• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Nov

Enn eru það lægst launuðu sem bera minnst úr býtum !

Forsendunefnd ASÍ og SA komust að samkomulagi í dag sem þýðir að ekki mun koma til uppsagnar á kjarasamningum um áramót.  Enn Verkalýðsfélag Akraness spyr sig hvaða leiðréttingu fengu þeir verkamenn sem taka laun eftir kjarasamningi á hinum almenn vinnumarkaði sem undirritaður var 7. mars 2004. ?  Jú eingreiðslu uppá 26.000 þúsund krónur og 0,65% launahækkun sem tekur gildi árið 2007, það  er jú allt og sumt.  Hverjar voru samningsforsendur kjarasamningsins frá 7. mars 2004

1. Að verðlag þróist í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.

2. Að sú launastefna og þær kostnaðarhækkanir sem í samningum felast verði almennt stefnumarkandi fyrir aðra samningagerð á vinnumarkaðnum.

Kostnaðaráhrif kjarasamningsins sem gerður var fyrir almenna markaðinn 7. mars 2004 var 15,8% á samningstímanum.  Allir aðrir hópar sem komu á eftir almenna markaðnum fengu mun meira.  Tökum dæmi kennarar sömdu um 30%.  Sveitafélagasamningurinn gaf um 22%, kjarasamningurinn við fjármálaráðherra fh ríkisjóðs gaf einnig um 25%.  Allir stóriðjusamningarnir gáfu yfir 20% á samningstímanum  Norðurál 24,5% Íslenska járnblendið 21% Ísal 21%.  Með öðrum orðum þá sömdu allar aðrar starfsstéttir um mikið meira heldur enn 15.8%  Engar fréttar hafa borist af því að forsendunefndin hafi tekið þennan lið samningsforsenda til endurskoðunar.  Því verður ekki trúað að nefndin hafi ekki gert mat á þessum þætti samningsforsendana með það að markmiði að leiðrétta þann launamun sem orðið hefur.  Verkafólk sem tekur sín laun eftir kjarasamningi á hinum almenna markaði hefur klárlega setið eftir. 

  Verkalýðsfélag Akraness taldi sig ekki fært að undirrita kjarasamninginn sem Starfsgreinasamband Íslands gerði við Samtök atvinnulífsins á sínum tíma vegna þess hversu rýr hann var og nú virðist ljóst að síðara endurskoðunarákvæðið er ekki skila leiðréttingu á milli samninga.

15
Nov

Góður fundur um öryggismál í stóriðjum var haldinn í gær !

Afar fróðlegur og gagnlegur félagsfundur um öryggis og heilbrigðismál í stóriðjum  var haldinn í gær í sal félagsins að Kirkjubraut 40.  Júlíus K Björnsson sálfræðingur fjallaði um vaktavinnu, svefn og heilsu og áhrif  óreglulegs vinnutíma á heilbrigði og lífsgæði.  Erindið frá Júlíusi var afar fróðlegt og gagnlegt og vöknuðu fjölmargar spurningar hjá fundarmönnum sem sálfræðingurinn svarði eftir bestu getu.  Hallveig Skúladóttir hjúkrunarfræðingur fór yfir gögn sem Reynir Þorsteinsson læknir hafði tekið saman um heilsufar í stóriðjum.  Í þessari samtekt frá Reyni kom t.b fram að meðalaldur í Íslenska járnblendinu er 44 ár og meðalstarfsalur 14 ár sem er mjög hátt.  Hjá Norðuráli er meðalaldur 39 ár og meðalstarfsaldur 4,5 ár en Norðurál byrjaði með sína starfsemi 1998.  Einnig kom fram í gögnum frá Reyni Þorsteinssyni að reykingar í Íslenska járnblendinu hefðu minkað um 20% frá árinu 1990 en þá reyktu um helmingur starfmanna.   Árið 2003 var sú tala komin niðrí 30% og hefur lækkað enn meira síðan þá.  Hjá Norðuráli hefur reykingarfólki fækkað alverulega og nú reykja aðeins 20% starfsmanna samkvæmt gögnum Reynis Þorsteinssonar.  Það kom fram í máli Hallveigar að læknar á heilsugæslustöðinni á Akranesi hafa stýrt starfsmannaheilsuvernd í Íj frá árinu 1981 og hjá Norðuráli frá árinu 2000. 

11
Nov

Fundur um heilbrigðismál og öryggismál í stóriðjum

Stóriðjudeild Verkalýðsfélags Akraness heldur fund á mánudaginn kemur um öryggismál og heilbrigðismál í stóriðjum.  Einnig kemur Júlíus K. Björnsson sálfræðingur og fjallar um vaktavinnu,svefn og heilsu og áhrif óreglulegs vinnutíma á heilbrigði og lífgæði.  Reynir Þorsteinsson yfirlæknir hefur tekið saman punkta um heilsufar starfsmanna sem starfa í stóriðjum á Vesturlandi, og mun Hallveig Skúladóttir hjúkrunarfræðingur fara yfir þessa samantekt frá Reyni Þorsteinssyni lækni.  Fundurinn hefst kl. 20:00 og er haldinn að Kirkjubraut 40 þriðju hæð.  Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

Verkalýðsfélag Akraness

 

Stóriðjudeild

 

FUNDUR

 

Stóriðjudeild Verkalýðsfélags Akraness heldur opinn fund mánudaginn 14. nóvember 2005 kl. 20:00 að Kirkjubraut 40, 3. hæð.

