• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
16
Sep

Dagsferð með eldri félagsmenn heppnaðist mjög vel

Í dag var farin hin árlega ferð þar sem Verkalýðsfélag Akraness bauð eldri félagsmönnum í dagsferð. Um 108 eldri félagsmenn þáðu boð félagsins og komu með í þessa ferð.  Ferðatilhögun var þannig að byrjað var á því að stoppa í Reykholti þar sem Geir Waage prestur tók á móti okkur, og hélt fyrirlestur um það sem fyrir augu bar.  Þegar Geir Waage hafði farið yfir sögu Reykholts, var snæddur hádegisverður á Hótel Reykholti.

Síðan lá leiðin að Hraunfossum og var gert stutt stopp þar og menn dáðust að þeirri fegurð sem þar er.  Leiðin lá síðan yfir Kaldadal og niður á Þingvöll og var peningagjá skoðuð, þegar því var lokið var skundað á Hótel Vallhöll, þar sem boðið var uppá kaffi og meðlæti.  Þaðan var ekið  í Mosfellsbæ þar sem bæjarstjóri Mosfellsbæjar Ragnheiður Ríkharðsdóttir (skagakona)  tók á móti okkur og hafði bæjarstjórinn fengið kór eldri borgara til að syngja fyrir okkur.  Var þessi móttaka bæjarstjórans frábær og kann Verkalýðsfélag Akraness henni bestu þakkir fyrir.  Leiðsögumaður í þessari ferð var Björn Finsen og verður að segjast alveg eins og er að hann fór á kostum í þessari ferð.  Hér er mikill sagnabrunnur á ferð, gerði hann góða ferð enn betri.  Vill Verkalýðsfélag Akraness þakka Birni kærlega fyrir hans framlag.  Þeir sem voru fulltrúar félagsins í þessari ferð voru Vilhjálmur Birgisson formaður félagsins, Hugrún Olga Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri, Auður Ásgeirsdóttir varaformaður félagsins og Sigríður Sæmundsdóttir í stjórn orlofssjóðs.  Hægt er að skoða myndir úr ferðinni með því að smella á myndir og velja síðan flokk sem heitir Ferð eldri félagsmanna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image