• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
24
Sep

Fundur um átak gegn brotastarfsemi fyrirtækja og félaglegum undirboðum á íslenskum vinnumarkaði

Félagsmálaráðherra hefur ákveðið í ljósi þeirra atvika sem upp hafa komið á íslenskum vinnumarkaði er lúta að félagslegum undirboðum að Vinnumálastofnun standi fyrir sérstöku átaki í þeim efnum.

Því hefur Alþýðusamband Íslands boðað til kynningarfundar með fulltrúum allra aðildarfélaga ASÍ og landssambanda á morgun á Nordica-hóteli.

Fundurinn á morgun verður kynning á því hvernig staðið skuli að allsherjarátaki sem hafi að markmiði að fyrirtæki sem hafa útlendinga í starfi uppfylli lögbundna upplýsingaskyldu sína og að útlendingar sem starfa á íslenskum vinnumarkaði njóti þeirra kjara og réttinda sem þeim ber.

Verkalýðsfélag Akraness hefur margsinnis bent á það hversu mikilvægt það er að gerð verði allsherjarúttekt á fyrirtækjum sem eru með erlenda starfsmenn í sinni þjónustu með það að markmiði að koma í veg fyrir félagsleg undirboð. Á þeirri forsendu fagnar VLFA þessu framtaki félagsmálaráðherra innilega og vonast til að það muni skila tilætluðum árangri.

21
Sep

Námskeiðið "Aftur í nám"

Í október hefst námskeið ætlað einstaklingum sem glíma við lestrar- eða skriftarörðugleika og eru á vinnumarkaði, en hyggjast fara í nám eða aftur í nám.  Námskeiðið er 95 kennslustundir og munu nemendur fara í sjálfsstyrkingu, íslensku, tölvu- og upplýsingatækni og í svokallaða Davis leiðréttingu.  Davis leiðrétting er aðferð sem kennd er við Ron Davis sem sjálfur var lesblindur en tókst að þróa aðferðir til að hjálpa sér og öðrum í námi og daglegu lífi.

Markmiðið er að auka hæfni til náms og stuðla að jákvæðu viðhorfi til áframhaldandi náms. Tilgangur þess er að styrkja sjálfstraust námsmanna, þjálfa þá í lestri og skrift með aðferðum Ron Davis og búa þá undir frekari þjálfun eftir að námskeiðinu lýkur.

Engar kröfur eru gerðar til lágmarks skólagöngu áður en nám hefst og námsmenn gangast ekki undir formleg próf. Kennt er 2x í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum frá kl. 17:00 – 20:00.  Námskeiðinu lýkur með útskrift í lok nóvember.

Hægt er að skrá sig á heimasíðu Símenntunarmiðstöðvarinnar hér eða í síma 437-2390.  Einnig veitir Erla Olgeirsdóttir verkefnisstjóri allar nánari upplýsingar í síma 694-3339.

Námskeiðið kostar kr. 51.000 en fullgildir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness fá 75% kostnaðar endurgreiddan að námi loknu.

Hægt er að skoða námskrá námskeiðisins á pdf-formi með því að smella hér.

Hægt er að skoða stundarskrá námskeiðisins með því að smella hér.

21
Sep

Kynningarfundur um réttindi og skyldur starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins

Í gær hélt formaður félagsins kynningu fyrir ofnmenn á E vakt Íslenska járnblendifélagsins um réttindi og skyldur starfsmanna Íj og stóð kynningin í um tvo tíma.

Formaður fór yfir hin ýmsu mál er varða réttindi og skyldur starfsmanna og fjallaði t.d. um atriði eins og uppsagnarfrest, veikindarétt, flýtt starfslok, öryggismál, bónusmál ásamt fjölda annarra réttinda og skyldna er snúa að starfsmönnum Íslenska járnblendifélagsins. Einnig fór formaður yfir það hvernig launataxtar hafa þróast frá því gengið var frá kjarasamningum síðast árið 2005.

Þetta var önnur kynningin sem formaður heldur með starfsmönnum Íslenska járnblendifélagsins, í síðustu viku var það B vaktin sem fékk kynningu en í gær var það E vaktin eins og áður hefur komið fram.

Kynningin heppnaðist mjög vel í alla staði og vöknuðu fjölmargar spurningar hjá starfsmönnum sem formaður reyndi að svara eftir bestu getu.  

