• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
VLFA

VLFA

Big fan of open source and Joomla

Website URL: http://joomlabuff.com
Monday, 20 July 2009 00:00

Uppbygging á Grundartangasvæðinu

Norðurál á GrundartangaEins og flestir vita þá eru erfiðleikar í atvinnulífinu víða þessa dagana, en það er skemmst frá því að segja að á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness er útlitið nokkuð bjart miðað við mörg önnur landssvæði.

Nægir að nefna gríðarlega mikla vinnu að undanförnu í tengslum við hvalveiðar og sem dæmi þá hafa um 40 manns hér á Akranesi og um 80 manns í Hvalstöðinni í Hvalfirði unnið linnulaust á vöktum allan sólarhringinn frá því í byrjun júní. Reiknað er með að vertíðin standi eitthvað fram í ágúst til september.

Fleiri jákvæðar fréttir hafa borist af atvinnumálum svæðisins. Nýverið opnaði nýtt veitingahús hér á Akranesi á Kirkjubraut 11 og munu væntanlega þó nokkur störf skapast í kjölfarið þegar að starfsemin verður komin í fullan gang og hefur formaður átt í viðræðum við eigendur staðarins varðandi launakjör og annað slíkt.

Einnig tilkynnti stálsmiðjan Héðinn nú nýverið um að framkvæmdir séu hafnar við byggingu þjónustuverkstæðis Héðins á Grundartanga. Áætlað er að þjónustuverkstæðið verði tilbúið með haustinu. Fyrirtækið mun þjóna fyrirtækjum á Grundartangasvæðinu sem og öðrum verkefnum á Vesturlandi. Sjálft verkstæðishúsið verður um 400 fermetrar og skrifstofa og starfsmannaaðstaða verður um 184 fermetrar.

Þann 16. júlí síðastliðinn var tekin fyrsta skóflustungan að fóðurverksmiðju Líflands á Grundartanga. Áætlað er að verksmiðjan muni rísa á 6 mánuðum og er fyrirhugað að verksmiðjan hefji framleiðslu næsta vor. Framleiðsluhúsið verður um 1200 fermetrar og er gert ráð fyrir að á annan tug iðnaðarmanna verði að störfum á framkvæmdatímanum. Hjá Líflandi starfa vel á sjötta tug starfsmanna.

Það er ljóst að með tilkomu þessara öflugu fyrirtækja á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness munu atvinnumöguleikar til lengri tíma litið aukast töluvert þegar að starfsemi þessara fyrirtækja verður komin í fullan gang. 

Gremja á meðal starfsmanna AkraneskaupstaðarVerkalýðsfélag Akraness hélt í gær kynningarfund um nýgerðan kjarasamning við Launanefnd sveitarfélaga en hér er um að ræða kjarasamning fyrir starfsmenn Akraneskaupstaðar og félagsmenn VLFA sem starfa hjá öðrum sveitarfélögum.

Á fundinum var farið yfir helstu atriði í samningum en því miður var ekki um miklar hækkanir að ræða í þessum samningi frekar en öðrum samningum sem gerðir hafa verið við Launanefnd sveitafélaga, að undanförnu sökum afar slæmrar fjárhagsstöðu sveitafélaga vítt og breytt um landið.

Formaður fór einnig yfir þær sparnaðarleiðir sem bæjarráð hefur samþykkt og lítur að breytingu á vinnutilhögun starfsmanna íþróttamannvirkja, skólaliða og annarra starfsmanna Akraneskaupstaðar.  Þessar breytingar hafa þau áhrif að launakjör áðurnefndra aðila eru að lækka frá 10% upp í tæp 15%.

Formaður sagði á fundinum að það væri grátbroslegt að ganga frá kjarasamningi sem kveður á um hækkun á lægstu töxtum upp á 6.750 kr. á sama tíma og kynntar eru breytingar á vinnutilhögun sömu aðila sem hafa í för með sér skerðingu á mánaðarlaunum frá rúmum 30.000 kr. upp í tæplega 60.000 kr á mánuði.

Hann greindi fundarmönnum einnig frá því að félagið hafi gert alvarlegar athugasemdir við þessar breytingu á vinnutilhögun starfmanna sem mun leiða til tekjutaps frá 340.000 kr uppí tæpar 700.000 kr á ársgrundvelli.  Formaður upplýsti að félagið hafi  skrifað bæjarráði og bæjarstjórn bréf þar sem óskað er eftir því að skipaður verði vinnuhópur sem muni fara yfir þær sparnaðaraðgerðir sem boðaðar hafa verið. Þegar þetta er skrifað hefur ekkert svar borist frá bæjaryfirvöldum, sem er afar miður. Hægt er að lesa bréfið hér.

