• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
06
Feb

Opinn kynningarfundur um lesblindu verður haldinn miðvikudaginn 8. febrúar

Opinn kynningarfundur um lesblindu verður haldinn miðvikudaginn 8. febrúar kl. 20:00.  Fundurinn verður haldinn að Kirkjubraut 40 3. hæð.  Fundur er öllum opinn og skorar stjórn Verkalýðsfélagsins Akraness á sem flesta að mæta og kynna sér hvaða úrræði eru í boði.  Það eru Davis ráðgjafarnir Erla S. Olgeirsdóttir og Ásta Valdís Guðmundsdóttir sem munu kynna aðferðir til að takast á við lesblindu og einnig munu þær svara spurningum frá fundarmönnum.   

 

Verkalýðsfélag Akraness auglýsir kynningarfund

Áttu í erfiðleikum með lestur, skrift eða stærðfræði?

 

Opinn kynningarfundur um árangursríka aðferð til

að takast á viðlesblindu

verður haldinn

Miðvikudaginn 8. febrúar kl. 20 í sal félagsins að Kirkjubraut 40.

 

Erla S. Olgeirsdóttir og Ásta Valdís Guðmundsdóttir, Davis ráðgjafar, munu á fundinum kynna þessar aðferðir og svara spurningum. Þær hafa báðar töluverða reynslu við að þjálfa lesblinda einstaklinga á öllum aldri.

Hægt er að bóka greiningarviðtal að fundi loknum.

Í greiningarviðtölum er fundið út hvort Davis aðferðin henti einstaklingnum.

02
Feb

Bæjarráð Akraneskaupstaðar ætlar að nýta sér heimild Launanefndar sveitafélaganna til að hækka laun þeirra lægst launuðu til fullnustu

Rétt í þessu var að ljúka fundi sem formaður félagsins átti með bæjarráði Akraneskaupstaðar.  En eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá var Verkalýðsfélag Akraness búið að gera kröfu um að launakjör starfsmanna Akraneskaupstaðar yrðu samræmd kjarasamningi sem Efling gerði við Reykjavíkurborg.  Á fundinum rétt áðan var bæjarráð að svara kröfu félagsins.  Það er skemmst frá því að segja að bæjarráð ætlar að nýta sér heimild launanefndar sveitarfélagana til fullnustu.  Sem þýðir að launakjör þeirra sem lægstu hafa launin hækka um allt að 12%.  Verkalýðsfélag Akraness fagnar innilega þessari niðurstöðu hjá bæjarráði.  

Nú verður að beita miklum þrýstingi á Samtök atvinnulífsins og ríkið um að hækka laun þeirra sem lægstu hafa launin á almenna markaðinum og hjá ríkinu.  Sú hækkun verður að vera með sambærilegum hætti og sveitafélögin eru að gera þessa stundina.   Þeir sem eru á lægstu töxtunum og starfa á hinum almenna vinnumarkaði eru að fá allt að 20% minni launahækkanir á samningstímanum heldur en þeir sem starfa hjá sveitarfélögunum og voru að fá lagfæringu á sínum launum. 

Við það getur verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði alls ekki sætt sig við.  Núna verður verkalýðshreyfingin að knýja Samtök atvinnulífsins og ríkið til að lagfæra launakjör þeirra sem allra lægstu launin hafa og það með öllum tiltækum ráðum sem til eru.

02
Feb

Formaður félagsins hefur verið boðaður á fund bæjarráðs

Formaður félagsins hefur verið boðaður á fund hjá bæjarráði í dag kl. 16:45.  Tilefni fundarins er væntanlega ósk félagsins um að kjör félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness sem starfa hjá Akraneskaupstað verði samræmd við kjör starfsmanna Reykjavíkurborgar.  Eins og flestir vita þá hefur launanefnd sveitarfélaga gefið heimild fyrir því að kjör þeirra sem hafa lægstu launin verði hækkuð um allt að 12%.  Fróðlegt verður að heyra hvað bæjarráð Akraneskaupstaðar hefur um málið að segja og hvernig þeir ætla að bregðast við heimild launanefndarinnar

31
Jan

Nefnd skipuð til að fara yfir einstaka þætti í bónuskerfi starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins

Í gær var haldinn fundur vegna bónuskerfis starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins.  En nýtt bónuskerfi var tekið upp samhliða nýjum kjarasamningi á síðastliðnu ári.  Nokkur vonbrigði hafa verið með hið nýja bónuskerfi og hefur bónusinn alls ekki verið að skila þeim ávinningi sem samningsaðilar vonuðust til.

