• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Jan

Aðalmeðferð í dag vegna tekjutaps starfsmanna Hvals eftir frestun hvalveiða

Í dag fer fram aðalmeðferð í máli vegna umfangsmikils tekjutaps starfsmanna Hvals hf. sem urðu fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni í kjölfar ákvörðunar Svandísar Svavarsdóttur, þáverandi matvælaráðherra, um að fresta hvalveiðum sumarið 2023. Verkalýðsfélag Akraness fer með mál starfsmannanna og sækir kröfuna á hendur Hval hf.

Með ákvörðun ráðherrans var hvalveiðum frestað þannig að þær máttu ekki hefjast fyrr en í september, þrátt fyrir að hefðbundin vertíð hefjist að jafnaði um miðjan júní og standi fram í lok september. Þegar veiðar loks hófust var lítið eftir af vertíðinni og tekjumöguleikar því stórlega skertir.

Starfsmenn voru mættir til vinnu þegar ákvörðunin var tilkynnt og hafði Hvalur hf. þá þegar gengið frá ráðningum allra starfsmanna fyrir komandi vertíð. Undirbúningi var lokið og starfsfólk hafði skipulagt sumarvinnu sína í samræmi við hefðbundna vertíð, sem síðan fór að mestu forgörðum vegna ákvörðunarinnar.

Á hvalveiðum eru tekjumöguleikar jafnan mjög miklir enda er unnið á sólarhringsvöktum með átta tíma hvíld á milli vakta. Um er að ræða afar krefjandi störf sem jafnan skila miklum tekjum á afmörkuðum tíma. Samkvæmt útreikningum nemur tekjutap hvers starfsmanns yfir þremur milljónum króna vegna frestunarinnar.

Verkalýðsfélag Akraness krefst þess að Hvalur hf. bæti starfsmönnum það tekjutap sem þeir urðu fyrir. Gert er ráð fyrir að fyrirtækið geti í framhaldinu leitað endurkröfu á hendur ríkinu vegna þeirrar ákvörðunar sem tekin var af hálfu stjórnvalda. Félagið telur ákvörðun þáverandi matvælaráðherra hafa verið ólögmæta og án fullnægjandi lagastoðar, með alvarlegar afleiðingar fyrir afkomu starfsmannanna.

Málið hefur vakið talsverða athygli enda snýst það ekki einungis um hvalveiðar heldur einnig um réttaröryggi launafólks þegar stjórnvöld taka íþyngjandi ákvarðanir með skömmum fyrirvara. Niðurstaða málsins gæti haft fordæmisgildi fyrir önnur mál þar sem launafólk verður fyrir tjóni vegna stjórnvaldsákvarðana.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image