• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

21
Jul

Laust í bústað 8. ágúst vegna forfalla

Vegna forfalla er laust í orlofshús félagsins við Efstaás í Svínadal vikuna 8. til 15. ágúst. Tilvalið að skella sér í berjamó, fara í sund að Hlöðum, golf á Þórisstöðum og veiða í vötnunum í Svínadal.

Fyrstur kemur - fyrstur fær!

Uppfært 21.07.2014 kl. 15:00 - Vikan er bókuð og ekki laus lengur.

18
Jul

Kjarasamningur vegna starfsmanna Akraneskaupstaðar og Höfða kynntur

Nýgerður kjarasamningur Verkalýðsfélags Akraness við Samband íslenskra sveitarfélaga, sem gildir fyrir starfsmenn Akraneskaupstaðar og starfsmenn Dvalarheimilisins Höfða, var kynntur fyrir félagsmönnum í gær á Gamla Kaupfélaginu. Á kynningarfundinum fór formaður yfir helstu atriði samningsins og þau sérákvæði sem félagið náði í samningaviðræðum við bæjaryfirvöld hér á Akranesi, en að teknu tilliti til þeirra sérákvæða er samningurinn að gefa starfsmönnum rétt rúm 9%.

Þeir sem ekki komust á fundinn, geta skoðað glærur frá kynningunni hér.

Almennt var að heyra að starfsmenn væru nokkuð sáttir, sérstaklega í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að kjarasamningurinn á hinum almenna vinnumarkaði sem undirritaður var 21. desember 2013 gaf verkafólki einungis 2,8%, eða að hámarki kr. 9.750. Það er ljóst að þessi samningur gefur umtalsvert meiri launahækkanir en kjarasamningur á hinum almenna vinnumarkaði gerði, enda er meðaltalshækkunin um og yfir 20.000 krónur á mánuði. Því til viðbótar gildir þessi samningur í 12 mánuði en ekki í 14 mánuði eins og samningurinn á hinum almenna vinnumarkaði.

Formaður fór yfir það á fundinum í gær að það væri með ólíkindum að nú hefði verkalýðshreyfingin samið við sveitarfélögin um launahækkun upp á um 20.000 krónur, sem er akkúrat sú upphæð sem Verkalýðsfélag Akraness vildi að samið yrði um á hinum almenna vinnumarkaði í vetur, en þá krafðist forysta ASÍ þess að krafan yrði lækkuð um helming. Enda kom á daginn að samið var einungis um 2,8% eða 9.750 krónur eins og áður hefur komið fram og voru nokkrir forystumenn hjá landsbyggðafélögum kallaðir lýðskrumarar fyrir að hafa gert kröfu um 20.000 króna hækkun til handa verkafólki á almennum vinnumarkaði. Er það grátbroslegt í ljósi þess að núna var hægt að semja við sveitarfélögin um 20.000 króna launahækkun, en ekki til dæmis handa fiskvinnslufólki sem margt hvert starfar hjá fyrirtækjum sem skila milljarða hagnaði ár eftir ár.

Það er alveg ljóst að þegar kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði renna út í byrjun næsta árs, þá verður verkalýðshreyfingin í heild sinni að krefjast alvöru leiðréttingar til handa verkafólki á hinum almenna vinnumarkaði því þessu óréttlæti og ósanngirni sem blasir ætíð við þeim tekjulægstu á hinum almenna vinnumarkaði verður að linna í eitt skipti fyrir öll. Það er nöturlegt til þess að hugsa að oft og tíðum sé það forysta verkalýðshreyfingarinnar sem leggi línurnar um þessa láglaunastefnu sem ríkt hefur á hinum almenna vinnumarkaði, láglaunastefnu sem hefur verið gefið nafnið samræmd launastefna. En þegar á hólminn er komið þá gildir þessi láglaunastefna einungis fyrir þá tekjulægstu, enda hafa nánast allir hópar fengið langum hærri launahækkanir en verkafólk á almennum vinnumarkaði fékk í síðustu samningum.

Félagsmenn sem starfa eftir þessum kjarasamningi eru minntir á póstatkvæðagreiðsluna sem er í fullum gangi, atkvæðið þarf að vera komið í hús fyrir kl. 14 mánudaginn 28. júlí (eftir rúma viku).

