• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Oct

Félagsmenn munið eftir félagsfundinum í kvöld

Félagsmenn athugið!

Í kvöld verður opinn félagsfundur í Framsóknarhúsinu, Sunnubraut 21 kl. 20:00.

Dagskrá:

1.      Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ kynnir hugmyndir að breytingum á veikinda- og slysarétti og stofnun nýs áfallatryggingasjóðs.

2.      Umfjöllun um mótun kröfugerðar vegna komandi kjarasamningaviðræðna.

 

Félagsmenn eru eindregið hvattir til að mæta og hafa stefnumarkandi áhrif á komandi kröfugerð.

Veitingar verða í boði.

12
Oct

Tökum frumkvöðlana til fyrirmyndar

Það hefur örugglega ekki farið fram hjá neinum þeim sem fylgst hefur með íslenskri þjóðmálaumræðu undanfarið að framundan eru kjarasamningaviðræður á hinum almenna vinnumarkaði. Undirbúningsvinna var hafin snemma á þessu ári og eru kröfugerðir verkalýðsfélaganna nú að líta dagsins ljós.

Snemma árs lýsti formaður Verkalýðsfélags Akraness því yfir að eitt af meginbaráttumálum í  væntanlegum kjarasamningaviðræðum væri hækkun lágmarkslauna. Það á ekki að vera hægt að bjóða fólki 125 þúsund króna lágmarkslaun sem eru undir fátæktarmörkum. Taldi hann að færa ætti lágmarkslaun nær markaðslaunum sem skv. könnun SGS eru 176.000 kr á mánuði.

Í tillögu að kröfugerð VLFA, sem lögð verður fyrir félagsfund nk. mánudag, verður m.a. lagt til að lágmarkslaun hækki í 170.000 krónur. Þannig væri hægt að leiðrétta þau kjör sem þeir lægst launuðu hafa þurft að una við og er sú krafa, að mati formanns, síður en svo óraunhæf.

Sunnudaginn 14. október nk. verður Verkalýðsfélag Akraness 83 ára.

Fyrir 83 árum ruddi kraftmikið fólk brautina og varðaði veginn til framtíðar þegar það kom saman í Báruhúsinu á Akranesi í þeim tilgangi að stofna verkalýðsfélag. Eftir langvinna baráttu og þrátt fyrir harða mótspyrnu atvinnurekenda og tilraunir þeirra til að grafa undan einingu félagsmanna tókust loks samningar fyrir verkafólk þar sem kaup þess hækkaði úr 65 aurum í eina krónu á tímann. Með samstilltu átaki náði samninganefndin s.s. 56% hækkun launa í þessum fyrsta samningi verkafólks á Akranesi.

Við sem berjumst fyrir réttindum íslensks verkafólks eigum að taka okkur þessa frumkvöðla til fyrirmyndar, snúa bökum saman og beygja okkur ekki enn eina ferðina fyrir þeim rökum að of mikil hækkun launa verkafólks ógni stöðugleika í þjóðfélaginu. Stöðuleikinn er auðvitað gríðarlega mikilvægur, því andmælir enginn, en hann er ekki eingöngu á ábyrgð verkafólks og nú er komið að öðrum að axla þá ábyrgð.

Við verðum að krefjast mannsæmandi launa til handa verkafólki, fólki sem þegar hefur gert sitt til að viðhalda stöðugleikanum, fólki sem sættir sig ekki við að sitja eftir enn eina ferðina á meðan aðrir þjóðfélagshópar sitja einir að þeim auðævum sem greinilega eru til í þessu landi.

Tími verkafólks er runninn upp, við bíðum ekki lengur.

11
Oct

Ekki má hvika frá þeirri kröfu að lágmarkslaun verði ekki undir 170.000 kr.

Bæta þarf kjör fiskvinnslufólks verulegaBæta þarf kjör fiskvinnslufólks verulegaFormaður Verkalýðsfélags Akraness hefur margoft fjallað um það hér á heimasíðunni að höfuðkrafan í komandi kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði eigi að vera sú að lágmarkslaun verði ekki undir 170.000 kr. í lok samningstímans.

Að undanförnu hafa fleiri stéttarfélög innan Starfsgreinasambands Íslands tekið undir þessa kröfu félagsins.  Nú síðast var það Verkalýðsfélag Húsavíkur sem það gerði.  Það er ekki spurnig að það er að nást nokkuð víðtæk samstaða innan SGS um stórhækkun lágmarkslauna í komandi kjarasamningum.  Lágmarkslaun upp á 125.000 kr. er íslensku samfélagi til skammar og við forystumenn í SGS getum á engan hátt skotið okkur undan ábyrgð okkar á því að lágmarkslaun eru jafn lág og raun ber vitni.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, var spurður á mbl.is í dag útí kröfugerðina hjá Verkalýðsfélagi Húsavíkur um að lágmarkslaun hækki úr 125.000 kr. uppí 180.000 á samningstímanum.  Framkvæmdastjórinn sagðist ekki leggja djúpstæða merkingu í tölurnar enda liggi engin vinna að baki þeim.  Einnig sagði framkvæmdastjórinn að 180.000 kr. lágmarkslaun byggi ekki á neinum rannsóknum á launagreiðslum eða launaþróun eða neinu slíku.