Formaður sagði á fundinum að það væri skýlaus krafa Verkalýðsfélags Akraness að bæjaryfirvöld á Akranesi hverfi frá fyrirhuguðum breytingum á vinnutíma skólaliða og starfsmanna íþróttamannvirkja, sem leiða af sér jafnmikla tekjuskerðingu og raun ber vitni. Það er forkastanlegt að skerða laun sem ekki ná 300.000 kr. eins og áðurnefndar tillögur munu gera. Hér á heimasíðunni hefur birst dæmi um starfsmann sem er með 281.000 kr. í mánaðarlaun sem lækkar um rúmar 30.000 kr. á mánuði miðað við fyrirhugaða breytingu á vinnutilhögun. Þetta er ólíðandi og óviðunandi með öllu.  Enda hafa ráðamenn þjóðarinnar og sveitarfélaga talað um að það eigi að slá skjaldborg um þá sem eru með tekjur innan við 300.000 kr. í mánaðarlaun.

Það ríkti mikil gremja á meðal fundarmanna með þessa fyrirætlan bæjaryfirvalda um breytingu á vinnutilhögun sem skerðir laun starfsmanna jafn skelfilega raun ber vitni.  Starfsmenn Akraneskaupstaðar sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness vilja fá upplýsingar hvað aðrir hópar innan bæjarins þurfa að leggja af mörkum í þeim sparnaðaraðgerðum sem nú liggja fyrir og nægir að nefna þar forstöðumenn, kennara, starfsmenn í stjórnunarstöðum og æðstu stjórnendur bæjarins.  Það getur ekki verið eðlilegt að ráðast ætíð á þá tekjulægstu þegar kemur að sparnaðarleiðum eins og þessar tillögur klárlega gera.

Það er mat Verkalýðsfélags Akraness að skerðing á launum starfsmanna sem ekki ná 400.000 kr. sé algjörlega ólíðandi og óviðunandi og Verkalýðsfélag Akraness getur alls ekki sætt sig við þessa fyrirætlan bæjaryfirvalda. 

Það færi betur ef bæjaryfirvöld Akraneskaupstaðar hefðu farið eins að eins og bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ en þar er enginn bæjarstarfsmaður lækkaður í launum sem ekki nær 400.000 kr. í mánaðarlaun.  Sjá fundargerð Reykjanesbæjar.  

Friday, 27 October 2017 16:56

Breyta verður vinnulöggjöfinni

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum á undanförnum dögum þá bera nokkrir starfsmenn sem hafa starfað hjá Norðuráli fyrirtækið þungum sökum. Sökum sem byggja á því að fyrirtækið sé að segja starfsfólki upp störfum eftir mjög langan starfsaldur og jafnvel án þess að fólk hafi fengið áminningar áður. Það eru því miður líka dæmi þess að uppsagnir séu að mati formanns einfaldlega kolrangar og ástæður sem gefnar séu upp standist ekki nokkra skoðun.

Það liggur fyrir að á íslenskum vinnumarkaði geta komið upp atvik sem valda því að segja þarf fólki upp störfum vegna þess að hugsanlega brýtur það af sér í starfi eða sinnir ekki sinni vinnu eins og eðlilegt getur talist. Þetta vitum við að er hluti af íslenskum vinnumarkaði - að fólk sem brýtur af sér eða mætir seint og illa til vinnu getur átt von á því að verða sagt upp störfum. Við slíku er oft lítið hægt að segja eða gera enda er vinnulöggjöfin þannig að fyrirtæki hafa heimild til að ráða og reka fólk svo framarlega sem uppsagnarákvæði kjarasamninga eru virt.

Hinsvegar er það grafalvarlegt þegar fyrirtæki segja upp starfsfólki jafnvel vegna afar lítillar ástæðu eða jafnvel án þess að nokkur ástæða sé til. Það er dauðans alvara þegar fyrirtæki grípa til þess að segja upp fólki enda getur það haft gríðarlegar afleiðingar fyrir þann sem fyrir slíku verður. Það er ekki bara að fólk missi lífsviðurværi sitt heldur getur höggið við það að lenda í uppsögn leitt til andlegs niðurbrots fyrir þann sem fyrir slíku verður. Það liggur til dæmis fyrir að starfsmaður sem verður fyrir atvinnumissi skorar mjög hátt í þáttum er valda angist, kvíða og aukinni streitu samkvæmt rannsóknum. Formaður þekkir slík dæmi og því er það lágmarks krafa sem hægt er að gera til stjórnenda fyrirtækja að vanda sig afar vel þegar kemur að því að segja upp starfsfólki. Það er líka algert lágmark að fólki sé gefinn kostur á að bæta sitt ráð því það er óþolandi með öllu þegar við fáum inn á borð til okkar uppsagnir þar sem ekki liggja einu sinni fyrir skriflegar áminningar.