Reiknað var með að í janúar 2006 væri bónuskerfið  farið að gefa um 80% af því sem bónusinn getur gefið, en hámarkið er 7%.  Því miður hefur það ekki gengið eftir. 

Þeir sem sátu þennan fund í gær voru Ingimundur Birnir forstjóri, aðaltrúnaðarmaður, trúnaðartengiliðir, og formaður Verkalýðsfélags Akraness. 

Ákveðið var að skipa nefnd sem verður skipuð að stæðustum hluta af starfsmönnum og verður hlutverk  nefndarinnar að skoða hvað veldur því að bónuskerfið er ekki að virka sem skildi.

Því er ei að neita að Verkalýðsfélag Akraness hefur vissar áhyggjur af því að mælistikurnar í einum þættum í nýtingarbónusnum séu einfaldlega of háar og meðan svo sé mun sá þáttur ekki skila þeim ávinningi til starfsmanna eins og reiknað var með.  Væntanlega mun nefndin skoða það mál alveg sérstaklega.  Áætlað er að nefndin skili niðurstöðum fyrir febrúarlok.

30
Jan

Ætla Samtök atvinnulífsins virkilega ekki að fylgja fordæmi launanefndar sveitafélaga og hækka lægstu launin?

Launanefnd sveitarfélaga hefur gefið sveitarfélögunum heimild  um að hækka laun þeirra sem lægstu hafa launin.  Hér er verið að tala um allt að 12% hækkun fyrir umrædda hópa. 

Verkalýðsfélag Akraness fagnar innilega þessari ákvörðun launanefndarinnar og margir telja að nú sé að verða þjóðarsátt um að hækka laun þeirra sem hvað lægstu launin hafa.

Nei því miður virðist alls ekki vera svo ef marka má viðbrögð Hannesar G Sigurðssonar aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins í fjölmiðlum í dag.  En þar segir hann að það sé ekkert tilefni til að endurskoða kjarasamninga á almenna markaðinum með sambærilegum hætti og launanefnd sveitarfélaga gerði.

Verkalýðsfélag Akraness hefur verið að benda á undanförnum vikum hvernig verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði fór skelfilega illa útúr sínum kjarasamningi og fékk langtum minna   úr sínum samningi heldur en allir aðrir hópar.

Skoðum muninn á milli kjarasamningsins á almenna vinnumarkaðnum og kjarasamningum sem gerður var við sveitafélögin.  En hér er um töluverðan mun að ræða

Kostnaðarmat á kjarasamningum sem Starfsgreinasambandið gerði við launanefnd sveitarfélagana var 24% á samningstímanum og nú hefur verið bætt í samning fyrir þá lægst launuðu sem nemur allt að 12%. 

Kjarasamningurinn sem Starfsgreinasambandið gerði við  Samtök atvinnulífsins og gildir fyrir verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði gaf einungis 15,8%

Með öðrum orðum þá er ófaglært verkafólk sem er á lægstu töxtunum og starfar hjá sveitarfélögunum að fá 20% hærri kauphækkanir á samningstímanum heldur en verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði.

Tökum eitt dæmi um þau skelfilegu kjör sem fiskvinnslufólk býr við.  Sérhæfður fiskvinnslumaður sem er með 7 ára starfsreynslu hjá sama atvinnurekanda fær í grunlaun 117.653 á mánuði.  Það eru þessu láglaunastörf á almenna vinnumarkaðinum sem verður að lagfæra með sambærilegum hætti og launanefnd sveitarfélaga er að gera hjá sveitarfélögunum.  Verkalýðshreyfingin getur alls ekki sætt sig við neitt annað.

28
Jan

Aðalfundum deildanna er lokið

Aðalfundur almennu deildar var haldinn í gær og var stjórn deildarinnar endurkjörin.  Formaður félagsins fór yfir starfsemina hjá félaginu með sama hætti og hann hafði gert á aðalfundum hina deildanna.  Þar með hafa allar deildirnar haldið sína aðalfundi eins og lög  félagsins kveða á um.  Engin breyting var á stjórnum deildanna nema hjá iðnsveinadeildinni þar var einn breyting Arnar Erlingsson fór út úr stjórninni og inn kom Guðni Ragnarsson.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image