• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
Dec

Jóla- trúnaðarráðsfundur Verkalýðsfélags Akraness var haldinn í gærkveldi

Jóla- trúnaðarráðsfundur Verkalýðsfélags Akraness var haldinn í gærkveldi.  Mjög góð mæting var á fundinum í gær.  Það gladdi fulltrúa trúnaðarráðs að sjá að heiðursfélagarnir  Bjarnfríður Leósdóttir fv. varaformaður félagsins og  Herdís Ólafsdóttir (fædd 1911)   fv. formaður og ritari kvennadeildarinnar skyldu sjá sér fært að mæta.   

Formaður félagsins fór yfir það helsta sem gerst hefur á liðnu starfsári.  

Sagði formaður félagsins að það væri afar sorglegt að sjá hvernig almennt verkafólk hefði farið útúr sínum kjarasamningi.  Enn og aftur sömdu flest allar starfsstéttir um mun meira heldur almenni markaðurinn.  Og alltaf er ætlast til að verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði taki hóflegar kauphækkanir og semji til langs tíma, með það að markamiði að stöðugleikanum sé viðhaldið.  Einnig sagði formaðurinn að það væri orðið löngu tímabært að fleiri en verkafólk axli  ábyrgðina við að viðhalda stöðugleikanum í þessu landi.

Bjarnfríður Leósdóttir fv varaformaður og baráttu kona með meiru kvaddi sér hljóðs á fundinum í gær.  Vildi hún þakka stjórn félagsins kærlega fyrir frábært starf á þeim tveimur árum sem hún hefur stjórnað félaginu.  Bað hún stjórn félagsins að halda áfram á þeirri braut sem hún hefur verið Verkalýðsfélagi Akraness til heilla.

Að lokum var boðið uppá veitingar í boði félagsins 

27
Dec

Það er ekki hægt að bjóða íslensku verkafólki það lengur að það eitt og sér sé látið viðhalda stöðugleikanum í þessu landi!

Formaður Verkalýðsfélag Akraness fagnar innilega að Halldór Ásgrímsson  forsætisráðherra skuli hafa óskað eftir því við  formann Kjaradóms, að dómurinn endurskoði fyrri ákvörðun sína um laun þjóðkjörinna einstaklinga.  Vonandi verður kjaradómurinn við þeirri ósk.

Það er ekki hægt að bjóða íslensku verkafólki það lengur að það eitt og sér sé látið viðhalda stöðugleikanum í þessu landi. 

Kjarasamningurinn sem gerður var  fyrir verkafólk á  hinum almenna vinnumarkaði og undirritaður var 7. mars 2004 gaf almennu verkafólki 11,5% í beinar launahækkanir á samningstímanum og heildarkostnaðaráhrif samningsins var 15,8%.  Samningstíminn var til fjögurra ára.

Ekki þótti ráðlegt á sínum tíma að semja nema um hóflegar kostnaðarhækkanir að mati forsvarsmanna SGS.  Var það gert með von um að stöðugleiki myndi ríkja á samningstímanum.  Vonuðust aðilar einnig eftir að hóflegur kjarasamningur myndi tryggja almennu verkafólki kaupmáttaraukningu í stað kaupmáttarskerðingar.

Það var Starfsgreinasamband Íslands sem ruddi brautina með undirritun kjarasamnings 7. mars 2004.  Eitt af forsenduákvæðum samnings var,að sú launastefna og þær kostnaðarhækkanir sem í samningum fólust væru almennt stefnumarkandi fyrir aðra samningagerð á vinnumarkaðnum.

En hvað gerðist eftir að SGS undirritaði kjarasamninginn 7. mars 2004.  Jú allar aðrar starfsstéttir sömdu um mun hærri launahækkanir eða frá 19% og uppundir  35%.   Eins og áður hefur komið fram þá gaf kjarasamningurinn á almenna markaðinum 15,8%

Það er því sorglegt að sjá hvernig almennt verkafólk þarf enn og aftur að horfa uppá allar aðrar starfsstéttir í þessu þjóðfélagi fá langtum meira heldur en það sjálft.