Eins og áður sagði hefur mikið verið fjallað um uppsagnir og harðneskjulega óttastjórnun í Norðuráli í fjölmiðlum að undanförnu. Því miður eru dæmi til þess að uppsagnir í Norðuráli hafa verið framkvæmdar þannig að þær standist ekki nokkra skoðun, það er því miður sorgleg staðreynd.

Það vita það allir sem vita vilja að fá stéttarfélög á Íslandi reyna að verja réttindi sinna félagsmanna eins mikið og VLFA. Formaður hefur gert mjög alvarlegar athugasemdir við nokkrar uppsagnir á liðnum misserum og árum við forsvarsmenn Norðuráls. Formaður hefur oft fundað um þessar uppsagnir og komið mjög hörðum mótmælum á framfæri ekki bara á fundum heldur líka í formi bréfaskrifta. Öll þessi samskipti sýna að félagið er tilbúið að vaða eld og brennistein til að verja atvinnuöryggi og velferð sinna félagsmanna.

Það er morgunljóst að því miður eru dæmi til þar sem uppsagnir í Norðuráli standast ekki skoðun og það þýðir ekkert fyrir stjórnendur fyrirtækisins að haga sér eins og strútar og stinga höfðinu í sandinn hvað það varðar. Stjórnendur eiga að læra að hlusta á þær ábendingar sem fram koma því harðneskjuleg óttastjórnun er alls ekki til þess fallin að fá það besta út úr hverjum starfsmanni.

Formaður vill taka það skýrt fram að það er fullt af flottum stjórnendum í Norðuráli sem koma fram við starfsmenn af mannúð, virðingu og sanngirni en því miður gildir það ekki um alla og á því verður að taka. Það er hlutverk Verkalýðsfélags Akraness að standa vörð um velferð sinna félagsmanna og verja þeirra atvinnuöryggi þegar vegið er að þeim að ósekju og það hefur félagið ætíð reynt að gera.  Stóra vandamálið liggur í vinnulöggjöfinni þar sem fyrirtæki hafa vald til að segja fólki upp svo framarlega sem uppsagnarákvæði kjarasamninga séu virt. Formaður telur að þessu þurfi að breyta þannig í vinnulöggjöfinni að fyrirtæki geti alls ekki sagt flekklausu starfsfólki upp störfum jafnvel fólki með tugi ára í starfsreynslu.

Það er svo sorglegt þegar starfsmanni er sagt upp störfum og greiddur er uppsagnarfrestur að lítið sé hægt að gera vegna þess að vinnulöggjöfin geri ráð fyrir að fyrirtæki geti sagt öllum þeim upp störfum sem þau kjósa að segja upp. Formaður gerir sér algerlega gein fyrir að fyrirtæki þurfa að geta sagt upp starfsfólki sem brýtur af sér í starfi en gerir þá lágmarkskröfu að ekki séu framkvæmdar uppsagnir sem standast ekki skoðun eins og dæmi eru um hjá Norðuráli á liðnum misserum.

Verkalýðsfélag Akraness er með eina slíka uppsögn inni á borði hjá sér núna en það er uppsögn sem laut að vinnuslysi þar sem starfsmanninum var sagt upp störfum vegna þess að hann átti að hafa verið valdur að slysinu en síðar kom í ljós að búnaður þess krana sem hann stjórnaði var bilaður.  Fyrirtækið sagði viðkomandi upp störfum  og sendi einnig frá sér fréttatilkynningu strax eftir slysið um að kraninn hafi verið í lagi en rannsókn Vinnueftirlitsins leiddi síðan í ljós að það var rangt því kraninn var bilaður. Félagið hefur ítrekað reynt að leysa málið í sátt þannig að fyrirtækið viðurkenni sín mistök og greiði umræddum manni miskabætur vegna þeirrar sálarangistar sem hann þurfti að þola vegna þeirra ásakana sem bornar voru á hann.  Engar slíkar viðræður hafa borið árangur hingað til en málið er í lögfræðilegri meðferð hjá lögmanni félagsins.  Það er hins vega ljóst að ef ekki næst sátt í þessu máli mun Verkalýðsfélag Akraness stefna Norðuráli fyrir dómstóla þar sem krafist verður miskabóta vegna þess að á starfsmanninn voru bornar þungar sakir um að bera einn ábyrgð á slysinu sem ekki reyndist rétt eins og fram kemur í skýrslu Vinnueftirlitsins.

