• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
16
Dec

Fréttabréfið kemur út eftir helgi

Fréttabréf Verkalýðsfélags Akraness kemur út á mánudaginn nk.  Blaðinu verður dreift í öll hús á Akranesi og nágreni. 

Í blaðinu eru fjölmargar fréttir og ýmsar upplýsingar um starfssemi félagsins sem gagnast geta okkar félagsmönnum.  Hægt verður að nálgast fréttabréfið hér á heimasíðunni fljótlega eftir helgi.

Það var núverandi stjórn sem tók ákvörðun um að gefa út tvö vegleg fréttabréf á ári, en það hafði ekki þekkst áður hjá Verkalýðsfélagi Akraness. 

15
Dec

Flestir starfsmenn Geca hf. hafa fengið nýja atvinnu

Það er afar ánægjulegt að geta sagt frá því að fjórir af þeim sex félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness sem misstu vinnu við gjaldþrot Geca hf. hafa fengið nýja vinnu eða vilyrði um nýtt starf.

Verkalýðsfélags Akraness hefur verið sínum félagsmönnum innan handar við að fylla út atvinnuumsóknir og fleira í þeim dúr.  Vonandi greiðist úr málum hina tveggja sem ekki hafa fengið vinnu mjög  fljótlega.

Að lenda í því að missa atvinnuna við þessar aðstæður og það  í sjálfum jólamánuðunum er afar erfitt og skilja bara þeir sem í því lenda.  Því er afar mikilvægt að stéttarfélögin reyni eins og kostur er að koma félagsmönnum sínum til hjálpar eins og hægt er.

14
Dec

Landsbankinn á Akranesi verður viðskiptabanki Verkalýðsfélags Akraness

Verkalýðsfélag Akraness hefur gert viðskiptasamning við Landsbankann á Akranesi til næstu þriggja ára. Samningurinn felur í sér að öll bankaviðskipti Verkalýðsfélagsins verða færð til Landsbankans.

Ákveðið var að leita tilboða í viðskipti félagsins hjá öllum bönkum á Akranesi, þar sem samningurinn við KB Banka rennur út um næstu áramót.

Samningar náðust við Landsbankann sem lagði fram virkilega hagstætt tilboð og eru bæði stjórnendur Verkalýðsfélagsins og bankans mjög ánægðir með samkomulagið.

Starfsfólk Landsbankans á Akranesi mun leitast við að þjónusta Verkalýðsfélagið og félagsmenn sjálfa sem allra best, ásamt því að bjóða félagsmönnum ávallt bestu mögulegu kjör í bankaviðskipti þeirra.

Landsbankinn mun hafa samband við félagsmenn á nýju ári og bjóða hverjum og einum að koma á fund hjá ráðgjafa þar sem farið verður yfir kjör, veitt ráðgjöf og svarað þeim spurningum sem kunna að brenna á vörum félagsmanna varðandi fjármál.

Starfsfólk Landsbankans á Akranesi hlakkar til að takast á við það verkefni að vera viðskiptabanki Verkalýðsfélags Akraness og vonar að samstarfið eigi eftir að vera ánægjulegt og árangursríkt.

13
Dec

Afar gagnlegur fundur var haldinn í morgun um málefni erlends vinnuafls á Akranesi

Í morgun var haldinn fundur um málefni erlends vinnuafls á Akranesi.  Þetta er í annað sinn sem þessir sömu aðilar koma saman til að funda um erlent vinnuafl. 

Á fyrri fundinum var ákveðið að koma á fót     samstarfvettvangi með það að markmiði að reyna átta sig á hversu margir erlendir starfsmenn eru að störfum á Akranesi og til að reyna að tryggja að þeir atvinnurekendur sem hafa erlenda starfsmenn fari eftir þeim leikreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði .  Þeir aðilar sem koma sameignlega að þessum verkefni eru Guðmundur Páll Jónsson bæjarstjóri, Jón Pálmi Jónsson bæjarritari,  Ólafur Þ. Hauksson sýslumaður á Akranesi, Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness, Stefán Skjaldarson skattstjóri Vesturlandsumdæmis Tryggvi Bjarnason lögfræðingur Skattstofu Vesturlandsumdæmis og Jón S Ólafsson lögreglustjóri

Fundurinn í dag var afar gagnlegur og  ljóst er að allir þeir aðilar sem sátu fundinn í dag eru að skoða málefni erlends vinnuafls, hver á sínu sviði.

Það er einnig alveg ljóst að samstarfsvettvangur þessara fjögurra aðila mun klárlega gagnast í baráttunni við þá atvinnurekendur sem ekki fara eftir þeim lögum og reglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði hvað varðar erlent vinnuafl.  Ákveðið var að funda aftur fljótlega eftir áramót.

12
Dec

Bæjarstjórinn á Akranesi boðar til fundar um erlent vinnuafl

Bæjarstjóri Akraneskaupstaðar hefur boðað formann Verkalýðsfélags Akraness, sýslumanninn á Akranesi og skattstjóra Vesturlands til fundar.

Tilefni fundarins er að fara yfir málefni erlends vinnuafls  með það að markmiði  að reyna að fá einhverja heildaryfirsýn yfir hversu margir erlendir starfsmenn eru að störfum hér á Akranesi. 

Einnig mun Verkalýðsfélag Akraness upplýsa skattayfirvöld og sýslumanninn  um þá vinnustaði þar sem erlendir starfsmenn eru að störfum. 

Þetta samráðsverkefni bæjarstjórans á Akranesi er til mikillar fyrirmyndar og sýnir í verki að bæjaryfirvöld á Akranesi vilja taka á þeim vandamálum sem fylgt hafa komu erlends vinnuafls til starfa hér á Akranesi.

09
Dec

Fundað með starfsmönnum Geca hf.

Formaður félagsins hefur fundað stíft með starfsmönnum Geca hf. vegna gjaldþrots fyrirtækisins.  Félagið vinnur að því að fá launaseðla og önnur gögn þannig að hægt sé að gera kröfu í þrotabúið vegna vangreiddra launa.  Starfsmennirnir fengu ekki laun sín nú um mánaðarmótin eins þeir áttu rétt á.   Einnig hefur ekki  verið borgað inná orlofsreikninga mannanna eins og kjarasamningar kveða á um.   Það er mjög erfitt að horfa uppá sína félagsmenn missa vinnu sína við þessar aðstæður og þá óvissu sem fylgir í kjölfarið.   Verkalýðsfélag Akraness hefur verið að vinna að, í samvinnu við Svæðisvinnumiðlun að útvega mönnunum aðra vinnu og lítur það bara nokkuð vel út þessa stundina. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image