• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Feb

Tæplega 100 manna kynningafundur um nýgerðan kjarasamning

Formaður félagsins hélt kynningarfund um nýgerðan kjarasamning með starfsmönnum Smellinns.  Um 100 manns starfa hjá Smellinn og voru nánast allir starfsmenn mættir á kynningarfundinn sem stóð í vel á annan tíma.

Töluvert stór hluti starfsmanna Smellins eru af erlendu bergi brotnir. Langstærsti hlutinn kemur frá Póllandi einnig eru nokkrir frá Litháen.  Á fundinum í morgun var pólskur túlkur með í för og var það alveg bráðnauðsynlegt til að koma sem mestum upplýsingum um innhald samningsins til skila til starfsmanna.  Einnig dreifði formaður kynningarefni um helstu atriði samninsins á pólsku, litháísku og ensku. 

Á fundinum fór formaður yfir helstu atriði samningsins og vöknuðu fjölmargar spurningar hjá starfsmönnum sem formaður svaraði eftir bestu getu.  Töluvert stór hluti starfsmanna er að vinna eftir launatöxtum og mun taxtahækkun samningsins snerta mjög marga starfsmenn fyrirtækisins. 

25
Feb

Félagsmenn munið kynningarfundinn annað kvöld

Stjórn félagsins vill minna félagsmenn sem taka laun eftir kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins við Starfsgreinasamband Íslands á kynningarfundinn annað kvöld kl. 20:00 í sal HB Granda.

Félagsmönnum mun gefast kostur á að kjósa um samninginn að lokinni kynningu á honum.

Í morgun kynnti formaður samninginn fyrir starfsmönnum lifrarbræðslu Jóns Þorsteinssonar og á morgun er fyrirhugaður kynningarfundur með starfsmönnum Smellinn. Á miðvikudaginn verður síðan kynningarfundur með starfsmönnum Norðanfisks.

Á þeim kynningum sem formaður hefur haldið hefur komið fram nokkur ánægja með nýgerðan samning þótt vissulega séu alltaf atriði sem betur hefðu mátt fara í nýjum samningi að mati fundarmanna. En heilt yfir virðast félagsmenn vera nokkuð ánægðir með nýgerðan samning.

22
Feb

Kynningar á samningnum standa nú á fullu yfir

Stjórn og trúnaðarráð fundaði í gærkvöldi og var þar farið yfir nýgerðan kjarasamning. Voru fundarmenn almennt sáttir við samninginn og þá sérstaklega þann þátt sem lýtur að hækkun lægstu launa. Samt sem áður hefðu stjórnarmenn viljað sjá meiri hækkanir.

Ákveðið var á fundinum að fyrirkomulag kosninga um samninginn verði með þeim hætti að opinn kjörfundur verður þar sem hægt verður að kjósa um samninginn á skrifstofu félagsins.

Formaður mun kynna samninginn hjá lifrarbræðslunni Jóni Þorsteinssyni á mánudaginn og mun starfsmönnum gefast kostur á að kjósa um samninginn að lokinni kynningu. Einnig verður kynning á þriðjudaginn í fyrirtækinu Smellinn en þó nokkur fjöldi starfsmanna þar er af erlendu bergi brotinn og verður pólskur túlkur því með í þeirri kynningu.

Síðan verður opinn félagsfundur á þriðjudagskvöld kl. 20:00 í sal HB Granda og þar mun félagsmönnum einnig gefast kostur á að kjósa um samninginn.

Hægt verður að kjósa um samninginn á skrifstofu félagsins frá 29. febrúar til 7 mars en þá verður kjörfundi lokið.

21
Feb

Kjarasamningurinn kynntur fyrir starfsmönnum Fangs

Formaður félagsins fór í morgun og kynnti nýgerðan kjarasamning fyrir starfsmönnum Fangs, en það eru starfsmenn sem starfa í mötuneyti og við ræstingar hjá Íslenska járnblendifélaginu.

Fyrir gerð nýs kjarasamnings voru grunnlaun starfsmanna eftir 5 ára starf 166.748 kr. en verða eftir nýgerðan samning komin uppí 184.748 kr. sem er hækkun uppá 10.8%

Föst laun þ.e.a.s. vaktarálag, ferðapeningar og bónus hjá starfsmanni eftir 5 ára starf var fyrir nýgerðan kjarasamning 223.929 kr. en verða eftir samning 248.908 kr. sem er hækkun uppá 24.978 kr. á mánuði eða sem nemur 11% hækkun.  Þetta er hækkun sem gildir fyrsta ár samningsins.

Starfsmenn voru almennt mjög ánægðir með samninginn og telja þetta jákvætt skref í að bæta kjör þeirra sem eru með hvað lægstu launin. 

20
Feb

Stjórn og trúnaðarráð kemur saman til fundar á morgun

Á morgun mun stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness koma saman til fundar þar sem farið verður yfir nýgerðan kjarasamning.

Einnig verður tekin ákvörðun um hvort kosið verður um kjarasamninginn í allsherjar póstatkvæðagreiðslu eða á opnum kjörfundi.

Stjórn félagsins hvetur alla þá sem taka laun eftir nýgerðum kjarasamningi að kynna sér hann í þaula en hægt er að nálgast samninginn á skrifstofu félagsins sem og hér á heimasíðunni undir kjaramál hér vinstra megin.

Einnig geta fyrirtæki óskað eftir kynningu á vinnustöðum og hefur einn stór vinnustaður þegar óskað eftir slíkri kynningu.

19
Feb

Kynning hafin á nýjum kjarasamningi

Fyrsti kynningarfundur nýs kjarasamnings fór fram í gær en það voru starfsmenn HB Granda sem fengu kynningu á helstu atriðum samningsins.

Á þriðjudaginn kemur verður haldinn kynningarfundur í sal HB Granda kl. 20:00 þar sem farið verður ítarlega yfir nýgerðan kjarasamning. Einnig geta félagsmenn óskað eftir að formaður komi á vinnustaði og kynni samninginn.

Hægt er að nálgast nýgerðan kjarasamning SGS við SA með því að smella hér.

Kjarasamning iðnaðarmanna er hægt að nálgast með því að smella hér.

Yfirlýsingu Ríkisstjórnarinnar er hægt að nálgast með því að smella hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image