• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
21
Mar

Kauptaxtaauki tekur gildi 1. apríl – Lágmarkstaxtar hækka um 0,58%

Kauptaxtar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði hækka um 0,58% frá 1. apríl næstkomandi. Ástæða hækkunarinnar er sú að kauptaxtaauki, sem samið var um í kjarasamningunum, verður virkjaður þá. Það er gert vegna þess að launavísitala á almennum markaði hefur hækkað umfram umsamdar taxtahækkanir í kjarasamningnum. 

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði voru undirritaðir í mars á síðasta ári, 2024. Í þeim er ákvæði þess efnis að sérstök launa- og forsendunefnd, skipuð fulltrúum Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, skuli úrskurða um sérstakan kauptaxtaauka í mars ár hvert út samningstímann. Sýni launavísitala Hagstofu Íslands fyrir almenna vinnumarkaðinn að laun hafi hækkað umfram hækkun lægstu kauptaxta í kjarasamningunum skuli því bæta verkafólki það upp með kauptaxtaauka. 

Umrædd nefnd kom saman til fundar fyrir tveimur vikum, 7. mars. Í ljósi þess að launavísitala hefur hækkað umfram taxtahækkanir úrskurðaði nefndin að virkja skyldi kauptaxtauka, um 0,58% sem fyrr segir. Er það fullt hlutfall umframhækkunarinnar sem orðin er á launavísitölu miðað við kauptaxta. Allir lágmarkstaxtar kjarasamninga munu hækka um það hlutfall.

Meginmarkmið stöðugleikasamninganna sem undirritaðir voru í fyrra var að ná niður verðbólgu og að vextir yrðu lækkaðir. Hvoru tveggja hefur raungerst á sama tíma og kaupmáttur launa hefur aukist. Forsendur eru fyrir framhaldi þar á, þó ýmsar blikur séu á lofti á alþjóðavettvangi. Forsendunefndin hvetur stjórnvöld, Seðlabankann og fyrirtæki til að vinna áfram að markmiðum samninganna en einnig er brýnt að ríki og sveitarfélög gæti hófs í hækkunum gjalda og stuðli einnig að uppbyggingu íbúða. 

Yfirlýsing launa- og forsendunefndar fer hér að neðan.

Kauptaxtaauki tekur gildi 1. apríl 

Launa- og forsendunefnd kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, sem skipuð er fulltrúum frá ASÍ og SA, kom saman til fyrsta fundar föstudaginn 7. mars. Á fundinum var úrskurðað að kauptaxtaauki virkjist frá og með 1. apríl næstkomandi. Kauptaxtaaukinn felur í sér að kauptaxtar kjarasamninga hækki um 0,58% frá og með 1. apríl og skýrist af því að launavísitala á almennum markaði hækkaði umfram umsamdar taxtahækkanir viðmiðunartaxtans á fyrsta tímabili stöðugleikasamningsins.

Nefndinni, sem starfar samkvæmt kjarasamningum á árunum 2024-2028, ber að fylgjast með framvindu efnahagslífs og mögulegum áhrifum á markmið samninga um minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Nefndinni ber jafnframt að leggja mat á samningsforsendur í september 2025 og september 2026. 

Verðbólga gengið niður og kaupmáttur aukist 

Meginmarkmið samninganna er að stuðla að minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Verðbólga mældist um 8% þegar undirbúningur kjarasamninga hófst haustið 2023. Forsendunefndin er sammála um að árangur samninganna hafi verið merkjanlegur, verðbólga mælist í dag 4,2% en 2,7% ef horft er fram hjá áhrifum húsnæðisverðs. Kaupmáttur launa hefur aukist á fyrsta ári samnings. 

Seðlabankinn hóf vaxtalækkunarferli í október síðastliðnum og hafa stýrivextir lækkað um 1,50 prósentur frá gerð samninga. Á sama tíma hefur aðhald peningastefnunnar aukist og raunvextir hækkað. 

