• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Mar

Samninganefnd SGS fundaði hjá ríkissáttasemjara í gær

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands vegna kjarasamnings við ríkið kom saman til fundar í húsakynnum ríkissáttasemjara í gær.

Farið var yfir kröfugerð SGS vegna komandi kjarasamnings en meginkrafan er stórhækkun launa ófaglærðs fólks hjá hinu opinbera.

Það er algerlega ljóst að ástandið í íslensku efnahagslífi þessa dagana mun alls ekki auðvelda gerð nýs samnings við ríkið, sérstaklega í ljósi þess að nú mælist verðbólgan 8,7%.

Ófaglærðir starfsmenn hjá ríkinu bera miklar væntingar til komandi kjarasamnings enda hafa þeir ekki notið þess mikla launaskriðs sem verið hefur á hinum almenna vinnumarkaði.

Með formanni á fundinum í gær voru þær Steinunn Guðjónsdóttir, Anna Signý Árnadóttir og Guðrún Guðbjartsdóttir, en þær eru allar starfsmenn Sjúkrahúss Akraness.

26
Mar

Viðræður við ríkið að hefjast að fullu

Viðræðunefnd Starfsgreinasambands Íslands mun koma saman til fundar á morgun vegna kjarasamnings SGS við ríkið. Núverandi samningur rennur út um næstu mánaðarmót. 

Fundurinn verður haldinn í húskynnum ríkissáttasemjara og hefst kl 13:30.

Ófaglærðir starfsmenn hjá ríkinu bera töluverðar væntingar til komandi kjarasamninga enda hafa þeir ekki notið þess launaskriðs sem verið hefur á vinnumarkaðnum á undanförnum árum.

Krafan er skýr, það er stórhækkun á þeim launatöxtum sem gilda fyrir ófaglærða starfsmenn ríkisins.  Það er einnig alveg ljóst að það efnahagsvandamál sem nú ríkir í íslensku samfélagi mun ekki auðvelda gerð nýs kjarasamnings við ríkið. 

23
Mar

Fyrsti kolmuninn kominn til bræðslu

Ingunn Ak kom í land á skírdag með 1400 tonn af kældum kolmunna en skipið tekur rétt rúm 2000 tonn. Þetta er fyrsti kolmunaaflinn sem landað er á þessu ári til bræðslu hér á Akranesi. Aflinn veiddist á Rockhallsvæðinu.

Að sögn skipverja var tíðarfarið á miðunum nokkuð gott, en hins vegar fengu þeir leiðinda verður síðasta sólahringinn á leið sinni til hafnar.

Ingunn mun halda til veiða strax eftir páska og væntanlega munu Lundey og Faxi gera það einnig en öll þessi skip eru í eigu HB Granda.

Það tók starfsmenn síldarbræðslunnar tvo sólarhringa að bræða þann afla sem Ingunn kom með. 

Væntanlega mun sá afli sem skipin veiða á Rockhallsvæðinu koma til bræðslu á Akranes þar sem mun styttra er til hafnar á Akranesi heldur en til Vopnafjarðar.

Flestir skipverjar á Ingunni tilheyra sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness.

20
Mar

Gleðilega páska

Stjórn og starfsmenn Verkalýðsfélags Akraness óska félagsmönnum, fjölskyldum þeirra og landsmönnum öllum gleðilegra páska. 

19
Mar

Ávinningur kjarasamninga horfinn

Það er sorglegt að sjá að sá ávinningur sem náðist í nýgerðum kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði skuli vera allur horfinn og það á einugis einum mánuði.  Fall krónunar hefur gert það að verkum að nú blasir við umtalsverð hækkun verðbólgunnar eins og greiningardeildir bankanna hafa verðið að spá undanfarna daga.

