• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
Jul

Ályktun um efnahagsmál

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness samþykkti eftirfarandi ályktun á stjórnarfundi sem haldinn var í kvöld:

Ályktun um efnahagsmál

Akranesi 2. júlí 2008

 Stjórn Verkalýðsfélags Akraness lýsir yfir gríðarlegum áhyggjum af stöðu efnahagsmála vegna mikillar verðbólgu og himinhárra vaxta, sem eru að sliga mörg íslensk heimili.

Í síðustu kjarasamningum var gengið frá hófstilltum og skynsamlegum samningum sem höfðu það markmið að auka kaupmátt íslensks verkafólks og stuðla  um leið að stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Í ljósi þessa er grátlegt fyrir íslenskt verkafólk að sjá að sá ávinningur sem náðist í síðustu kjarasamningum sé gufaður upp vegna aðgerða- og úrræðaleysis ríkisstjórnar Íslands í efnahagsmálum.

Það er morgunljóst að það er fátt sem getur komið í veg fyrir að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði verði ekki sagt upp í febrúar þegar  endurskoðun kjarasamninga fer fram. Það er einnig ljóst að íslenskt verkafólk mun ekki sætta sig við að gera hófstillta kjarasamninga slag í slag til að tryggja hér stöðugleika þegar lítið sem ekkert kemur frá stjórnvöldum í þeim efnum.

Það er mat stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að mörgum íslenskum heimilum muni blæða út ef ríkisstjórnin grípur ekki til tafarlausra aðgerða til að ná vöxtum og verðbólgu niður.

Stjórn VLFA skorar á alla verslunareigendur og stórkaupmenn að takmarka hækkanir á vörum sínum eins og kostur er og leggja þannig sitt af mörkum við að vinna bug á þeirri gríðarlegu verðbólgu sem nú ríkir í íslensku samfélagi. 

Stjórn VLFA skorar á ríkisstjórn Íslands að lækka álögur á eldsneyti vegna mikillar hækkunar á heimsmarkaðsverði. Slíkt mun klárlega hjálpa íslenskum neytendum og slá á verðbólguna. Einnig skorar stjórn félagsins á stjórnvöld að grípa þegar til aðgerða til að koma í veg fyrir vaxandi atvinnuleysi í því sambandi telur stjórnin mikilvægt að ríkið auki mannaflsfrekar framkvæmdir svo sem hin ýmsu viðhaldsverkefni.

30
Jun

Fundað með forstjóra Norðuráls

Formaður Verkalýðsfélags Akraness og formaður Stéttarfélags Vesturlands áttu fund með forstjóra og starfsmannastjóra Norðuráls á Grundartanga í morgun. 

Á fundinum fór forstjórinn David Kjos ítarlega yfir stefnumið, framtíðarsýn og gildismat fyrirtækisins.  Það er alveg óhægt að segja að þessi fundur hafði verið afar fróðlegur og gagnlegur.  Norðurál stefnir að því að hjá Norðuráli verði framúrskarandi starfsemi, stöðugar umbætur og verður lögð rík áhersla á teymisvinnu til að ná þessum markmiðum.

Það kom einnig fram hjá forstjóranum að fyrirtækið leggur mikla áherslu á öryggismál enda má ávallt gera betur í þeim efnum.

27
Jun

Eldsneyti hefur hækkað um 30% á árinu

Verðbólga mældist 12,7% í júní og hefur verðlag hækkað um 0,9% frá því í maímánuði. Verðbólga hefur ekki mælst hærri hér á landi í 18 ár og er nú 10,2% yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans sem er 2,5%.

Verð á bensíni og olíum hækkaði um 7,2% frá því í maí og hefur líkt og í fyrra mánuði mest áhrif til hækkunar á vísitölunni nú.

 

Verð á bensíni og olíu hefur hækkað um 30% á þessu ári.

Húsnæðisliður vísitölunnar hækkaði um 0,9% á milli mánaða sem skýrist af hækkun á húsaleigu um rúm 4% og hækkun á viðhaldi húsnæðis um 2% auk þess sem kostnaður vegna eigin húsnæðis hækkaði um 0,4% frá því í maí.

Hækkun á eigin húsnæði skýrist af því að óveruleg breyting mældist á markaðsverði húsnæðis á milli mánaða (-0,04%) en áhrif af hækkun vaxta voru 0,1%.