Norðurál og reyndar öll fyrirtæki þurfa að koma fram við sitt starfsfólk að virðingu og sanngirni og læra að viðurkenna þegar mistök eru gerð en því miður hefur stjórnendum Norðuráls á Grundartanga reynst erfitt að viðurkenna mistök og er það miður.

Verkalýðsfélag Akraness ætlar ekki og mun ekki gefa neinn afslátt af því að verja réttindi og velferð sinna félagsmanna. Sem dæmi þá er VLFA með 5 mál fyrir dómstólum þar sem verið er að verja réttindi okkar félagsmanna. Formaður efast um að nokkurt stéttarfélag sé með jafn mörg mál inni í dómskerfinu eins og VLFA.  Bara á síðasta ári vann VLFA tvö dómsmál gagnvart Norðuráli sem skilaði þeim sem heyrðu undir dóminn 30 milljónum.

Það er svo sorglegt að alltof margir starfsmenn Norðuráls upplifa harðneskjulega óttastjórnun á sínum vinnustað en stjórendur fyrirtækisins virðast alls ekki vera tilbúnir að viðurkenna að svo sé þrátt fyrir það blasi við að svo sé.  Hræðsluóróðurinn sem er rekin á vinnustaðnum gerir það að verkum að sumir starfsmenn þora alls ekki að tjá sína skoðun með þeim krafti sem þyrfti og formaður skilur það mjög vel.  Enda eru starfsmenn hræddir um að missa lífsviðurværi sitt ef þeir tjá sig þannig að þeir gagnrýni stjórnunarhætti fyrirtækisins.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá átti formaður fund með framkvæmdastjóra Norðuráls í morgun og á þeim fundi fór hann yfir öll þessi mál og krafðist þess að Verkalýðsfélag Akraness og forsvarsmenn Norðuráls færu í þá vinnu að greina og finna út hvað það er nákvæmlega sem orsakar það að of mörgum starfsmönnum líður ekki vel í vinnunni.  Lagði formaður til að VLFA myndi koma að því að greina hvort eitthvað væri hæft í þeim alvarlegu ásöknum hvað slæma stjórnunarhætti varðar en því miður hafnaði framkvæmdastjóri Norðuráls aðkomu félagsins að þeirri vinnu!

Þetta á að vera sameiginlegt verkefni, að finna rót vandans og gera vinnustaðinn svo góðan að öllum líði vel og óttist ekki að koma til vinnu.

Það er líka mikilvægt að það komi skýrt fram að fyrirtækið hefur líka gert margt mjög gott fyrir marga starfsmenn. Sem dæmi þá liggur fyrir að þegar fólk lendir í miklum áföllum bæði persónulega eða í sinni fjölskyldu þá hefur fyrirtækið oft hjálpað til. Það er mikilvægt að halda því góða sem gert er líka til haga og því er svo sorglegt þegar það slæma yfirtekur allt það sem vel er gert.

Formaður sagði í morgun að það verður ekki hjá því komist að fara í algera greiningu á líðan starfsmanna, greiningu sem hafin er yfir allan vafa og formaður lagði til að þegar sú greining eða könnun yrði gerð þá fengi formaður VLFA að taka þátt í henni þannig að við getum komist að því hvað er að og hvað þarf að lagfæra.

Ég veit að margir starfsmenn eru stoltir af sínu fyrirtæki og vilja því allt það besta og því er mikilvægt að við tökum öll höndum saman um að gera Norðurál að enn betri vinnustað en nú er og við höfum full tækifæri til slíks og nægir að nefna í því samhengi að hvergi eru launakjör betri hjá ófaglærðu starfsfólki en hjá Norðuráli þótt alltaf megi gera betur í þeim efnum. En aðalmálið er að velferð starfsmanna sé tryggð og öllum líði vel og VLFA mun halda áfram að vinna að því að svo verði.

Í dag verður jarðsunginn frá Akraneskirkju einn af heiðursfélögum Verkalýðsfélags Akraness, Garðar Halldórsson. Garðar var fæddur þann 8. september 1924 og lést 20. október síðastliðinn, 93 ára að aldri.

Garðar flutti ásamt eiginkonu sinni og börnum til Akraness frá Hríshóli í Reykhólasveit árið 1968 og hóf þá störf í sútunarverksmiðju. Hann komst fljótt í kynni við Skúla Þórðarson sem þá var formaður Verkalýðsfélags Akraness en Garðar gekk formlega í félagið þann 10. desember 1969.

