• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
18
Jan

Unnið að breytingum á reglugerð sjúkrasjóðsins

Stjórn sjúkrasjóðs fundaði í kvöld nokkur erindi lágu fyrir fundinum.  Stjórnin ákvað að hefja undirbúning að breytingum á reglugerð sjúkrasjóðsins sem lagðar verða fyrir aðalfund félagsins sem haldinn verður um miðjan apríl. 

Markamiðið með þessum breytingum er að auka enn frekar þá þjónustu sem sjóðurinn er að veita félagsmönnum.  T.b stendur til að auka umtalsvert sjúkradagpeninga til félagsmanna í veikindum eftir að greiðsluskyldu atvinnurekanda líkur.

En hugmyndir eru um að sjúkradagpeningar geti numið allt að 80% af launum félagsmannsins eftir að veikindarétti hjá atvinnurekanda ljúki.  Ef þessi breyting á sjúkradagpeningum verður að veruleika mun það þýða algjörlega byltingu fyrir okkar félagsmenn sem verða fyrir því óláni að veikjast í lengri tíma en veikindaréttur starfsmannsins segir til um. 

17
Jan

Formaður félagsins fór í vinnustaðaheimsóknir í dag

Formaður félagsins fór og heimsótti nokkur fyrirtæki í dag í þeim tilgangi að heyra hvað brennur á félagsmönnum þessa daganna.

Einnig eru þessar vinnustaðaheimsóknir hugsaðar til þessa að fá tillögur frá félagsmönnum hvað megi bæta í þjónustu félagsins.

Það er afar ánægjulegt fyrir stjórn og starfsmenn félagsins að þeir félagsmenn sem formaður ræddi við í dag eru nokkuð ánægðir með þá þjónustu sem félagið er að veita í dag.

Stjórn félagsins leggur mikla áherslu á að vera í nánu og góðu sambandi við sína félagsmenn og eru þessar heimsóknir einn liður í því.

Stjórn félagsins er einnig alltaf að leita leiða til að auka þjónustuna enn frekar og ef þið félagsmenn eruð með einhverjar snjallar hugmyndir í þá veru endilega hafið samband við skrifstofu félagsins.

16
Jan

Hið nýja bónuskerfi starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins virkar ekki sem skildi

Í síðasta kjarasamningi Íslenska járnblendifélagsins var samið um nýtt bónuskerfi sem samningsaðilar voru sammála um að ætti að geta veitt báðum aðilum töluverðan ávinning. Því miður hefur sá ávinningur látið á sér standa.

Verkalýðsfélag Akraness hefur óskað eftir fundi með forsvarsmönnum Íj um þetta mál og stendur núna til að sá fundur gæti orðið 26. janúar. 

Formaður félagsins hefur verið í sambandi við trúnaðartengiliði Íslenska járnblendifélagsins vegna þessa máls.

Verkalýðsfélag Akraness vill fara yfir alla þætti í hinu nýja  bónuskerfi og reyna að finna hvað veldur því að sumir liðir í bónuskerfinu virka ekki sem skildi.

Það er verulegt hagsmunamál  bæði fyrir eigendur Íj sem og starfsmenn Íj að finna hvað veldur því að bónuskerfið er ekki að skila þeim ávinningi sem aðilar voru sammála um að það ætti að geta skilað.

13
Jan

Verulegur launamunur á milli starfsmanna Reykjavíkurborgar og starfsmanna Akraneskaupstaðar fyrir sambærileg störf !

Verkalýðsfélag Akraness hefur haldið áfram að bera saman kjör starfsmanna Reykjavíkurborgar sem vinna eftir nýgerðum  kjarasamningi Eflingar og starfsmanna Akraneskaupstaðar en þeir vinna eftir kjarasamningi Launanefndar sveitafélaga.

