• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

25
Jan

Félagsmannasjóður greiðir 30 milljónir til þeirra sem starfa hjá Akraneskaupstað, Hvalfjarðarsveit og hjúkrunar- og dvalarheimilinu Höfða

Í síðasta kjarasamningi Verkalýðsfélags Akraness við Samband íslenskra sveitarfélaga var samið um svokallaðan félagsmannasjóð. Sá sjóður byggist á því að samningsaðilar sem eru í þessu tilfelli Akraneskaupstaður, Hvalfjarðarsveit og hjúkrunar- og dvalarheimlið Höfði greiða sem nemur 1,5% af heildarlaunum starfsmanna inn í þennan sérstaka sjóð. Í samningnum var síðan kveðið á um að útgreiðsla úr sjóðnum skyldi eiga sér stað einu sinni á ári eða í febrúar ár hvert og núna er komið að því að greiða úr sjóðnum.

Þetta er í þriðja sinn sem greitt er úr sjóðnum til þeirra félagsmanna sem tilheyra umræddum samningi og mun útborgun nema rétt tæpum 30 milljónum og nemur meðaltals greiðsla rétt rúmum 50.000 kr. Í heildina eru það 593 félagsmenn sem starfa hjá Akraneskaupstað, Hvalfjarðarsveit og hjúkrunar- og dvalarheimlinu Höfða sem eiga rétt á greiðslu og kemur hún inn á reikning þeirra þann 1. febrúar næstkomandi.

Á síðasta mánudag var bréf póstlagt til þeirra félagsmanna sem fá endurgreiðslu þar sem fram kemur upphæð sem viðkomandi fær inn á reikning sinn um mánaðarmótin.

Rétt er að geta þess eins og áður hefur komið fram að þetta er í þriðja sinn sem greitt er út úr sjóðnum og nemur heildargreiðslan á þessum 3 árum um 75 milljónum sem tilheyra umræddum kjarasamningi við Samband íslenskra sveitarfélaga.

24
Jan

Laun í Norðuráli hækka um 11,74%

Grunnlaun verkamanna sem starfa hjá Norðuráli hækka með hæfnisálagi að meðaltali um 49.376 kr. frá 1. Janúar 2023

En heildarlaun verkamanna í kerskála munu hækka um 82.500 kr. að meðaltali á mánuði, en í kerskálanum er fjölmennasti hópurinn sem starfar hjá Norðuráli

Einnig er rétt að geta þess að orlofs- og desemberuppbætur fara úr 244.896 kr. í 273.622 kr. hvor fyrir sig og er sú hækkun 28.726 kr. eða samtals 57.452 kr.

Rétt er að geta þess að þetta er hækkun sem nemur 11,74% en þessar hækkanir eru í samræmi við kjarasamning sem gerður var 1. Janúar 2020 og rennur hann út í árslok 2024

Það er einnig rétt að geta þess að laun hjá Elkem Ísland, Klafa og Snók þjónustu munu einnig hækka um 11,73% en öll þessi fyrirtæki eru með starfsemi á stóriðjusvæðinu á Grundartanga.

23
Jan

Ný launatafla við sveitafélögin

Verkalýðsfélag Akraness vill minna félagsmenn sína sem starfa hjá Akraneskaupstað, Hvalfjarðasveit og Hjúkrunar-og dvalarheimilisins Höfða á nýja launatöflu sem tók gildi 1. Janúar 2023.

Lágmarkshækkun á töflunni er 35.000 kr. en hægt er að sjá nýja launatöflu hér eða undir klipanum kjaramál / Kauptaxtar.

03
Jan

Fæðingarstyrkur VLFA gríðarlega vinsæll hjá félagsmönnum!

Verkalýðsfélag Akraness býr yfir öflugum sjúkrasjóði þar sem félagsmönnum okkar er boðið upp á margvíslega styrki úr sjóðnum. Á árinu 2022 greiddi sjúkrasjóður um 100 milljónir í formi sjúkradagpeninga og styrkja til félagsmanna en tæplega 1400 félagsmenn notfærðu sér þá styrki sem VLFA býður sínum félagsmönnum uppá, sem er 46% félagsmanna.

