• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
VLFA

VLFA

Big fan of open source and Joomla

Website URL: http://joomlabuff.com

Verkalýðsfélag Akraness vill minna félagsmenn og atvinnurekendur á að samkvæmt kjarasamningum sem undirritaðir voru þann 17. febrúar 2008átti orlofsuppbót að koma til greiðslu þann 1. júní sl.

Í fyrri samningum var kveðið á um að þessa uppbót ætti að greiða við upphaf orlofstöku eða í síðasta lagi 15. ágúst. Í gildandi samningum hefur orðið breyting á og átti orlofsuppbótin að koma til greiðslu þann 1. júní eins og áður sagði.

Þeir samningar sem um ræðir eru:

Samningur milli Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands íslands vegna aðildarfélaga SGS, annarra en Eflingar-stéttarfélags, Verkalýðsfélagsins Hlífar og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis. (Sjá grein 1.4.2.)

Kjarasamningur milli Samiðnar og SA (Sjá grein 1.1.4.2.)

Atvinnurekendur og reyndar launþegar líka eru einnig beðnir um að hafa í huga að 1. maí 2009 hækkaði orlofsprósentan úr 12,55% í 13,04% fyrir starfsmenn sem hafa verið starfað hjá sama fyrirtæki í 10 ár. Þetta ákvæði gildir fyrir þá launþega sem starfa skv. áðurnefndum samningum á almenna vinnumarkaðinum. Starfsmenn sveitarfélaga og ríkisins eru með önnur ákvæði inn í sínum kjarasamningum. 

Í síðustu viku fékk formaður VLFA afar góða heimsókn á skrifstofu félagsins en þar kom baráttumaður fyrir bættum kjörum eldri borgara, enginn annar en Helgi í Góu. Óskaði hann eftir að hitta formanninn til að fara yfir þau baráttumál sem hann hefur verið að benda á árum og áratugum saman en þau lúta að því að lífeyrissjóðirnir taki virkan þátt í því að búa hér til hagkvæmar íbúðir fyrir eldri borgara.

Helgi lagði fram teikningar og ýmsar hugmyndir hvað það varðar en það er skemmst frá því að segja að þessi baráttumál Helga samrýmast algjörlega hugsunum stjórnar Verkalýðsfélags Akraness sem hefur meðal annars bent á að lífeyrissjóðirnir eigi að taka þátt í að byggja upp lítt hagnaðardrifin leigufélög til hagsbóta og útleigu fyrir hinn almenna sjóðsfélaga. Þetta var virkilega góður fundur og góð heimsókn og mun formaður reyna að koma þessum áherslum Helga í Góu á framfæri þar sem það á við.

Nú bendir margt til þess að það samkomulag sem gert var þann 25. febrúar sl. um að launahækkanir frá 1. mars taki gildi þann 1. júlí nk. verði ekki að veruleika.

Hins vegar bendir allt til þess að gengið verði að tilboði Samtaka atvinnulífsins sem felur í sér tvískiptingu umsaminna launahækkana sem koma áttu til framkvæmda 1. mars þannig að helmingur, 6.750 kr. bætist við mánaðarlaun nú 1. júlí en helmingur 1. nóvember. Ennfremur verði 3,5% hækkun á laun yfir launatöxtum frestað til 1. nóvember.

Rétt er að benda á að verkamaður sem starfar eftir taxtakerfi hefur nú þegar afsalað sér 54.000 krónum með því að hafa ekki fengið umsamda launahækkun sem taka átti gildi 1. mars sl. Nú er eins og áður sagði allt eins líklegt að enn og aftur verði verkafólk af umsömdum launahækkunum.

Það er með hreinustu ólíkindum að á sama tíma og það á að þvinga verkafólk til að fresta sínum umsömdu launahækkunum þá sé verið að hækka tryggingagjaldið á atvinnulífið umtalsvert eða sem nemur um 12 milljörðum á ársgrundvelli. Það er alveg ljóst að þegar verkafólk frestar sínum hækkunum þá eru það launþegarnir sem sjá um að greiða þetta tryggingagjald sem ríkisstjórnin er nú að setja á atvinnulífið.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefði viljað að Alþýðusamband Íslands mótmælti hækkun tryggingagjalds nú jafn kröftuglega og gert var í nóvember 2001, en í ályktun frá miðstjórn Alþýðusambandsins (sem hægt er að lesa hér) þá kom fram að hækkun á tryggingagjaldinu væri bein aðför að hagsmunum launafólks Þessi hækkun nú er ekkert annað en það, aðför að hagsmunum launafólks.