17
Jul

Kynningarfundur í kvöld fyrir starfsmenn Akraneskaupstaðar og Höfða!

Kynningarfundur vegna nýgerðs kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga verður haldinn í kvöld, 17. júlí kl. 18:00 á Gamla Kaupfélaginu, Akranesi og eru þeir félagar sem starfa eftir samningnum eindregið hvattir til að mæta. Þetta á við starfsmenn Akraneskaupstaðar og Höfða. Einnig er hægt að hafa samband við skrifstofu félagsins og fá kynningu og nánari upplýsingar.

Kosið verður um samninginn með póstatkvæðagreiðslu og hafa kjörgögn þegar verið póstlögð ásamt kynningarefni. Atkvæðagreiðslu lýkur mánudaginn 28. júlí og þurfa atkvæðaseðlar að hafa borist kjörstjórn félagsins, Sunnubraut 13, 300 Akranesi fyrir kl. 14:00 þann dag. Póststimpill gildir ekki og eru félagsmenn því beðnir að koma kjörseðlum tímanlega í póst.

Berist kjörgögn ekki til félagsmanns sem telur sig hafa atkæðisrétt um samninginn, er viðkomandi félagsmanni bent á að hafa samband við skrifstofu félagsins hið fyrsta.

16
Jul

Póstatkvæðagreiðsla hafin hjá starfsmönnum Akraneskaupstaðar og Höfða

Kjörgögn vegna póstatkvæðagreiðslu um nýgerðan kjarasamning milli Verkalýðsfélags Akraness og Sambands íslenskra sveitarfélaga,vegna starfsmanna Akraneskaupstaðar og Höfða, voru póstlögð í gærdag og ættu því að berast félagsmönnum í dag og á morgun. Berist kjörgögn ekki í vikunni til félagsmanns sem telur sig hafa atkvæðsrétt um samninginn, er viðkomandi félagsmanni bent á að hafa samband við skrifstofu félagsins svo hægt sé að bregðast við því.


Atkvæðagreiðslu lýkur mánudaginn 28. júlí kl. 14:00 og þurfa atkvæðaseðlar að hafa borist kjörstjórn félagsins, Sunnubraut 13, 300 Akranesi fyrir þann tíma. Póststimpill gildir ekki og eru félagsmenn því beðnir um að koma kjörseðli tímanlega í póst, en til að auðvelda það má í kjörgögnum finna umslag sem setja má ófrímerkt í póst.

Kynningarfundur vegna þessa samnings verður haldinn á Gamla Kaupfélaginu á morgun fimmtudag kl. 18:00 og eru félagsmenn sem starfa eftir þessum samningi, það er að segja starfsmenn Akraneskaupstaðar og Höfða, eindregið hvattir til að mæta. Einnig er hægt að hafa samband við skrifstofu félagsins og fá kynningu og nánari upplýsingar.

Sjálfan samninginn má finna hér. Samningurinn er nokkuð flókinn þar sem sumir eru að flytjast til í launatöflunni og hækka um nokkra launaflokka. Í kjörgögnum er meðal annars kynningarhefti þar sem tiltekin eru dæmi um áhrif samningsins á helstu starfahópa, en finni félagsmenn sig ekki í þeim dæmum geta þeir óskað eftir nákvæmum upplýsingum um áhrif nýs samnings á kjör þeirra og veitir formaður félagsins fúslega þær upplýsingar á skrifstofu félagsins.

11
Jul

Skrifað undir kjarasamning vegna félagsmanna sem starfa hjá Akraneskaupstað

Rétt í þessu skrifaði Verkalýðsfélag Akraness undir kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga vegna félagsmanna sem starfa hjá Akraneskaupstað.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni hefur formaður unnið að því við forsvarsmenn Akraneskaupstaðar að ná inn frekari kjarabótum í gegnum sérákvæði. Í gær samþykkti bæjarráð Akraness nokkur atriði sem félagið hafði farið fram á í sérákvæðum og ber hæst að nefna í því samhengi að allir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness sem starfa hjá Akraneskaupstað munu fá svokallaða sumaruppbót að andvirði tæplega 30.000 kr. Einnig fá þeir sem hafa hvað lengstan starfsaldur hjá Akraneskaupstað svokallaða sérstaka júníuppbót sem er 6% af launum júnímánaðar ár hvert.