Þessi orð Vilhjálms Egilssonar eiga ekki við þá kröfu sem formaður VLFA hefur haldið á lofti um að lágmarkslaun verði 170.000 kr.

Krafan um að lágmarkslaun fari í 170.000 kr. er byggð á launakönnun sem Starfsgreinasamband Íslands gerði á meðal sinna félagsmanna í september í fyrra.  En í þeirri könnun kom fram að meðaldagvinnulaun hjá verkafólki séu rétt rúmlega 170.000 kr á mánuði. 

Í síðustu viku kynntu Flóabandalags félögin nýja launakönnun sem náði til félagsmanna á stór Reykjavíkursvæðinu.  Í þeirri könnun kom fram að meðaldagvinnulaun á stór Reykjarvíkursvæðinu eruí kringum 200.000 kr.  Það liggur fyrir að mun meira launaskrið hefur verið á Reykjavíkursvæðinu en á landsbyggðinni sökum þeirrar miklu þenslu sem hefur verið á stór Reykjavíkursvæðinu á liðnum árum.

Því miður hefur verkafólk á landsbyggðinni ekki notið jafn mikils launaskriðs eins og gerst hefur á Reykjavíkursvæðinu á liðnum árum.  Það er alvitað að þó nokkuð stór hópur verkafólks á landsbyggðinni vinnur eftir þeim lágmarkstöxtum sem í gildi eru á hverjum tíma fyrir sig.  Vissulega þekkist það einnig á Reykjavíkursvæðinu að verkafólk vinni eftir berstrípuðum lágmarkstöxtum, samt sem áður er mun meira um það á landsbyggðinni.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness segir að það á ekki að hvika frá þeirri sjálfsögðu kröfu um að lágmarkslaun hækki úr 125.000 kr. í 170.000 kr. á samningstímanum.  En hann mun að sjálfsögðu styðja kröfu Verkalýðsfélags Húsavíkur um að lágmarkslaun verði 180.000 kr. í lok samningstímabilsins.  Til að þessar kröfur verði að veruleika þarf víðtæka samstöðu innan SGS, ef að sú samstaða verður til staðar er mörgu hægt að ná fram.

10
Oct

Svívirðilegt okur ríkisins á stimpilgjöldum

Svívirðilegt okurSvívirðilegt okurÍ dag hefur formaður félagsins verið að skoða hvernig stimpilgjald af skuldabréfum og kaupsamningum koma út fyrir íslenska neytendur þegar keyptar eru fasteignir.

Það er óhætt að segja að þegar þetta er skoðað þá sést að hér er um svívirðilegan skatt að ræða á íslenska neytendur. Formaður hefur lagt upp tvö dæmi til að sýna fram á hversu gríðarlegar upphæðir hér getur verið um að ræða.

Fyrra dæmið er íbúð í fjölbýlishúsi 107 fm að stærð. Kaupverð er kr. 22.500.000. Ef tekið er 80% lán að upphæð kr. 18.000.000 þá þarf að greiða af þeirri upphæð 1,5% í stimpilgjald sem gerir kr. 270.000. Að auki þarf að greiða 0,4% stimpilgjald af fasteignamati sem er í þessu tilfelli kr. 16.390.000. Stimpilgjald af fasteignamati er því kr. 65.560 í þessu tilfelli. Samtals þarf kaupandi þessarar eignar að greiða til ríkisins kr. 335.560 í stimpilgjöld.

Í seinna dæminu er um einbýlishús að ræða. Kaupverðið er kr. 31.500.000. Ef tekið er 80% lán að upphæð kr. 25.200.000 þarf að greiða 378.000 í stimpilgjöld. Einnig þarf að greiða 0,4% stimpilgjald af fasteignamati sem í þessu tilfelli er kr. 24.570.000 sem gerir 98.280. Samtals þarf kaupandi þessarar eignar að greiða í stimpilgjöld til ríkisins kr. 476.280.

Formaður kynnti sér í dag hversu langan tíma það tekur fyrir starfsmenn sýslumanna að afgreiða skuldabréf og kaupsamninga og samkvæmt áreiðanlegum upplýsingum sem formaður aflaði sér þá tekur ferlið allt frá 15 mínútur upp í eina klukkustund í vinnslu.

Því spyr formaður, hvernig má það vera að hægt er að innheimta stimpilgjöld upp á tæpa hálfa milljón, eins og fram kemur í seinna dæminu, þegar það tekur einungis 15 mínútur fyrir starfsmenn sýslumanna að ganga frá stimpilgjöldum tengdum skuldabréfum og kaupsamningum. Fróðlegt væri að ríkisvaldið útskýrði á hvaða forsendu þessi geigvænlegu stimpilgjöld eru til komin.