Áður en langt um leið var Garðar orðinn formaður verkamannadeildarinnar og tók svo síðar við starfi ritara í aðalstjórn félagsins og var virkur í starfsemi félagsins allt til ársins 1990. Garðar skipti um starfsvettvang árið 1977 þegar sútunarverksmiðjunni var lokað og hóf þá störf hjá Lífeyrissjóði Vesturlands. Lífeyrismál voru honum afar hugleikin og mætti hann á ársfundi þar löngu eftir starfslok sín og ritaði fundargerðir ársfundarins fram að áttræðisaldri.

Þó svo að Garðar léti af formlegum störfum fyrir félagið um 1990 lét hann sig starfsemi þess alltaf varða, tók meðal annars þátt í ferðalögum eldri félagsmanna og sýndi áhuga á því sem fengist var við hverju sinni í kjarabaráttunni. Garðar fæddist einum mánuði áður en Verkalýðsfélag Akraness var stofnað og því táknrænt að ævi hans hafi fléttast inn í starf félagsins og var hann gerður heiðursfélagi þess. Þegar Verkalýðsfélag Akraness varð 90 ára þann 14. október 2014 mætti hann að sjálfsögðu á skrifstofuna til að fanga þessum merku tímamótum, þá sjálfur nýbúinn að fagna sínu níræðisafmæli.

Garðar var hagmæltur og á félagið þónokkuð af kveðskap eftir hann, meðal annars 12 erinda afmæliskveðju til félagsins sem hann samdi árið 1974 þegar félagið varð 50 ára. Síðasta erindi þeirrar kveðju á vel við enn þann dag í dag:

Fögnum heilum huga
hálfrar aldar starfi.
Strengjum heit að standa
styrk á fengnum rétti.
Sókn til nýrra sigra,
sé vor leiðarstjarna.
Þá mun framtíð færa
farsæld öllum lýðum.

Stjórn og starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness minnist Garðars með hlýju og þakklæti og sendir öllum aðstandendum hans innilegar samúðarkveðjur.

Thursday, 23 July 2009 00:00

Álverð hækkar verulega

Það er óhætt að segja að það séu mjög jákvæðar fréttir sem berast úr áliðnaðnum þessa daganna, en verð á áli hefur verið að hækka allverulega að undanförnu.  Álverð náði sögulegu lágmarki í byrjun febrúar á þessu ári, en þá fór álverð niður fyrir 1300 dollara tonnið, núna er álverðið komið yfir 1.700 dollara tonnið sem er hækkun uppá 36%.

Það skiptir okkur Akurnesinga og reyndar allt þjóðarbúið gríðarlega miklu máli að álverð haldi áfram að hækka einfaldlega vegna þess að það eru lausir kjarasamningar starfsmanna Norðuráls um áramótin og hátt álverð mun klárlega auðvelda Verkalýðsfélagi Akraness að ná góðum kjarasamningi fyrir okkar félagsmenn.

Það liggur fyrir núna samkvæmt frétt frá greiningardeild Íslandsbanka að álútflutningur er að skila þessa dagana álíka miklum gjaldeyristekjum og útflutningur sjávarafurða. Hins vegar er sá munur á að innflutt aðföng til álframleiðslu eru talsvert meiri en til veiða og vinnslu.  Einnig er rétt að geta þess að allur hagnaður rennur að lokum til hinna erlendu eigenda álveranna.  Á þeirri forsendu er það skylda Verkalýðfélags Akraness að reyna ná sem allra mestu úr þeim samningum sem framundan eru fyrir okkar félagsmenn og mun Verkalýðsfélag Akraness ekki víkja sér undan þeirri ábyrgð.

Álverð hækkar verulega

Álverð hefur hækkað verulega frá lokum 1. fjórðungs ársins og er nú á svipuðum slóðum og fyrir fjórum árum síðan. Í millitíðinni þandist út verðbóla á hrávörumörkuðum sem síðan sprakk með nokkrum hvelli á haustdögum í fyrra. Áltonnið var selt í London á 1.711 Bandaríkjadali í lok gærdags. Frá mánaðarmótum hefur verð á áli hækkað um 5%, en það sem af er ári nemur hækkunin ríflega 11%. Jákvæðir straumar frá hækkandi hlutabréfaverði og aukinn áhugi hrávörusjóða eru meðal helstu ástæðna hækkunarinnar síðustu daga, en á sama tíma lækkuðu flestir iðnaðarmálmar í verði.

Þróunin það sem af er ári er hins vegar nokkurn veginn í takti við almenna þróun hrávöruverðs, sem hefur farið hækkandi frá miðjum maí. Þó hefur verðhækkun áls undanfarna mánuði verið töluvert yfir meðallagi hvað hrávörur varðar. Orsakast það ekki síst af því að spurn eftir áli er býsna nátengd hagsveiflu vegna þess hvað mikið það er notað í hagsveiflutengdum geirum á borð við bílaiðnað, flugvélasmíði og byggingaiðnað svo nokkuð sé nefnt. Skánandi horfur á heimsvísu, ekki síst væntingar um að hagvöxtur reynist viðunandi í Kína næstu misserin, hafa því að öllum líkindum töluverð áhrif á álverðið.

