• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

09
Apr

Samstaðan skilaði árangri – markmiðin í höfn

Segja má að sú öfluga samstaða aðildarfélaga SGS í kjaraviðræðunum við ríkið hafi skilað þeim árangri sem raun ber vitni. Áratuga barátta verkalýðshreyfingarinnar fyrir jöfnun  réttinda almenns verkafólks hjá ríkinu við aðra starfsmenn ríkisins eru í meginatriðum í höfn. Þeim mismun sem verið hefur í kjara- og réttindaumhverfi starfsmanna ríkisins er rutt úr vegi. En það var ekki einungis samstaða aðildarfélaganna sem skilali þessum árangri, heldur hin virka samstaða félagsmannanna um land allt meðan á samningaferlinum stóð. Á öllum þeim starfsmannafundum sem haldnir voru á vinnustöðum kom fram skýlaus vilji félagsmanna til að ljúka þessu verkefni um jöfnun réttindanna. Það var það bakland sem gaf samninganefndinni styrk. Því verður með engum rökum haldið fram, að verkalýðshreyfingin séu úr tengslum við grasrótina, það sannar sú samningalota sem nú er lokið.

Kjarasamningurinn verður birtur í heild hér á vefsíðunni eftir páska. 

08
Apr

Kjarasamningur SGS undirritaður við ríkið

Nýr heildarkjarasamningur aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands við ríkið, var undirritaður á miðnætti kvöld 8. apríl 2004. Samningurinn sem gildir til 31. mars 2008, kemur í stað 14 mismunandi samninga einstakra félaga, sem áður giltu.

  • Markmið samningsins er að færa kjaraumhverfi félagsmanna aðildarfélaga SGS nær því sem gildir um aðra starfsmenn ríkisins. Meginatriði í kröfugerð aðildarfélaganna gagnvart ríkinu eru í höfn.
  • Mótframlag ríkisins í lífeyrissjóð hækkar til jafns við framlag til starfsmanna ríkisins, úr 6% í 11,5% á samningstímanum. Auk framlags starfsmanna verður framlag í lífeyrissjóð því alls 15,5%
  • Ný launatafla tekur gildi 1. mars 2004 og stofnanasamningar verða gerðir á hverri stofnun fyrir sig.

Ný launatafla

Launatafla verður á bilinu 96.000 kr. til 187.608 kr. frá 1. mars 2004. Tekin er upp ný 20 flokka launatafla með sex starfsaldursþrepum. Sameiginlegt mat samningsaðila á kostnaðaráhrifum innfærslu í launatöflu er, að frá undirritun samnings sé kostnaður að meðaltali um 2,%. Auk þess kemur til almenn launahækkun sem getur ekki orðið lægri en 3,25%. Miklar væntingar eru bundnar við þessa nýju töflu. Taflan gefur möguleika á auknu svigrúmi í launahækkunum við gerð stofnanasamninga.

Stofnanasamningar.

Til viðbótar við aðalkjarasamning verða gerðir fjölmargir stofnanasamningar þar sem tekið er á sérmálum viðkomandi starfsgreinar eða vinnustaðar. Gert er ráð fyrir að gerð stofnanasamninga verði lokið í meginatriðum fyrir 15. maí 2004.

Grunnkaupshækkun á samningstímanum:

1. janúar 2005 3,00%,  1. janúar 20062,50%,  1. janúar 2007 2,25% og 1. janúar 2008  til  31. mars 2008  0,5% .

Lífeyrissjóður                      

Frá 1. janúar 2005 hækkar mótframlag ríkisins í sameignarsjóð í 9,0%. Frá 1. janúar 2006 verður iðgjald ríkisins 10,25% og þann 1. janúar 2007 verður það 11,5%. Auk framlags starfsmanna verður framlag í lífeyrissjóð því alls 15,5%. Áfram á launamaður rétt á allt að 2% mótframlagi atvinnurekanda í séreignarsjóð ef launamaður sparar sjálfur 2% af launum eða meira.

Starfsmenntamál treyst til framtíðar – framlag atvinnurekenda samningsbundið,

Þróunar- og símenntunarsjóður verður að veruleika.

Með þessum samningi innsigla samningsaðilar mikilvægi þróunar- og símenntunar með því að festa starfsmenntasjóð almenns launafólks hjá ríkinu í sessi. Atvinnurekandi greiðir mánaðarlega framlag er nemur 0,57% af heildalaunum félaga SGS í sérstakan sjóð, Þróunar- og símenntunarsjóð. Hlutverk sjóðsins er m.a.  að efla símenntun starfsmanna til þess að þeir verði færari til að takast á við fjölbreyttari verkefni og að auka möguleika stofnana á að þróa starfssvið sitt. Gert er ráð fyrir að 0,35% af launaupphæðinni fari í sameiginlegan sjóð til að auka möguleika stofnana til að þróa starfsvið sitt og hins vegar 0,22% til félags- og einstaklingsstyrkja.

