• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Jul

Ánægjulegt fyrir fiskvinnslufólk

Menntamálaráðuneytið hefur samþykkt að meta megi 60 kennslustunda grunnnámskeið Starfsfræðslunefndar fiskvinnslunnar fyrir fiskvinnslufólk til styttingar á námi í framhaldsskóla á móti allt að 5 einingum. Meta má námið á móti 5 einingum í vali, 5 einingum á kjörsviði og/eða til almennra greina eftir styrkleika viðkomandi einstaklings.

Markmið grunnnámskeiða fyrir fiskvinnslufólk er að auka þekkingu starfsmanna á vinnslu sjávarafla, efla sjálfstraust og styrkja faglega hæfni þess. 

Þetta eru mjög gleðileg tíðindi og mikið baráttumál fiskvinnslufólks þar með í höfn.  Formaður Matvælasviðs SGS hefur lengi barist fyrir þessari viðurkenningu.

Að sögn formanns Matvælasviðsins hefur Starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar unnið vel að málinu og notið skilnings Menntamálaráðuneytisins.

09
Jul

Verkalýðsfélag Akraness sammála Vestfirðingum

Verkalýðsfélag Akraness tekur heilshugar undir ályktun Verkalýðsfélags Vestfirðinga sem er svohljóðandi:

“Vegna niðurskurðar á Þorskkvóta á komandi fiskveiðiári skorar stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga á ráðamenn þjóðarinnar að taka til endurskoðunar regluna um kvótaálag á útflutning á ísuðum óunnum fiski. Nú liggur fyrir að með boðuðum niðurskurði þorskafla mun landvinnsla á Vestfjörðum verða mjög illa úti miðað við óbreytt fyrirkomulag. Ráðamönnum þjóðarinnar ber skylda til að tryggja sem öflugasta landvinnslu sjávarafurða á Íslandi, en það verður ekki gert með því að hvetja útgerðir til að senda sjávarafla óunninn úr landi “

07
Jul

Góður fundur á Sauðárkróki

Nokkur aðildarfélög SGS á landsbyggðinni héldu óformlegan fund á Sauðárkróki í gær 6. júlí. Fundurinn var í framhaldi af fundi sem haldinn var á Egilsstöðum í byrjun júní sl. Eftirfarandi tilkynning var send úr í kjölfar fundarins:

Sauðárkróki 6. júlí 2007

Fullrúar 10 stéttarfélaga innan SGS komu saman á Sauðárkróki  í dag og ræddu framkomnar hugmyndir ASÍ/SA um breytingar á veikinda- slysa og örorkurétti sem og önnur sameiginleg hagsmunamál.

 

Fram kom að Starfsendurhæfing Austurlands verður stofnuð upp úr miðjum júlí að frumkvæði stéttarfélagsins þar. Aðrir formenn eru að vinna að svipuðum hugmyndum á sínum félagssvæðum.

Í því sambandi horfa menn til reynslu Starfsendurhæfingar Norðurlands.

Fundarmenn ákváðu að hittast aftur í lok sumars á Akranesi til að ræða framhald mála.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness sat fundinn.

04
Jul

Fundað með forsvarsmönnum Norðuráls

Formaður félagsins ásamt hagfræðingi ASÍ áttu fund með forsvarsmönnum Norðuráls í morgun. Þeir sem sátu fundinn fyrir hönd Norðuráls voru Ragnar Guðmundsson framkvæmdastjóri og Skúli Skúlason starfsmannastjóri. Tilefni fundarins voru hin ýmsu réttindamál sem lúta að félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness. 

Félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness sem starfa hjá Norðuráli eru nú orðnir rétt tæplega 360 og er Norðurál orðinn langstærsti vinnuveitandinn á Vesturlandi. Því er gríðarlega mikilvægt fyrir stéttarfélagið að halda vöku sinni yfir réttindum starfsmanna Norðuráls. Er óhætt að segja að þessu fundur hafi verið einn liður í þeirri vinnu. 

Fundurinn var nokkuð góður og var til að mynda ákveðið að funda aftur föstudaginn 13. júlí.

03
Jul

Laus vika í Hraunborgum vegna forfalla

Vegna forfalla er nú laus vikan 03.08. til 10.08. í Hraunborgum. Þetta er vikan í kringum Verslunarmannahelgina og geta félagsmenn bókað hana á skrifstofu félagsins í síma 4309900.

Fyrstur kemur fyrstur fær.

02
Jul

Ábyrgð og laun sundlaugavarða

Að undanförnu hafa fjölmiðlar fjallað um þau skelfilegu slys sem nýverið hafa orðið í sundlaugum landsins og einnig þá miklu ábyrgð sem fylgir því að vera sundlaugavörður.

Í Morgunblaðinu á laugardaginn sl. var t.d. viðtal við Eyjólf Sæmundsson forstjóra Vinnueftirlitsins.  Í því viðtali segir Eyjólfur m.a. "Sundlaugavarsla er ekki íhlaupastarf sem hver sem er getur gengið í án þjálfunar"  Hann segir einnig: " Þetta er mjög ábyrgðarmikið starf eins og reynslan sýnir".

Formaður VLFA tekur undir hvert orð hjá forstjóra Vinnueftirlitsins í þessum efnum.  Það þarf ekkert að velkjast í neinum vafa um að ábyrgð sundlaugavarða er mikil.

En komum þá að tilgangi þessara skrifa.  Eru laun sundlaugavarða í anda þeirrar miklu ábyrgðar sem forstjóri Vinnueftirlitsins nefnir? Svarið er einfalt: NEI.  

Hjá sundlaugaverði eru grunnlaun hjá byrjanda 130.719 + 6000 kr. í mánaðarlegum eingreiðslum.  Á þessu sést að laun sundlaugavarða er til skammar sé tekið tillit til þeirrar miklu ábyrgðar sem fylgir starfi þeirra.

Það er alveg ljóst að þetta er eitt af því sem kippa þarf í liðinn í komandi kjarasamningum og hefur formaður VLFA t.d. átt samtal við þann aðila sem sér um starfsmat sveitarfélaga vegna þess mikla álags sem hvílt getur á starfsfólki sundlauga.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image