Eins og alltaf þá eru hæðstu greiðslurnar úr sjúkrasjóðnum vegna sjúkradagpeninga og námu þær greiðslur um 52 milljónum í fyrra, en rétt til greiðslu sjúkradagpeninga eiga þeir félagsmenn sem lokið hafa veikindarétti hjá sínum atvinnurekanda og eru áfram veikir.

Það er ánægjulegt að segja frá því að hæsti einstaki styrkurinn sem VLFA greiddi út er fæðingarstyrkurinn. Félagsmaður í VLFA sem eignast barn á rétt á slíkum styrk sem nemur 150.000 kr. og ef báðir foreldrar eru í félaginu þá nemur styrkurinn samtals 300.000 kr.   En 94 foreldrar eignuðust barn á árinu 2022 og nam heildarupphæð fæðingarstyrks rétt tæpum 13,3 milljónum í fyrra.

410 félagsmenn nýttu sér heilsufarskoðunarstyrkinn en hann nemur 50% af reikningi að hámarki 35 þúsund og nam heildarupphæðin tæpri 8,6 milljón á árinu 2022. Fyrir nokkrum árum var þessi styrkur útvíkkaður þannig að félagsmenn gátu komið með reikning vegna tannlæknakostnaðar og eru um 65% af öllum endurgreiðslum vegna þessa styrks vegna tannlæknakostnaðar.

Einnig er rétt að upplýsa að heilsueflingarstyrkurinn er alltaf mjög vinsæll hjá félagsmönnum VLFA en um 365 félagsmenn þáðu þann styrk, en hann nemur 50% af reikningi að hámarki 45 þúsund og nam heildarupphæð heilsueflingarstyrksins rúmum 9,4 milljónum.

Sem betur fer er sjúkrasjóður Verkalýðsfélags Akraness öflugur og stendur vel fjárhagslega og það er stefna stjórnar félagsins að láta félagsmenn ætíð njóta góðs af góðri afkomu félagsins með því að bæta við styrkjum eða hækka fjárhæðir einstakra styrkja og verður engin undantekning þar á í ár.

En slíkar breytingar eru alltaf tilkynntar á aðalfundi félagsins og taka gildi næstu mánaðarmót eftir aðalfund.

22
Dec

Aðalfundur sjómannadeildar

Sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness minnir félagsmenn sem tilheyra deildinni á aðalfund sjómannadeildar sem haldinn verður fimmtudaginn 29. desember klukkan 14:00 í fundarsal félagsins að Þjóðbraut 1.

Dagskrá:

  • Venjubundin aðalfundarstörf
  • Komandi kjarasamningar 
  • Önnur mál. 

Félagsmenn í sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness eru eindregið hvattir til að mæta

21
Dec

Nýr kjarasamningur milli SGS og SA á hinum almenna vinnumarkaði samþykktur

Kosningu um nýgerðan kjarasamning milli Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins á hinum almenna vinnumarkaði lauk á hádegi þann 19. desember.

Niðurstöður kosninganna voru afgerandi en kjarasamningurinn var samþykktur hjá þeim 17 félögum sem eiga aðild að honum og yfir heildina kusu tæp 86% þeirra sem greiddu atkvæði með samningnum. Hjá Verkalýðsfélagi Akraness urðu niðurstöður kosninga þannig að samningurinn var samþykktur með tæplega 92% greiddra atkvæða sem er gríðarlega hátt hlutfall.

Þessi niðurstaða sýnir svo ekki verður um villst að þeir sem vinna eftir samningnum eru ánægðir með hvernig til tókst og það er það sem skiptir máli. Þessi niðurstaða fékkst þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir forystumanna Eflingar til að hafa neikvæð áhrif á kosningarnar með því að tala samninginn niður og dreifa villandi upplýsingum um hann í ýmsum fjölmiðlum.

