• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Aug

Eldri félagsmenn fara í dagsferð á fimmtudag

Næstkomandi fimmtudag munu um 100 félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness 70 ára og eldri halda í dagsferð sem félagið býður árlega upp á.  Lagt verður af stað kl. 9:00 frá Íþróttamiðstöðinni að Jaðarsbökkum.

Meðal annars verður komið við í Gvendarbrunnum, Hveragerði, Þorlákshöfn, við Urriðafoss og á Nesjavöllum svo eitthvað sé nefnt. Áætluð heimkoma er um kl. 18 til 18:30.

Áð verður á nokkrum stöðum í ferðinni og m.a. boðið uppá léttan hádegisverð á Hótel Örk í Hveragerði. Boðið verður upp á aðrar veitingar um kaffileytið. Leiðsögumaður í ferðinni verður Björn Finsen.

Boðsbréf hefur verið sent til félagsmanna og fer skráning fram á skrifstofu félagsins að Sunnubraut 13 eða í síma 430-9900 og stendur hún til kl. 12:00 á hádegi miðvikudaginn 27. ágúst n.k.

Myndir og fréttir úr ferðinni verða settar inn hér á heimasíðunni við fyrsta tækifæri.

22
Aug

Vilji fyrir eins árs kjarasamningi

Formaður félagsins fór í hefðbundna vinnustaðaheimsókn til starfsmanna Elkem Íslands á Grundartanga í morgun.  Einnig kíkti formaður á starfsmenn Klafa en þeir sjá um alla út- og uppskipun á Grundartangasvæðinu. 

Að sjálfsögðu voru komandi kjarasamningar aðallega ræddir en kjarasamningar hjá þessum fyrirtækjum verða lausir 1. desember nk. 

Fram kom í máli þeirra starfsmanna sem formaður ræddi við að þeir vilja gera skammtímasamning í eitt ár enda telja þeir að óvarlegt sé að gera langtímasamning í því ástandi sem ríkir í íslensku efnahagslífi.  Formaður er algerlega sammála þeim starfsmönnum sem hann ræddi við, því að gera lengri samning en til eins árs er algert glapræði þegar verðbólgan er tæp 14% og fá teikn á lofti um að hún sé að niðurleið.

Einnig kom fram hjá starfsmönnum að krafa um umtalsverða hækkun grunnlauna verði mjög hávær í komandi samningum enda hafa starfsmenn stóriðja setið töluvert eftir í því launaskriði sem verið hefur á hinum almenna vinnumarkaði á liðnum árum. 

20
Aug

Álit um atvinnuhorfur

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags AkranessVilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags AkranessFormaður félagsins var með eftirfarandi álit um atvinnumál í 24 stundum í dag:   

Óhætt er að segja að nú séu blikur á lofti í íslensku atvinnulífi. Eftir mjög gott atvinnuástand síðastliðin ár má búast við að atvinnuleysi vaxi hratt með haustinu eins og fjöldauppsagnir liðinna mánaða gefa sterklega til kynna. Í kjölfar samdráttar í aflaheimildum upp á 30% á síðasta ári misstu um 500 einstaklingar atvinnu sína og kom sá samdráttur hvað harðast niður á landsbyggðinni.

Hins vegar mun sá samdráttur sem nú er framundan að mínu mati bitna hvað harðast á byggingariðnaðinum á höfuðborgarsvæðinu vegna þess ástands sem nú ríkir á íbúðalánamarkaðnum vegna offramboðs. Einnig hafa þau fyrirtæki sem byggt hafa starfsemi sína í kringum íbúðarhúsnæðismarkaðinn átt mjög erfitt með að fá lánsfjármagn þar sem bankarnir hafa nánast lokað fyrir allar lánveitingar til byggingar íbúðarhúsnæðis.

Slíkt mun að sjálfsögðu leiða til mikilla uppsagna þegar líður á haustið og veturinn. Við Skagamenn höfum mátt þola umtalsverða fækkun í störfum tengdum fiskvinnslu á liðnum mánuðum og misserum.

En við búum hins vegar svo vel að hafa hér stóriðju á Grundartangasvæðinu sem hefur styrkt stoðir atvinnulífsins hér á Akranesi svo um munar. Með stækkun Norðuráls upp í 260.000 tonn hefur starfsmönnum þar fjölgað gríðarlega að undanförnu og starfa nú tæplega 500 manns hjá Norðuráli. Einnig hefur Elkem Íslands verið að færa út kvíarnar með aukinni framleiðslu og hefur störfum þar fjölgað samhliða því. Á Grundartanga starfa á milli 700-800 manns fyrir utan afleidd störf. 

