• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

20
May

Þrjátíu til fjörtíu ný störf hjá HB-Granda

Verkalýðsfélag Akraness hefur gert samkomulag við HB-Granda um að taka upp  vaktafyrirkomulag í frystihúsi fyrirtækisins vegna nýrrar flæðilínu sem tekin verður í notkun á allara næstu dögum. Þetta breytta fyrirkomulag er með þeim hætti að það verður unnið í 12 tíma á tveimur vöktum sú fyrri byrjar kl 07:00 og stendur til 15:00 og sú síðari stendur frá 15:00 til 19:00.  Starfsmenn HB-Granda samþykktu samkomulagið í morgun í kosningu með yfirgnæfandi meirihluta.  Við þessa breytingu munu skapast allt að 40 ný störf í frystihúsi HB-Granda hér á Akranesi.  Er stjórn Verklýðsfélag Akraness afar ánægð með að þetta samkomulag skuli hafa náðst við stjórnendur HB-Granda og síðan en ekki síst við þá starfsmenn sem munu vinna eftir þessu nýja fyrirkomulagi.  Verkalýðsfélag Akraness mun fylgjast vel með að þetta breytta vaktafyrirkomulag virki sem allra best og mun aðstoða starfsmenn ef einhver vandamál kunni að koma upp.

18
May

Greiðslufrestur fyrir orlofshús

Við minnum á að þeir sem hafa fengið úthlutað orlofshúsi í sumar, greiði greiðsluseðilinn ekki síðar en 21. maí nk, eða að öðrum kosti hafi samband við skrifstofuna og fái greiðslufrest.  Ef ekki er greitt innan tilskilins frests verður viðkomandi orlofshúsi endurúthlutað.

Lausar vikur verða auglýstar mánudaginn 24. maí hér á síðunni og á skrifstofunni.

14
May

Atkvæðagreiðsla um kjarasamning Samiðnar og SA

Atkvæðagreiðsla um kjarasamning Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins sem Verkalýðsfélag Akraness er aðili að hefst mánudaginn 17. maí og lýkur kl. 19:00 þriðjudaginn 18. maí 2004. Atkvæðagreiðsla fer fram á Skrifstofu félagsins að Sunnubraut 13. 

Félagsmenn  sem vinna eftir Kjarasamningi Samiðnar og  eru á kjörskrá, eru  hvattir til að taka þátt í atkvæðagreiðslunni. Kjarasamningurinn liggur frammi á skrifstofu félagsins. 

14
May

Kjaraviðræðum slitið við SHA

Í morgun slitnaði upp úr viðræðum um stofnanasamning á milli starfsmanna SHA og stjórnenda Sjúkrahúss Akraness.  Óvíst er með framhaldið á viðræðunum.

13
May

Útlitið ekki gott

Útlitið ekki gott um að vel takist til með nýjan stofnanasamning fyrir starfsmenn SHA allavega ekki eins og staðan er í dag.  Forsvarsmenn SHA lögðu fram tilboð fyrir samninganefnd félagsins, og er það því miður langt í frá að vera ásættanlegt.  Kom fram í máli hjá Guðjóni Brjánssyni  framkvæmdastjóra SHA sem leiðir viðræðurnar fyrir Sjúkrahús Akraness að stofnunin hafi því miður ekki fengið meira fjármagn frá fjármálaráðuneytinu, meðan ekki komi meira fjármagn geti þeir því  ekki boðið betur. 

12
May

Jákvæðir hlutir að gerast hjá HB-Granda

Trúnaðarmenn HB-Granda ásamt formanni félagsins munu funda með forsvarsmönnum HB-Granda á morgun kl 13:00.  Tilefni fundarins er að til stendur að taka í notkun nýja flæðilínu hjá fyrirtækinu og við það verður komið á tvískiptu vaktarkerfi.  Það er mjög jákvætt að við þessa breytingu mun að öllum líkindum skapast nokkur ný störf hjá HB-Granda.

10
May

Framkvæmdastjórn SGS mótmælir fjölmiðlafrumvarpinu

Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands fundaði á Egilsstöðum um helgina. Um var að ræða svokallaðan vinnufund vegna ársfundar sambandsins í haust. Fundarmenn töldu fulla ástæðu til að álykta um fjölmiðlafrumvarp stjórnvalda. Ályktunin er svohljóðandi:

Um fjölmiðla verður að ríkja þverpólitísk og þjóðfélagsleg samstaða. Framkvæmdastjórnin telur mikilvægt að efnt verði til víðtækrar umræðu um starfsumhverfi fjölmiðla hér á landi, m.a. með þátttöku þeirra sem starfa við fjölmiðla, fulltrúa aðila vinnumarkaðarins og annarra sem láta sig málið varða. Mikilvægt er treysta og efla vandaðan og sjálfstæðan fréttaflutning fjölmiðla til að tryggja tjáningarfrelsi, fjölbreytni og gagnrýna þjóðfélagsumræðu. 

07
May

Fyrsta skóflustungan tekin að stækkun álvers Norðuráls

Fyrsta skóflustungan var í dag tekin að væntanlegri stækkun álvers Norðuráls við Grundartanga úr 90 í 180 þúsund tonna framleiðslugetu. Fulltrúar Century Aluminum, nýs eiganda Norðuráls, og yfirmenn Norðuráls tóku skóflustunguna en viðstaddir voru m.a. starfsmenn og fulltrúar sveitarfélaga. Jarðvegsframkvæmdir hefjast þegar eftir helgina á vegum Íslenskra aðalverktaka og á þeim að verða lokið í haust. Sjálf byggingin verður boðin út í júní. 

Stækkuð álverksmiðja á að taka til starfa vorið 2006 og þegar framkvæmdum lýkur munu 320 manns starfa hjá Norðuráli. Er það 130 störfum meira en nú eru í verksmiðjunni. Áætluð fjárfesting í stækkuninni er 23 miljarðar króna og mun verðmæti útflutnings aukast um 12 milljarða króna á ári. Við framkvæmdirnar skapast um þúsund ársverk á verktímanum. 

06
May

Frestur framlengdur

Starfsgreinasamband Íslands og Samninganefnd ríkisins eru sammála, samkvæmt samkomulagi í dag, að framlengja um 10 daga, þ.e. til kl 15:00 þann 25. maí 2004, þeim fresti samkvæmt 2. mgr. greinar 18.2.2 sem aðilar hafa til að tilkynna niðurstöðu atkvæðagreiðslu um samþykkt eða synjun kjarasmningsins við ríkið sem unirritaður var 7. apríl s.l. 

05
May

Krabbameinsskoðun greidd af sjúkrasjóði

Samþykkt var á aðalfundi 29. apríl sl. að greiða kr. 1.500 vegna krabbameinsskoðunar félagsmanna úr sjúkrasjóði félagsins.  Þeir félagsmenn sem fóru í skoðun nú í vor geta því komið með kvittun sína fyrir skoðuninni á skrifstofu félagsins og fengið endurgreiðslu.  Hver félagsmaður á rétt á þessari greiðslu annað hvert ár.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image