• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Apr

Félagsmönnum fjölgar um 700 á milli ára

Endurskoðendur félagsins eru nú búnir að leggja lokahönd á ársreikninga félagsins og er óhætt að segja að afkoma félagsins sé mjög góð.

Heildarhagnaður félagsins er rétt tæpar 80 milljónir og þar af er 24 milljóna króna hagnaður af félagssjóði. Þegar ný stjórn tók við árið 2003 nam tap á rekstri félagssjóðs tæpum tveimur milljónum.

Núverandi stjórn hefur lagt sig í líma þessi fjögur ár við að koma rekstri félagsins í samt lag og hefur það gengið vonum framar. Félagsmönnum fjölgaði gríðarlega á síðasta ári eða sem nemur 700 félagsmönnum. Endurspeglast þessi fjölgun af hinu góða atvinnuástandi sem verið hefur á okkar félagssvæði og hinni miklu jákvæðu uppbyggingu sem orðið hefur á Grundartangasvæðinu.

Þessi góða afkoma gerir það að verkum að félagið getur aukið þjónustu við félagsmenn enn frekar og sem dæmi þá tók stjórn félagsins 5 nýja bótaflokka inn í sjúkrasjóðinn á síðasta ári og greiðslur úr sjúkrasjóði jukust um 42% á milli ára. Þessi mikla fjölgun félagsmanna sýnir einnig að félagsmenn eru ánægðir með þjónustu félagsins en stjórn félagsins vill kappkosta að veita sem allra bestu þjónustu. 

Fyrirhugað er að halda aðalfund félagsins seinnipart þessa mánaðar og verður hann auglýstur þegar nær dregur.

03
Apr

Fundað með forsvarsmönnum Íslenska járnblendifélagsins

Verkalýðsfélag Akraness óskaði eftir fundi ekki alls fyrir löngu með forsvarsmönnum Íslenska járnblendifélagsins þar sem mál er lúta að öryggismálum, samskiptum og stækkun verksmiðjunnar yrðu til umfjöllunar.

Að sjálfsögðu urðu forsvarsmenn Íj við ósk félagsins og var þessi fundur haldinn í morgun.  Fundinn sátu auk formanns félagsins aðaltrúnaðarmaður, forstjóri fyrirtækisins Þórður Magnússon, mannauðsstjóri Íj Sigrún Pálsdóttir og framleiðslustjórinn Þorsteinn Hannesson.

Fundurinn var mjög gagnlegur, en farið var yfir hin ýmsu mál þó sérstaklega það sem viðkemur þeirri miklu framkvæmd er lýtur að nýrri framleiðslu fyirtækisins sem nefnist FSM.  Með þessari nýju framleiðslu er verið að tryggja rekstrarafkomu fyrirtækisins til framtíðar litið.  Þessi nýja framleiðsla er mun verðmeiri afurð en sú standardframleiðsla sem fyrirtækið hefur aðallega verið að framleiða á undanförnum árum.  Vegna nýrrar framleiðslu á FSM þurfti fyrirtækið að fjölga starfsmönnum um 40 og eru nú yfir 100 félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness að störfum hjá Íslenska járnblendifélaginu.

Mikið álag hefur verið á öllum starfsmönnum Íslenska járnblendifélagsins að undanförnu vegna þessarar nýju framleiðslu á FSM og hafa ýmis mál komið upp sem þarfnast úrlausnar.  Forsvarsmenn Íj hafa til að mynda gert verkefnalista yfir þau atriði sem þarf að koma í lag vegna FSM framleiðslunnar og er nú unnið hörðum höndum að því að koma þeim atriðum í lag sem þarfnast úrlausnar.

Einnig voru öryggismál rædd á fundinum og þeir sem til þekkja í stóriðjum vita að víða leynast hættur í slíkum verksmiðjum og því afar mikilvægt að öryggismál séu sem best úr garði gerð til að tryggja öryggi starfsmenna sem best.  Einnig voru samskipti stjórnenda Íj við starfsmenn til umfjöllunar en afar mikilvægt er að góð samskipti séu á milli stjórnenda og starfsmanna og það er einu sinni þannig að alltaf má gera þar betur og á það jafnt við Íslenska járnblendið sem og önnur fyrirtæki.

