• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
May

Enn er hægt að fá miða á Bubba

Nú styttist óðum í Bubba-tónleikana en þeir hefjast nk. föstudag kl. 20:00. Húsið opnar kl. 19:30.

Það er Verkalýðsfélag Akraness sem býður félagsmönnum sínum upp á þessa tónleika og er enn hægt að fá miða.

Þeir félagsmenn sem ætla að nýta sér þetta boð eru eindregið hvattir til þess að sækja miðann sinn á skrifstofu félagsins.

26
May

Gengið frá kjarasamningi við ríkið

Í nótt var gengið frá kjarasamningi SGS við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs. Samningurinn er einungis til 11 mánaða eða til loka mars 2009.   Helstu atriði samningsins eru eftirfarandi:

  • Launataxtar hækka um 20.300 kr. frá og með 1. maí sl. en frá sama tíma tekur gildi ný launatafla.
  • Persónuuppbót á árinu 2008 verður 44.100 kr. og orlofsuppbót 24.300 kr.
  • Réttur foreldra til fjarveru vegna veikinda barna fer úr 10 dögum í 12.
  • Framlag ríkisins í styrktar- og sjúkrasjóði aðildarfélaga SGS í 0,75% af heildarlaunum starfsmanns frá 1. janúar 2009.
  • Þá var samið um sérstaka jöfnunargreiðslu 17.000 kr. fyrir ræstitækna í tímamældri ákvæðisvinnu sem greidd verði út 1. desember nk.

      

  • Tryggt var sambærilegt framlag til endurhæfingarmála 0,13% endurhæfingargjald.

Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að þessi samningur við ríkið sé vel ásættanlegur og sem dæmi þá hækka sumir félagsmenn sem taka laun eftir nýgerðum kjarasamningi um allt að 23.000 kr á mánuði að teknu tilliti til nýrrar launatöflu.

Það er einnig mat formanns að það hafi verið skynsamlegt að gera stuttan samning og þá sérstaklega í ljósi þess ólgusjós sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi.

Formaður mun kynna samninginn fyrir þeim starfsmönnum sem starfa á sjúkrahúsi Akraness næsta fimmtudag en þar starfa langflestir sem eru að taka laun eftir kjarasamningi við ríkið. 

25
May

Frítt fyrir félagsmenn á tjaldsvæðið að Þórisstöðum

Eins og undanfarin ár hefur Verkalýðsfélag Akraness gert samning við Starfsmannafélag Íslenska Járnblendifélagsins um frían aðgang að tjaldsvæðunum á Þórisstöðum.

Í samningum er kveðið á um að allir félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness og makar þeirra og börnum upp að 16 ára aldri eigi frían aðgang að tjaldstæðum í landi Þórisstaða í Svínadal.  Auk þess er félagsmönnum VlFA heimilt að veiða í Geitabergsvatni, Þórisstaðavatni og Eyrarvatni.  Þessu til viðbótar mega félagsmenn VLFA spila golf á Þórisstöðum án endurgjalds.

Stjórn orlofssjóðs hvetur félagsmenn til að nýta sér þessa útivistarparadís sem aðstaðan á Þórisstöðum býður uppá.  Rétt er að minna félagsmenn á að þeir þurfa að framvísa félagsskírteini þegar þeir nýta sér þjónustna á Þórisstöðum. 

Hægt er sjá hvað er í boði á Þórisstöðum með því að smella hér.

23
May

HB Grandi býður starfsfólki áframhaldandi ráðningu tímabundið

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá var öllum nema 20 starfsmönnum landvinnslu HB Granda á Akranesi sagt upp störfum í vetur og áttu uppsagnirnar að taka gildi um næstu mánaðarmót. Nú hafa hins vegar forsvarsmenn fyrirtækisins boðið öllum þeim sem vilja tímabundna ráðningu í 5 til 6 vikur til viðbótar og verða það að teljast mjög gleðileg tíðindi.

Sumarlokun mun hefjast hjá fyrirtækinu 11. júlí og standa til 18. ágúst en á meðan á sumarlokuninni stendur mun fara fram undirbúningur nýrrar framleiðslu þar sem sett verður upp nýr lausfrystibúnaður sem notaður verður til lausfrystingar á ufsa- og þorskflökum.

Áætlað er að um 20 manns muni starfa við þessa nýju framleiðslu fyrirtækisins en getgátur eru um að sá fjöldi sé jafnvel of lítill og á þeirri forsendu eygir formaður von til þess að hugsanlega muni fleiri fá fastráðningu þegar framleiðslan mun hefjast.

En eins og áður sagði er það mikið gleðiefni að starfsmönnum skuli hafa verið boðin tímabundin ráðning, sérstaklega í ljósi þess að atvinnumöguleikar fyrir kvenfólk þessa stundina eru ekki ýkja miklir hér á Akranesi.

21
May

Aðalsamninganefnd SGS fundaði í húsakynnum ríkissáttasemjara

Aðalsamninganefnd Starfsgreinasambands Íslands kom saman til fundar í húsakynnum ríkissáttasemjara á mánudaginn var vegna kjarasamnings við ríkið en sá samningur rann út 31. mars sl.

Það hafa verið nokkuð stífar viðræður við samninganefnd ríkisins að undanförnu og vonast menn til að það fari að sjá fyrir endann á þessum kjaraviðræðum.  Það er mat formanns félagsins að það sé mjög mikilvægt að ganga frá samningi á næstu dögum og er formaður reyndar nokkuð bjartsýnn á að það takist.

Það liggur fyrir að starfsmenn sem starfa hjá ríkinu eru orðnir mjög óþolinmóðir vegna þess hversu langt er síðan kjarasamningurinn rann út og á þeirri forsendu er eins og áður sagði mjög mikilvægt að gengið verði frá viðunandi kjarasamningi á næstu dögum.

Það er ljóst að samningurinn við ríkið þarf að vera innihaldsríkari en kjarasamningurinn sem gerður var á hinum almenna vinnumarkaði einfaldlega vegna þess að allt aðrar forsendur eru nú í íslensku efnahagslífi en þegar gengið var frá kjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði 17 febrúar sl.

20
May

Sumar 2008 - Lausar vikur í orlofshúsum

Nú er endurúthlutun orlofshúsa lokið og var eindaginn á föstudaginn sl. Búið er að losa þær vikur sem ekki voru greiddar á eindaga og er nú hægt að skoða lista yfir lausar vikur hér. Þessi listi verður uppfærður eftir þörfum.

Þeim sem hafa áhuga á að bóka viku af listanum er bent á að snúa sér til skrifstofu félagsins, Sunnubraut 13, eða í síma 4309900.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image