• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Apr

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness verður haldinn á morgun

Á morgun verður aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness haldinn. Fundur verður settur kl. 13:00 í matsal Sementsverksmiðjunnar, Mánabraut (Fortuna).

Dagskrá fundarins er á þessa leið:

1.   Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár

2.   Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til afgreiðslu

3.   Kosningar sem þurfa að fara fram samkvæmt 28. grein

4.   Ákvörðun félagsgjalda

5.   Önnur mál

Félagsmenn eru eindregið hvattir til að mæta og láta málefni síns stéttarfélags sig varða.

Eftir fundinn verður boðið upp á veglegar veitingar úr eldhúsi Fortuna.

23
Apr

Fréttablaði Verkalýðsfélags Akraness dreift næstu viku

Nú er unnið að gerð fréttabréfs félagsins sem mun koma út rétt fyrir 1. maí. Eins og ávalt verður blaðið stútfullt af fréttum af starfsemi félagsins.

Í blaðinu verður gerð grein fyrir nýgerðum kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði. Einnig er farið yfir mál er lúta að orlofshúsum félagsins en nú er verið að taka bæði sumarhúsin í Svínadal og Hraunborgum í gegn fyrir komandi sumarúthlutun.

Blaðið verður væntanlega borið út til allra Akurnesinga og nærsveitunga þriðjudaginn 29. apríl. Einnig verður hægt að nálgast blaðið hér á heimasíðunni sem og eldri blöð sem félagið hefur gefið út.

21
Apr

Samninganefnd Starfsgreinasambandsins fundar á morgun

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands vegna ríkissamningana mun koma saman til fundar á morgun í húskynnum ríkissáttasemjara.  Kjarasamningur SGS við ríkið rann út um síðustu mánaðarmót og bera ófaglærðir hjá ríkinu töluverðar væntingar til nýs kjarasamnings.  Enda hafa þeir ekki notið þess launaskriðs sem verið hefur á hinum almenn vinnumarkaði á undanförnum árum.

Það er mat formanns félagsins að ekki sé hægt að semja á þeim forsendum sem gert var á hinum almenna vinnumarkaði ekki alls fyrir löngu.  Ástæða þess að ekki er hægt að gagna frá samningi við ríkið á sömu nótum og gert var á hinum almenna vinnumarkaði er sú að verðbólgan var þá 5,7% en í dag er hún 8,7% og töluverðar líkur á að hún fari yfir 10% í næstu mælingu.

18
Apr

Norðurál greiðir hæstu iðgjöld í Festu lífeyrissjóðs

Ársfundur Festu Lífeyrissjóðs var haldinn í gær á Selfossi.  Flestir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness greiða sínar lífeyrissjóðgreiðslur til Festu lífeyrissjóðs. 

Lífeyrissjóður Festa varð til við sameiningu Lífeyrissjóðs Suðurlands og Lífeyrissjóðs Vesturlands á miðju ári 2006.  Á síðasta ári greiddu til samtryggingardeilda sjóðsins samtals 16.000 sjóðsfélagar hjá 1.934 atvinnurekendum.

Það var afar ánægjulegt að heyra á fundinum í gær að Festa lífeyrissjóður var með hæstu hreinu raunávöxtun allra lífeyrissjóða á landinu. Einfaldlega vegna þess að Það skiptir okkar félagsmenn gríðarlega miklu máli að ávöxtun sé jafn góð og raunin varð, enda getur ávöxtun lífeyrissjóða spilað stóra rullu hvað varðar réttindi okkar félagsmanna úr sjóðnum.  Ávöxtun sjóðsins er sérstaklega ánægjuleg í ljósi þeirra aðstæðna sem urðu á hlutabréfamarkaðnum seinni hluta síðasta árs.

Norðurál á Grundartanga var stærsti launagreiðandinn til sjóðsins með 5,2% allra iðgjalda og Flugþjónustan Keflavíkurvelli kom næst með 3,8% heildariðgjalda til sjóðsins.

Samanburður á raunávöxtun við aðra lífeyrissjóði hér á landi er eftirfarandi:

1. Festa lífeyrissjóður 2,8 %
2. Gildi lífeyrissjóður 2,4%
3. Lífeyrissjóður Vestmannaeyja 1,2%
4. Lífeyrissjóður Verslunarmanna 1,1%
5. Stafir lífeyrissjóður 0,9%
6. Söfnunarsjóður Lífeyrisréttinda 0,2%
7. Sameinaði lífeyrissjóðurinn

0,0%

8. Stapi lífeyrissjóður -0,6%
9. Lífeyrissjóður bænda -1,1%
10. Almenni lífeyrissjóðurinn -1,5%
Frjálsi lífeyrissjóðurinn
17
Apr

Aðalfundur félagsins haldinn 26. apríl

Undirbúningur fyrir komandi aðalfund stendur nú yfir á fullu hjá starfsmönnum félagsins.  En aðalfundurinn verður haldinn laugardaginn 26. apríl kl. 13:00.  Rétt er að vekja athygli á því að aðalfundurinn verður haldinn í matsal Sementsverksmiðjunnar (Fortuna)  

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni var afkoma félagsins afar góð á síðasta ári og endurspeglast hún af gríðarlegri fjölgun á félagsmönnum á milli ára.  En félagsmönnum fjölgaði um 700 á síðasta ári.

Einnig eru starfsmenn félagsins að vinna að fréttablaði félagsins sem mun koma út rétt fyrir 1. maí og verður borið út í öll hús hér á Akranesi sem einnig í nærsveitir. 

Stjórn félagsins mun bjóða félagsmönnum uppá  lambalæri með öllu tilheyrandi í lok aðalfundar.  Stjórn félagsins hvetur félagsmenn eindregið til að mæta á aðalfundinn. 

15
Apr

Fundað verður með forstjóra HB Granda á morgun

Eggert B Guðmundsson forstjóri HB GrandaEggert B Guðmundsson forstjóri HB GrandaFormaður Verkalýðsfélags Akraness og bæjarstjóri Akraneskaupstaðar munu á morgun eiga fund með forstjóra HB Granda, Eggert B. Guðmundssyni.

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá fól bæjarráð Akraneskaupstaðar áðurnefndum aðilum að leita skýringa hjá forsvarsmönnum HB Granda á því hvers vegna 7633 tonn af bolfiski hafi verið flutt frá skipum fyrirtækisins yfir á skip annarra útgerða.

Er þessara skýringa óskað vegna þess gríðarlegs samdráttar sem orðið hefur í landvinnslu fyrirtækisins á Akranesi og þeirra miklu hagsmuna sem um ræðir fyrir starfsfólk landvinnslunnar á Akranesi sem og allt bæjarfélagið.

HB Grandi hefur verið fjöregg okkar Skagamanna í rúm 100 ár og sú ákvörðun forsvarsmanna fyrirtækisins að segja upp öllum starfsmönnum nema 20 í landvinnslunni hefur lagst afar illa í samfélagið hér á Akranesi.

Eins og áður hefur einnig komið fram þá geta verið eðlilegar skýringar á þessum tilfærslum og ef svo er munu þær skýringar væntanlega vera lagðar fram á fundinum á morgun.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image