Helstu atriði kjarasamningsins eru eftirfarandi:

  • Samningstíminn er eitt ár og gildir hann frá 1. maí 2014 til 30. apríl 2015. Þetta þýðir á mannamáli að starfsmenn munu fá leiðréttingu á sínum launum aftur til 1. maí síðastliðins.
  • Laun starfsmanna hækka samkvæmt nýrri launa- og tengitöflu þann 1. maí 2014 og aftur 1. janúar 2015 og laun félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness hækka á samningstímabilinu um að meðaltali rúm 9%. Þó eru dæmi um að einstakir hópar hækki um rúm 10%.
  • Desemberuppbót á árinu 2014 hækkar um 15,9% og fer úr 80.700 kr. í 93.500 kr.
  • Lágmarkslaun frá 1. maí 2014 verða 229.549 kr.
  • Framlag í starfsmenntasjóði starfsmanna hækkar um 0,1%.
  • Gerðar verða breytingar á reglum um ráðningarsamninga starfsmönnum í hag.

Þetta eru helstu atriði samningsins en þar sem samningurinn er nokkuð flókinn þá hvetur formaður starfsmenn til að kynna sér vel innihald samningsins. Kynningargögn verða send félagsmönnum eftir helgi ásamt kjörgögnum og hægt verður að kjósa um samninginn til 28. júlí. Einnig mun félagið vera með kynningarfund sem auglýstur verður síðar.

Formaður vill þakka bæjarstjóra Akraneskaupstaðar og bæjaryfirvöldum fyrir að vinna að lausn á þessari deilu. Það er ljóst að það hefði ekki tekist nema í gegnum þessi sérákvæði og greinilegt að bæjaryfirvöld hafa fullan skilning á stöðu þeirra tekjulægstu sem starfa hjá sveitarfélaginu. Það birtist meðal annars í þessum sérákvæðum sem gerð voru. Það var einnig rætt að hefja undirbúning að næstu viðræðum strax í haust enda gildir þessi samningur eins og áður sagði einungis til 30. apríl á næsta ári. Var ánægjulegt að finna að skilningur er hjá bæjaryfirvöldum á að lagfæra þurfi kjör þeirra tekjulægstu enn frekar.

Það er morgunljóst að þessi samningur er töluvert betri en samið var um í svokölluðum ASÍ samningi á hinum almenna vinnumarkaði. Nægir að nefna að meðaltals launahækkun starfsmanna er í kringum 20.000 kr. á mánuði en hækkunin á hinum almenna vinnumarkaði var einungis 9.750 kr.

Það er í raun og veru með ólíkindum að núna hafi verið hægt að semja við sveitarfélögin vítt og breitt um landið um 20.000 kr. hækkun að meðaltali. Fyrir samskonar kröfu var formaður Verkalýðsfélag Akraness kallaður lýðskrumari af sumum forystumönnum verkalýðshreyfingarinnar þegar hann lagði hana fram á hinum almenna vinnumarkaði fyrr í vetur. Já, það er skrýtið að hægt sé að ná fram um og yfir 20.000 kr. hækkun handa ófaglærðu fólki hjá sveitarfélögunum en slíka kröfu hafi ekki mátt gera gagnvart fyrirtækjum sem voru með rekstrarafgang upp á allt að 50 milljarða eins og sjávarútvegsfyrirtæki.

Enn og aftur hvetur formaður félagsins starfsmenn Akraneskaupstaðar til að hafa samband við sig til að fá nánari útskýringar á þessum kjarasamningi.  

04
Jul

Unnið að nýjum kjarasamningi vegna starfsmanna Akraneskaupstaðar

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá vísaði Verkalýðsfélag Akraness kjaradeilu félagsins við launanefnd sveitarfélaga, vegna starfsmanna þeirra sem starfa við Akraneskaupstað, til Ríkissáttasemjara. Vísunin átti sér stað 24 .júní síðastliðinn og í kjölfarið boðaði Ríkissáttasemjari deiluaðila til fundar og var sá fundur haldinn í húsakynnum hans þann 1. júlí síðastliðinn.