Aukin óvissa um efnahagshorfur 

Forsendur eru fyrir áframhaldandi hjöðnun verðbólgu á næstu mánuðum og þar með frekari lækkun vaxta. Hins vegar hefur alþjóðleg óvissa um efnahagshorfur aukist og hætta á að Ísland verði fyrir áhrifum af vaxandi átökum á alþjóðavettvangi og viðskiptastríðum. Forsendunefndin telur mikilvægt að stjórnvöld, Seðlabanki Íslands og fyrirtæki vinni áfram að markmiðum samninganna og skapi þannig forsendur fyrir áframhaldandi minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Þar telur nefndin brýnt að ríki og sveitarfélög vinni með peningastefnunni, gæti hófs í álagningu gjalda og taki markviss skref í íbúðauppbyggingu.

18
Mar

Kjarasamningur við Elkem Ísland felldur

Núna í hádeginu lauk kosningu um nýgerðan kjarasamning stéttarfélaganna við Elkem Ísland og var samningurinn felldur með 58,12% greiddra atkvæða.

Á kjörskrá voru 151 og greiddu 77,48% atkvæði.

 

Atkvæðin skiptust með eftirfarandi hætti:

 

Nei sögðu 68 eða 58,12%

sögðu 45 eða 38,46%

Þeir sem ekki tóku afstöðu voru 4 eða 3,42%

 

Formaður félagsins mun boða félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness sem heyra undir umræddan kjarasamning til fundar í næstu viku þar sem ákvörðun verður tekin um næstu skref. Mikilvægt er að greina í hverju óánægjan er fólgin og athuga hvort möguleiki verði á að leysa þau atriði sem starfsmenn telja að útaf standi án átaka. Félagið mun auglýsa dagsetningu þegar hún liggur fyrir.

18
Mar

Páskar í orlofshúsum félagsins 2025

Erum að taka á móti umsóknum í orlofshús félagsins um páskana. 

Hægt er að sækja um til 31. mars og dregið verður úr umsóknum 1. apríl

Sjá nánar á orlofssíðu félagsins

11
Mar

Skrifað undir nýjan kjarasamning við Elkem Ísland

Búið er að skrifa undir nýjan kjarasamning við Elkem Ísland. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni gekk um tíma erfiðlega að ná saman kjarasamningi en nú hefur það tekist og er formaður sáttur við þá niðurstöðu sem náðist. 

Á fyrsta ári er samningurinn í anda þess sem samið var um á hinum almenna vinnumarkaði en samningurinn gildir í 4 ár og mun taka breytingum með sama hætti og kjarasamningar stóriðjunnar á Grundartanga hafa gert frá árinu 2015, það er að segja með tengingu við launavísitölu. Orlofs- og desemberuppbætur munu hækka úr 291.078 kr. hvor um sig í 308.766 kr. og munu því orlofs- og desemberuppbætur nema samtals 617.532 kr.

Lægsti taxti ofngæslumanna mun nema 471.050 kr. og dagmanna 481.038 kr. Samningurinn gildir frá 1. janúar 2025 og er afturvirkur um 2 mánuði þannig að starfsmenn munu fá afturvirkni sem nemur í kringum 100.000 kr. en almennt eru laun verkamanna á vöktum, þegar allt er tekið til, að hækka um rúmar 50.000 kr. á mánuði.

Samningurinn verður kynntur í Elkem á fimmtudaginn og stefnt er að því að kosning hefjist þá. Kosningin verður rafræn og mun standa yfir í nokkra daga. Hér má sjá kjarasamninginn.

Félagsmenn sem hafa kosningarétt hafa fengið sms skilaboð um kosninguna sem hófst kl. 12 fimmtudaginn 13. mars og er opin til kl. 12 þriðjudaginn 18. mars. nk. 