Það er verulega sláandi þegar rýnt er í samanburð á launatöxtum þessara tveggja sveitafélaga, en í þessum samanburði er um að ræða mjög sambærileg störf.  Hér á heimsíðunni var bent á launamun almennra verkamanna og skólaliða og var launamunurinn hjá verkamönnum 9.2% og skólaliðum 12.5%

Verkalýðsfélag Akraness hefur nú borið saman launamun þeirra starfsmanna sem starfa við heimaþjónustu, flokkstjórn við bæjarframkvæmdir, Matráð (yfirmaður) og ræstingu.  Launamunurinn milli starfsmanna Akraneskaupstaðar og Reykjavíkurborgar fyrir áðurnefnd störf er eftirfarandi:

Heimaþjónusta I Rvk. 136.599 Akrn 109.355 mism 24.9%

Heimaþjónusta II Rvk. 147.177 Akrn 130.748 mism 12.5%

Heimaþjónusta III Rvk. 156.208 Akrn 134.700 mism 16%

Verkamaður(flokkstjóri) Rvk 163.344 Akrn 128.816 mism 26%

Matráður(yfirmaður) Rvk 163.344 Akrn 151.738 mism 7.6%

Aðstoðarmaður í eldhúsi Rvk 119.485 Akrn 107.740 mism 11%

Ræsting Rvk 117.720 Akrn 107.740 mism 9.2 %

Eins og sést á þessari samantekt á launkjörum starfmanna Akraneskaupstaðar og Reykjavíkurborgar er verulegur launamunur sem Verkalýðsfélag Akraness á verulega erfitt með að sætta sig við og vart hægt að láta átölulaust.

Félagið bíður eftir viðbrögðum bæjarráðs vegna bréfs sem félagið sendi inn þar sem óskað var eftir viðbrögðum bæjaryfirvalda á þeim mikla launamun sem orðin er á milli Reykjavíkurborgar og Akraneskaupstaðar.  Erindi félagsins var tekið fyrir á bæjarráðsfundi í gær. 

Formaður Eflingar Sigurður Bessason hefur hælt Steinunni Valdísi borgarstjóra í hástert  fyrir það að hækka laun þeirra sem hafa lægstu launin og undir það tekur formaður Verkalýðsfélags Akraness.  Mættu önnur sveitafélög fara að fordæmi Reykjavíkurborgar, hvað það varðar.

11
Jan

Formaður félagsins fór í hefðbundna eftirlitsferð um stækkunarsvæði Norðuráls í morgun

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fór í hefðbundna eftirlitsferð inn á stækkunarsvæði Norðuráls í morgun.  Eftirlitið lítur m.a að aðbúnaði og kjörum erlendra starfsmanna sem starfa við stækkun Norðuráls.   

Það sem kannað var í morgun lítur að hóp erlendra starfsmanna sem koma frá Slóvakíu og munu vinna við niðursetningu á ofnum í Skautsmiðjunni. 

Formaður félagsins fékk allar þær upplýsingar sem óskað var eftir hjá verktakanum sem sér um verkið og er það afar ánægjulegt þegar verktakar eru jafn samvinnufúsir eins reyndist í morgun.  En ekkert bendir til annars en aðbúnaður og kjör Slóvakana séu í samræmi við íslenska kjarasamninga.

Eigendur Norðuráls funduðu með Verkalýðsfélagi Akraness fyrir jól um málefni erlends vinnuafls á stækkunarsvæði Norðuráls.  Það kom skýrt fram hjá forsvarsmönnum Norðuráls á þeim fundi að ekki yrði liðið að verkatakar myndu hunsa þær leikreglur sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. 

Þessi afstaða eiganda Norðuráls hefur gert það að verkum að verktakar sem vinna við stækkun Norðuráls reyna eftir fremsta megni að hafa hlutina í lagi.  Það er allavega mat formanns félagsins eftir eftirlitsferðina í morgun.

09
Jan

Verkalýðsfélag Akraness hefur óskað eftir fundi með bæjarráði

Verkalýðsfélag Akraness hefur sent bæjarráði Akranesskaupstaðar bréf þar sem óskað er eftir fundi.  Í bréfinu er óskað eftir viðbrögðum bæjarráðs vegna nýgerðs kjarasamnings Eflingar við Reykjavíkurborg. 

Kjarasamningurinn sem Efling undirritaði 4. des felur í sér mun hagstæðari tengingu við  við launatöflu fyrir starfsmenn borgarinnar en samningur sem Starfsgreinasamband Íslands gerði 29. maí við Launanefnd sveitarfélag gagnvart starfsmönnum annarra sveitarfélaga.

Verkalýðsfélag Akraness fagnar þeirri stefnu sem Reykjavíkurborg hefur tekið í að bæta kjör þeirra sem lægstu hafa launin.  Vonandi munu önnur sveitarfélög fylgja að fordæmi Reykjavíkurborgar og lagfæra kjör þeirra sem lægstu hafa launin.