Eins og áður sagði er hér um svívirðilegt okur að ræða af hálfu ríkisins. Þess vegna mun Verkalýðsfélag Akraness leggja það til í komandi kjarasamningum að ríkisvaldið lækki áðurnefnt stimpilgjald til samræmis við það vinnuframlag sem starfsmenn sýslumanna þurfa að inna af hendi vegna skjalavinnslu tengdri stimpilgjöldum. Það væri alls ekki óeðlilegt að föst raunhæf upphæð væri greidd í stimpilgjöld, sem myndi dekka áðurnefnt vinnuframlag starfsmanna sýslumanna.

Hér er um mikið hagsmunamál fyrir ungt verkafólk sem er að kaupa sína fyrstu fasteign, og ekki síður fyrir aðra landsmenn. Að það skuli þurfa að taka verkamann á lágmarkslaunum tæpa 4 mánuði að vinna sér inn fyrir stimpilgjaldinu af eign sem kostar 31 milljón er með öllu óásættanlegt.

09
Oct

Kynningarfundur hjá Íslenska járnblendifélaginu

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá hafa að undanförnu verið haldnir kynningarfundir á vegum félagsins um réttindi og skyldur starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins. Í dag voru það ofngæslumenn á A-vakt sem fengu kynningu og var þetta fimmta kynningin sem formaður hefur haldið með starfsmönnum á síðastliðnum mánuði. Tvær kynningar til viðbótar eru á dagskrá á næstunni.

Kynningarfundurinn í dag var afar skemmtilegur og fjölmargar spurningar vöknuðu hjá starfsmönnum um réttindi og skyldur sína gagnvart Íj.

Kjarasamningur starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins rennur út í lok nóvember á næsta ári og mun undirbúningur að mótun kröfugerðar hefjast fljótlega á næsta ári. Fram kom í máli starfsmanna að miklar væntingar eru gerðar til næsta samnings.

Hjá Íslenska járnblendifélaginu hefur starfsmönnum fjölgað jafnt og þétt á undanförnum mánuðum en mjög fljótlega mun hefjast framleiðsla á svokölluðu FSM en með tilkomu þess mun rekstrargrundvöllur Íslenska járnblendifélagsins styrkjast til mikilla muna. Mun hærra verð fæst fyrir þessa sérframleiðslu en þá standard framleiðslu sem hingað til hefur verið meginuppistaða framleiðslu verksmiðjunnar.

08
Oct

Fundað með framkvæmdastjóra Norðuráls

David Kjos framkvæmdastjóri Norðuráls óskaði eftir að funda með þeim formönnum sem eiga aðild að kjarasmningi Norðuráls.

Það eru um þrír mánuðir frá því David tók við sem framkvæmdastjóri Norðuráls á Grundartanga en hann stýrir daglegum rekstri álversins, en David Kjos tók við starfinu af Nelson Dube sem gengt hafði starfinu tímabundið.

Framkvæmdastjórinn vildi með þessum fundi kynna sig fyrir formönnum stéttarfélaganna og fara yfir framtíðarsýn fyrirtækisins.  Fram kom hjá Dave að hann starfaði áður sem forstjóri hjá Cygnus, Inc, sem er leiðandi fyrirtæki í framleiðslu á íhlutum fyrir flugvélar.  Þar á undan starfaði hann fyrir The United Development Company þar sem hann stýrði m.a. uppbygginu álvers Í Quatar og varð síðar forstjóri þess til ársins 2005.  Frá 1983 til 2002 var Dave í stjórnunarstöðum hjá Kaiser Aluminum & Chemical Corporation, í efna-, ál- og alþjóðadeildum fyrirtækisins. 

Dave lærði efnaverkfræði við University of Idaho.  Hann er kvæntur og á tvo syni.

Fram kom hjá framkvæmdastjóranum að eigendur Norðuráls líða ekki að þeir verktakar sem eru að störfum fyrir Norðurál fari ekki eftir þeim leikreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.  Var framkvæmdastjórinn að ræða hér um verktaka fyrirtækið Dapster sem var með pólska iðnaðarmenn í vinnu fyrir Norðurál en fór ekki eftir þeim lögum og reglum sem gilda hér á landi.  En eins og flestir muna rifti Norðurál samningi við áðurnefnt fyrirtæki vegna vanefnda á skráningu og öðru því tengdu.  Fram kom í máli framkvæmdastjórans að Norðurál vilji fækka verktökum eins og kostur er og ráða starfsmenn frekar í beina ráðningu.

Einnig kom fram hjá framkvæmdastjóranum að hlutfall kvenna í starfi hjá Norðuráli sé í kringum 21% og hlutfall erlendra starfsmanna sé um 9%.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image