02
Apr

Umtalsverðar verðhækkanir á matvöru á síðustu 10 mánuðum

Verð á algengum mat- og drykkjarvörum sem verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á fimmtudaginn 27. mars hefur hækkað um allt að 10-30% frá því í maí í fyrra. Af þeim vörum sem skoðaðar voru hefur meðalverð hækkað mest á brauðmeti, pasta og hrísgrjónum, sem hefur víða hækkað um 20-30% á milli mælinga. Þá hefur meðalverð á íslenskum agúrkum hækkað um þriðjung og á sykri um 24%. Þær mjólkurvörur sem skoðaðar voru hækkuðu almennt minna en aðrar vörur eða um 2% - 5%.

Verð á brauði, pasta, hrísgrjónum og kexi sem kannað var hækkaði almennt minna í lágvöruverðsverslunum en í öðrum verslunum. Sem dæmi má nefna að verð á Fittý samlokubrauði lækkaði um 6,5% í Kaskó og Nettó, hækkaði um 11% í Bónus og 4,5% í Krónunni. Á sama tíma hækkaði verðið á samskonar brauði um 27% í Hagkaupum, 37% í Nóatúni og um 55% í Samkaupum-Úrval. Tilda Basmati hrísgrjón hækkuðu sömuleiðis um 13-16% í lágvöruverðsverslunum en um 22% í Hagkaupum, 25% í Samkaupum-Úrval, 41% í Fjarðarkaupum og um 48% í Nóatúni.

Verð á mjólk hækkaði um 1,4% til 3,8% á milli mælinga. Mest í Hagkaupum og Samkaup-Úrval. Verð á AB-mjólk og skyri sem kannað var lækkaði almennt um 1-3% í lágvöruverðsverslunum en hækkaði um 3%-5% í öðrum verslunum.

Grænmeti og ávextir hafa einnig hækkað mikið í verði. Kílóverð á íslenskum agúrkum hækkaði t.a.m. um 105% í Kaskó, 73% í Bónus og Nettó og um 40% í Krónunni. Breytingin var nokkuð minni í öðrum verslunum, í Hagkaup lækkaði kílóverð á agúrkum um 6% milli mælinga, í Nóatúni var hækkunin 31%, 15% í Samkaupum-Úrval og 10% í Fjarðarkaupum.

Verð á Merrild kaffi hækkaði víðast um 9%-11%, nema í Kaskó þar sem hækkunin var einungis 2%.

Þá hækkaði verð á 2 lítra flösku af Coca cola um 15-25% í lágvöruverðsverslunum en um 4-9% í öðrum verslunum.

Þær verðbreytingar sem hér birtast eru í ágætu samræmi við verðbreytingar á mat- og drykk i vístölu neysluverðs þótt vissulega geti verið umtalsverður munur þegar skoðað er verð á einstökum vöruliðum og verslunum. Sem dæmi hafa brauð og kornvörur í vísitölunni hækkað um 10% frá því í maí í fyrra, mjólk um 2,8%, ávextir um 15%, grænmeti um 18%, kaffi um 4,5% og sykur um 9%.

Þær verðbreytingar sem hér eru birtar miða við breytingar á verði verslana milli verðmælinga verðlagseftirlits ASÍ í byrjun maí 2007 og verðkönnunar verðlagseftirlitsins frá 27.mars 2008. Rétt er að árétta að mæld eru þau verð sem eru í gildi á hverjum tíma í verslunni og geta tilboðsverð haft umtalsverð áhrif á verðbreytingar einstakra vara.