Dagskrá fundarins:

1.     Öryggis- og heilbrigðismál í stóriðjunum.  Öryggisfulltrúar frá Norðuráli, Íslenska járnblendifélaginu og Sementsverksmiðjunni gera grein fyrir öryggismálum í verksmiðjunum.

2.     Fulltrúi frá Heilsugæslustöðinni á Akranesi fjallar um heilbrigðismál í verksmiðjunum.

3.     Júlíus K. Björnsson sálfræðingur fjallar um vaktavinnu, svefn og heilsu – áhrif óreglulegs vinnutíma á heilbrigði og lífsgæði.

4.     Önnur mál.

Félagsmenn eru eindregið hvattir til að mæta – fundurinn er einnig opinn öllum starfsmönnum stóriðjanna.

09
Nov

Fundað um bónusmál starfsmanna Klafa á morgun

Formaður félagsins og trúnaðarmaður starfsmanna Klafa munu funda með forsvarsmönnum fyrirtækisins á morgun.  Tilefni fundarins er að fara yfir nýja bónuskerfið sem tekið var upp samhliða nýjum kjarasamningi sem undirritaður var í sumar.  Það eru atriði í bónusnum sem stéttarfélagið og trúnaðarmaður Klafa vilja fara yfir með forsvarsvarsmönnum fyrirtækisins.  Einnig vill stéttarfélagið ræða um  síðustu úttekt á þrifabónusnum.   En starfsmenn eru ekki á eitt sáttir við nokkur atriði sem leiddu til lækkunar á þrifabónusnum í síðustu úttekt, og fljótt á litið getur Verkalýðsfélag Akraness tekið undir þessa óánægju starfsmanna.     

08
Nov

Pólsku starfsmennirnir sem hingað komu til starfa á vegum starfsmannaleigunnar 2b hafa verið ráðnir í beint ráðningarsamband við Ístak !

Ístak hf. hefur fengið atvinnuleyfi fyrir pólverjana 14 sem starfað hafa án atvinnuleyfa á Grundartanga á vegum starfsmannaleigunnar 2B.  Vinnumálastofnun samþykkti atvinnuleyfin frá sér dag.  Því er það orðið ljóst að pólverjarnir 14 eru ekki lengur að starfa hér á landi á vegum starfsmannaleigunnar 2b.  Ístak og Verkalýðsfélag Akraness hafa í sameiningu unnið að því finna farsæla lausn á málefnum pólsku starfsmannanna og hefur það nú loksins tekist.  Þessi leið sem nú er farinn er sú sama og þegar Verkalýðsfélag Akraness leysti mál pólverjanna 5 sem starfa hjá Spútnik bátum á Akranesi.  Verkalýðsfélag Akraness fagnar innilega því að farsæl lausn hefur fundist á þessari deilu og ljóst að sú mikla óvissa sem pólsku starfsmennirnir hafa búið við að undanförnu hefur verið eytt með þessu samkomulagi.  Einnig er það mat félagsins að hagsmunum og starfsöryggi pólsku starfsmannanna séu mun betur tryggðir nú eftir að þeir urðu launþegar hjá Ístaki.  Eins og marg oft hefur komið fram kærði Verkalýðsfélag Akraness og Félag iðn og tæknigreina meint lögbrot starfsmannaleigunnar 2B til Sýslumannsins í Borgarnesi, nú hafa félögin hins vegar ákveðið að falla frá kærunni þar sem farsæl lausn er komin í málinu. 

05
Nov

Verkalýðsfélögin og Norðurál ætla að kanna hvort þeir verktakar sem vinna að stækkun Norðuráls séu ekki að fara eftir lögum og reglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði !

Eins og fram hefur komið á heimasíðu félagsins þá óskuðu forsvarsmenn Norðuráls eftir að funda með Verkalýðsfélagi Akraness og öðrum félögum sem eiga aðild að kjarasamningi Norðuráls.  Forsvarsmenn Norðuráls vildu upplýsa stéttarfélögin um að fyrirtækið krefjist þess að verktakar sem vinni að stækkun álversins fylgi í einu og öllu lögum og reglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði, enda komi þessi krafa skýrt fram í samningum Norðuráls við verktaka sína. Á fundinum kom fram að Norðurál líti það mjög alvarlegum augum ef þeir verktakar sem vinna við stækkun álversins fylgi ekki þessum samningum. Norðurál gaf jafnframt út þá yfirlýsingu að þeir muni, að gefnu tilefni, afla frekari gagna hjá verktökum sínum um þá erlendu starfsmenn sem vinni að stækkun álversins. Formenn stéttarfélaganna og forsvarsmenn Norðuráls munu funda aftur fljótlega til að fara betur yfir málin. 

Verkalýðsfélag Akraness vill taka ofan af fyrir forsvarsmönnum Norðuráls í þessu máli og skorar á aðra vinnuveitendur að taka þá sér til fyrirmyndar í þessu efni.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image