Á þeim fundi lagði launanefnd sveitarfélaga fram drög að nýjum kjarasamningi til eins árs og er félagið nú með þessi drög til skoðunar. Það er ljóst að félagið er ekki tilbúið til að skrifa undir þennan samning fyrr en gengið hefur verið frá nokkrum atriðum er lúta að sérákvæðum Verkalýðsfélags Akraness við Akraneskaupstað.

Á miðvikudaginn síðastliðinn átti formaður fund með Ólafi Adolfssyni forseta bæjarstjórnar og Regínu Ásvaldsdóttur, bæjarstjóra þar sem þessi mál og önnur mál er lúta að hagsmunum félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness voru til umræðu. Er skemmst frá því að segja að þetta var mjög góður fundur og eru bæjaryfirvöld nú með erindi félagsins varðandi áðurnefnd sérákvæði til skoðunar og fær félagið væntanlega svar um miðja næstu viku. Það er ljóst eins og áður sagði að forsenda fyrir því að VLFA skrifi undir þennan samning er að gengið verði frá þessum sérákvæðum og eins og staðan er í dag og eftir þennan fína fund með forseta bæjarstjórnar og bæjarstóra er formaður bara nokkuð vongóður.

24
Jun

Verkalýðsfélag Akraness vísar deilu vegna starfsmanna Akraneskaupstaðar til Ríkissáttasemjara

Verkalýðsfélag Akraness hefur vísað deilu félagsins við Samband íslenskra sveitarfélaga vegna þeirra starfsmanna sem starfa hjá Akraneskaupstað til Ríkissáttasemjara. Samningurinn rann út þann 1. maí síðastliðinn og þrátt fyrir að um tveir mánuðir séu liðnir hafa afskaplega takmarkaðar viðræður átt sér stað. Félagið hefur lagt fram ítarlega kröfugerð en ekki fengið neina efnislega svörun hvað hana varðar.

Grundvallaratriðið í þessu er að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur samið við fjöldan allan af hópum og nægir að nefna í því samhengi BHM, grunnskólakennara og nú síðast leikskólakennara. Hafa þær launahækkanir verið langtum hærri heldur en samið var um í svokölluðum ASÍ samningum á hinum almenna vinnumarkaði. Það er mat Verkalýðsfélags Akraness að það eigi að vera afar einfalt mál að semja við félagið enda hefur Samband íslenskra sveitarfélaga slegið tóninn í áðurnefndum samningum.

Það er morgunljóst að þolinmæði félagsins gagnvart aðgerðaleysi Sambands íslenskra sveitarfélaga í þessari kjarasamningsgerð er að þrotum komin enda erum við hér að tala um fólk sem starfar hjá sveitarfélögunum og er með hvað lökustu kjörin þar. Verkalýðsfélag Akraness er með fjöldan allan af félagsmönnum sem starfar hjá Akraneskaupstað. Nægir að nefna í því samhengi skólaliða, leikskólaliða, starfsmenn íþróttamannvirkja og svo framvegis. Þess vegna er rétt að ítreka það að þeir sem gegna áðurnefndum störfum munu aldrei sætta sig við lakari launahækkanir heldur en aðrir hópar sem sveitarfélögin hafa samið við hafa fengið.  

Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar, hafði samband við formann félagsins áðan og tók undir áhyggjur hans yfir því að ekki væri enn búið að ganga frá kjarasamningum fyrir ófaglærða starfsmenn Akraneskaupstaðar. Nefndi hún að mikilvægt væri að gengið yrði frá samningum eins fljótt og kostur væri og var ekki annað að heyra á bæjarstjóranum en að hún væri sammála því að búið væri að leggja línurnar í þeim samningum sem launanefndin hefur gert við aðra hópa hvað launahækkanir varðar eins og áður hefur komið fram.

Félagið eygir þá von að Ríkissáttasemjari muni boða til fundar mjög fljótlega þar sem línur munu skýrast enn frekar en það er ljóst að ef ekki næst að semjast mjög fljótlega mun félagið boða til fundar með félagsmönnum þar sem hugsanlegar verkfallsaðgerðir verði ræddar.  

