• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Sep

Stjórnin fær lögfræðilegt álit vegna Klafa ehf. og Fang ehf

Til stjórnarfundar hefur verið boðað  mánudaginn 27. september n.k.  Tilefni fundarins er sú blákalda staðreynd að Klafi ehf. og Fang ehf. hafa bæði hafnað að gera viðræðuáætlun við Verkalýðsfélag Akraness.  Reyndar hafa eigendur Fangs gengið mun lengra og telja að samningar séu ekki lausir og því ekkert til að semja um.  Það er þannig að starfsmenn Fangs eru með ráðningarsamning sem vísar beint í kjarasamning Íslenska járnblendifélagsins og rennur samningur ÍJ út 30. nóvember n.k.

Í ráðningarsamningi sem gerður var við starfsmenn Fangs segir í 4. gr “Um kjör að öðru leyti en í ráðningasamningi þessum greinir fer skv. Kjarasamningi Íslenska járnblendifélagsins.  Sú kjarasamningsviðmiðun fellur niður 30. nóvember 2004 þegar kjarasamningur ÍJ fellur úr gildi.  Frá 1. desember 2004 skulu kjör að öðru leyti fara samkvæmt gildandi samningi við Samtök atvinnulífsins og Verkalýðsfélags Akraness/Harðar í Hvalfirði/Verslunarmannafélags Reykjavíkur.  Persónubundinn kjör lækka ekki nema með að undangenginni uppsögn þessa samnings”

Forsvarsmenn Fangs gerðu ráðningarsamninga við starfsmenn og eins og fram kemur í ráðningarsamningi við starfsmennina mun allt annar kjarasamningur gilda eftir að samningur við Íslenska járnblendifélagið rennur út 30. nóvember.  Ekkert skriflegt finnst um aðkomu Verkalýðsfélags Akraness að þessu máli.

Í ljósi þessara staðreynda hafði félagið samband við lögmann félagsins og bað um álit á málefnum Klafa og Fangs, hvort þessi framkvæmd stæðist lög.  Lögmaður félagsins skilaði 5 síðna álitsgerð um þessi mál og kemur fram hjá honum að þetta standist ekki lög að hans mati. 

Lögmaðurinn segir á einum stað í áliti sínu orðrétt.

“Fang ehf. hefur í ráðningarsamningi sínum tekið fram að samningurinn við Íslenska járnblendifélagið falli úr gildi 1. des 2004 og skuli frá þeim tíma gilda aðrir kjarasamningar.  Ljóst er að Fang ehf. getur ekki einhliða ákveðið þessa breytingu.  Orðalag í ráðningarsamningi skiptir þar engu máli.  Nægir þar að vísa til 7. gr. laga nr. 80/1938 þar sem tekið er fram að samningar einstakra  verkamanna  við atvinnurekendur eru ógildir að svo miklu leyti sem þeir fara í bága við samninga stéttarfélagsins við atvinnurekandann, enda hafi félagið ekki samþykkt þá.”

Það  liggur alveg orðið ljóst fyrir hvað eigendur þessara umræddu fyrirtækja ætla sér, það er að komast hjá því að greiða eftir kjarasamningi Íslenska járnblendifélagsins og þess í stað að greiða eftir samningum sem gerðir hafa verið á hinum almenna vinnumarkaði, sem eru umtalsvert lakari en þau kjör sem eru í kjarasamningi Íslenska járnblendifélagsins.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness mun á fundinum á mánudaginn fara yfir álit lögmannsins og ákveða í framhaldinu hver næstu skref verða.   Það eru töluverðar líkur á að þessu máli verði vísað til félagsdóms.

Lögmaður VLFA lítur þetta mál mjög alvarlegum augum og sagði við formann félagsins að stéttarfélag sem léti svona mál afskiptalaust væri ekki að sinna sínum skyldum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image