Réttur til launa í veikindum verður aukinn.

Réttur til launa í veikindum er jafnaður við rétt annarra starfsmanna ríkisins.

Slysatryggingar eru bættar verulega og bótafjárhæðir auknar og samræmdar við kjör starfsmanna ríkisins. Samið var um sólahrings frítímaslysatrygging sem er nýung.

Desemberuppbót.

Persónuuppbót í desember verður kr. 38.500 árið 2004, kr. 39.700 árið 2005, kr 40.700 árið 2006 og kr. 41.800 árið 2007.

Fatapeningar

M.a er gert ráð fyrir að þar sem borgaralegs fatnaðar er krafist á heilbrigðisstofnunum eða sambýlum skuli starfsmenn fá 1458 kr. á mánuði til fatakaupa. Einnig skulu starfsmenn á heilbrigðisstofnunum fá hentuga vinnuskó sér að kostnaðarlausu.

Aukinn réttur foreldra í fæðingarorlofi

M.a. er gert ráð fyrir að starfsmaður í fæðingarorlofi njóti réttinda til greiðslu sumarorlofs.

Orlofsréttur

Orlofsréttur er jafnaður á við rétt annarra starfsmanna ríkisins

Orlofsuppbót

Orlofsuppbót verður kr. 21.100  á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2004, kr. 21.800 á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2005, kr. 22.400 á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2006 og kr. 23.000 á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2007.

Takmörkun verkfallsréttar og sameiginleg atkvæðagreiðsla.

Samið var um takmörkun verkfalsréttar til samræmis við starfsmenn ríkisins. Einnig er gert ráð fyrir sameiginlegri samninganefnd aðildarfélaga SGS að endurnýjun samningsins og sameiginlegri atkvæðagreiðslu um þann samning.

Samningsforsendur

Vitnað er til sömu forsenda og gert er ráð fyrir í samningi SGS við Samtök atvinnulífsins frá því í mars s.l. Annars vegar að verðlag þróist í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands en hins vegar að sú launastefna og þær kostnaðarhækkanir sem í þeim samningnum felast verði almennt stefnumarkandi fyrir aðra í samningagerð á vinnumarkaði.

06
Apr

Reynt verður til þrautar með ríkissamninginn

Stíf fundarhöld hafa verið alla helginna vegna ríkissamningsins 

það eru nokkur atriði ennþá sem eru ókláruð.  Boðað hefur verið til fundar í dag kl 17:00, og er næsta víst að það verður reynt til þrautar að klára samninginn fyrir páska.

04
Apr

Það tókst að halda sérákvæðunum

Verkalýðsfélag Akraness skrifaði undir samkomulag við samninganefnd ríkisins, vegna þeirra sérmála sem starfsmenn sem vinna á Sjúkrahúsi Akraness hafa. Eftir mikinn þrýsting frá þeim félögum sem sérákvæði hafa þá tókst að landa þessum sérmálum.

 Það var krafa frá samningarnefnd ríkisins, að félögin skildu afsala sér öllum þeim sérmálum, sem þau höfðu ef þau ætluðu sér að vera með í þessum nýja sameigilega samningi sem gerður verður við öll félögin. Það er því gríðalegur sigur að hafa tekist að halda nánast öllum þeim sérákvæðum sem eru í kjarasamningi starfsmanna sem starfa við Sjúkrahús Akraness.

03
Apr

Formaður fundaði með Hjúkrunarforstjóra og framkvæmdarstjóra á Sjúkrahúsi Akraness í gær

Farið var yfir stöðu mála í kjaradeilu milli Starfsgreinasambands Íslands og Samninganefndar ríkisins f,h fjármálaráðherra.  Formaður félagsins sagði eftir fundinn að þetta hafi verðið mjög góður fundur, og fram hafi komið í máli hjúkrunarforstjóra og framkvæmdstjóra Sjúkrahúsins, að þau hefðu fullan skilning á þeirri óánægju sem ríkti meðal okkar félagsmanna sem starfa á Sjúkrahúsi Akraness með sín launakjör.