18
Jun

Elsa Lára Arnardóttir þingkona í heimsókn á skrifstofu félagsins

Í síðustu viku kom þingkonan Elsa Lára Arnardóttir í heimsókn á skrifstofu félagsins en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni á hafa þingmenn verið nokkuð duglegir að koma í heimsókn á skrifstofuna og því fagnar formaður sérstaklega. Það er ánægjulegt að þingmenn komi og fái upplýsingar um stöðu íslensks verkafólks og þeirra baráttumála sem meðal annars Verkalýðsfélag Akraness stendur fyrir.

Á fundinum með Elsu Láru var eðli málsins samkvæmt farið yfir stöðu heimilanna, verðtryggingarinnar og þeirra sem hvað lökustu kjörin hafa í íslensku samfélagi. Þeir sem hafa fylgst með Alþingi vita að Elsa Lára hefur verið öflugur þingmaður í að berjast fyrir bættum hag íslenskra heimila og mættu margir þingmenn, meira að segja í hennar eigin þingflokki, taka hana til fyrirmyndar hvað það varðar.

Formaður ræddi við hana um að skerpa þyrfti á neysluviðmiðum eða með öðrum orðum, það þarf að finna út með nákvæmum hætti hvað einstaklingur þarf til að framfleyta sér og þar þarf allt að vera inni, meðal annars húsnæðiskostnaður. Þingmaðurinn segist ætla að taka þetta mál fyrir á Alþingi þegar þing kemur saman því það er afar brýnt að nákvæmar tölur um þetta liggi fyrir því það mun hjálpa til dæmis verkalýðshreyfingunni við að krefjast hækkunar lágmarkslauna því það er morgunljóst að þau lágmarkslaun sem nú eru í gildi á íslenskum vinnumarkaði duga engan veginn til að einstaklingur geti framfleytt sér og haldið mannlegri reisn.  

10
Jun

Ásmundur Friðriksson í heimsókn á skrifstofu VLFA

Í dag kom í heimsókn á skrifstofu félagsins þingmaðurinn Ásmundur Friðriksson. Það er óhætt að segja að það er alltaf ánægjulegt þegar þingmenn sjá sér fært að koma í heimsókn og ræða hagsmuni alþýðunnar, heimilanna og stöðu þjóðarinnar almennt. Það gerist margoft að þingmenn komi á skrifstofu félagsins til að ræða hin ýmsu mál er lúta að hagsmunum alþýðunnar og er það gott.

Formaður átti gott spjall við Ásmund og meðal annars ræddu þeir töluvert um launakjör í fiskvinnslu. Það var afar ánægjulegt að heyra Ásmund segja að hann hafi rætt það víða og skrifað greinar um að kjör fiskvinnslufólks hér á landi séu síður en svo ásættanleg. Verkalýðsfélag Akraness hefur margoft bent á að kjör fiskvinnslufólks hér á landi séu til skammar í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að staða sjávarútvegsfyrirtækja vítt og breitt um landið er gríðarlega sterk um þessar mundir. Því er sorglegt að fiskvinnslufólk skuli ekki fá aukna hlutdeild í þessari sterku afkomu þessara fyrirtækja.

Formaður fór yfir stöðu atvinnumála hér á Akranesi og það er ljóst að mörg sveitarfélög öfunda Akranes af því hversu sterkt atvinnulífið er á okkar svæði. Eins og flestir vita þá kemur Ásmundur frá Reykjanesbæ og þar hefur atvinnuástandið verið bágborið um alllanga hríð. Það skiptir hvert sveitarfélag gríðarlegu máli að vera með sterkar stoðir í sínu atvinnulífi.

Þetta var ánægjuleg heimsókn og þakkar félagið Ásmundi kærlega fyrir innlitið.  

