• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Aug

Víðtæk samstaða um hækkun lágmarkslauna

Svo virðist vera að nokkuð víðtæk samstaða sé að nást innan Starfsgreinasambands Íslands um að aðalkrafan í komandi kjarasamningum verði að færa lágmarkstaxtana í námunda við þau markaðslaun sem almennt er verið að greiða á vinnumarkaðnum.

Verkalýðsfélag Akraness nefndi það fyrir fáeinum mánuðum að aðalkrafan í komandi kjarasamningum ætti að vera að færa lágmarkslaunin í átt að markaðslaunum og til að það tækist þyrftu lágmarkstaxtarnir að hækka um 30% til 40%.

Nú er afar ánægjulegt að sjá að nokkuð víðtæk samstaða virðist vera að skapast innan SGS um að hækka lágmarkslaunin allverulega í næstu kjarasamningum. Verkalýðsfélagið Hlíf í Hafnafirði sendi t.d. frá sér ályktun um 30% hækkun á lágmarkstöxtum og formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur sagði í fréttum í gær að krafan í næstu kjarasamningum ætti að vera að lágmarkslaun hækkuðu úr 125 þúsund í 160.000 til 170.000.  Einnig var haft eftir formanni SGS í fréttum ekki alls fyrir löngu að hækka þyrfti lágmarkslaunin allverulega í næstu kjarasamningum.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness er ekki í nokkrum vafa um að með víðtækri samstöðu í næstu kjarasamningum innan Starfsgreinasambandsins verði hægt að lyfta þessum skammarlega lágu lágmarkslaunum í átt að markaðlaununum.  Einfaldlega vegna þess að samstaða er hornsteinn að árangri í komandi kjarasamningum.

Formaður félagsins hefur áður sagt að lágmarkslaunin séu íslensku samfélagi til skammar og við forystumenn í stéttarfélögum innan SGS getum ekki skotið okkur undan þeirri ábyrgð.

21
Aug

Félagið hefur haft samband við Vinnueftirlitið

Formaður félagsins hefur haft samband við fulltrúa Vinnueftirlitsins á Vesturlandi og óskað eftir því að Vinnueftirlitið kanni hvaða áhrif hinn nýi öryggisfatnaður hefur á líðan starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins.

Eins og fram hefur komið þá telja fjölmargir starfsmenn Íj að við viss skilyrði og þá sérstaklega þegar heitt er í veðri geti hinn nýi fatnaður jafnvel ógnað öryggi þeirra.

Fulltrúi Vinnueftirlitsins tók vel í ósk félagsins og ætlar í framhaldinu að kanna hvernig hægt sé að standa að slíkri úttekt.

Eins og formaður hefur áður sagt þá er afar brýnt að þeir aðilar sem koma að þessu máli hlusti á þau alvarlegu varnaðarorð sem starfsmenn hafa bent á er varða þennan nýja fatnað.

17
Aug

VLFA ætlar að láta gera úttekt á nýjum öryggisfatnaði hjá Íslenska járnblendinu

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá var nýr öryggisfatnaður tekinn í notkun hjá Íslenska járnblendifélaginu í byrjun maí þessa árs.

Þessi nýi öryggisfatnaður hefur fallið í grýttan jarðveg hjá starfsmönnum fyrirtækisins einfaldlega vegna þess að þegar starfsmenn eru að vinna í nálægð við ofnanna þá getur hitinn orðið allt að 60 gráður og við það geta starfsmenn orðið verulega slæptir.  Og hefur t.d. einn starfsmaður falið í yfirlið sökum mikils hita.

Það er mat margra starfsmanna að þeir telji öryggi sínu verulega ógnað í þessum nýja fatnaði og nú í síðustu viku ákvað einn starfsmaður að segja starfi sínu lausu vegna áðurnefndrar hættu og er hann því miður ekki sá fyrsti sem það gerir.  Þeir starfsmenn sem hafa sagt starfi sínu lausu hafa ekki treyst sér til að vinna í þessum nýja öryggisfatnaði við viss skilyrði.