Hækkun á viðhaldi og viðgerðum á húsnæði um 2% nú bætist við tæplega 6% hækkun á þessum lið í síðasta mánuði og nemur hækkunin frá áramótum 14%.

Af breytingum á öðrum liðum vístölunn má nefna að verð á símaþjónustu hækkaði um 1,3% á milli mánaða og gistiþjónusta hækkaði um 2,4% og er það þriðja mánuðinn í röð sem sá liður vísitölunnar hækkar en frá áramótum nemur hækkunin rúmum 18%. Þá hækkaði verð á mat- og drykkjarvörum um 0,6% frá því í maí.

Heimild: ASÍ

26
Jun

Ekkert lát á innstreymi erlends verkafólks til landsins

Störfum í fiskvinnslu hefur fækkað mikið á undanförnum mánuðum sökum samdráttarEkkert lát er á gríðarlegu innstreymi erlends verkafólks inní landið og það á sama tíma og verulegar blikur eru á lofti á íslenskum vinnumarkaði sökum samdráttar í fiskvinnslu og byggingariðnaði eins og dæmi undanfarna vikna hafa sýnt. 

Fyrstu fimm mánuði þessa árs hefur Vinnumálastofnun nýskráð 2074 erlenda starfsmenn en á sama tíma í fyrra voru nýskráningar 2114 á þessu sést að lítið sem ekkert hefur dregið úr innstreymi á erlendu verkfólki til landsins.

Í janúar nýskráði Vinnumálastofnun 354 í febrúar 573 í mars 412 í apríl  353 í maí 382 og allt útlit er fyrir að nýskráningar í júní fari vel yfir 400 samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun.

Það verður að segjast alveg eins og er að formaður félagsins undrast þennan mikla innflutning atvinnurekanda á erlendu verkafólki til landsins sérstaklega í ljósi þess samdráttar og uppsagna sem hafa verið að birtast okkur landsmönnum á undanförnum misserum.   

23
Jun

Sjómaður fær greiddar tæpar þrjár milljónir

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá leitaði sjómaður sem var á loðnubátnum Víkingi Ak 100 til Verkalýðsfélags Akraness vegna slyss sem hann varð fyrir um borð í skipinu á loðnuvertíðinni 2007.  Hann slasaðist í sínum fyrsta túr og var sjómaðurinn frá vinnu í rúma þrjá mánuði samkvæmt fyrirliggjandi læknisvottorði.  Skipsjórinn tjáði sjómanninum á sínum tíma að hann ætti ekki rétt á launum vegna slyssins þar sem einungis hafi verið um tímabundna ráðningu að ræða.

Verkalýðsfélag Akraness fór í málið fyrir umræddan sjómann því ljóst var að maðurinn átti fullan rétt til launa vegna þess slyss sem hann varð fyrir samkvæmt 36 gr. sjómannlaga.  Formaður félagsins fór yfir málið með launafulltrúa og starfsmannastjóra HB Granda og eftir að þau voru búin að skoða málið ítarlega voru þau sammála að hér hefðu orðið mistök og sjómaðurinn ætti fullan rétt til launa í sínum fjarvistum vegna slyssins.

Á síðasta föstudag var gengið frá greiðslum til sjómannsins og nam heildarhlutur sjómannsins rétt tæpum þremur milljónum vegna þess slyss sem hann varð fyrir.

Þetta sýnir hversu mikilvægt það er fyrir félagsmenn að leita til sinna stéttarfélaga ef menn eru ekki vissir hver sín réttindi eru og hvetur formaður félagsins sína félagsmenn til að leita upplýsinga um sín réttindi ef þeir eru ekki vissir um sín réttindi. 

20
Jun

Kjarasamningurinn við ríkið samþykktur

Atkvæðagreiðslu um samkomulag Starfsgreinasambands Íslands f.h. aðildarfélaga sinna, við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, um breytingar á kjarasamningi aðila, sem skrifað var undir 26. maí s.l., lauk nú upp úr hádeginu. Niðurstaðan er sú að samkomulagið var samþykkt með miklum meirihluta greiddra atkvæða.

Alls voru 2.139 einstaklingar á kjörskrá. Atkvæði greiddu 677 eða 31,7%.  Já sögðu 616 eða 91,0%. Nei sögðu 55 eða 8,0%. Auðir og ógildir seðlar voru 6 eða 1,0%.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image