Hér eru tvö dæmi um hvernig kjörin eru mismunandi eftir því hvort starfsmenn vinna eftir kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga eða kjarasamningi Reykjavíkurborgar en um mjög sambærileg störf er um að ræða:

Almennur verkamaður hjá Reykjavíkurborg er með í byrjunarlaun 123.097 hjá Akraneskaupstað 112.661 mismunur 10.436 þúsund eða 9.2%

Skólaliði hjá Reykjavíkurborg er með í byrjunarlaun 134.599

hjá Akraneskaupstað eru byrjunarlaunin 119.575 mismunur 15.024 þúsund á mánuði eða 12.5%

Verkalýðsfélag Akraness gerir ráð fyrir, að það geti ekki verið vilji forsvarsmanna Akraneskaupstaðar að starfsmenn kaupstaðarins, hafi allt önnur og lakari launakjör en starfsmenn Reykjavíkurborgar sem sinna sambærilegum störfum.  Á þeirri forsendu er óskað eftir fundi með bæjarráði, til að ræða hvernig brugðist skuli við þessari stöðu sem upp er komin. Félagið telur að verði tenging starfsmats við launatöflu og símenntunarflokka ekki samræmd milli þessara hópa, þá hafi öll vinnan við starfsmatið verið til einskis unnin.

Hægt er að lesa bréfið til bæjarráðs með því að smella á meira.

Bæjarráð Akraneskaupstaðar

Stillholti

300 Akranes                                                                           Akranesi 9. janúar 2005

 

Efni: Viðbrögð við nýgerðum kjarasamningi Eflingar og Reykjavíkurborgar

Efling Stéttarfélag og Reykjavíkurborg undirrituðu kjarasamning 4. desember sl., sem færir þeim hópum starfsmanna borgarinnar sem hafa haft hvað lökust kjör, verulegar launahækkanir. Þessu ber að fagna og jafnframt því að með þessum samningi eru lagfærð laun þeirra sem starfa við umönnun barna og aldraðra. Oftast eru það konur sem þessum störfum sinna og löngu orðið tímabært að meta þeirra störf að verðleikum.

Starfsgreinasamband Íslands og Launanefnd sveitarfélaga undirrituð kjarasamning 29. maí sl. sem byggður er á sama starfsmatskerfi og samningur Eflingar og Reykjavíkurborgar og hefur mikil vinna verið lögð í að koma því kerfi á. Tilgangurinn hefur verið m.a. að þróa aðferðir til að greiða sömu laun fyrir jafn verðmæt störf, óháð kyni eða því hjá hvaða sveitarfélagi þau væru unnin. Við þessa vinnu hefur verið mjög gott samstarf milli aðila, bæði mismunandi stéttarfélaga, þ.e. ASÍ og BSRB félaga og launanefndar.

Kjarasamningurinn sem undirritaður var 4. des. felur í sér mun hagstæðari tengingu við  við launatöflu fyrir starfsmenn borgarinnar en samningurinn frá 29. maí gera gagnvart starfsmönnum annarra sveitarfélaga.

Verkalýðsfélag Akraness gerir ráð fyrir, að það geti ekki verið vilji forsvarsmanna Akraneskaupstaðar að starfsmenn kaupstaðarins, hafi allt önnur og lakari launakjör en starfsmenn Reykjavíkurborgar sem sinna sambærilegum störfum. Hér með er óskað eftir fundi með bæjarráði, til að ræða hvernig brugðist skuli við þessari stöðu sem upp er komin. Félagið telur að verði tenging starfsmats við launatöflu og símenntunarflokka ekki samræmd milli þessara hópa, þá hafi öll vinnan við starfsmatið verið til einskis unnin.

Einnig þarf að ræða um sérákvæði sem félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness voru með í sínum kjarasamningi og lítur að sumaruppbót og fermetragjaldi í flatarmældri ákvæðisvinnu.  En ekki var tekið tillit til þessara sérákvæða þegar gengið var frá nýjum kjarasamningi við Launanefnd sveitarfélaga 29. maí 2005

Virðingarfyllst,

Vilhjálmur Birgisson

formaður

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image