Það var haldinn fundur fyrir um mánuði síðan útaf þessari óánægju starfsmanna með þennan nýja öryggisfatnað og á þeim fundi var ákveðið að auka kælingu í kringum ofnanna og einnig var ákveðið að starfsmenn fengju aðgang að orkudrykkjum.

Vissulega voru þessi tvö atriði til bóta en því miður virðist það ekki hafa dugað til.

Formaður félagsins hafði samband við Þórð Magnússon framkvæmdastjóra framleiðslusviðs vegna þessa máls í dag og tjáði honum að félagið ætlaði að kalla eftir úttekt frá Vinnueftirlitinu og trúnaðarlækni starfsmanna.  Fram kom hjá framkvæmdastjóranum að hann sé sammála að láta fagaðila skoða málið með hagsmuni starfsmanna og fyrirtækisins að leiðarljósi

Vill félagið fá úr því skorið í þessari úttekt hvort þessi öryggisfatnaður ógni öryggi starfsmanna eins og starfsmennirnir telja sjálfir.  Það er skylda þeirra sem koma að þessu máli að hlusta á varnaðarorð starfsmanna varðandi þennan nýja öryggisfatnað.

15
Aug

Nýtt tölvusneiðmyndatæki að gagnast vel á SHA

Nú hefur tíminn leitt í ljós að nýtt sneiðmyndatæki sem félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar á Akranesi gáfu sjúkrahúsi Akraness 31. janúar 2007 hefur gjörbylt allri myndgreiningu á SHA og stórbætt alla þjónustu henni tengdri.

Það var fimm manna vinnuhópur sem formaður félagsins var aðili í sem safnaði fyrir umræddu tæki og gekk sú söfnun framar öllum vonum á sínum tíma.

Sjúkrasjóður Verkalýðsfélags Akraness gaf til að mynda eina milljón til kaupa á þessu nýja CT tæki með það að markmiði að tækið myndi tryggja öryggi okkar félagsmanna enn frekar.

 

Eins og fram kemur á heimasíðu  SHA þá hefur nýtingin á hinu nýja CT tæki SHA verið mjög góð og bætir þjónustu við sjúklinga til muna, gerir rannsókn og meðferð markvissari, unnt er í mörgum tilvikum að leiða í ljós mein og bregðast við fyrr en ella.  Auk þess eru óþægilegir og íþyngjandi sjúkraflutningar til Reykjavíkur þessarra erinda nánast úr sögunni.

Það kemur einnig fram á heimasíðu SHA að allar tölvusneiðmyndarannsóknir sem gerðar eru utan spítala í Reykjavík eru að stærstum hluta greiddar af Tryggingastofnun ríkisins.  Þessar sömu rannsóknir sem nú eru gerðar á SHA njóta hinsvegar ekki fyrirgreiðslu TR.  Þrátt fyrir að sýnt hefur verið fram á aukin gæði í þjónustu, hagræði og hagkvæmni hafa enn ekki tekist samningar um greiðslur til SHA fyrir þessar rannsóknir með sambærilegum hætti og til þjónustuaðila í einkarekstri í Reykjavík.

Það að SHA skuli ekki fá greidd frá Tryggingastofnun ríkisins með sambærilegum hætti og þjónustuaðilar í einkarekstri í Reykjavík er með öllu ólíðandi og ber heilbrigðisráðherra að kippa því í liðinn án tafar. 

Hægt er að lesa fréttina frá SHA með því að smella á meira.

Frá áramótum hafa verið gerðar ríflega 400 tölvusneiðmyndarannsóknir á SHA.  Helmingur sjúklinga kemur frá Akranesi og nágrenni en um 20% sjúklinga eru með lögheimili utan Vesturlands, þar af 10% af Reykjavíkursvæðinu. Nýtingin jafngildir því að um 3 sneiðmyndarannsóknir séu gerðar á myndgreiningadeild SHA hvern virkan dag í þágu skjólstæðinga sem ella hefðu þurft að leita til Reykjavíkur í þessu skyni.

