• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
06
Mar

Búið að landa um sex þúsund tonnum

Um sex þúsund tonn hafa komið til bræðslu hingað á Akranes það sem af er af þessari vertíð, en unnið hefur verið á vöktum frá síðasta sunnudag. 

Það er löngu vitað að tekjur starfsmanna bræðslunnar byggjast að miklu leiti uppá að staðnar séu vaktir og á þeirri forsendu eru það ánægjuleg tíðindi að loðna sé farin að berast til bræðslu hér á Akranesi eftir allanga bið.

Formaður fór og hitti starfsmenn bræðslunnar í dag og voru þeir nokkuð sáttir, en telja hins vegar að þessi vertíð verði því miður frekar snubbótt sökum þess hversu lítill loðnukvótinn er í ár.

Þau skip sem hafa landað loðnu hér á Akranesi á þessari vertíð eru Lundey,Víkingur,Faxi og Finnur fríði frá Færeyjum.

Þó svo að mikið sé að gera hjá bræðsluköllunum þá er ekki minna að gera hjá starfsmönnum HB Granda, sem unnið hafa sleitulaust á vöktum við loðnufrystingu síðustu daga og að sögn starfsmanna hefur hrognatakan og frystingin gengið mjög vel og góð stemming er á meðal starfsmanna.   

05
Mar

Fundað með mannauðsstjóra Century Aluminum

Formaður félagsins fundaði í morgun með starfsmannastjóra Norðuráls og yfirmannauðsstjóra Century Aluminum. Mannauðsstjórinn var í kynnisferð hér á landi og óskaði hann eftir því að fá að hitta formenn þeirra félaga á Vesturlandi sem eiga aðild að kjarasamningi Norðuráls.

Þetta var fínn fundur og vildi mannauðsstjórinn fá upplýsingar um hvernig stéttarfélög hér á landi starfa og gafst formanni tækifæri til að koma með ábendingar sem lúta að réttindum starfsmanna Norðuráls.

Formaður hefur áður bent á að það er launamunur á milli Alcan og Norðuráls og er afar brýnt að þeim launamun verði eytt þegar samningar fyrirtækisins verða næst lausir. Einnig benti formaður VLFA mannauðsstjóranum á að hugsanlega væri 8 tíma vaktakerfi mun betra en það 12 tíma kerfi sem nú er við lýði hjá Norðuráli.

Margt jákvætt hefur verið að gerast hjá Norðuráli síðustu vikurnar og sem dæmi þá er fyrirtækið að vinna að nýju hæfnismati fyrir starfsmenn sem mun væntanlega skila starfsmönnum þó nokkrum ávinningi þegar það tekur gildi.  Reiknað er með að nýtt hæfnismat fyrir starfsmenn verði klárt á næsta ári.

03
Mar

Kjarasamningur Samiðnar kynntur í kvöld

Kynningarfundur verður haldinn í kvöld um nýgerðan kjarasamning Samiðnar. 

Fundurinn hefst kl. 19:00 í fundarsal félagsins að Sunnubraut 13 og mun formaður félagsins fara nokkuð ítarlega yfir samninginn.  Fundarmönnum mun gefast kostur á að kjósa um samninginn að lokinni kynningu.

Stjórn félagsins vill hvetja alla þá sem vinna eftir kjarasamningi Starfsgreinasambandsins og einnig þá iðnaðarmenn sem taka launa eftir kjarasamningi Samiðnar að kynna sér samningana í þaula.

Einnig hvetur stjórn félagsins félagsmenn að nýta sér kosningarétt sinn og kjósa um samningana.  Hægt verður að kjósa um samningana á skrifstofu félagsins fram til kl 16:00 föstudaginn 7. mars.   

29
Feb

Kynningar á nýgerðum kjarasamningum standa enn yfir

Kynningarfundir á nýgerðum kjarasamningi hafa nú staðið yfir á fullu alla þessa viku.

Þau fyrirtæki sem formaður hefur kynnt samning í eru t.d. Fang, Norðanfiskur, HB Grandi, Smellinn, Jón Þorsteinsson og einnig hefur verið almennur félagsfundur þar samningurinn var kynntur ítarlega.

Stjórn félagsins vill hvetja alla þá sem vinna eftir nýgerðum samningum að kynna sér þá vel og vandlega og nýta sér kosningarétt sinn. Hægt verður að kjósa um samninginn á skrifstofu félagsins, Sunnubraut 13, til kl 16:00 föstudaginn 7. mars.

Formaður sendi í dag bréf og kynningarefni til þeirra sem taka laun eftir kjarasamningi Samiðnar við SA, þ.e.a.s. þeirra sem tilheyra iðsveinadeild félagsins. Í bréfinu hvetur formaður iðnaðarmenn til að kynna sér samninginn vel og vandlega og kjósa um nýgerðan samning.

Kynningarfundur um kjarasamning Samiðnar við SA verður haldinn í fundarsal félagsins að Sunnubraut 13 mánudaginn 3. mars kl. 19:00 og eru félagsmenn í iðnsveinadeild hvattir til að mæta á fundinn. Hægt verður að kjósa um samninginn að loknum fundi.

28
Feb

Unnið á vöktum í loðnunni

Faxi RE 9 kom með fyrstu loðnuna til löndunar hér á Akranesi í morgun og er skipið með nánast fullfermi sem er um 1.400 tonn.

Undirbúningur til að hefja löndun stendur nú yfir, en reiknað er með að hrognataka geti hafist seint í kvöld og verður unnið sleitulaust á vöktum á meðan hrognatakan á sér stað.

Það er alveg ljóst að hér getur verið um töluvert uppgrip fyrir starfsmenn að ræða á meðan á hrognatökunni stendur.

Formaður kíkti einnig á starfsmenn síldarbræslunar rétt áðan og voru þeir að leggja lokahönd á allan undirbúning til að geta tekið á móti loðnu til bræðslu. 

27
Feb

Framtalsaðstoð hefst í næstu viku

Aðstoð við gerð einfaldra skattframtala hefst þriðjudaginn 4. mars nk.

Takmarkaður fjöldi tíma er í boði svo félagsmenn eru beðnir að panta sem fyrst.

Rétt er að minna félagsmenn á að gríðarlegur fjöldi félagsmanna nýtti sér þessa þjónustu félagsins í fyrra og því afar brýnt að panta tíma sem allra fyrst, eins og áður sagði.

Nauðsynlegt er að hafa öll gögn og veflykil meðferðis, starfsfólk skrifstofu getur aðstoðað við að útvega nýjan veflykil hafi hann glatast.

Hægt er að bóka tíma á skrifstofu félagsins, Sunnubraut 13, sími 4309900

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image