Af hverju mótmælir Alþýðusamband Íslands ekki núna? Eða er hækkun tryggingagjalds gerð með samþykki ASÍ?

Það gengur einfaldlega ekki upp að leggja þennan skatt á atvinnulífið á sama tíma og verkafólk þarf að afsala sínum umsömdu launahækkunum. Það á að gera skýlausa kröfu um að Seðlabanki Íslands lækki stýrivexti án tafar því eins og fram kom í viðtali við Þór Sigfússon formann Samtaka atvinnulífsins þá er þetta háa vaxtastig að leggja íslenskt atvinnulíf í rúst og óhætt að fullyrða að það sama gildir um íslensk heimili.

Til að gera atvinnulífinu kleyft að standa undir hóflega gerðum kjarasamningum frá 17. febrúar 2008 þá þarf að lækka hér stýrivexti umtalsvert en slíkt myndi klárlega hjálpa atvinnulífinu.

Afstaða stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness til kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins er sú að verkalýðshreyfingin í heild sinni eigi að standa fast á þeirri kröfu að atvinnurekendur standi við þann hóflega samning sem gerður var þann 17. febrúar 2008 og síðar samkomulag frá 25. febrúar 2009.

Rætt var við formann félagsins í kvöldfréttum RUV í gær. Hægt er að hlusta á viðtalið með því að smella hér.

Í kjarasamningi VLFA við Norðurál árið 2011 var samið við forsvarsmenn fyrirtækisins um stóriðjuskóla fyrir starfsmenn þess en það hafði verið baráttumál Verkalýðsfélags Akraness um alllanga hríð. Grunnnám stóriðjuskólans er þrjár annir og gefur þeim starfsmönnum sem því ljúka launahækkun upp á 5%. Framhaldsnám skólans mun svo gefa 5% til viðbótar, samtals 10% launahækkun. Í stóriðjuskólanum öðlast starfsmenn aukna færni og þekkingu á lykilferlum við örugga og hagkvæma framleiðslu á áli. Þannig er það bæði hagur starfsmanna og fyrirtækisins að hafa þetta nám innan Norðuráls.

Á föstudaginn útskrifaðist fimmti hópurinn úr stóriðjuskólanum eftir að hann hóf starfsemi en í þetta sinn voru það 33 nemendur sem útskrifuðust, 17 úr grunnnámi og 16 úr framhaldsnáminu. Nú hafa rúmlega 100 starfsmenn Norðuráls útskrifast úr stóriðjuskólanum. Af því tilefni var glæsileg útskriftarathöfn haldin í Norðuráli og mega starfsmenn vera stoltir af allri umgjörð í kringum útskriftina enda skein mikil ánægja úr andlitum útskriftarnema.

Eins og áður sagði gefur stóriðjunámið 5% launahækkun eftir grunnnámið og önnur 5% eftir framhaldsnámið sem þýðir að laun starfsmanns geta hækkað um allt að rúmar 60 þúsund krónur á mánuði þegar bæði grunn- og framhaldsnámi er lokið.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness sendir þeim sem útskrifuðust í gær innilegar hamingjuóskir með þennan glæsilega áfanga. Myndir frá athöfninni má sjá hér.

Á árinu sem nú er senn á enda hefur Verkalýðsfélag Akraness náð að leiðrétta og verja réttindi sinna félagsmanna um sem nemur rætt tæpum 48 milljónum króna.

Allt eru þetta mál þar sem félagsmenn hafa komið og óskað eftir liðsinni félagsins við ná fram rétti sínum eftir að atvinnurekendur hafa hafnað greiðsluskyldu vegna hinna ýmsu mála. Sum þessara mála hefur tekist að leysa með samtölum við atvinnurekendur en sum hafa þurft að fara í lögfræðilegar innheimtur og nokkur fyrir dómstóla.