Ég vil ekki hugsa þá hugsun til enda ef við Akurnesingar hefðum ekki þessi atvinnutækifæri sem tengjast stóriðjunni á Grundartanga.  Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að hraða sem fyrst þeim stóriðjuframkvæmdum sem nú eru framundan, bæði í Helguvík en ekki síður framkvæmdunum á Bakka við Húsavík.

Það er í raun og veru óskiljanlegt að íslenskir stjórnmálamenn séu að leggja stein í götu þessara framkvæmda í ljósi þeirra jákvæðu áhrifa sem stóriðjan hefur haft á svæðið hér á Akranesi. Það er gríðarlega mikilvægt að allir leggist á eitt við að vinna bug á því efnahagsástandi sem nú ríkir í íslensku samfélagi og þar getur enginn skotið sér undan ábyrgð.

19
Aug

Undirbúningur að kröfugerð hjá stóriðjunum að hefjast

Þann 1. desember nk. munu kjarasamningar hjá Klafa, Elkem Íslandi á Grundartanga og Sementsverksmiðjunni renna út. Undirbúningur að kröfugerð mun hefjast fljótlega en ljóst er að starfsmenn þessara fyrirtækja bera miklar væntingar til komandi kjarasamnings.

Það er morgunljóst að ekki verður hægt að semja á þeim nótum sem samið var um á hinum almenna vinnumarkaði enda eru allt aðrar forsendur nú heldur en þegar gengið var frá nýjum kjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði 17. febrúar sl. Í því samhengi nægir að benda á að nú er 14% verðbólga sem er umtalsvert hærri verðbólga en var 17. febrúar.

Það er mat formanns að starfsmenn þessara fyrirtækja muni leggja mjög mikla áherslu á umtalsverða hækkun á launatöxtum, enda hafa starfsmenn þessara fyrirtækja ekki notið þess mikla launaskriðs sem verið hefur á undanförnum árum sökum þess að hér er um fastlaunasamninga um að ræða.

Kjarasamningur Norðuráls rennur út rúmu ári seinna eða nánar til getið 31. desember 2009.  Hins vegar munu laun starfsmanna Norðuráls taka sömu breytingum og um semst hjá sambærilegum fyrirtækjum í sambærilegum iðnaði.  Það er hins vegar hvell skýrt að þegar kjarasamningur Norðuráls rennur út 2009 þá verður krafan skýr, það er að þeim launamun sem ríkt hefur á milli Alcan og Norðuráls verði endanlega eytt.

14
Aug

Ólög sem breyta þarf tafarlaust

SéreignarsparnaðurSéreignarsparnaðurTil félagsins leitaði nýverið félagsmaður sem varð fyrir 100% örorku vegna vinnuslyss. Þessi viðkomandi félagsmaður var búinn að leggja í séreignarsjóð vel á fjórðu milljón króna. Eftir að hann varð öryrki þá hugðist hann taka út allan sinn séreignarsparnað til þess að greiða þær skuldir sem hann hafði stofnað til og ekki getað staðið skil á vegna mikils tekjumissis sökum örorku sinnar.

Þegar hann fer og kannar hvort hann geti ekki tekið sinn séreignarsparnað út þá kemur í ljós að hann verði að fá séreignina greidda út með jöfnun greiðslum á 7 ára tímabili eins og lög nr. 129/1997 kveða á um.

Bankinn sem viðkomandi félagsmaður lagði sína séreign inn hjá vísaði í áðurgreind lög en bauðst hins vegar til að útvega lán sem félagsmaðurinn er alls ekki sáttur við að taka, einfaldlega vegna þeirra okurvaxta sem nú eru í gangi og þess mikla kostnaðar sem hann yrði fyrir tæki hann slíkt lán.

Það er mat formanns Verkslýðsfélags Akraness að hér sé um hrein ólög að ræða því þeir einstaklingar sem verða fyrir 100% örorku og hafa þar af leiðandi tapað allri sinni starfsgetu fyrir aldur fram eiga að sjálfsögðu að eiga skýlausan rétt til að taka sinn séreignarlífeyrir út, kjósi þeir svo. Sérstaklega í ljósi þess að oft verða þessir einstaklingar fyrir umtalsverðu fjárhagslegu raski. En lögin eru hins vegar hvellskýr því þar kemur fram orðrétt í 11. gr laganna.

"Verði rétthafi öryrki og orkutapið sem hann verður fyrir er 100% á hann rétt á að fá lífeyrissparnað og vexti greidda út með jöfnum árlegum greiðslum á sjö árum."

Í lögunum er einnig kveðið á um eftirfarandi: "Í reglugerð skal kveðið á um styttri útborgunartíma ef um lágar upphæðir er að ræða."