31
Mar

Góður fundur með starfsmönnum síldarverksmiðjunnar

Fundur var haldinn með starfsmönnum síldarverksmiðjunnar, á skrifstofu félagsins á s.l þriðjudag   Var þetta afar góður fundur, en nokkur gömul ágreiningsmál sem lúta að túlkun á kjarasamningi voru til umræðu.  Reynt verður eftir fremsta megni að leysa þessi mál eins fljótt og verða má.  Til umræðu var líka sérkjarasamningur starfsmanna en hann rennur út 30. apríl.

31
Mar

Formaður Sjómannadeildar á fundi hjá samninganefnd SSÍ

Samninganefnd Sjómannasambands Íslands fundaði þriðjudaginn 30. mars í Reykjavík. Á fundinum var farið yfir stöðu mála í viðræðum sambandsins við LÍÚ.  Hjörtur Júlíusson formaður Sjómannadeildar sat fundinn fyrir hönd félagsins.  Formaður Sjómannadeildar sagði lítið sem ekkert hafi þokast í samkomulagsátt, en menn væru samt sem áður að ræðast við.  Hjörtur sagði að margir væru því miður orðnir nokkuð svartsýnir á framhaldið.

31
Mar

Stefnir í verkall á sjúkrahúsum

Mjög mikið ber í milli í samningaviðræðum Starfsgreinasambandsins við ríkið. Upp úr samningum slitnaði í síðustu viku og er allt útlit fyrir að til verkfallsaðgerða komi.

"Við höfum ekkert rætt saman síðan það slitnaði upp úr viðræðunum. Staðan hefur verið metin í félögunum og þar verða ákvarðanir teknar," segir Halldór Björnsson, formaður Starfsgreinasambandsins. Að sögn Halldórs verður verkfallsheimildar aflað á næstu dögum. "Ef það gengur eftir má gera ráð fyrir að aðgerðir hefjist um miðjan mánuðinn," segir Halldór. Ef til verkfallsaðgerða kemur munu þær í fyrstu beinast gegn heilbrigðisstofnunum en talið er að þannig sé hægt að hámarka áhrif aðgerðanna. Halldór segir að vonlaust sé að reka sjúkrahúsin án ófaglærða starfsfólksins. "Það er lunginn í starfi sjúkrahúsanna. Það er alveg vonlaust að reka sjúkrahúsin án þessa fólks," segir hann. Deila Starfsgreinasamningsins og ríkisins snýst bæði um launatöflur og lífeyrissjóðsmál og segir Halldór að mikill munur sé á deilendum í báðum málunum. Hvað varðar lífeyrissjóðsmálin segir Halldór að tækifæri hafi verið til þess að ganga í þau mál árið 2001 en það hafi ekki verið gert og því standi þeir nú frammi fyrir svo erfiðri deilu núna. Halldór segir samningaviðræðurnar vera í hnút og því séu ekki aðrir kostir í stöðunni en að undirbúa aðgerðir. "Við teljum að það sé búið að reyna allt sem hægt er að gera og því þurfi að nota þrýsting ef við ætlum að ná þessu. Um annað er ekki að ræða," segir hann. "En við vonum að þetta leysist áður en til slags kemur."

29
Mar

Kjarasamningar samþykktir

Niðurstaða:

Á kjörskrá voru 436, alls greiddu 99 atkvæði eða 22,71% félagsmanna.

Já sögðu 61 eða 61,62%
Nei sögðu 33 eða 33,33%
Auðir og ógildir seðlar voru 5eða 5%

Niðurstaða liggur fyrir, kjarasamningur Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands frá 7. mars er samþykktur í Verkalýðsfélagi Akraness. 

21
Mar

Tugir félagsmanna nýttu sér framtalsaðstoð

Tugir félagsmanna nýttu sér framtalsaðstoð sem félagið bauð uppá, og fór aðstoðin fram á skrifstofu félagsins. Var það Hugrún Guðjósdóttir starfsmaður félagsins sem sá um að aðstoða félagsmenn við að fylla út framtölin.

Stjón VLFA vil þakka Hugrúnu kærlega fyrir vel unnið starf við framtalsaðstoðina því töluvert álag var á henni um tíma. Ennfremur mun stjórn félagsins ákveða það fljótlega hvort að sú framtalsaðstoð sem veitt var í ár verði gerð að árvissum viðburði, en allar líkur eru á að svo verði.

Hugsanlega hefur þetta framtak stjórnar Verkalýðsfélags Akraness sparað félagsmönnum á þriðjahundrað þúsund krónur, og miðum við þá við þann fjölda sem kom og óskaði eftir framtalsaðstoð,og þá gjaldskrá sem bókhaldsfyrirtæki eru að taka fyrir að gera einfalda skattaskýrslu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image