Eins og áður hefur komið fram er um að ræða skammtímasamning sem gildir til 31. janúar 2024 og er mikill kostur að þessi nýi samningur nær að taka við í beinu framhaldi af þeim kjarasamningi sem rann út þann 1. nóvember síðastliðinn. Nýja kauptaxta má sjá hér.

19
Dec

Sigrún Clausen - minningarorð

Sigrún Clausen, heiðursfélagi í Verkalýðsfélagi Akraness, er látin 92 ára að aldri en hún var fædd þann 20. október 1930.

Sigrún gekk formlega í félagið 8. maí 1969 þegar hún hóf störf við fiskvinnslu. Ýmislegt varðandi aðstöðu og réttindi fiskvinnslukvenna kom Sigrúnu á óvart og í kjölfarið fór hún að láta til sín taka í ýmsum baráttumálum í gegnum félagið. Hún var mjög virk í starfi félagsins og gegndi stjórnarstörfum fyrir það í þrjá áratugi. Meðal annars var hún í aðalstjórn frá 1972 til ársins 2000 og varð fyrsti formaður fiskvinnsludeildarinnar árið 1988. Sigrún sat líka um árabil í stjórn sjúkrasjóðs eða allt til ársins 2002 en það ár var hún einmitt gerð að heiðursfélaga VLFA.

Einnig starfaði Sigrún stundum í afleysingum fyrir Herdísi Ólafsdóttur á skrifstofu félagsins eða aðstoðaði hana þar þegar álagið var mikið en skrifstofan var þá staðsett að Kirkjubraut 40. Þá vann hún jafnvel fyrir hádegi í frystihúsinu og á skrifstofunni eftir hádegi og líkaði vel en á þessum tíma var mikil handavinna fólgin í að afgreiða umsóknir úr sjúkrasjóði og jafnframt fór afgreiðsla atvinnuleysisbóta fram í gegnum félagið.

Eitt af því sem Sigrún tók þátt í á vegum félagsins var að skipuleggja ásamt Herdísi ferðir fyrir eldri félagsmenn. Slíkar dagsferðir hafa verið árvissar um langt skeið og felst mikil vinna í að undirbúa þær. Eftir að Sigrún hætti að vinna kom hún svo sjálf með í fjölmargar af ferðum félagsins.

Sigrún fylgdist alla tíð mjög vel með starfsemi félagsins og bar hag þess fyrir brjósti. Stjórn og starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness þakkar henni fyrir vel unnin störf og sendir aðstandendum hennar innilegar samúðarkveðjur.

14
Dec

Kosning um nýjan samning iðnaðarmanna hefst í dag

Atkvæðagreiðsla um nýgerðan kjarasamning fyrir iðnaðarmenn hefst í dag. Verkalýðsfélag Akraness er aðili að Samiðn og þeir félagsmenn sem vinna eftir þeim samningi geta kosið um hann á skrifstofu félagsins.

Kosningin hefst kl. 12 á hádegi í dag, miðvikudaginn 14. desember og henni lýkur á hádegi miðvikudaginn 21. desember. Félagið hvetur alla félagsmenn sína í iðnsveinadeild til að nýta sinn atkvæðarétt og koma við á skrifstofu félagsins til að kjósa.

Samninginn má skoða nánar hér.  Kynningarefni er hér

13
Dec

Gengið frá kjarasamningi við iðnaðarmenn

Í gær var skrifað undir kjarasamning Samiðnar við Samtök atvinnulífsins en Verkalýðsfélag Akraness er aðili að Samiðn enda er félagið með iðnsveinadeild. Kjarasamningurinn gekk út á að þeir sem ekki taka laun eftir kauptöxtum hækka um 6,75% en kauptaxtar hækka hlutfallslega með sambærilegum hætti og í kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands. Kosning um kjarasamninginn verður auglýst síðar og einnig kynning um hann. Sjá má kjarasamninginn hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image