• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
21
Apr

Sumarúthlutun 2006

Á skrifstofu félagsins er þessa dagana unnið að lokafrágangi sumarúthlutunar 2006. Aðsókn í orlofshús félagsins var mjög góð því alls bárust 184 umsóknir um dvöl í þeim í sumar.

Stefnt er að því að fyrstu úthlutun verði lokið mánudaginn 24. apríl og fá allir umsækjendur sent bréf frá félaginu þar sem þeir fá upplýsingar um hvort og þá hvaða hús féll þeim í skaut. Greiðslufrestur hjá þeim sem fá úthlutað úr fyrstu úthlutun er 3. maí. Annarri úthlutun verður lokið 10. maí og greiðslufrestur hjá þeim er til 17. maí.

Eftir það verða lausar vikur auglýstar hér á vefsíðunni og gildir um þær reglan "fyrstur kemur-fyrstur fær". Hægt er að bóka þessar vikur á skrifstofu félagsins.

Starfsfólk skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness óskar félagsmönnum gleðilegs sumars!!

19
Apr

Glæsileg afkoma á rekstri Verkalýðsfélags Akraness á reikningsárinu 2005

Endurskoðandi félagsins fór yfir ársreikninga félagsins með  stjórnum allra sjóða félagsins í gærkveldi.  Það er óhætt að segja að afkoma félagsins sé glæsileg en heildarhagnaður allra sjóða félagsins nemur rúmum 30 milljónum króna.  Hagnaður félagssjóðs nam tæpum 7 milljónum.  Rétt er að minna á að þegar ný stjórn tók við félaginu 19. nóvember 2003 var félagssjóður rekin með tveggja og hálfrar milljóna króna yfirdrætti.  Er því um algeran viðsnúning um að ræða hjá félaginu og hefur peningalega staða félagsins aukist um 57% frá því ný stjórn tók við Verkalýðsfélagi Akraness 19. nóvember 2003.

Í ljósi góðrar afkomu félagsins hefur stjórn sjúkrasjóðs ákveðið að stórauka réttindi félagsmanna hvað varðar réttindi í veikindum.  Breytingar á reglugerð sjóðsins verður kynnt á aðalfundi félagsins sem haldinn verður miðvikudaginn 26. apríl kl. 20:00 að Kirkjubraut 40 3 hæð.

16
Apr

Þingfarakaup alþingismanna hefur hækkað tæplega sexfalt umfram lágmarkslaun hjá verkafólki frá árinu 1998

Einstaka þingmönnum og ráðherrum hefur verið tíðrætt um að laun þeirra sem lægstu hafa launin hafi hækkað umtalsvert meira heldur en laun annarra í þessu landi.  Annað sýnir samantekt sem fyrrverandi formaður Hlífar gerði ekki alls fyrir löngu á þingfarakaupi annars vegar og hins vegar á lágmarkslaunum verkafólks.   Þar kemur fram að þingfarakaup þingmanna hafi hækkað frá 1. janúar 1998 til 1. febrúar 2006 um 114%, en lágmarkslaun verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði hækkaði um 70% á sama tímabili.  Mismunur 44%

Þingfarakaup 1998=220.168- 2006=471.427 Hækkun 251.259 Samtals 114% 
Lágmarkslaun 1998=63.399- 2006=108.000 Hækkun 44.601  Samtals 70%

Krónulega séð hefur þingfarakaup alþingismanna hækkað tæplega sexfalt á við lágmarkslaun verkafólks á umræddu tímabili.

Ef lágmarkslaun verkafólks hefðu fengið sömu prósentuhækkanir og þingfarakaupið hefur fengið þá þyrfti að hækka lágmarkslaun um 27.673 krónur og færi uppí 135.673 krónur á mánuði.

Það er með algerum ólíkindum að launamisrétti af þessum toga skuli hafa verið látið viðgangast í þessu litla samfélagi okkar.  Að hlusta svo á einstaka þingmenn og ráðherra tala um að launakjör þeirra lægst launuðustu hafi hækkað umtalsvert meira en önnur laun, þeir eru klárlega ekki að miða við sín eigin laun svo mikið er víst. 

Það væri fróðlegt að fá að vita hvort alþingsmönnum og ráðherrum þessa lands finnist það eðlilegt að laun þeirra skuli hafa hækkað langt umfram lágmarkslaun verkfólks. 

Þingmenn hljóta að vera  tilbúnir að beita sér fyrir því að lágmarkslaun verkafólks fái sömu prósentuhækkanir og þeir sjálfir hafa fengið á liðnum árum. 

