• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Jan

Síðasti aðalfundur deildanna verður haldinn á morgun

kvöld var haldinn aðalfundur stóriðjudeildar.  Í gær var það Iðnsveinadeildin sem hélt sinn aðalfund.  Einn breyting varð á stjórn Iðnsveinadeildar Arnar Þór Erlingsson hætti og í hans stað kom Guðni Ragnarsson en hann er trúnaðarmaður hjá Smellinn.  Á báðum þessum aðalfundum fór formaður félagsins yfir  helstu atriði í starfsemi félagsins frá síðasta ári.  Einnig var mikið rædd um þá þróun sem er að eiga sér stað hjá HB Granda og þeirri fækkun á störfum sem átt hefur sér stað hjá fyrirtækinu á liðnu ári.  Á morgun verður haldinn aðalfundur almennu deildar og er það síðasti aðalfundur deildanna.  Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá er það í lögum félagsins að aðalfundir deildanna skulu haldnir fyrir janúarlok og eftir því fer stjórn félagsins í hvívetna

25
Jan

Frá því að Haraldur Böðvarsson & co sameinaðist Granda hf hafa tapast hér á Akranesi á milli 55 og 65 störf á einu ári

Verkalýðsfélag Akraness hefur verið að skoða á undanförnum dögum hvernig sameining Haraldar Böðvarssonar við Granda hefur komið út fyrir samfélagið hér á Akranesi.

Það er skemmst frá því að segja að það er skelfilegt að sjá hvernig Akurnesingar hafa farið út úr þessari sameiningu.   

Í lok árs 2004 eða rétt fyrir sameiningu voru 125 starfsmenn sem störfuðu við landvinnslu hjá HB Granda á Akranesi.  Í dag eru 80 starfsmenn sem starfa við landvinnsluna, sem er fækkun uppá 45 starfsmenn eða 31% á rétt rúmu ári.   Hafa skal það í huga að hér er bara verið að tala um landvinnslufólk. 

Sjómönnum hér á Akranesi hefur einnig fækkað vegna þessarar sameiningar.  Það voru 85 sjómenn sem voru í Verkalýðsfélagi Akraness og störfuðu hjá Haraldi Böðvarssyni fyrir sameiningu.  Í  dag eru 77 sjómenn og hefur  fækkað um 8 skipverja. 

Síðan verður einnig að hafa í huga að 11 skipverjum á aflaskipinu Víkingi Ak 100 hefur nýverið verið sagt upp störfum.  Þegar búið verður að leggja Víkingi Ak þá hafa 19 sjómenn misst vinnuna hjá HB Granda frá sameiningu eða 22%

Rétt er að það komi fram að forsvarsmenn HB Granda leggja áherslu á að skipverjar á Víkingi Ak fá pláss á öðrum skipum hjá útgerðinni.  En ekkert er fast í hendi hvað það varðar.

Stöðugildum á skrifstofu félagsins hefur einnig fækkað eða sem nemur 4 stöðugildum.  Þar á meðal er störf þeirra bræðra Sturlaugs og Haraldar.

Þetta eru blákaldar staðreyndir um þá þróun sem átt hefur sér stað eftir að fyrirtækin sameinuðust.

Vissulega má segja að hluti af þessum samdrætti hér á Akranesi sé vegna aflasamdráttur og hagræðingar innan fyrirtækisins.  En klárlega skýrir það ekki allan þennan samdrátt sem orðin er hér á Akranesi. 

Það sem Verkalýðsfélag Akraness vill sjá er sanngirni á milli þeirra starfstöðva sem eru í eigu HB Granda.  En það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að við Akurnesingar höfum verið niðurlægðir í þessari sameiningu.

 Það verður ekki með tárum tekið hvernig samfélagið á Akranesi hefur farið út úr þessari sameiningu.  En fyrirtækið Haraldur Böðvarsson & co hefði orðið 100 ára 17. nóvember 2006

Nú verða allir að leggjast á eitt og reyna að koma í veg fyrir að fjöregg okkar skagamanna blæði endanlega út.  Við verðum að verja þann nýtingarrétt sem HB fjölskyldan og við skagamenn höfum áunnið okkur inn á síðustu 100 árum.  Við getum ekki horft aðgerðalaus á nýtingaréttin og einnig störfin okkar hverfa héðan í burtu eins og ekkert sé.  Gerum eitthvað !

Verkalýðsfélag Akraness er einnig að skoða svarið sem sjávarútvegsráðherra gerði við fyrirspurn Magnúsar þ Hafsteinssonar um landaðan afla hér á Akranesi.  Í því svari sést nokkuð vel hvernig fjarað hefur undan okkur hér á Akranesi hvað varðar þessa sameiningu.  En verulegur samdráttur er á lönduðum afla hér á Akranesi eftir að fyrirtækin sameinuðust.

Sem dæmi má nefna að 37.824 þús tonn var landað í bræðslu hér á Akranesi af Kolmuna á árinu 2004.  Árið 2005 var ekki einu kílói landað hér á skaganum.  Öllum kolmuna var landað á Vopnafirði eða öðrum höfnum fyrir austan.  Nánar verður fjallað um svar sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Magnúsar hér á heimasíðunni fljótlega.