Stærsta einstaka leiðréttingin vannst fyrir félagsdómi en hún nam 30 milljónum og dreifðist á þá sem höfðu starfað í sumarafleysingum hjá Norðuráli á síðustu 4 árum. En málið laut að ágreiningi vegna túlkunar á útreikningi á orlofs-og desemberuppbótum og einnig á ávinnslu á starfsaldurhækkunum hjá Norðuráli.

Þessar leiðréttingar og hagsmunagæsla sýnir svo ekki verður um villst mikilvægi þess fyrir félagsmenn að vera aðilar að öflugum stéttarfélögum sem eru tilbúin að vaða eld og brennistein til að verja réttindi sinna félagsmanna.

Frá árinu 2004 til dagsins í dag hefur Verkalýðsfélag Akraness innheimt og leiðrétt kjarasamningsbrot fyrir sína félagsmenn um sem nemur tæpum 540 milljónum króna!

Í dag er félagið með 7 mál fyrir dómstólum, 6 mál fyrir Héraðsdómi og eitt fyrir Hæstarétti en það mál vann félagið fyrir Héraðsdómi Vesturlands fyrr í sumar en atvinnurekandinn áfrýjaði því máli til Hæstaréttar.

Formanni er það algerlega til efs að nokkurt stéttarfélag sé með jafn mörg mál fyrir dómstólum eins og Verkalýðsfélag Akraness, allavega ekki miðað við stærð.

Monday, 22 June 2009 00:00

Formannafundur ASÍ á morgun

Boðað hefur verið til formannafundar Alþýðusambands Íslands á morgun kl. 15:00 og verður fundurinn haldinn á Grand Hóteli við Sigtún.

Á dagskrá fundarins eru kjaramál og stöðugleikasáttmálinn sem unnið hefur verið að á undanförnum vikum. Á undan fundi formanna ASÍ-félaga munu formenn Starfsgreinasambands Íslands funda þar sem þessi sömu mál verða til umfjöllunar.

Eins og flestir vita þá hafa Samtök atvinnulífsins tilkynnt að þeir muni ekki standa við það samkomulag sem gert var þann 25. febrúar sl. en hafa hins vegar boðið fram annað tilboð sem kveður á um að helmingurinn, 6.750 kr., bætist við mánaðarlaun nú 1. júlí en helmingur 1. nóvember. Ennfremur verði 3,5% hækkun á laun yfir launatöxtum frestað til 1. nóvember.

Afstaða Verkalýðsfélags Akraness hefur verið hvellskýr í þessu máli, en félagið vill að atvinnurekendur standi við áður gert samkomulag og taxtahækkun upp á 13.500 kr. taki gildi 1. júlí nk. eins og um hafði verið samið.

Sé það hins vegar vilji meirihluta verkalýðshreyfingarinnar að ganga frá samkomulagi sem kveður á um annað þá mun Verkalýðsfélag Akraness una þeirri niðurstöðu, en gerir það jafnframt að kröfu sinni að það tilboð frá SA sem nú liggur fyrir verði lagt í allsherjaratkvæðagreiðslu á meðal þeirra félagsmanna sem vinna eftir umræddum kjarasamningum. Það er algjört lykilatriði að það verði launþegar sjálfir sem taki ákvörðun um það hvort fresta eigi áður umsömdum hækkunum.

Á laugardaginn var gekk Elkem Ísland frá samkomulagi við ISS Ísland sem felur í sér að ISS tekur yfir rekstur mötuneytis, ræstinga, þvottahúss og saumastofu. Þeir sem hafa séð um þessa starfsemi hingað til eru starfsmenn Fangs, en Fang er í 100% eigu Elkem Ísland.

Formanni Verkalýðsfélags Akraness og starfsmönnum voru kynntar þessar breytingar á mánudaginn var. Formaður félagsins fundaði síðan með forsvarsmönnum ISS til að fá upplýsingar um hvernig þeir hyggist haga starfseminni bæði hvað varðar vinnutilhögun sem og launakjör starfsmanna.