Líkur á frekari hækkun 
Þótt sérfræðinga á hrávörumarkaði greini á um hvort slegið geti í bakseglin hvað álverð varðar á næstu mánuðum virðast þeir flestir sammála um að horfur séu allgóðar næstu árin. Samantekt spáa á Bloomberg hljóðar til að mynda á þann veg að álverð muni að meðaltali verða tæpir 1.800 Bandaríkjadalir fyrir tonnið á næsta ári og tonnið fari upp undir 2.900 dali að þremur árum liðnum. Framvirkt álverð gefur ekki jafn mikla ástæðu til bjartsýni, en þó hljóðar það upp á að áltonnið verði komið í tæplega 2.000 dali árið 2012.

Mikilvægt fyrir viðskiptajöfnuð
Þróun álverðs hefur talsvert mikið að segja fyrir viðskiptajöfnuð Íslands á komandi árum. Álútflutningur skilar þessa dagana álíka miklum gjaldeyristekjum og útflutningur sjávarafurða. Hins vegar er sá munur á að innflutt aðföng til álframleiðslu eru talsvert meiri en til veiða og vinnslu, auk þess sem hagnaður rennur að lokum til hinna erlendu eigenda álveranna. Nettóinnflæði gjaldeyris vegna álframleiðslu er því umtalsvert minni en raunin er með sjávarútveg. Þar sem raforkuverð til álveranna er tengt við álverð getur þróun þess síðarnefnda þó gert gæfumuninn um arðsemi og ekki síður lausafjárstöðu orkufyrirtækjanna í erlendum gjaldeyri. Á tímum þar sem aðgangur að erlendu lánsfé er afar takmarkaður hér á landi er gríðarlega mikilvægt að orkufyrirtækin þurfi sem minnst að leita á innlenda markaði eftir gjaldeyri og að rekstur þeirra sé arðbær, og því getur hagstæð þróun álverðs létt íslensku efnahagslífi róðurinn talsvert á næstu misserum. 

Heimild Greiningardeild Íslandsbanka

6. þingi Starfsgreinasambands Íslands sem haldið var á Selfossi daganna 11. til 12. október lauk í gær.  Það má segja að það hafi verið hálfgerð lognmolla yfir þessu þingi að því undanskildu að hart var tekist á um svokallaða tilgreinda séreign.

Því miður hefur nánast engin kynning farið fram um þessa tilgreindu séreign enda var einungis fámennur hópur innan ASÍ sem samdi um hana við Samtök atvinnulífsins. En þessu til viðbótar þá liggur fyrir að ASÍ og SA hafa unnið að því að fá lögum nr. 129/1997 breytt þannig að launafólki verði gert skylt að leggja þessa tilgreindu séreign einungis inn hjá lífeyrissjóðunum og einnig sem er gjörsamlega stórundarlegt að hún verði skerðingarhæf frá greiðslum frá Tryggingastofnun.

Með öðrum orðum ASÍ og SA hafa unnið að því að fá lögum breytt þannig að öllu launafólki sé skylt að leggja þessa tilgreindu séreign einungis inn hjá lífeyrissjóðunum og megi því ekki velja sér annan vörsluaðila.

Eins og áður sagði hefur engin kynning farið fram á meðal launafólks enda hefur fámenn klíka innan ASÍ deilt og drottnað í þessu máli án þess að bera neitt undir hinn almenna félagsmann.

Það var gjörsamlega óskiljanlegt að hlusta á suma forystumenn innan verkalýðshreyfingarinnar tala með því á þingi SGS á Selfossi að þessi svokallaða tilgreinda séreign ætti og þyrfti að vera skerðingarhæf frá Tryggingastofnun og einnig að allar þessar greiðslur yrðu að fara inn til lífeyrissjóðanna.

Formaður félagsins spurði á þinginu hagsmuni hverra forysta ASÍ sé að verja í þessu máli því það er morgunljóst að ekki er verið að verja hagsmuni launafólks með því að semja um nýja tegund af séreignarsparnaði sem mun leiða til þess að launafólk muni skerða greiðslur sínar frá Tryggingastofnun þegar það hefur töku lífeyris. En eins og allir vita þá eru það skerðingar frá TR sem hafa m.a. valdið því að ávinningur launafólks af því að greiða í lífeyrissjóð er því miður oft á tíðum sáralítill.

