• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

23
Aug

Heimsóknin í Norðurál tókst mjög vel

Öryggisfulltrúi fyrirtækisins og formaður stóriðjudeildar VLFA fylgdu formanni Verkalýðsfélagsins um vinnusvæðið og útskýrðu það sem fyrir augum bar. Formaður félagsins átti margar góðar samræður  við starfsmenn og svaraði þeim spurningum sem fyrir hann voru lagðar. 

 Formaður upplýsti þá starfsmenn sem hann hitti að hagfræðingur Alþýðusambandsins væri að vinna fyrir félagið, að því að gera launasamanburð milli þriggja verksmiðja þ.e Norðurál, Íslenska járnblendifélagið og Ísal. Niðurstöður úr þeirri vinnu hagfræðingsins ættu að liggja fyrir mjög fljótlega.  Í heimsókninni voru teknar 56 myndir af starfsmönnum og framkvæmdum vegna stækkunar  Norðuráls.  Hægt er að skoða myndirnar með því að smella á myndir og smella síðan á Norðurál.  Stjórn félagsins vill þakka fyrir að hafa fengið tækifæri til að kynna sér starf og starfsumhverfi verksmiðjunnar og þá góðu leiðsögn sem öryggisfulltrúi fyrirtækisins og formaður stóriðjudeildar sáu um 

19
Aug

Formaður félagsins heimsækir Norðurál

Formaður félagsins ætlar að heimsækja Norðurál í fyrramálið kl 9.30 og kynna sér starf og starfsumhverfi félagsmanna VLFA.  Eins mun formaður félagsins heyra hljóðið í starfsmönnum.     Teknar verða  myndir af starfsmönnum við hin daglegu störf  og munu þær verða birtar hér á heimasíðunni. Öryggisfulltrúi Norðuráls og formaður stóriðjudeildar VLFA munu verða formanni félagsins innan handar í heimsókn þessari.  Það er stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að vera í  eins góðu sambandi við félagsmenn okkar og kostur er,  þessi heimsókn er einn liður í því.

17
Aug

Sérkjarasamningur í fiskimjölsverksmiðjunni samþykktur í dag

Formaður félagsins fór í dag í fiskimjölsverksmiðju HB Granda og kynnti nýgerðan sérkjarasamning milli Verkalýðsfélags Akraness og HB Granda fyrir starfsmönnum síldarbræðslunnar.  Sérkjarasamningurinn gildir fyrir starfsmenn sem starfa í fiskimjölsverksmiðju HB Granda.  Starfsmenn greiddu einnig atkvæði um samninginn á þessum kynningarfundi og var hann samþykktur með öllum greiddum atkvæðum.  Starfsmenn voru almennt ánægðir með nýja samninginn en gildistími samningsins er 2. maí 2004 og gildir hann til 31. desember 2007.

17
Aug

Þrjú orlofshús laus næstu viku

Vikuna 20. - 27. ágúst, þ.e. næstu viku, eru þrjú orlofshús félagsins laus til útleigu.  Það er íbúðin í Súðavík, bústaðurinn í Ölfusborgum og bústaðurinn í Hlíð, Hvalfjarðarströnd. 

Nú fer hver að verða síðastur að skella sér í bústað í viku, einungis næstu þrjár vikur tilheyra sumarleigutímabilinu. 

Smellið á Orlofshús hér til hliðar til að sjá hvaða hús eru laus það sem eftir er af sumarleigutímabilinu.

Þann 10. september byrjar vetrarleigan og eru þá leigðar út helgar í vetur, eins og undanfarin ár.

Upplýsingar á skrifstofunni, sími 430-9900. 

13
Aug

Laust í Ölfusborgum 20. ágúst

Bústaðurinn okkar í Ölfusborgum er laus vikuna  20. - 27. ágúst.  Fyrstur kemur fyrstur fær.  Upplýsingar á skrifstofu félagsins og í síma 430-9900 eða 865-1294.

12
Aug

Skrifað undir nýjan kjarasamning vegna starfsmanna síldarbræðslunnar

Skrifað var undir nýjan kjarasamning við forsvarsmenn HB Granda í morgun vegna starfsmanna síldarbræðslunnar.  Gildistími samningsins er frá 2. maí 2004 til 1. janúar 2006.  Þeir sem gengu frá samningum fyrir hönd félagsins og starfsmanna síldarbræðslunnar voru, Vilhjálmur Birgisson formaður félagsins Eðvarð  Árnason, og Björgólfur Einarsson, sem eru trúnaðarmenn síldarbræðslunnar 

Samningurinn verður kynntur starfsmönnum fljótlega efir helgi og borinn undir atkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar  Hægt er að sjá myndir frá undirrituninni með því að smella á myndir og fara í HB-Grandi.