Fram kom í máli forsvarsmanna ISS að öllum núverandi starfsmönnum verður boðið að starfa áfram, en þeir útiloka hins vegar ekki að til hagræðingar muni koma.

Varðandi launakjör þá býðst núverandi starfsmönnum að halda þeim launakjörum sem þeir hafa, en voru ekki tilbúnir að svara því hvort gildandi fyrirtækjasamningur við Fang verði áfram við lýði heldur vísuðu þeir á Samtök atvinnulífsins hvað það varðar.

Formaður gerði forsvarsmönnum ISS algerlega grein fyrir því að sá samningur sem gildir um þau störf sem þarna eru unnin mun áfram verða við lýði, ella muni starfsmenn og félagið grípa til róttækra aðgerða.

Til að útskýra málið þá liggur fyrir að gríðarlegir hagsmunir eru í húfi fyrir allt Grundartangasvæðið. Ef stóriðjufyrirtækin Elkem Ísland og Norðurál ætla að fara í auknu mæli að setja hluta af sinni starfsemi í verktöku mun það leiða til þess að þau réttindi sem barist hefur verið fyrir í tugi ára þurrkast út við slík útboð.

Í dag njóta þeir sem starfa eftir fyrirtækjasamningi sem Verkalýðsfélag Akraness gerði fyrir starfsmenn Fangs mjög góðra réttinda og sem dæmi þá er starfsmaður sem hefur starfað í 10 ár hjá Fangi með 191 þúsund krónur í grunnlaun. Þessu til viðbótar eru réttindi eins og ferðapeningar, 6% bónus, orlofs- og desemberuppbætur upp á yfir 200 þúsund krónur á ári og mun víðtækari uppsagna- og veikindaréttur en þekkist á hinum almenna vinnumarkaði.

Formanni reiknast til að ef ekki tekst að tryggja núverandi fyrirtækjasamning starfsmanna þá getur munað tugum þúsunda á mánuði fyrir starfsmann sem tæki laun eftir kjarasamningi á Grundartanga eða kjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði. Á þeirri forsendu getur það verið gríðarlegur hvati fyrir forsvarsmenn ISS að ráða nýja starfsmenn í þau störf sem þarna eru unnin ef ef ekki tekst að tryggja að fyrirtækjasamningur haldi gildi sínu.

Það er morgun ljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun berjast með kjafti og klóm fyrir því að þau réttindi sem barist hefur verið fyrir á síðustu áratugum haldi gildi sínu og verður hvergi hvikað frá í þeirri baráttu.

Formaður átti fund með starfsmönnum í morgun og hefur verið tekin ákvörðun um það að starfsmenn skrifa ekki undir nýja ráðningasamninga fyrr en Verkalýðsfélag Akraness hefur tryggt það að ISS Ísland yfirtaki núverandi fyrirtækjasamning með öllum þeim skyldum og réttindum sem í honum er kveðið á um.

Friday, 22 December 2017 15:39

Gleðileg jól

Stjórn og starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness óskar öllum félagsmönnum sínum sem og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

 

Thursday, 25 June 2009 00:00

ISS yfirtekur fyrirtækjasamning Fangs

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá tekur ISS Ísland við rekstri mötuneytis, ræstinga, þvottahúss og saumastofu af Fangi þann 1. júlí nk. Fang er í 100% eigu Elkem Ísland á Grundartanga.  Verkalýðsfélag Akraness gerði fyrirtækjasamning við Fang árið 2005 sem hefur tryggt starfsmönnum þess umtalsvert betri réttindi en gerast á hinum almenna vinnumarkaði.

Verkalýðsfélag Akraness gerði þá kröfu að ISS Ísland myndi yfirtaka áðurnefndan fyrirtækjasamning með öllum þeim réttindum sem í honum er kveðið á um.

Forsvarsmenn ISS voru ekki tilbúnir á fyrsta fundi til að fallast á þessa kröfu en í gær höfðu þeir samband við formann félagsins og hafa nú ákveðið að ganga í einu og öllu að þeim fyrirtækjasamningi sem er í gildi um þessi störf.

Er það gríðarlega mikilvægt enda kveður sá fyrirtækjasamningur á um mun betri launakjör og önnur réttindi en kjarasamningurinn á hinum almenna vinnumarkaði kveður á um.