Samanburður þessi sýnir enn og aftur hvernig verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði hefur setið skelfilega eftir á liðnum árum.  Það verður að koma til sérstakrar leiðréttingar á launum verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði þegar endurskoðun á kjarasamningunum fer fram í haust.  Ef ekki næst samstaða innan forsendunefndarinnar að leiðrétta kjör þeirra sem  lægstu hafa launin  þá er ekkert annað í stöðinni  en að segja kjarasamningum upp og sækja þá leiðréttingu með fullu afli.   

Það skal sérstaklega tekið fram að hér er einungis gerður samanburður á þeim hækkunum sem Kjaradómur hefur gert á þingfarakaupi alþingismanna, þannig að launahækkanir, styrkir og önnur hlunnindi sem þingmenn hafa náð sér í þar fyrir utan, t.d. með lagasetningum eru ekki inni í þessu dæmum.

12
Apr

Ágreiningur um túlkun á neysluhléum vaktavinnumanna Klafa hefur verið leystur

Formaður félagsins hefur náð samkomulagi við lögmann Samtaka atvinnulífsins vegna ágreinings sem hefur verið uppi um túlkun á neysluhléum starfsmenna Klafa ehf.  Ágreiningur hefur verið uppi um allanga hríð hvað neysluhlé vaktavinnumanna varðar. 

Forsvarsmenn Klafa og lögmaður SA féllust á sjónarmið Verkalýðsfélags Akraness í þessu máli og mun túlkunin um neysluhléin gilda frá 1. apríl.  Það var afar ánægjulegt að það skuli hafa tekist að leysa þetta mál með þessum hætti og er það báðum samningsaðilum klárlega til góðs.

10
Apr

Miklar breytingar fyrirhugaðar á reglugerð sjúkrasjóðsins

Stjórn sjúkrasjóðs Verkalýðsfélags Akraness mun funda í kvöld ásamt lögmanni félagsins.  En lögmaður félagsins hefur unnið  að gagngerum breytingum á reglugerð sjóðsins.  Það er alveg ljóst að þær breytingar sem gerðar verða á reglugerð sjóðsins munu hafa umtalsverða breytingu fyrir félagsmenn og það til góða.  Sem dæmi má nefna þá gera tillögur sem stjórn sjóðsins er að skoða gera ráð fyrir því að félagsmenn muni eiga rétt á 80% af heildarlaunum sínum þó ekki hærri en 250 þúsund eftir að greiðsluskyldu atvinnurekanda líkur í veikindum.  Þennan rétt getur félagsmaðurinn átt í allt að 120 daga.  Hér er um gríðarlega breytingu að ræða og mikil hagsbót fyrir félagsmenn.  Nánar verður greint frá reglugerðabreytingunum þegar þar liggja allar fyrir hér á heimasíðunni.

06
Apr

Fulltrúar Starfsgreinasambands Íslands funduðu með heilbrigðisráðherra í gær

Fulltrúar Starfsgreinasambands Íslands gengu á fund heilbrigðisráðherra, Sivjar Friðleifsdóttur í gær. Erindi fundarins var að gera ráðherra grein fyrir þeim vanda sem væri að skapast á öldrunar- og heilbrigðisstofnunum, en mikil óánægja ríkir meðal þeirra starfsmanna sem eru í SGS og vinna eftir kjarasamningum við ríkið. Launakjör þessara starfsmanna eru mun lakari heldur en hjá þeim sem vinna sambærileg störf hjá sveitarfélögunum.

Þrátt fyrir að heilbrigðisráðherra beri ekki ábyrgð á kjarasamningum við starfsmenn, ber hann engu að síður pólitíska og faglega ábyrgð á því að hægt sé að halda stofnununum í rekstri. Það verður ekki gert án starfsfólks.

Starfsmenn sjúkrahús Akraness hafa komið  óánægju sinni á framfæri við formann félagsins með launakjör sín og þann mikla launamun sem er á sambærilegum störfum hjá þeim sem starfa hjá sveitafélögunum.  Starfsmennirnir benda réttilega á að  launamunur á milli starfsmanna sem starfa hjá sveitafélögunum og hins vegar ríkinu  getur numið allt að 40 þúsundum króna á mánuði fyrir nákvæmlega sömu störf.  Að sjálfsögðu er þetta algerlega óviðunandi ástand og hefur formaður félagsins nú þegar sett sig í samband við forsvarsmenn SHA.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image