Þessu mótmælti formaður Verkalýðsfélags Akraness harðlega á þinginu og lagði fram ályktun sem kveður á um að þingið hafni öllum hugmyndum að lagabreytingum sem leiði til þess að svokölluð tilgreind séreign verði skerðingarhæf frá greiðslum frá Tryggingastofnun.

Miklar umræður urðu um þessa ályktun og voru nokkrir forystumenn verkalýðshreyfingarinnar sem fundu henni allt til foráttu en það kom fram breytingartillaga sem var á endanum samþykkt en hún hljóðar svona:

„6. þing Starfsgreinasambands Íslands haldið 11. til 12. október 2017 hafnar alfarið öllum hugmyndum að lagabreytingum á lögum nr. 129/1997 sem gera allar lífeyrisgreiðslur skerðingarhæfar frá greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins.“

Þessa tillögu gátu þingfulltrúar Verkalýðsfélags Akraness stutt enda kemur hún algerlega í veg fyrir að forysta ASÍ geti unnið áfram að því að kalla eftir lagabreytingum sem leiða til þess að tilgreinda séreignin verði skerðingarhæf. 

Formaður telur þetta gríðarlegan sigur fyrir allt launafólk enda verkefni verkalýðshreyfingarinnar að draga úr skerðingum frá greiðslum frá Tryggingastofnun en ekki auka þær skerðingar.

Nú liggur fyrir að SGS sem er stærsta landssamband innan ASÍ hefur ályktað að það hafni alfarið öllum hugmyndum að lagabreytingum á lögum nr. 129/1997 sem gera allar lífeyrisgreiðslur skerðingarhæfar frá greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins.  Því er ljóst að ASÍ mun ekki geta haldið áfram að vinna að þessum lagabreytingum á þessum grunni, svo mikið er víst.

Starfsmenn sveitarfélaga sem eru félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness hafa samþykkt  framlengingu og breytingar á kjarasamningi Verkalýðsfélags Akraness við Launanefnd sveitarfélaga. Mikill meirihluti þeirra sem tóku þátt í kosningunni greiddu atkvæði með samningum þrátt fyrir að innihald samningsins væri afar rýrt.

Flestir vita að sveitarfélögin standa því miður afar illa eftir að hafa hagað sér óskynsamlega í fjármálum á undanförnum árum og á þeirri forsendu var afar erfitt að vænta þess að ná miklum kjarabótum í þessum samningum.

Það ríkir hins vegar mikil reiði hjá bæjarstarfsmönnum með þá fyrirætlan bæjaryfirvalda að breyta vinnutilhögun starfsmanna íþróttamannvirkja, skólaliða og annarra starfsmanna Akraneskaupstaðar sem hefur þau áhrif að launakjör áðurnefndra aðila eru að lækka frá 10% upp í tæp 15%.

Það er grátbroslegt að ganga frá kjarasamningi sem kveður á um hækkun á lægstu töxtum upp á 6.750 kr. á sama tíma og kynntar eru breytingar á vinnutilhögun sömu aðila sem hafa í för með sér skerðingu á mánaðarlaunum frá rúmum 30.000 kr. upp í tæplega 60.000 kr á mánuði.

Verkalýðsfélags Akraness hefur óskað eftir því við bæjaryfirvöld á Akranesi að þau hverfi frá fyrirhuguðum breytingum á vinnutíma skólaliða og starfsmanna íþróttamannvirkja, sem leiða af sér jafnmikla tekjuskerðingu og raun ber vitni. Það er forkastanlegt að skerða laun sem ekki ná 300.000 kr. eins og áðurnefndar tillögur munu gera. Hér á heimasíðunni hefur birst dæmi um starfsmann sem er með 281.000 kr. í mánaðarlaun sem lækkar um rúmar 30.000 kr. á mánuði miðað við fyrirhugaða breytingu á vinnutilhögun. Þetta er ólíðandi og óviðunandi með öllu.  Enda hafa ráðamenn þjóðarinnar og sveitarfélaga talað um að það eigi að slá skjaldborg um þá sem eru með tekjur innan við 300.000 kr. í mánaðarlaun.

Það er sorglegt að horfa uppá það að almennt verkafólk verður fyrir stórkostlegri kjaraskerðingu á sama tíma og ríki, sveitarfélög, tryggingafélög, verslunareigendur og aðrir þjónustuaðilar varpi sínum vanda beint út í samfélagið.  Nei, verkafólk þarf að horfa uppá stóraukna greiðslubyrði og hækkun á höfuðstól sinna lána frá 20% og upp í allt að 100% á sama tíma og það er lækkað í launum sem nemur tugum þúsunda á mánuði.