11
Aug

Hvaða rétt eiga félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness úr sjúkrasjóði félagsins?

Félagsmaður sem hefur greitt í sjóðinn í fulla sex mánuði á rétt á eftirfarandi greiðslum úr sjúkrasjóði félagsins:

  1. Sjúkradagpeningum (þegar veikindarétti er lokið hjá vinnuveitenda.)
  2. Fæðingarstyrk.
  3. Endurgreiðslu vegna krabbameinsskoðunar. (1.500 krónur)
  4. 50% endurgreiðslu vegna sjúkranudds (18 þúsund hámark)
  5. Dánarbótum.
  6. Sjúkradagpeningum vegna áfengismeðferðar/fíkniefnameðferðar.

Nánari upplýsingar veita starfsmenn Verkalýðsfélags Akraness.  Sími 430-9900.

Stéttarfélag á hraðri uppleið.

09
Aug

Hægt að skoða myndir á heimasíðunni

Félagsmenn skoðið nýjar myndir sem við höfum sett inn á heimasíðuna, sem teknar hafa verðið  af  félagsmönnum, gestum og við hin ýmsu tækifæri.  Starfsmenn félagsins munu sjá um að taka myndir af félagsmönnum við hin daglegu störf og aðra viðburði sem tengjast félaginu.  Er þetta einn liður í að gera heimasíðuna eins virka, áhugaverða og gagnlega eins og kostur er.  Smellið á myndir.

05
Aug

Kynning á starfsemi félagsins fyrir 16 unglinga var haldin í dag

Verkalýðsfélag Akraness hélt kynningu á starfssemi félagsins fyrir 16 ára unglinga í dag.  Það voru 40 unglingar sem hlustuðu með athygli á formann félagsins fara yfir hverjar skyldur og réttindi atvinnurekenda væru gagnvart launamönnum, og eins hverjar skyldur launþegans væru gagnvart vinnuveitandanum.  Eins sagði formaður félagsins frá hvaða þjónustu félagið býður upp á  fyrir fullgilda félagsmenn.  Stjórn félagsins bauð síðan krökkunum uppá grillaðar pylsur og gos með.

Stjórn félagsins vill þakka Einari Skúlasyni forstöðumanni Arnardals kærlega fyrir að hafa gert okkur kleift að halda þessa kynningu sem verður að öllum líkindum gerð að árvissum atburði hér eftir.

04
Aug

Starfsmenn Íslenska járnblendifélagsins fá tæpar 7 milljónir vegna hlutdeildar í hagnaði vegna ársins 2003.

Verkalýðsfélag Akraness og Sveinafélagið gengu frá samkomulagi við forstjóra Íslenska járnblendifélagsins í gær.  Fundurinn var haldinn á skrifstofu lögmanns verkalýðsfélags Akraness.  Til fundarins mættu fyrir hönd IJ Johan Svensson forstjóri Helgi Þórhallsson aðstoðarforstjóri og lögmaður IJ Ólafur Garðarsson hrl.  Í fundargerð frá fundinum segir að fundarefnið hafi verið að finna lausn á deilu um hlutdeild starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins í hagnaði vegna ársins 2003.  Forsvarsmenn ÍJ samþykktu að greiða starfsmönnum 6.7 milljónir vegna hlutdeildar í hagnaði, og er það í fullu samræmi við bókun sem starfsmenn IJ gerðu í maí 1997 vegna kjarasamnings sem þá var gerður.

 

Fulltrúar Íslenska járnblendifélagsins létu þess sérstaklega getið að greiðsla þessi fæli ekki í sér neina viðurkenningu á rétti starfsmanna til hlutdeildar í hagnaði félagsins og hefur að mati félagsins ekkert fordæmisgildi  Er greiðslan innt af hendi vegna góðrar afkomu fyrirtækisins á árinu 2003. og til að viðhalda góðri samvinnu við starfsfólk fyrirtækisins og greiða fyrir komandi kjarasamningum.  Kom fram hjá fulltrúum Íslenska járnblendifélagsins að greiðslur tengdar hagnaði þekkjast ekki nú hjá Elkem.

 

Fram kom hjá lögmanni verkalýðsfélags Akraness að verði hagnaður vegna ársins 2004. þá munu verkalýðsfélagið og sveinafélagið gera kröfu um hlutdeild í hagnaði á grunvelli bókunar frá árinu 1997.  Því það er alveg á hreinu að félöginn telja að bókunin fá 1997. sé klárlega hluti að kjarasamningi starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins.  Er stjórn verkalýðsfélags Akraness afar stolt af því hvernig þetta mál leystist farsællega fyrir okkar félagsmenn.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image