• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

26
Jan

Stefnumótunarfundur í lífeyrissjóðsmálum haldinn í febrúar

Á síðasta ársfundi Alþýðusambands Íslands var lögð fram tillaga frá Verkalýðsfélagi Akraness um stóraukið lýðræði við stjórnarval í lífeyrissjóðum en eins og fram hefur komið hér á síðunni var sú tillaga kolfelld. Hins vegar var á fundinum samþykkt ályktun um heildarendurskoðun á stefnu ASÍ í málefnum lífeyrissjóða.

Nú hefur verið boðað til fundar 18. og 19. febrúar næstkomandi á Hótel Selfossi þar sem stefnumótun í lífeyrismálum Alþýðusambands Íslands verður til umfjöllunar. Það eru 85 fulltrúar frá verkalýðshreyfingunni sem munu eiga seturétt á þessum fundi og mun Verkalýðsfélag Akraness eiga einn fulltrúa á fundinum.

Að sjálfsögðu mun Verkalýðsfélag Akraness halda áfram baráttu sinni fyrir því að auka lýðræðið við stjórnarval í sjóðunum. Krafa félagsins verður sú sama, það er að hætt verði með helmingaskipti atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar við skipan í stjórnir lífeyrissjóðanna og nýtt fyrirkomulag tekið upp þar sem allir sjóðsfélagar eigi rétt á að bjóða sig fram til stjórnarsetu. Þessari skoðun mun Verkalýðsfélag Akraness halda á lofti á þessum fundi.

Því miður var tillaga Verkalýðsfélags Akraness á ársfundinum um aukið lýðræði kolfelld eins og áður sagði en 80% ársfundarfulltrúa greiddu atkvæði gegn tillögunni. Það er skoðun formanns að þarna hafi sérhagsmunir forystumanna verkalýðshreyfingarinnar náð fram að ganga en af 24 miðstjórnarmönnum innan ASÍ eru 13 sem sitja í stjórnum lífeyrissjóða, annað hvort sem varamenn eða aðalmenn. Setu í stjórnum lífeyrissjóðanna fylgja umtalsverð völd og einnig getur verið um töluverðan fjárhagslegan ávinning að ræða. Á þeirri forsendu er eins og áður hefur komið fram skoðun formanns að hér hafi verið um sérhagsmunagæslu forystu verkalýðshreyfingarinnar að ræða þegar tillagan fékk ekki brautargengi.  

Það er skýlaus krafa almennings í þessu landi að tekin verði upp ný gildi, gildi er lúta að réttlæti, jöfnuði og virðingu og að gömlu gildin verði látin víkja, gildi sem lúta til dæmis að sérhagsmunagæslu og það er kjörið tækifæri fyrir verkalýðshreyfinguna að sýna það í verki með því að taka upp stóraukið lýðræði við stjórnarval í lífeyrissjóðunum.

25
Jan

Viðræður hefjast að nýju um nýjan kjarasamning Norðuráls

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá hafa kjaraviðræður stéttarfélaganna við forsvarsmenn Norðuráls frá því um miðjan desember vegna stefnu VM á hendur Norðuráli.

Málið var tekið fyrir í félagsdómi sl. þriðjudag og er dóms að vænta þá og þegar. Þar sem þetta mál hefur tafið kjaraviðræðurnar í rúman mánuð hefur Verkalýðsfélag Akraness farið þess á leit við forsvarsmenn Norðuráls að viðræður hefjist að nýju á föstudaginn kemur.

Formaður á von á því að boðað verði til fundar í þessari viku, því það er alveg ljóst að framundan eru ærin verkefni við nýjan kjarasamning fyrir starfsmenn Norðuráls. 

22
Jan

Ræður formanns komnar á heimasíðuna

Nú eru allar ræður formanns Verkalýðsfélags Akraness sem teknar hafa verið upp á myndband aðgengilegar á heimasíðu félagsins. Þetta eru ræður frá ársfundi Alþýðusambands Íslands frá því í október 2009 og einnig ræða sem formaður flutti á Austurvelli síðastliðinn laugardag.

Hægt er að sjá ræðurnar með því að smella hér. Einnig er kominn nýr tengill undir liðnum myndbönd NÝTT, þar eru ræðurnar einnig aðgengilegar.

22
Jan

Fundað með forsvarsmönnum ISS

Í júlí á síðasta ári tók fyrirtækið ISS við rekstri mötuneytis og ræstinga hjá Elkem Ísland á Grundartanga af Fangi, sem var í 100% eigu Elkem Ísland. Krafa Verkalýðsfélags Akraness var að við þessa yfirtöku skyldu launakjör fyrrverandi starfsmanna Fangs haldast óbreytt, enda hafa þau verið með sambærilegum hætti og laun annarra starfsmanna á stóriðjusvæðinu.