Verðbreytingar eru skoðaðar í eftirtöldum verslunum; Bónus, Krónunni, Nettó, Kaskó, Hagkaupum, Nóatúni, Samkaupum-Úrval Hafnarfirði og Fjarðarkaupum.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

01
Apr

Laugafiskur fékk starfsleyfið endurnýjað í dag

Mikil gleði ríkti hjá starfsmönnum og forsvarsmönnum Laugafisks hér á Akranesi í dag.  Ástæða þessarar gleði liggur í því að í dag fékk fyrirtækið endurnýjað starfsleyfi sitt og gildir leyfið til 1. febrúar 2020. Í tilefni dagsins var keypt vegleg terta og formanni félagsins boðið í kaffiveitingar í morgun með forsvarsmönnum og starfsmönnum fyrirtækisins.

Mikil óvissa hefur ríkt um það hvort fyrirtækið myndi fá starfsleyfi sitt endurnýjað vegna kvartana um lyktarmengun frá nágrönnum  á undaförnum árum.  Það var gríðarlega jákvætt að bæjarstjórn Akraness skyldi mæla með því að starfsleyfið skyldi endurnýjað og var til að mynda breiður pólitískur stuðningur í því máli.

Það liggur fyrir að fyrirtækið hefur kostað þó nokkuð miklu til við að bæta það ástand er lítur að lyktarmengun og hefur forsvarsmönnum og starfsmönnum orðið verulega ágengt í þeim efnum, enda hefur lyktarmengun nánst horfið á síðustu misserum. 

Það að starfsleyfi Laugafisks sé nú loksins í höfn er gríðarlegt fagnaðarefni og er þeirri óvissu sem starfsmenn hafa þurft að búa við á undanförnum árum nú endanlega eytt.  Yfir 30 manns starfa hjá Laugafiski í dag og til að átta sig á mikilvægi þessa vinnustaðar þá verður hann orðinn stærri en landvinnslan hjá HB Granda þegar þær uppsagnir sem þar voru kynntar nýverið taka gildi. 

01
Apr

Unnið af krafti í Síldarbræðslunni

Í nótt landaði Lundey frá Vopnafirði 150 tonnum af kolmunna hér á Akranesi. Skipið varð fyrir einhverri bilun og gat því ekki klárað túrinn að fullu.

Hins vegar kom Faxinn strax í kjölfarið með um 1600 tonn af kolmunna sem er fullfermi. Stendur nú vinnsla í verksmiðju Síldarbræðslunnar á fullu yfir.  Ingunn Ak er nú á miðunum og samkvæmt upplýsingum sem formaður hefur fengið þá var Ingunin komin með rúm 400 tonn af kolmuna í gær.  Skipin eru að veiðum á Rockhallsvæðinu.

Verksmiðjan hér á Akranesi er ein fárra verksmiðja á landinu sem getur framleitt hágæðamjöl og samkvæmt starfsmönnum hefur nánast allt hráefni sem borist hefur til verksmiðjunnar að undanförnu farið í hágæðamjöl en slík afurð er mun auðseljanlegri en standard mjöl og einnig fæst betra verð fyrir hágæðamjölið en standard mjölið.

31
Mar

Gengið frá fyrirtækjasamningi við Spöl

Verkalýðsfélag Akraness ásamt starfsmönnum Spalar gengu frá fyrirtækjasamningi fyrir nokkrum dögum á milli Spalar ehf. annars vegar og starfsmanna í gjaldskýli hins vegar.

Fyrirtækjasamningurinn hefur sama gildistíma og kjarasamningurinn á hinum almenna vinnumarkaði eða til 30. nóvember 2010.

Heildarhækkun launa starfsmanna gjaldskýlisins í nýjum samningi er um 32 þúsund krónur á mánuði.  Einnig hækkuðu orlofs- og desemberuppbætur umtalsvert.

Starfsmenn eru nokkuð vel sáttir við nýgerðan samning, þótt vissuleg hafi gengisfall krónunar og hækkun verðbólgunnar sett strik í reikninginn hvað varðar ávinning af nýgerðum samningi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image