• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
May

Óskiljanleg vinnubrögð af hálfu Vinnueftirlitsins

Alvarlegt vinnuslys varð miðvikudaginn 30. apríl í steypustöð BM Vallár við Höfðasel á Akranesi. Slysið varð með þeim hætti að karlmaður á fertugsaldri fékk utan í sig stórt steypusíló sem féll úr 5 til 6 metra hæð. Hann var fyrst fluttur á Sjúkrahúsið á Akranesi en fljótlega þaðan með forgangshraði á Landspítalann í Reykjavík.  Samkvæmt upplýsingum sem formaður félagsins hefur aflað sér þá liggur maðurinn sem er félagsmaður í Verkalýðsfélagi Akraness á gjörgæsludeild Landspítalans, alvarlega slasaður og er honum haldið sofandi í öndunarvél.

Það sem formaður félagsins undrast í máli þessu eru vinnubrögð Vinnueftirlitsins en slysið er tilkynnt til neyðarlínunar kl. 17:15 og kl. 17:56 hefur vinnuveitandinn strax samband við Vinnueftirlitið á Vesturlandi og tilkynnir að vinnuslys hafi orðið hjá fyrirtækinu.  Hins vegar sér fulltrúi Vinnueftirlitsins á Vesturlandi sér ekki fært að koma í vettvangsrannsókn strax og tilkynnir að hann muni koma á föstudagsmorgun eða vel á annan sólarhring eftir að slysið varð.

Ugglaust eru eðlilegar skýringar á því að fulltrúi Vinnueftirlitsins á Vesturlandi hafi ekki getað komið strax á vinnustaðinn og tekið út viðkomandi búnað.  Hins vegar er það með öllu óskiljanlegt að ekki hafi verið fenginn fulltrúi frá Vinnueftirlitinu á höfuðborgarsvæðinu þegar um jafn alvarlegt vinnuslys er að ræða.  Formanni er kunnugt um að sólahringsvakt sé hjá Vinnueftirlitinu á höfuðborgarsvæðinu og því hefði verið lítið mál að fá annan fulltrúa til að mæta á slysstað.

Það er mat formanns að það sé algjört lágmark að þegar jafn alvarlegt vinnuslys á sér stað að þá sé rannsókn Vinnueftirlitsins hafin yfir allan vafa enda getur það vart talist eðlileg vinnubrögð að bíða með vettvangsrannsókn í tæpa tvo sólarhringa frá því að slysið á sér stað.

Verkalýðsfélag Akraness hefur haft samband við Vinnueftirlit Ríkisins í Reykjavík og gert alvarlegar athugasemdir við þessi vinnubrögð enda mun félagið ekki sætta sig við slík vinnubrögð þegar jafn alvarleg slys eiga sér stað á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness.

30
Apr

Gylfi Arnbjörnsson ræðumaður á 1. maí hátíðarhöldum á Akranesi

Gylfi Arnbjörnsson framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands verður ræðumaður á 1. maí hátíðarhöldunum á Akranesi.  Kjörorð dagsins er Verjum kjörin og er það ekki að ástæðulausu sem það slagorð er valið í ár. 

 

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

1. Maí Akranesi!

Verkalýðsfélag Akraness,

Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar,

VR, FIT Félag iðn- og tæknigreina

Kennarasamband Íslands og Sjúkraliðafélag Íslands

standa fyrir dagskrá á hátíðar- og baráttudegi verkafólks 1. maí

Safnast verður saman við Kirkjubraut 40, kl. 14:00 og genginn verður hringur á neðri-Skaga.

Að göngu lokinni verður hátíðardagskrá í sal Verkalýðsfélags Akraness á 3ju hæð Kirkjubrautar 40.

Dagskrárstjóri:

Gísli S. Einarsson

bæjarstjóri

Ræðumaður dagsins:

Gylfi Arnbjörnsson

framkvæmdastj. ASÍ

Kvennakórinn Ymursyngur nokkur lög

Kaffiveitingar

Frítt í bíó fyrir börnin í Bíóhöllinni kl. 15:00

Félagsmenn fjölmennið!

1. maí-nefndin 

30
Apr

Viðtal við formann í Íslandi í bítið

Viðtal var við formann félagsins í morgun í Ísland í bítið. Þar fór formaður yfir það ástand sem ríkir nú í íslensku efnahagslífi og atvinnuástandið á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness.

Fram kom í máli formanns að sá ávinningur sem náðist í síðustu kjarasamningum hefur nánast verið í frjálsu falli eftir gengisfall krónunnar. Einnig kom fram í máli formanns að það sé skoðun hans að umtalsverðar líkur séu á að kjarasamningum verði sagt upp í mars á næsta ári þegar endurskoðun þeirra mun eiga sér stað.