Svo tala ráðamenn og margir aðrir um að laga þurfi kjör þeirra lægst launuðu, þvílík hræsni !

25
Dec

Launabreytingar 1. janúar 2006

Samkvæmt kjarasamningum sem Verkalýðsfélag Akraness er aðili að eiga lágmarks launahækkanir frá og með 1. janúar 2006 að verða sem hér segir:

Samningur SGS og SA á almennum markaði 2,5%.
Samningur SGS og ríkisins 2,5%,
Samningur SGS og launanefndar sveitarfélaganna 3,0%.
Samningur Samiðnar við SA v/iðnaðarmanna 2,5%.
Samningur Íslenska Járnblendið, Klafi og Fang 2,5%
Samningur við Norðurál 3,0%

Samningur Sjómanna við LÍÚ 3,5% 

Verkalýðsfélag Akraness vekur þó athygli á því að lágmarkskauptaxtar í kjarasamningi Samiðnar hækka meira, eða um 5%. Einnig er vakin athygli á því að röðun í launaflokka í kjarasamningi SGS og SA breytist frá og með 1. janúar 2006.


Kynnið ykkur þessar breytingar hjá félaginu og skoðið kjarasamningana. Þeir eru fáanlegir á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness.

24
Dec

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness óskar öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári

Verkalýðsfélag Akraness óskar félagsmönnum sínum sem og öllum landsmönnum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Einnig vill stjórn og starfsmenn félagsins þakka félagsmönnum fyrir frábært samstarf á árinu sem nú er senn á enda.

23
Dec

Áttu í erfiðleikum með lestur, skrift eða stærðfræði? - Kynningarfundur fyrir félagsmenn fljótlega á nýju ári.

Fyrirhugað er að halda kynningarfund fyrir félagsmenn um árangursríka aðferð til að takast á við lesblinduna. Notast er við aðferðafræði Ron Davis, sem sjálfur var mjög lesblindur en náði sjálfur miklum árangri með þessum aðferðum. Mörg þúsund manns um heim allan, hafa notað þessa aðferð með góðum árangri.

Erla S. Olgeirsdóttir og Ásta Valdís Guðmundsdóttir, Davis leiðbeinendur/ráðgjafar, munu á fundinum kynna þessar aðferðir og svara spurningum. Þær hafa báðar töluverða reynslu við að þjálfa lesblinda einstaklinga á öllum aldri.

Hægt er að bóka greiningarviðtal að fundi loknum. Í greiningarviðtölum er fundið út hvort Davis aðferðin henti einstaklingnum.

Nánari upplýsingar má fá hjá Erlu Olgeirsdóttur  eða Ástu Valdísi Guðmundsdóttur og einnig hjá formanni félagsins sími 865-1294 

Nánar auglýst síðar.

21
Dec

Breytingar verða hugsanlega gerðar á rekstri Fangs ehf.

Formaður félagsins sat fund með starfsmönnum Fangs ehf. sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins boðaði til.  Starfsmenn Fangs sjá um ræstingu, mötuneyti, þvott, og launaútreikninga fyrir Íslenska járnblendifélagið. 

Tilefni fundarins var að tilkynna starfsmönnum Fangs að Íslenska járnblendifélagið sem á Fang ehf. hefur í hyggju að gera einhverjar breytingar á rekstrinum, jafnvel eru hugmyndir um að selja Fang.

Verkalýðsfélag Akraness hefur nýverið gengið frá mjög góðum fyrirtækjasamningi við Fang ehf. sem hefur tryggt starfsmönnum afar góð launakjör, sem eru mun betri en gerast í sambærilegum störfum.  Því mun Verkalýðsfélag Akraness fylgjast mjög vel með framvindu þessa máls með hagsmuni starfsmanna Fangs að leiðarljósi. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image