25
Feb

Formenn SGS og Eflingar funduðu með forsætisráðherra

Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA og Starfsgreinasambands Íslands og Sólveig Anna formaður Eflingar áttu fund með Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra og Ingu Sæland félags-og vinnumarkaðsráðherra í stjórnarráðinu í gær.
Tilefni fundarins var um slæma stöðu ræstingafólks, en eins og fram hefur komið fram í fréttum að undanförnu þá eru dæmi um að launakjör hjá ræstingafólki hafi verið lækkuð um allt 20% með því að færa þau úr svokallaðri tímamældri ákvæðisvinnu yfir í vaktavinnu. Rétt er að geta þess að skv. sem upplýsingum stéttarfélagana er vinnufyrirkomulagið samt ekkert að breytast.
Ástæðan fyrir þeirra fundi með ráðamönnum ríkisstjórnarinnar var tvíþættur í fyrstalagi þá liggur fyrir að ríki og og sveitafélög hafa verið að útvista ræstingu yfir til þessara ræstingafyrirtækja eins og enginn sé morgundagurinn á liðnum árum. En aukning á útgjöldum ríkisins hvað útkaup á ræstingu frá árinu 2019 hefur aukist um 80% og námu útgjöldin 3 milljörðum árið 2024.
Í öðru lagi þá liggur fyrir að stjórnvöld verða að tryggja að reglur og lög hvað aðbúnað og launakjör ræstingafólks séu í hvívetna í lagi gagnvart þeim ræstingafyrirtækjum sem ríki og sveitafélög eiga í viðskipum við.
Vilhjálmur og Sólveig Anna lögðu fram tillögur á fundinum með forsætisráðherra og vinnumarkaðsráðherra en þetta eru tillögur sem Efling SGS og ASÍ hafa unnið að til að tryggja og bæta réttarstöðu ræstingarfólks.
En þetta eru tillögur sem lúta að aðkomu hins opinbera að úrbótum í ræstingageiranum og snúa að hinu opinbera sem verkkaupa í ræstingu. En tillögurnar er í fjórum liðum sem eru eftirfarandi:
1. Útvistun endurskoðuð
2. Framkvæmd útboða
3. Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum
4. Lög um opinber innkaup
Þetta var virkilega góður og uppbyggilegur fundur en þau lögðu til að Félags-og vinnumarkaðsráðherra myndi skipa starfshóp með hagsmunaaðilum þar sem unnið yrði með þessar tillögur og lýstu Vilhjálmur og Sólveig Anna formaður Eflingar að SGS Efling og ASÍ yrðu svo sannarlega klár ef kallið kæmi frá vinnumarkaðsráðherra.
Ekki var annað að heyra á Ingu Sæland og Kristrúnu Frostadóttur að þau væru til að vinna að þessu með okkur og höfðu orð á því að gott væri að fá svona tillögur til úrbóta. En að sjálfsögðu þarf að greina þær og vinna þær með hagsmunaaðilum.
Eitt er víst að slá þarf skjaldborg um ræstingafólk enda ótækt að verið sé að níðast á þeim sem sinna þessum mikilvægu störfum.
20
Feb

Kjaraviðræður við Elkem Ísland á viðkvæmum stað – formaður hóflega bjartsýnn

Kjarasamningur starfsmanna Elkem Ísland á Grundartanga rann út um áramótin og hófust viðræður um nýjan samning 14. nóvember. Þrátt fyrir átta samningafundi tókst ekki að ná niðurstöðu og var deilunni því vísað til ríkissáttasemjara fyrir tveimur vikum. Þar hefur nú þegar farið fram einn fundur.

Af þessum viðræðum er það helst að frétta að formaður stéttarfélagsins hefur átt í beinum viðræðum við forsvarsmenn Elkem í von um að finna lausn á deilunni. Að hans sögn hefur nokkur hreyfing verið á málunum og ætlar hann að vera hóflega bjartsýnn á að hægt verði að ná niðurstöðu í næstu viku.

Sú niðurstaða mun byggja á því að starfsmenn Elkem fái sambærilegar launahækkanir og um 99% vinnumarkaðarins hefur þegar fengið. Samninganefndir halda áfram viðræðum á næstu dögum, en enn er óvíst hvort endanlegur samningur náist en vonandi gerist það enda ótækt að starfsmenn þurfi að bíða lengur eftir launahækkunum í ljósi þess að heimilin hafa þurft að taka á sig kostnaðarhækkanir úr öllum áttum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image