Það kom líka fram í máli hans að það sé gríðarlega mikilvægt að allir leggist á eitt við að koma böndum á verðbólguna og taldi hann að mikilvægt væri að ráðamenn þessarar þjóðar myndu sýna gott fordæmi með því að fella úr gildi lög um eftirlaun alþingismanna, en mikill styrr hefur staðið um þessi lög frá því þau voru sett á.

Hægt er að hlusta á viðtalið með því að smella hér

29
Apr

Verkalýðsfélag Akraness harmar ákvörðun bæjarráðs

Eins og fram kom í fréttum í gær þá var farið skapast ófremdarástand í skólum bæjarins vegna þeirrar ákvörðunar kennara að vinna ekki tilfallandi yfirvinnu.  Með þeirri ákvörðun voru kennarar að mótmæla því að ekki hafi komið til viðbótargreiðslur og sértækar aðgerðir í launamálum hjá starfsmönnum Akraneskaupstaðar eins og gerst hefur hjá nágrannasveitarfélögunum á undanförnum mánuðum.

Öll sveitarfélögin á stór Reykjavíkursvæðinu hafa komið með sértækar aðgerðir í launamálum sinna starfsmanna vegna aukins álags og manneklu.  Á undanförnum vikum hafa sveitarfélögin á Reykjanesi einnig verið að tilkynna um sértækar aðgerðir til handa sínum starfsmönnum. 

Verkalýðsfélag Akraness var búið að óska eftir því við bæjarráð Akraneskaupstaðar ekki alls fyrir löngu að það myndi fara að fordæmi nágrannasveitarfélaganna og taka upp álíka sértækar aðgerðir í launamálum og önnur sveitarfélög hafa verið að kynna.  Þeirri ósk félagsins var hafnað.

Eftir aðgerðir kennara ákvað bæjarráð að greiða kennurum eingreiðslu kr. 60.000.- miðað við fullt  starf  þegar kjarasamningar kennara og Launanefndar sveitarfélaga hafa verið undirritaðir og samþykktir.  Eins fram hefur komið í fréttum þá er búið að undirrita nýjan kjarasamning fyrir grunnskólakennara og verður væntanlega kosið um þá fljótlega.

Bæjarráð samþykkti hins vegar að öðrum starfsmönnum Akraneskaupstaðar yrði greidd eingreiðsla kr. 60.000.- þegar þeirra kjarasamningar hafa verið undirritaðir að loknu núverandi samningstímabili en kjarasamningur við launanefnd sveitarfélaga rennur ekki út fyrr en 30. nóvember nk. Þetta þýðir að umrædd eingreiðsla mun ekki berast öðrum starfsmönnum bæjarins fyrr en eftir rúma sex mánuði.

Formaður félagsins harmar þá ákvörðun að ekki skuli allir starfsmenn Akraneskaupstaðar fá eingreiðsluna á sama tíma og telur fullvíst að þessi ákvörðun bæjarráðs muni valda umtalsveðri úlfúð hjá starfsmönnum bæjarins, enda er hún með öllu óskiljanleg.  Það er einnig óskiljanlegt að bæjrráð skuli tengja þessa eingreiðslu við komandi kjarasamninga en það hafa önnur sveitarfélög ekki gert

Verkalýðsfélag Akraness skorar á bæjaryfirvöld að endurskoða þessa ákvörðun og greiða öðrum starfsmönnum áðurnefnda eingreiðslu á sama tíma og gera á við kennara, enda er morgunljóst að aðrir starfsmenn bæjarins munu ekki sætta sig við slíka mismunun.  Einnig skorar Verkalýðsfélag Akraness á bæjaryfirvöld að hækka áðurnefnda eingreiðslu til samræmis við það sem Seltjarnnesbær er búinn að samþykkja handa sínum starfsmönnum.  En allir starfsmenn Seltjarnnesbæjar að undanskildum bæjarstjóranum munu fá eingreiðslu sem nemur 120.000 1. maí nk.

28
Apr

Ávinningur kjarasamninga í frjálsu falli

Óhætt er að segja að sá ávinningur sem náðist í síðustu kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði sé nú í frjálsu falli. Samkvæmt nýustu mælingum hjá Hagstofunni mælist verðbólgan í apríl 11,8% en þegar kjarasamningar voru gerðir þann 17. febrúar sl. var verðbólgan 5,7% og hefur því hækkað um 6,1% frá undirritun samninganna.