Það er ljóst að íslensku verkafólki er að blæða út sökum þess ástands sem nú ríkir í íslensku samfélagi, ástandi sem verkafólk ber ekki nokkra ábyrgð á.

Síðastliðinn laugardag stóðu Verkalýðsfélag Akraness og VR fyrir opnum fundi í Háskólabíói sem bar yfirskriftina "Guð blessi heimilin -  okurvextir og verðtrygging, mesta böl þjóðarinnar". Framsögu á fundinum höfðu Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR, Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness, Ólafur Margeirsson doktor í hagfræði, Ásta Lóa Þórsdóttir formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og Már Guðmundsson seðlabankastjóri. Auk þess var fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem bjóða fram til Alþingis boðið að senda fulltrúa á fundinn til að kynna hvað þeirra flokkur ætlar að gera varðandi okurvextina og verðtrygginguna á lánum heimilanna.

Í sinni framsögu gagnrýndi Vilhjálmur, formaður VLFA, harðlega Seðlabankann og stjórnvöld og hvatti þau til að vera á tánum en ekki á hnjánum gagnvart fjármagnseigendum þegar kemur að því að verja heimili landsins gegn okurvöxtum og verðtryggingu. Hann benti meðal annars á það að verðtryggðir vextir á Íslandi eru hærri en óverðtryggðir vextir í löndunum í kringum okkur.

Einnig sagði Vilhjálmur að í raun ætti Seðlabankinn að vera fremstur í flokki í baráttunni fyrir afnámi verðtryggingar því þegar ókostir verðtrygginar á neytendalánum eru skoðaðir kemur í ljós að hún leiðir af sér aukið pen­inga­magn í um­ferð og verðbólguþrýst­ing, gengur gegn eðli­leg­um lög­mál­um og var­færni í lán­töku, hvet­ur til of mik­ill­ar skuld­setn­ing­ar og dreg­ur úr virkni pen­inga­mála­stefnu Seðlabank­ans.

Glærur Vilhjálms má skoða með því að smella hér.

Glærur Ólafs Margeirssonar má skoða með því að smella hér.

Fundinum var streymt beint á netinu og er hægt að hlusta og horfa hér.

Formaður VLFA í viðtali í þættinum SprengisandiFormaður VLFA í viðtali í þættinum SprengisandiFormaður Verkalýðsfélags Akraness var í gær í þættinum Sprengisandi ásamt Árna Páli Árnasyni félagsmálaráðherra,Guðlaugu Kristjánsdóttur formanni BHM einnig var hringt í Ernu B. Friðfinnsdóttur formann FÍH og Friðbert Traustason formann
SSF.  Aðalmálefni þáttarins var um niðurskurð hjá hinu opinbera, atvinnumál og kjaramál.
 
Formaður félagsins kom víða við í þættinum í gær og fór t.d yfir atvinnuástandið á félagssvæði VLFA sem er að mörgu leiti mjög gott sé miðað við önnur landssvæði.  Hann nefndi í því samhengi hversu mikilvæg stóriðjan á Grundartanga er atvinnulífinu á Akranesi og einnig þeim upp undir 150 nýjum störfum sem fylgt hafa í kjölfar á hvalveiðum.
 
Formaður gerði einnig fyrirhugaðan niðurskurð á launakjörum starfsmanna Akraneskaupstaðar að umtalsefni og nefndi í því samhengi að það væri grátlegt að verið væri að skerða laun starfsmanna sem ekki næðu 300.000 kr. í mánaðarlaun.  Enda hefur það verið yfirlýst stefna stjórnvalda að slá skjaldborg um þá tekjulægstu.

Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra sagði í þættinum í gær að langt væri í land hvað varðar efnahagsbata. Hann segir einnig að ofrausn hafi verið þegar sagt var að ríkið myndi ekki skerða ósamningsbundin laun yfir 400 þúsund krónum. Ráðherrann sagði að því miður ráði ríkið ekki við annað en teygja sig enn neðar og nefnir tvö til þrjú hundruð þúsund krónur í því samhengi.

Hægt að hlusta á Sprengisand hér

Thursday, 09 November 2017 16:47

Dagbækurnar komnar á skrifstofu félagsins

Nú geta félagsmenn nálgast vasadagbækur fyrir árið 2018 á skrifstofu félagsins að Sunnubraut 13. Dagbækurnar eru alltaf vinsælar hjá félagsmönnum VLFA enda gott að geta skipulagt tímann bæði í leik og starfi. Félagsmenn utan Akraness geta haft samband við starfsfólk skrifstofu og fengið dagbók senda í pósti sér að kostnaðarlausu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image