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá hefur Verkalýðsfélag Akraness óttast það stórlega að stóriðjufyrirtækin á Grundartanga muni í auknum mæli bjóða út í verktöku hluta af sinni starfsemi.  

Það er alveg morgun ljóst að það mun ekki þýða fyrir Elkem Ísland né Norðurál að bjóða verktökum að sjá um hin ýmsu verk á Grundartangasvæðinu til þess eins að komast hjá kjarasamningum sem eru búnir að vera við lýði í áratugi.  

Það er yfirlýst stefna Verkalýðsfélag Akraness að verja þá stóriðjusamninga sem er í gildi á Grundartangasvæðinu og verður það eins og áður hefur komið fram hér á þessari síðu gert með kjafti og klóm.

Verkalýðsfélag fagnar því að náðst hafi að tryggja réttindi starfsmanna Fangs áfram, en slíkt hefði ekki gerst nema með góðri samstöðu félagsins og starfsmanna.

Tuesday, 02 January 2018 15:37

Jólatrúnaðarráðsfundur VLFA

Stjórn og trúnaðarráð félagsins hélt sinn árlega jólatrúnaðarráðsfund milli jóla og nýárs en á þeim fundi fer formaður yfir starfsemi félagsins á árinu sem er að líða.

Það er óhætt að segja að það sé ekki lognmolla í kringum starfsemi félagsins og fór formaður t.d. yfir það að á árinu þurfti félagið að innheimta fyrir félagsmenn vegna kjarasamningsbrota rétt tæpar 48 milljónir. Stærsta einstaka málið nam 30 milljónum en það var vegna ágreinings um túlkun á útreikningi á orlofs-og desemberuppbótum til handa sumarstarfsmönnum í Norðuráli. En það mál fór fyrir Félagsdóm sem staðfesti allar kröfur félagsins.

Það kom líka fram í erindi formanns að félagið hefur innheimt vegna réttinda- og kjarasamningsbrota yfir 530 milljónir frá því ný stjórn tók við félaginu árið 2004.

Formaður fór líka yfir kjarasamninga sem félagið kom að á árinu 2017 og bar þar hæst kjarasamningsdeilu sjómanna við útgerðamenn en sú deila endaði með 10 vikna löngu verkfalli sem er lengsta verkfall í 37 ára sögu ríkissáttasemjara en því lauk með undirritun kjarasamnings 19. febrúar 2017.

Einnig gerði hann grein fyrir kjarasamningum sem gerðir voru við Elkem Ísland og Klafa á Grundartanga en það voru mjög góðir kjarasamningar þar sem laun starfsmanna hækkuðu umtalsvert og einnig náðist að launavísitölutengja báða þá samninga með sama hætti og gert var hjá Norðuráli árið 2015. Einnig var samið um að koma á fót svokölluðum Elkem-skóla sem mun tryggja starfsmönnum 10% launahækkun að loknu fullu námi í bæði grunn- og framhaldsnámi. Einnig fór formaður yfir kjarasamninginn sem gerður var fyrir starfsmenn síldarbræðslunnar en hann skilaði um 10% upphafshækkun.

Formaður fór einnig yfir þau dapurlegu tíðindi þegar HB Grandi tilkynnti að fyrirtækið hefði ákveðið að hætta allri landvinnslu á bolfiski á Akranesi en við þá ákvörðun töpuðust um 100 störf. Það kom fram í máli formanns að það væri sorglegt að fyrirtæki sem hefði verið stofnað 1904 og hefði lifað af tvær heimsstyrjaldir skuli hafa dáið vegna fyrirkomulags á stjórnun fiskveiða þar sem útgerðamenn geta tekið einhliða ákvarðanir um að flytja starfsemi eða selja aflaheimildir með þeim afleiðingum að sjómenn, fiskvinnslufólk og byggðarlög verða fyrir miklum skelli fjárhagslega sem andlega.

En það kom líka fram hjá formanni að félagið er gríðarlega sterkt félagslega sem fjárhagslega og veittir sínum félagsmönnum góða og trygga þjónustu á margvíslegan hátt.   

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image