörstjórn VLFA fyrir kl. 12:00 miðvikudaginn 22. janúar næstkomandi og eru félagsmenn hvattir til að láta skoðun sína í ljós og koma atkvæði sínu til skila í tæka tíð.

Það er ekkert launungarmál að stjórn Verkalýðsfélags Akraness leggst alfarið gegn því að þessi samningur verði samþykktur, enda skrifaði formaður félagsins ekki undir hann og vildi hann með því lýsa yfir vanþóknun sinni á rýru innihaldi hans. Það eru þó félagsmenn sjálfir sem þurfa að kjósa um samninginn og hafa þannig endanlegt ákvörðunarvald.

Á þingi Starfsgreinasambands Íslands (SGS) sem haldið var í október sl. var samþykkt ályktun sem kvað skýrt á um að SGS ætlaði sér að brjóta á bak aftur þá láglaunastefnu sem hér hefur ríkt á undanförnum árum og áratugum. Í þessari sömu ályktun kom einnig skýrt fram að hvergi yrði hvikað frá í þeirri baráttu. SGS er landssamband íslensks verkafólks og þing SGS er æðsta vald sambandsins. Það skýtur því skökku við að núna liggur fyrir þessi kjarasamningur, sem er að mati samninganefndar Verkalýðsfélags Akraness afar rýr fyrir íslenskt verkafólk. Krafan var sú að lægstu taxtar innan SGS myndu hækka um 20.000 kr. og með samstöðu er vel hægt að ná slíkri launahækkun fram. Sérstaklega í ljósi þeirrar staðreyndar að atvinnugreinar eins og t.d. ferðaþjónustan og fiskvinnslan, er að skila mjög góðri afkomu. Nægir að nefna í því samhengi að heildarhagnaður íslensks sjávarútvegs á síðasta ári nam 80 milljörðum. Að auki hefði verið hægt að ná betri árangri í viðræðum við ríkisvaldið, en þar eru engar skattalækkanir fyrirhugaðar á laun undir 250.000 á meðan skattalækkun á laun yfir 700.000 nemur 42.000 krónum á ársgrundvelli. Við slíkt er ekki hægt að una.

Í nýja samningnum eru launataxtar undir 235.000 kr. hækkaðir um 9.750 krónur. Þetta þýðir að þegar búið er að draga skatta og aðrar skyldur frá þá standa einungis eftir um 5.700 krónur í vasa launafólks á mánuði, sem gerir launahækkun upp á einungis 190 kr. pr. dag. Að auki þvingaði samninganefnd ASÍ samninganefnd Starfsgreinasambandsins til að taka þátt í svokallaðri samræmdri launastefnu þar sem ekkert tillit er tekið til góðrar afkomu útflutningsgreinanna.

Það er hins vegar alveg ljóst að eitt, tvö eða þrjú stéttarfélög munu ekki ná fram meiri launahækkunum ef meirihluti stéttarfélaga mun samþykkja samninginn. Því er það von stjórnar VLFA að þessi samningur verði felldur í öllum aðildarfélögum ASÍ. Ef það gerist mun hugsanlega skapast á nýjan leik betri samningsstaða til handa íslensku verkafólki og hugsanlega verður hægt að ná fram frekari kjarabótum.

Stjórn VLFA skorar á þá félagsmenn sem taka laun eftir þessum samningi að segja nei við honum, með von um að verkafólk vítt og breitt geri slíkt hið sama. Ef ekki mun ríkja samstaða á meðal verkafólks um að fella þennan samning þá er ljóst að félagið mun þurfa að ganga frá sambærilegum samningi við SA, enda verður samningsstaðan engin fyrir fámenn félög að gera betri samning við Samtök atvinnulífsins, ef mikill meirihluti stéttarfélaga samþykkir samninginn.

Grundvallaratriði er hins vegar að með samstöðu alls íslensks verkafólk er æði margt hægt að gera og á þeirri forsendu er það óskandi að verkafólk taki höndum saman vítt og breitt um landið og sýni vanþóknun sína í verki og felli þennan samning. Þó ekki sé nema til þess eins að sýna Samtökum atvinnulífsins að það eru fleiri í íslensku samfélagi sem þurfa að axla ábyrgð en íslenskt lágtekjufólk.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image