24
Jan

Aðalfundir deildanna byrjaðir á fullu

Aðalfundur Opinberrar deildar var haldinn í gærkveldi.  Nokkuð góð mæting var á fundinn enda eru starfsmenn sjúkrahúss Akraness einstaklega duglegir að mætta á fundi sem tengjast þeirra vinnustað.  Formaður félagsins fór yfir það sem gerst hefur í deildinni á liðnu ári.  Fór formaðurinn einnig yfir það helsta sem gerst hefur í starfsemi félagsins frá síðasta aðalfundi deildarinnar og var þar af nógu að taka.  Í kvöld verður aðalfundur Matvæladeildarinnar og hefst hann kl. 20.00 að Sunnubraut 13

24
Jan

Agnar Jónsson fyrrverandi formaður Verkalýðsfélags Akraness lést föstudaginn 20. janúar

Agnar Jónsson fyrrverandi formaður og heiðursfélagi Verkalýðsfélags Akraness lést föstudaginn 20. janúar s.l   Agnar gegndi formennsku í Verkalýðsfélagi Akraness á árunum 1981 til 1985.  Agnar Jónsson var gerður að heiðursfélaga árið 2004.  Stjórn félagsins vill þakka Agnari Jónssyni kærlega fyrir hans framlag í þágu félagsins.  Stjórn Verkalýðsfélags Akraness vottar aðstandendum dýpstu samúð.

21
Jan

Skipverjum á aflaskipinu Víkingi Ak 100 var afhent uppsagnarbréf í gær

Skipverjum á aflaskipinu Víkingi Ak 100 var afhent uppsagnarbréf í gær.  En skipið mun taka loðnuvertíðina í ár ef einhver loðna finnst og að vertíðinni lokinni verður skipinu lagt alveg fram í janúar 2007.

 Verkalýðsfélag Akraness hefur haft áhyggjur af framtíðarskipan Víkings Ak og síldarbræðslunnar um all langa hríð.  En félagið fundaði með forsvarsmönnum HB Granda um þessi mál í ágúst í fyrra.  Á þeim fundi kom fram að ekki stæði til að breyta útgerðarfyrirkomulagi Víkings AK, nú hefur hins vegar annað komið á daginn. 

Vissulega hefur það ekki hjálpað til að aflasamdráttur á loðnu er gríðarlegur eins og allir vita og alls óvisst hvort einhver vertíð verður í ár.  Sjálfsagt er það ein skýringin á þessari ákvörðun forsvarsmanna HB Granda.  Einnig liggur það líka fyrir að verkefni sem Víkingur Ak hefur verið með eins og síldveiðar á haustin hafa verið fluttar yfir á önnur skip fyrirtækisins að miklu leiti.

Verkalýðsfélag Akraness þætti fróðlegt að vita hversu mörg stöðugildi hafi verið hjá Haraldi Böðvarssyni fyrir sameiningu við Granda og hversu mörg þau eru nú.  Verkalýðsfélag Akraness hefur trú á að störfum tengdum HB Granda hafi fækkað umtalsvert hér á Akranesi eftir sameiningu þessa tveggja fyrirtækja. 

Í ár eru liðin 100 ár (1906) frá því að fyrirtækið Haraldur Böðvarsson var stofnað og verður því sárt að horfa upp á aflaskipið Víking AK bundið við bryggju megnið af árinu.  Aflaskipið Víkingur Ak hefur skilað eigendum Haraldar Böðvarssonar, skagamönnum og einnig þjóðarbúinu öllu, gríðarlegum tekjum í gegnum áratugina.

Uppsagnarbréf skipverja hljóðaði eftirfarandi: 

 

 Uppsagnarbréf

Sýnt þykir að ekki verði verkefni fyrir Víking Ak 100, skrásetningarnr.220, að lokinni loðnuvertíð fyrr en í ársbyrjun 2007.

Þér er því hér með sagt upp störfum frá og með móttöku þessa bréfs en gert er ráð fyrir óbreyttum útgerðaháttum út þessa loðnuvertíð.

Áhersla verður lögð á að útvega þér starf á einhverju af þeim skipum sem áfram verða í rekstri hjá félaginu hafir þú á því áhuga.

Undir uppsagnarbréfið skrifar Vilhjálmur Vilhjálmsson deildarstjóri HB Granda.

20
Jan

Minnum á aðalfundi deildanna sem hefjast í næstu viku

Verkalýðsfélag Akraness vill minna félagsmenn sína á aðalfundi deildanna sem haldnir verða alla næstu viku.  En í lögum félagsins er kveðið að um að aðalfundnir deildanna skulu haldnir fyrir janúarlok.  Stjórn félagsins kappkostar að fylgja lögum félagsins í hvívetna.  Fundirnir verða haldnir eftirfarandi daga:

Aðalfundir deilda Verkalýðsfélags Akraness verða haldnir eftirfarandi daga:

Opinber deild    -   Mánud. 23. jan. að Sunnubraut 13 kl. 20:00

Matvæladeild -   Þriðjud. 24. jan. að Sunnubraut 13. kl. 20:00

Iðnsveinadeild   -   Miðvikud. 25. jan. að Sunnubraut 13.kl. 20.00

Stóriðjudeild   -Fimmtud. 26. jan. að Sunnubraut 13. hæð. kl. 20:15

Almenn deild   -   Föstudaginn 27. jan. að Sunnubraut 13. 20:00

 

Dagskrá aðalfundanna er eftirfarandi:

1.   Venjuleg aðalfundarstörf.

2.   Önnur mál.

Félagsmenn eru eindregið hvattir til að mæta.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image