Stóriðjusamningar eru að sumu leyti töluvert betri en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði, svo sem veikindaréttur, orlofs- og desemberuppbætur og fleira til. Á þeirri forsendu sýnir Verkalýðsfélag Akraness fulla hörku þegar kemur að því að fyrirtæki láta verktaka hafa verk á svæðinu, og krefst þess að launakjör skerðist á engan hátt við breytingarnar.

Þetta hefur gengið að flestu leyti við yfirtöku ISS á starfsemi Fangs, en þó ekki að öllu leyti og átti formaður félagsins og trúnaðarmaður starfsmanna því fund með Ragnari Árnasyni, lögmanni Samtaka atvinnulífsins og forsvarsmönnum ISS í gær þar sem farið var yfir þessi ágreiningsefni og Verkalýðsfélag Akraness gerði þeim félögum algerlega grein fyrir því að það yrði ekki liðið að öll þau kjaraatriði sem starfsmenn Fangs höfðu tapist á einn eða neinn hátt. Er málið nú til skoðunar hjá forsvarsmönnum ISS og vonast formaður eftir því að málið leysist án aðgerða.

21
Jan

Ræðan frá Austurvelli

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá flutti formaður félagsins ræðu á Austurvelli sl. laugardag, en Hagsmunasamtök heimilanna og Nýtt Ísland óskuðu eftir að formaður flytti ræðu á fundinum.

Á milli 600 og 700 manns mættu á Austurvöll og hefur formaður fengið gríðarlega jákvæð viðbrögð við ræðunni. Formaður fjallaði meðal annars um pólítísk tengsl verkalýðshreyfingarinnar, stöðugleikasáttmálann, lífeyrissjóðsmál og Icesave. Formaður sagði m.a. í ræðu sinni:

"Ég vil byrja á því að upplýsa að sá sem hér stendur tilheyrir ekki neinum stjórnmálaflokki, enda er það mín skoðun að forystumenn í Verkalýðshreyfingunni eigi ekki undir nokkrum kringumstæðum að vera eyrnamerktir einhverjum einum ákveðnum stjórnmálaflokki. Enda eru forystumenn í Verkalýðshreyfingunni að vinna fyrir félagsmenn sem tilheyra öllum stjórnmálaflokkum.

Það er einnig gríðarlega mikilvægt að verkalýðshreyfingin sé hafin yfir allan vafa hvað varðar traust og trúverðugleika. En það gerir hún alls ekki með því að forystumenn í verkalýðshreyfingunni séu yfirlýstir stuðningsmenn einhverra ákveðinna stjórnmálaafla og noti verkalýðshreyfinguna til að koma sínum flokkspólítísku málum á framfæri.

Með öðrum orðum, verkalýðshreyfingin á að vinna að málefnum er lúta að hagsmunum launafólks algerlega óháð því frá hvaða stjórnmálaöflum slík málefni koma."

Hægt er að lesa ræðuna í heild sinni með því að smella hér. Einnig var fundurinn tekinn upp á myndband og þegar formanni hefur borist myndbandið þá mun ræðan verða birt í máli og mynd hér á heimasíðunni.

20
Jan

Formaður fjárlaganefndar í heimsókn á skrifstofu félagsins

Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, kom í heimsókn á skrifstofu félagsins í gær. Það var margt sem bar á góma hjá formanni félagsins og Guðbjarts, m.a. erfiðleikar skuldsettra heimila, Icesave og fyrirhuguð fyrningaleið, enda stóð heimsóknin yfir í rúman klukkutíma.

Formaður telur það afar mikilvægt að í fyrirhuguðum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu verði það haft að leiðarljósi að atvinnuöryggi sjómanna og fiskvinnslufólks verði tryggt með afgerandi hætti komi til verulegra breytinga á kerfinu. Guðbjartur leiðir hóp sem vinnur nú að tillögum að breytingum á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi.

Það er alltaf ánægjulegt þegar þingmenn gefa sér tíma til að líta við á skrifstofu félagsins og ræða ýmislegt sem snertir málefni launafólks, en þessi heimsókn var afar ánægjuleg og gagnleg í alla staði.

18
Jan

Hrognavinnsla Vignis Jónssonar hækkar laun frá 1. janúar

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni birti Verkalýðsfélag Akraness áskorun í bæjarblöðunum á Vesturlandi þar sem skorað var á öll vel fjárhagslega stæð fyrirtæki að standa við þann samning sem gerður var 17. febrúar 2008. Eins og flestir vita gekk samninganefnd ASÍ frá samkomulagi við Samtök atvinnulífsins um frestun á launahækkunum sem áttu að taka gildi 1. janúar - 1. júní næstkomandi.

Eins og einnig kom fram hér á heimasíðunni hefur HB Grandi tilkynnt að þeir muni standa við þessa hækkun og nú rétt áðan hafði formaður samband við forsvarsmenn hrognavinnslu Vignis G. Jónssonar, en þar starfa á þriðja tug manna, og fékk hann þær upplýsingar að fyrirtækið muni einnig standa við þann samning sem gerður hafi verið.