20
Sep

Vinnustaðafundur í HB-Granda Akranesi

Formaður félagsins fór í vinnustaðaheimsókn til HB-Granda í gær. Átti hann þar samtal við nokkra starfsmenn og fór ekki á milli mála að þeir voru afar svekktir yfir að ekki skyldi hafa orðið af áformum fyrirtækisins um flutning allrar landvinnslu upp á Akranes.

Starfsmenn voru nokkuð uggandi um sinn hag í ljósi þeirra staðreynda að aflaheimildir í þorski hafa verið skertar um 30%. Á undanförnum tveimur árum hefur meginuppstaða hráefnis í frystihúsinu á Akranesi verið þorskur. Að undanförnu hefur verið skortur á hráefni en skv. upplýsingum sem formaður hefur fengið þá er meginástæðan fyrir því aflabrestur í ufsa.

Varðandi mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar þá er klárt mál að þær ná ekki til þess fiskvinnslufólks hér á Akranesi sem að öllum líkindum mun verða fyrir tekjutapi sökum þeirrar skerðingar sem tilkynntar hafa verið á þorski. Einnig er ekki að sjá að mætt verði þeirri skerðingu sem sjómenn verða fyrir og nægir að nefna í því samhengi að skipverjarnir á Sturlaugi H. Böðvarssyni hafa á síðastliðnum tveimur árum sótt nær eingöngu í þorsk. Þannig er að allt útlit er á því að tekjur þeirra muni verða mun minni en síðastliðin tvö ár.

Samband sveitarfélaga á Vesturlandi reiknaði út þau áhrif sem aflasamdráttur í þorski upp á 30% hefði á byggðir á Vesturlandi og kom fram að þessi samdráttur mun kosta Akranes um 1,5 milljarð króna.

Formaður kallar eftir því við ríkisstjórn Íslands að þær mótvægisaðgerðir sem kynntar hafa verið muni að einhverju leyti beinast til sjómanna og fiskvinnslufólks hér á Akranesi.

19
Sep

Formaður fundaði með bæjarráði í gær

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá átti formaður félagsins fund með bæjarráði síðdegis í gærdag. Tilefni fundarins var m.a. sá launamunur sem ríkt hefur á milli leiðbeinenda á leikskólum bæjarins eftir félagsaðild. Bæjarráð samþykkti erindi Verkalýðsfélags Akraness og mun 4% álag sem þeir félagsmenn STAK sem störfuðu sem leiðbeinendur höfðu einnig gilda fyrir félagsmenn VLFA í sömu störfum.

Formaður félagsins fagnar þessari ákvörðun bæjarráðs og telur hann bæjarráð hafa sýnt það í verki oftar en einu sinni að þeim er umhugað um þá starfsmenn bæjarins sem eru með hvað lægstu tekjurnar og sýnir þessi samþykkt það einnig.  Vissulega má alltaf gera betur þegar kemur að kjörum þeirrra sem lægstu hafa launin.

Formaður ræddi einnig við bæjarráð um þá alvarlegu stöðu sem upp er komin er lýtur að málefnum HB-Granda á Akranesi eftir að fyrirtækið ákvað að hætta við að flytja alla sína landsvinnslu upp á Akranes eins og þeir höfðu áður tilkynnt. Formaður óskaði eftir því við bæjarráð að Akraneskaupstaður fundaði með forsvarsmönnum HB-Granda, Faxaflóahafna og Reykjavíkurborgar þar sem reynt yrði að finna farsæla lausn á þessu máli, einfaldlega vegna þess að hér er um gríðarlega hagsmuni að ræða fyrir samfélagið hér á Akranesi.

18
Sep

Fundur með bæjarráði Akraness

Formaður félagsins mun eiga fund með bæjarráði Akranesskaupstaðar í dag. Tilefni fundarins eru kjör leiðbeinenda á leikskólum bæjarins. Einnig ætlar formaður að ræða við bæjarráð vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem upp er komin vegna þeirrar ákvörðunar stjórnar HB-Granda að hætta við að flytja alla landvinnslu sína upp á Akranes.

Hér er um gríðarlega mikið hagsmunamál Akurnesinga að ræða og mun formaður óska eftir því að bæjaryfirvöld beiti sér af fullum þunga fyrir því að fundað verði með forsvarsmönnum HB-Granda, Reykjavíkurborgar og stjórnendum Faxaflóahafna vegna þessa máls. Mjög mikilvægt er að farsæl niðurstaða náist í þessu máli sem allir aðilar geta verið ásáttir með. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image