Í nýgerðum kjarasamningum er endurskoðunarákvæði og eins og staðan er í dag er stórhætta á að kjarasamningum verði sagt upp í mars á næsta ári, ef ekki næst að koma böndum á þá skelfilegu þróun sem nú blasir við íslensku efnahagslífi.  Fall krónunnar hefur gert það að verkum að greiðslubyrði íslenskra launþega hefur stórhækkað á síðustu dögum og algjörlega ljóst allir verða að leggjast á eitt við að koma böndum á þá þróun sem nú er að eiga sér stað.

Í nýgerðum kjarasamningum var meginmarkmiðið að auka kaupmátt íslenskra launþega. Á þeirri forsendu voru gerðir skynsamir og hófstilltir kjarasamningar. Því er sorglegt að sjá þá þróun sem nú er að eiga sér stað, því eins og áður hefur komið fram er allur sá ávinningur fyrir bí.

Ríkisstjórnin verður að flýta aðgerðum getið er um í yfirlýsingu frá 17. febrúar, m.a. með því að láta hækkur persónuafsláttar taka gildi tafarlaust og koma með hækkun vaxta- og barnabóta. Einnig verður ríkisstjórnin að lækka álögur á eldsneyti á meðan þær gríðarlegu hækkanir á heimsmarkaði eru að eiga sér stað.

Nú eru kjarasamningar við ríki og sveitarfélög framundan og ljóst að sú þróun sem hefur átt sér stað í íslensku efnahagslífi að undanförnu mun ekki auðvelda þá samningsgerð. Grundvallaratriðið nú er að allir leggist á eitt við að koma böndum á það ástand sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi og er vonlaust að undanskilja neinn í þeim efnum. Því ef það ekki tekst mun fara mjög illa fyrir mörgum íslenskum heimilum.

18
Mar

Orlofshús sumarið 2008!

Undanfarna daga hafa starfsmenn skrifstofu félagsins unnið að því að koma umsóknum um sumardvöl í orlofshúsum félagsins í póst til félagsmanna. Umsóknareyðublöð og nýr orlofshúsabæklingur fóru í póst í gær og ætti því að berast félagsmönnum fyrir páska.

Í sumar verður sem fyrr boðið upp á dvöl í orlofshúsum félagsins í Húsafelli, Svínadal, Hraunborgum, Ölfusborgum og í þremur íbúðum á Akureyri. Einnig er félagið með í leigu íbúð í Stykkishólmi (nánari upplýsingar hér), bústað að Eiðum (nánari upplýsingar hér) og tvö hús að Koðrabúðum á landi Heiðar í Biskupstungum (nánari upplýsingar hér).

Helstu dagssetningar:

11. apríl - Frestur til að skila inn umsóknum um orlofshús í sumar

15. apríl - Fyrri úthlutun fer fram, þeir sem fá úthlutað fá það staðfest með bréfi

02. maí  - Eindagi fyrri úthlutunar, þeim vikum sem ekki eru greiddar á eindaga er úthlutað aftur

07. maí  - Endurúthlutun fer fram, þeir sem fá úthlutað fá það staðfest með bréfi

16. maí  - Eindagi endurúthlutunar

19. maí  - Fyrstur kemur, fyrstur fær! Lausum vikum er úthlutað til þeirra sem fyrstir koma

  Úthlutun fer þannig fram að allar umsóknir eru skráðar inn í tölvukerfi félagsins. Kerfið raðar öllum umsóknum í röð eftir punktastöðu, þ.e. þeir umsækjendur sem flesta hafa punktana eru fremstir í röðinni og svo koll af kolli. Ef punktar tveggja eru jafnir fær sá úthlutað sem fyrr sótti um. Kerfið vinnur sig síðan í gegnum umsóknirnar og úthlutar vikum eftir punktastöðu.

  Þeir sem ekki fá úthlutað í fyrri úthlutun lenda sjálfkrafa í endurúthlutun þar sem þeim vikum er úthlutað sem ekki voru greiddar á eindaga fyrri úthlutunar. Eftir eindaga endurúthlutunar verða lausar vikur auglýstar hér á heimasíðunni og hægt verður að sækja um þær á skrifstofu félagsins. Gildir þá hin ágæta regla: Fyrstur kemur, fyrstur fær.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image