05
Jun

Formaður fundaði með forsætisráðherra

Í gær fundaði formaður félagsins með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra, í Stjórnarráðinu. Á fundinum voru til umræðu hin ýmsu mál er lúta að hagsmunum heimilanna og íslenskrar alþýðu. Eitt af því sem var töluvert rætt var það baráttumál sem Verkalýðsfélag Akraness hefur staðið fyrir sem er leiðrétting á forsendubresti heimlanna og afnám verðtryggingar. Ítrekaði formaður þá skoðun félagsins að mikilvægt sé að afnema verðtrygginguna eins fljótt og kostur er og einnig að tekið verði á verðtryggingu eldri lána.

Fram kom hjá forsætisráðherra að nú þegar hafi starfshópur um framtíðarskipan húsnæðismála skilað af sér tillögum og það væri skemmst frá því að segja að í þeim tillögum væri gert ráð fyrir því að verðtrygging á nýjum húsnæðislánum muni heyra sögunni til. Þetta eru að sjálfsögðu mikil gleðitíðindi en eftir stendur að það verður að taka á verðtryggingu á eldri lánunum. Það væri meðal annars hægt að gera með því að setja þak á neysluvísitöluna. Formaður minnti forsætisráðherra á að nú væru nokkur dómsmál um lögmæti verðtryggingar í gangi og æði margt bendir til þess að útfærsla á verðtryggðum lánum sé búin að vera ólögleg allt frá árinu 2001 eins og reyndar neytendastofa hefur nú þegar kveðið upp úrskurð um. Fram kom í máli forsætisráðherra að stjórnvöld fylgist að sjálfsögðu vel með þessum dómsmálum og bíði niðurstöðu sem væntanlega ætti að liggja fyrir á þessu ári.

Formaður spurði forsætisráðherra út í það sem fram hafi komið í séráliti formanns um afnám verðtryggingar en það lýtur að hugsanlegri ofmælingu neysluvísitölunnar. Það var mikið fagnaðarefni að heyra forsætisráðherra segja að hann hafi kallað eftir skýrslu frá Hagstofunni um hvort hugsanlega sé ofmæling eða skekkja í neysluvísitölunni. Eins og kemur fram í sérálitinu frá formanni þá hafa rannsóknir sýnt að ofmæling hafi verið á neysluvísitölu vítt og breitt um heiminn. Hér á landi hefur slík rannsókn aldrei farið almennilega fram sem er í raun og veru óskiljanlegt í ljósi þess að íslenskt samfélag er gegnumsýrt af verðtryggingu eða með öðrum orðum nánast allt er verðtryggt hér á landi og því skiptir gríðarlegu máli að neysluvísitalan sé rétt mæld og engar skekkjur séu í henni.

Forsætisráðherra minntist á þau ánægjulegu tíðindi sem heyrst hefðu frá Grundartangasvæðinu er lúta að viljayfirlýsingu sólarkísilverksmiðjunnar Silicor sem hyggst hefja starfsemi á Grundartanga fyrr heldur en seinna. Fram kom í máli forsætisráðherra að stjórnvöld muni reyna að greiða götu þessa verkefnis eins og þeim er unnt að gera. Einnig kom fram í máli forsætisráðherra að það skipti íslenskt þjóðarbú gríðarlegu máli að hér sé að koma til dæmis í þessu tiltekna verkefni ef allt gengur upp um 80 milljarða fjárfesting og ekki spillir fyrir að hér sé um gjaldeyrisskapandi störf að ræða. Formaður beti forsætisráðherra á að hér væri um nokkuð vistvæna starfsemi að ræða og ljóst að ef af þessari uppbyggingu á Grundartanga verður muni þetta þýða gríðarlega innspýtingu fyrir samfélagið á Vesturlandi sem og samfélagið allt enda munu uppundir 400 manns starfa í verksmiðjunni þegar hún verður komin í fullan rekstur.

Þetta var ágætis fundur og að sjálfsögðu voru kjaramál einnig til umræðu og kom fram í máli formanns að margt bendi til að það stefni í hörð átök á íslenskum vinnumarkaði á næsta ári enda hefur nú komið í ljós að flestallir hópar sem sömdu á eftir íslensku verkafólki hafa samið um langtum hærri launahækkanir en verkafólk fékk. Fram kom hjá formanni að slíkt yrði ekki látið viðgangast í komandi kjarasamningum, svo mikið væri víst.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image