Formaður tekur ofan fyrir þessum tveimur fyrirtækjum en nú hefur komið í ljós að þau eru búin að standa við þann samning sem gerður var 17. febrúar 2008 að öllu leyti sem þýðir á mannamáli að starfsmenn þessara fyrirtækja hafa ekki orðið af vel á annað hundrað þúsund króna vegna þess samkomulags sem ASÍ gerði við SA. Þær hækkanir sem um ræðir núna eru 6.500 kr. hækkun á launatöxtum og 2,5% launahækkun á kaupliði. Einnig eiga þeir sem ekki starfa eftir launatöxtum að fá 2,5% hækkun. Formaður vill ítreka þakklæti til áðurnefndra fyrirtækja og skorar jafnframt á önnur vel stæð útflutningsfyrirtæki að gera slíkt hið sama.

15
Jan

Formaður heldur ræðu á Austurvelli á morgun

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni óskuðu Hagsmunasamtök heimilanna og Nýtt Ísland eftir að formaður héldi ræðu á mótmælafundi á Austurvelli á morgun kl. 15. Að sjálfsögðu varð formaður við þessari ósk og hvetur hann alla til að koma og sýna í verki að það ástand sem nú ríkir í íslensku efnahags- og atvinnulífi er algjörlega óásættanlegt.

Fjallað er um fundinn á heimasíðu Nýja Íslands, sjá hér, og einnig á heimasíðu Hagsmunasamtaka heimilanna, sjá hér.  

14
Jan

Til hamingju HB Grandi

Formanni bárust rétt í þessu afar jákvæð tíðindi frá HB Granda. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa nú tekið ákvörðun um að hækka launataxta starfsmanna sinna um 6.500 kr. og hækkun uppá 2,5% á bónusgreiðslum frá 1. janúar 2010 þrátt fyrir að samninganefnd Alþýðusambands Íslands hafi gengið frá samkomulagi við Samtök atvinnulífsins um frestun á þessari hækkun til 1. júní nk.

Formaður hafði samband við forsvarsmenn fyrirtækisins áðan og þakkaði þeim kærlega þessa ákvörðun, enda er alveg ljóst að almennt verkafólk er í verulegum vandræðum sökum þess ástands sem nú ríkir í formi stóraukinna greiðslubyrði á öllum vígstöðvum.

Nú hefur komið í ljós, með þessari ákvörðun, að HB Grandi hefur staðið við alla þætti samningsins frá 17. febrúar 2008. Þetta hefur gert það að verkum að starfsmenn þessa fyrirtækis hafa fengið allar þær launahækkanir sem samningurinn kvað á um.

Eins og flestir muna þá barðist Verkalýðsfélag Akraness með kjafti og klóm gegn samkomulagi um frestun launahækkana á formannafundum Alþýðusambands Íslands í febrúar og júní á síðasta ári. Rök félagsins voru þau að klárlega væru til fyrirtæki sem hefðu fjárhagslega burði til að standa við þann samning sem gerður var og nú hefur komið í ljós að þessi rök félagsins áttu við rök að styðjast.

Félagi birti áskorun til allra fyrirtækja í bæjarblöðum hér á Vesturlandi nú í janúar þar sem skorað var á vel stæð fyrirtæki að standa við þann samning sem gerður var í febrúar 2008 og skýla sér ekki á bak við samkomulagið sem ASÍ gerði við SA í júní á síðasta ári.

12
Jan

Formaður Verkalýðsfélags Akraness mun flytja ræðu á Austurvelli nk. laugardag

Hagsmunasamtök heimilanna og Nýtt Ísland hafa farið þess á leit við formann félagsins að hann haldi ræðu á útifundi á Austurvelli næstkomandi laugardag 16. janúar.

Að sjálfsögðu mun formaður félagsins verða við þessari ósk og þakkar það traust sem honum er sýnt með því að fá að ávarpa fundinn.

Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með baráttu fulltrúa Hagsmunasamtaka Heimilanna allt frá bankahruninu, en krafa samtakanna hefur ávalt byggst á þeirri sanngjörnu kröfu að skuldir heimilanna verði leiðréttar vegna þessa efnahagshruns sem hér varð í kjölfar falls bankanna.

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness ályktaði t.d. á þá leið á síðasta aðalfundi sínum að lýst var yfir fullum stuðningi við málflutning forsvarsmanna Hagsmunasamtaka Heimilanna og einnig var skorað á ríkisstjórn Íslands að verða við ósk um leiðréttingu á þeim forsendubresti sem varð hjá skuldsettum heimilum landsins.

Formaður hvetur fólk sem hefur tök á að mæta á Austurvöll næstkomandi laugardag, enda er full ástæða til að krefjast þess af ríkisvaldinu að það komi til móts við sanngjarnar kröfur fólksins um leiðréttingar á skuldum heimilanna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image