• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Jun

61 án atvinnu á Akranesi

Stóriðjan tryggir nokkuð gott atvinnuástand á AkranesiStóriðjan tryggir nokkuð gott atvinnuástand á AkranesiSamkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun hér á Akranesi þá eru 61 á atvinnuleysinsskrá.  Það eru 18 karlar án atvinnu og 42 konur sem gerir um 1% atvinnuleysi. 

Það hafa ekki verið neinar stórar uppsagnir á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness frá því að HB Grandi sagði upp rúmum 40 konum í landvinnslu fyrirtækisins síðastliðinn vetur.  Atvinnuástandið á félagssvæði VLFA er nokkuð gott þessa stundina þó vissulega séu blikur á lofti og þá sérstaklega í byggingargeiranum.

Vissulega er aldrei gott þegar fólk hefur ekki atvinnu en það sem bjargar okkur skagamönnum er sú mikla uppbygging sem orðið hefur á Grundartangasvæðinu á undanförnum árum.  Formaður félagsins vill ekki hugsa þá hugsun til enda ef atvinnumöguleikarnir á stóriðjusvæðinu á Grundartanga væru ekki til staðar.  Sérstaklega í ljósi þess mikla niðurskurðar sem orðið hefur í vinnslu og veiðum hér á Akranesi á undanförnum árum.

02
Jun

Sumarhús félagsins í Ölfusborgum skemmt vegna jarðskjálftans

Ekki var hægt að leigja út sumarhús félagsins í Ölfusborgum um síðustu helgi eins og til stóð vegna afleiðinga jarðskjálftans sem reið yfir á fimmtudaginn sl. Það liggur fyrir að töluverðar skemmdir hafa orðið á innbúinu, leirtau er meira og minna brotið sem og aðrar skemmdir. Í sumum bústöðum er ekki komið vatn á ennþá og þessa stundina er ekki víst hvort hægt verður að leigja út bústaðinn um næstu helgi sökum áðurnefndra skemmda.

Nefnd á vegum sumarhúsaeigenda í Ölfusborgum kom saman til fundar í morgun til að ákveða næstu skref en verið er að velta því fyrir sér hvort fenginn verði verktaki til að sjá um að laga þær skemmdir sem orðið hafa á húsum í orlofsbyggðinni.

Félagið á einnig sumarbústað í Hraunborgum í Grímsnesi og hafa forsvarsmenn félagsins kannað þann bústað og liggur fyrir að ekki urðu neinar skemmdir þar þó svo hann sé töluvert nálægt upptökum skjálftans.

01
Jun

Tveir sjómenn heiðraðir í morgun

Í hátíðarguðþjónustu í morgun voru tveir sjómenn heiðraðir það voru þeir Friðrik Kristinsson og Reynir Magnússon en þeir félagar hafa gengt sjómennsku nær allt sitt líf.  Verkalýðsfélag Akraness vill óska þeim Kristni og Reyni innilega til hamingju með heiðrunina í dag.  Að lokinni guðþjónustunni var gengið að minnismerki sjómanna að Akratorgi og þar var lagður krans til minningar um látna sjómenn.

Það er sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness sem sér um heiðrun á sjómönnum ár hvert og athöfnina við minningu um látna sjómenn í góðri samvinnu með okkar sóknarpresti séra Eðvarði Ingólfssyni.

Verkalýðsfélag Akraness sendir öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra bestu kveðjur í tilefni sjómannadagsins. 

30
May

Allir miðar búnir á Bubba

Nú liggur fyrir að húsfyllir verður á tónleikunum með Bubba Mothens sem Verkalýðsfélag Akraness býður félagsmönnum sínum á og haldnir verða í Bíóhöllinni í kvöld.

Yfir 300 miðar eru nú farnir og ljóst að það stefnir í mikla stemningu á komandi tónleikum. Það gleður stjórn félagsins að sjá að þetta framtak virðist falla í afar góðan jarðveg hjá félagsmönnum enda er það stefna stjórnar félagsins að þjónusta sína félagsmenn eins vel og kostur er og eru þessir tónleikar einn liður í þeirri vinnu.

Nánar verður greint frá tónleikunum eftir helgi og myndir þaðan birtar hér á síðunni.

30
May

400 leikskólabörn fengu harðfiskpoka frá Verkalýðsfélagi Akraness

Forsvarsmenn Verkalýðsfélags Akraness fóru í morgun í alla leikskóla bæjarins og gáfu börnunum harðfiskpoka í tilefni af sjómannadeginum sem verður haldinn hátíðlegur vítt og breitt um landið á sunnudaginn kemur.

Það voru um 400 leikskólabörn sem fengu harðfiskpoka frá félaginu og það var afar ánægjulegt að sjá hversu þakklát öll börnin voru með þetta framtak Verkalýðsfélags Akraness.

Börnin höfðu á orði hversu rosalega góður harðfiskurinn væri og ekki spillir fyrir að harðfiskur er nokkuð hollur.  Harðfiskurinn kemur frá Kjarnafiski hér á Akranesi en það er Börkur Jónsson harðfiskverkandi sem á og rekur Kjarnafisk. 

Stjórn félagsins hefur tekið ákvörðun um þetta verði gert að árlegum viðburði að fara með harðfiskpoka til leikskólabarna í tilefni sjómannadagsins.  

29
May

Kynningarfundur með starfsmönnum Sjúkrahúss Akraness

Klukkan 15:00 í dag mun formaður félagsins halda kynningarfund með starfsmönnum Sjúkrahúss Akraness vegna nýgerðs kjarasamnings við ríkið. Formaður mun á þessum kynningarfundi fara ítarlega yfir samninginn og jafnframt gera grein fyrir fyrirkomulagi á kosningu um nýgerðan samning.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá telur formaður að þessi samningur við ríkið sé nokkuð ásættanlegur. Helstu atriði samningsins eru þau að launataxtar hækka um kr. 20.300. Því til viðbótar kom ný launatafla sem gefur félagsmönnum sem vinna eftir samningnum hækkum sem nemur rétt tæpu 1%. Sem dæmi þá grunnraðast flestir starfsmenn Sjúkrahúss Akraness inn í 6. launaflokk og starfsmaður sem er orðinn 35 ára gamall fær hækkun sem nemur 21.524 kr á grunnlaun.

Einnig mun dögum vegna veikinda barna fjölga úr 10 í 12 og framlag í sjúkrasjóð félagsins mun hækka upp í 0,75%.

Rétt er að geta þess að gildistími þessa samnings er mun styttri en kjarasamnings hins almenna vinnumarkaðar sem undirritaður var hinn 17. febrúar. Gildir þessi samningur einungis til 31. mars 2009 eða í 11 mánuði. Var það gert vegna þess ástands sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi, en eins og flestir vita þá er verðbólgan komin upp í rúm 12% sem þýðir að óvarlegt hefði verið að gera samning til langs tíma.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image