Þetta þýðir að Þeir einstaklingar sem lagt hafa fyrir í séreignarsjóð og eiga eign inni undir 800.000 kr. hafa heimild til að taka alla upphæðina út í einu lagi, sé hún hins vegar yfir 800.000 kr. þá þarf að dreifa henni á 7 ára tímabili eins og áður hefur komið fram. Þetta kallar í raun og veru á það að þeir sem eru að leggja í séreignarsparnað ættu að tryggja það að eiga aldrei meira en 800.000 kr. inn á hverjum séreignarreikningi því verði þeir fyrir 100% örorku þá er tryggt að þeir geti tekið alla upphæðina út í einu sé hún undir 800.000 kr. Sé hún hærri þá fá þeir hana greidda með jöfnum afborgunum á 7 ára tímabili.

Formaður veltir því einnig fyrir sér þegar um er að ræða einstakling sem veikist mjög alvarlega, og lifir jafnvel ekki nema í 2-3 ár eftir að hann veikist. Ef hann hefur lagt fyrir í séreign, er þá ekki eðlilegt að viðkomandi einstaklingur fái að taka sína séreign alla út í einu og njóta þeirra ára sem hann á eftir, í staðinn fyrir að fá einungis hluta af sinni séreign greiddan og restin gengur til lögerfingja?

Það er alveg klárt mál að þessum lögum þarf að breyta í þá veru að verði rétthafi fyrir 100% örorku þá hafi hann skýlausan valkost um að taka sína séreign út í einu lagi. Myndi það klárlega koma þeim einstaklingum sem verða fyrir slíkum áföllum til góða. Formaður hefur nú þegar rætt við Guðbjart Hannesson formann félagsmálanefndar Alþingis vegna þessara laga því eins og áður sagði telur félagið brýnt að þessari grein laganna verði breytt.

13
Aug

Fundað um vinnuslys hjá Norðuráli

Eftirfarandi frétt var unnin sameiginlega af formanni Verkalýðsfélags Akraness og æðstu stjórnendum Norðuráls:

Formaður Verkalýðsfélags Akraness átti ágætan og gagnlegan fund með stjórnendum Norðuráls þann 12. Ágúst.

Formaður VLFA fór yfir upplýsingar sem að mati félagsins gefa sterklega til kynna að verklag Norðuráls í slysatilfellum þarfnist endurskoðunar.

Norðurál upplýsti að verklagsreglur hafa verið eftirfarandi :

 

  • Ef starfsmaður er með vottorð frá lækni sem lýsir óvinnufærni með öllu er ekki leitast eftir því að starfsmaður hugleiði léttari störf.
  • Ef læknisvottorð segir að starfsmaður geti sinnt léttari störfum er reynt að bjóða viðkomandi starfsmanni tímabundna aðstöðu til þjálfunar eða léttari starfa.
  • Tilfelli geta komið upp þar sem fyrirtækið áskilur sér rétt til að fá álit trúnaðarlæknis, eins og algengt er á Íslandi og áskilið í kjarasamningi.

 

Fram kom á fundinum að æðstu stjórnendum Norðuráls er  ekki kunnugt um tilvik þar sem þessar starfsreglur hafi verið brotnar.  Upplýsingar þær sem Verkalýðsfélags Akraness lagði fram á fundinum  gefa til kynna atvik þar sem ekki hafi verið farið eftir þeim verklagsreglum sem í gildi eru.  Munu aðilar skoða þessi atvik nánar og  fara sameiginlega yfir hvert þeirra.

Frá upphafi hefur verið leitast eftir góðu sambandi milli aðila og eru bæði Norðurál og VLFA sammála um að gengið hafi vel að leysa þau mál sem upp hafa komið í gegnum tíðina.   Báðir aðilar telja mikilvægt að halda áfram að byggja upp árangursríkt samstarf VLFA og Norðuráls enda tryggi það best hagsmuni starfsmanna og félagsins.

Niðurlag fundarins voru eftirfarandi atriði sem aðilar ætla að vinna eins fljótt og auðið er:

 

  • VLFA mun leggja fram enn frekar upplýsingar um þau tilvik sem að mati félagsins þarfnast frekari skoðunar.
  • Norðurál mun fara yfir hvert tilvik og afla frekari upplýsinga.
  • Norðurál mun fara yfir  verklagsreglur með trúnaðarmönnum og verkalýðsfélögum með það að markmiði að aðilar komi sér saman um verklag og framkvæmd.
  • Þegar hefur verið ákveðið að halda ársfjórðungslega fundi aðila og eru aðilar sammála um mikilvægi þess að halda þeim áfram.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image