Það er algjörlega ljóst að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði geta komist í mikið uppnám þegar endurskoðun á sér stað í febrúar 2009 og eins og staðan er núna er fátt sem bendir til annars en að samningunum verði sagt upp.

Það er grátlegt að sjá þann ávinning sem náðist í síðustu samningum hvað varðar hækkun á lægstu launum hverfa á jafnskömmum tíma og raunin hefur orðið.

Þetta mun ekki aðeins koma niður á nýgerðum kjarasamningum heldur verður gríðarlega erfitt að ganga frá þeim kjarasamningum sem nú eru lausir svo sem við ríkið, sjómenn og stóriðjurnar enda eru allt aðrar forsendur nú en þegar gengið var frá kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði.

Það er mat formanns að það verði ekki hægt að ganga frá áðurnefndum samningum á sömu forsendum og gert var 17. febrúar sl. vegna þeirrar þróunar sem verið hefur á hækkun neysluvísitölunnar.

Það er með ólíkindum hversu hratt áhrif gengisfalls krónunnar hafa skilað sér út í verðlagið og spurning hvort einhverjir verslunareigendur séu að nýta sér það ástand sem nú er í íslensku efnahagslífi. Það verður fróðlegt að sjá, þegar að krónan styrkist aftur, hvort verslunareigendur verði jafn fljótir að lækka sínar vörur og þeir hafa verið fljótir að grípa til hækkana. Það var aðdáunarvert að sjá tilkynningu frá forsvarsmönnum IKEA sem tóku þá ákvörðun að grípa ekki til hækkana þrátt fyrir fall krónunnar. Það er einnig ljóst að fleiri verslanir mættu taka sér IKEA til fyrirmyndar.

Það er mjög mikilvægt að verðlagseftirlit Alþýðusamband Íslands hafi fengið aukafjármagn til þess að sinna verðlagseftirliti og vonandi mun slíkt eftirlit skila tilsettum árangri.

26
Apr

Stjórn VLFA hefur áhyggjur af þróun efnahags- og atvinnumála

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness var haldinn í dag laugardaginn 26. apríl í matstofu Fortuna í sal Sementsverksmiðjunnar. Formaður félagsins, Vilhjálmur Birgisson, flutti skýrslu stjórnar og greindi frá því helsta sem stjórn og starfsmenn fengust við á annasömu ári. Félagsmönnum fjölgaði um 722 á síðasta ári og hagnaður af rekstri sjóða félagsins nam rúmlega 77 milljónum króna, samanborið við rúmlega 54 milljónir árið á undan. Félagssjóður skilaði rekstrarafgangi upp á tæpar 23 milljónir en var rekinn með halla þegar þessi stjórn tók við í árslok 2003. Staða sjúkrasjóðs er sterk og jókst hagnaður um 30% á milli ára þrátt fyrir auknar styrkveitingar, sem jukust um 37%. Sama er upp á teninginn með aðra sjóði félagsins, Orlofssjóð og Verkfallssjóð, staða þeirra hefur styrkst verulega.

 

Áhyggjur af þróun efnahags- og atvinnumála

Í máli Vilhjálms  kom fram að stjórn félagsins hefði áhyggjur af þróun efnahagsmála síðustu tveggja mánaða sem hefði leitt til þess að ávinningur nýrra kjarasamninga hefði tapast. Telur stjórn félagsins að allt stefni í að samningum yrði sagt upp strax í mars á næsta ári.

Formaður félagsins lét í ljós þungar áhyggjur af þróun atvinnumála í sjávarútvegi á Akranesi og var ómyrkur í máli um afleiðingar sameiningar HB hf og Granda sem leitt hefði til þess að yfir 150 manns hafi misst atvinnuna. Sagði Vilhjálmur forsvarsmenn HB Granda hafa sýnt Skagamönnum ótrúlegan fantaskap og að ekkert lát virtist ætla að verða á honum.

 

Setja markið hátt

Í skýrslu stjórnar kemur fram að hún sé stolt yfir því hvernig til hefur tekist þau fjögur ár sem stjórnin hefur starfað. Stórbætt afkoma félagsins og aukin þjónusta sjáist m.a. í því að yfir 90% félagsmanna eru ánægðir með það sem félagið hefur upp á að bjóða, samkvæmt könnun Capacent Gallup á síðasta ári. Markmið núverandi stjórnar er að Verkalýðsfélag Akraness verði það stéttarfélag sem mest og best þjónar sínum félagsmönnum hér á landi.

Í fundarlok var fundarmönnum boðið uppá lambalæri með öllu tilheyrandi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image