 

Þetta eru talsvert fleiri rannsóknir en fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir.  Undanfarin þrjú ár hafa Vestlendingar sem fengið hafa tilvísun til einkarekinna myndgreiningastofa í Reykjavík verið á bilinu 450 - 500 á ársgrundvelli.  Þessi góða nýting á tækjabúnaði SHA bætir þjónustu við sjúklinga til muna, gerir rannsókn og meðferð markvissari, unnt er í mörgum tilvikum að leiða í ljós mein og bregðast við fyrr en ella.  Auk þess eru óþægilegir og íþyngjandi sjúkraflutningar til Reykjavíkur þessarra erinda nánast úr sögunni.
Eins og kunnugt er, þá gáfu félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar stofnuninni þennan dýrmæta búnað í upphafi árs.  Tækjabúnaðurinn hefur reynst mjög vel og starfsfólk er orðið vel þjálfað til hagnýtingar á þessari nýju tækni. 
Allar tölvusneiðmyndarannsóknir sem gerðar eru utan spítala í Reykjavík eru að stærstum hluta greiddar af Tryggingastofnun ríkisins.  Þessar sömu rannsóknir sem nú eru gerðar á SHA njóta hinsvegar ekki fyrirgreiðslu TR.  Þrátt fyrir að sýnt hefur verið fram á aukin gæði í þjónustu, hagræði og hagkvæmni hafa enn ekki tekist samningar um greiðslur til SHA fyrir þessar rannsóknir með sambærilegum hætti og til þjónustuaðila í einkarekstri í Reykjavík.

15
Aug

Hin árlega ferð eldri félagsmanna farin í lok þessa mánaðar

Hinn árlega ferð með eldri félagsmenn verður farin í lok þessa mánaðar.  Í ár verður suðurlandið skoðað enda margar náttúruperlur á því svæði.  Leiðsögumaður í ár verður hinn geðþekki Björn Finsen.

Starfsmenn félagsins ásamt Birni Finsen eru að leggja lokahönd á dagskrána og verður eldri félagsmönnum sent bréf í kringum 20 þessa mánaðar þar sem óskað verður eftir að félagsmenn skrái sig fyrir tilsettan tíma.

Í fyrra var farið á Reykjanesið og heppnaðist sú ferð afskaplega vel og var til að mynda metþátttaka í þeirri ferð en um 130 eldri félagsmenn fóru í þá ferð.

13
Aug

Törn hjá starfsmönnum síldarbræðslunnar

Töluverð törn er búin að vera hjá starfsmönnum síldarbræðslunnar að undanförnu og nú hafa starfsmenn bræðslunnar gengið vaktir  sleitulaust í heilan mánuð. 

Formaður félagsins fór og tók púlsinn á starfsmönnum í morgun og var nokkuð gott hljóð í starfsmönnum eftir þessa miklu törn.  En tekjur starfsmanna byggjast töluvert uppá vaktartörnum eins og þeirra sem nú er að ljúka.

Færeyska skipið Fannaberg landaði fyrir helgi um 1000 tonnum af kolmunna og í gær landaði Ingunn rúmum 600 tonnum og núna er Faxinn að landa rúmum 700 tonnum einnig af  Kolmunna.

Ekki verður landað meira af kolmunna til bræðslu hér á Akranesi á næstunni þar sem Ingunn Faxinn og Lundey hafa öll hætt kolmunnaveiðum, en þau eru nú öll að hefja síldveiðar við Jan Mayen.

Það þarf ekki að fara í grafgötur með það að Síldar-og fiskimjölsverksmiðja HB Granda hér á Akranesi er ein sú allra fullkomnasta á landinu og getur til að mynda framleitt hágæðamjöl.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image