• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Nov

Palestínsku flóttakonurnar fá fræðslu um íslenskan vinnumarkað

Að ósk Rauða Kross Íslands hélt formaður félagsins í dag kynningarfund með palestínsku flóttakonunum. Á fundinum kynnti hann fyrir þeim starfsemi félagsins og réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði. Einnig hvernig vinnumarkaðurinn er uppbyggður hér á landi.

Amal Tamimi, félagsfræðingur og fræðslufulltrúi Alþjóðahúss sá um að túlka það sem formaður hafði fram að færa og voru konurnar afar forvitnar um íslenskan vinnumarkað og þau réttindi og skyldur sem hér ríkja enda komu fjölmargar spurningar frá þeim. Þær hafa fullan hug á því að læra íslenskuna eins fljótt og kostur er og eru þær t.a.m. á íslenskunámskeiðum þessa dagana. Þær hafa einnig hug á því að komast eins fljótt út á íslenskan vinnumarkað og kostur er.

22
Nov

Matvara hefur hækkað gríðarlega frá því í vor

Matvara sem verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á sl. þriðjudag hefur hækkað um tugi prósentna síðastliðið hálft ár. Algengt er að vörur hafi hækkað um 30%-50% frá því í verðkönnun verðlagseftirlitsins í vor en dæmi eru um yfir 100% verðhækkun. Verð hefur almennt hækkað mest í lágvöruverðsverslunum á milli kannana.

Verð á brauði, kexi, pasta, og hrísgrjónum sem skoðað var, hækkaði í flestum tilvikum yfir 50% í lágvöruverðsverslunum en nokkuð minna í öðrum verslunum. Sem dæmi má nefna að Fittý samlokubrauð hækkaði um 66% í Kaskó, 63% í Nettó, 57% í Krónunni og 47% í Bónus á milli kannana í lok mars og nú í nóvember. Í öðrum verslunum hækkaði samskonar brauð um 12-17%. Barilla Tortellini hækkað á sama tímabili um 86% í Bónus, 70 % í Nettó, 58% í Fjarðarkaupum og 45% í Kaskó en um 32% í Nóatúni og 19% í Hagkaupum og Samkaupum-Úrval.

Verð á mjólk hefur hækkað um 25-30% frá því í vor.

 Í lágvöruverðsverðsverslunum hefur mjólkurlítrinn hækkað um 30%, kostaði að meðaltali kr. 74 í vor en nú kr. 96. Í öðrum verslunum hefur mjólkurlítrinn að meðaltali hækkað um 26%, úr kr. 82 í kr. 103. Verð á AB-mjólk hefur hækkað um 30%-50% á milli verðkannanna. Mest í Bónus og Krónunni um 52%, en um 30%-40% í öðrum verslunum.

Grænmeti og ávextir sem skoðaðir voru hafa einnig hækkað mikið í verði. Kílóverð á banönum hefur hækkað mest í Bónus um 83% úr kr. 98 í kr. 179 frá því í vor. Í Kaskó nemur hækkunin 49%, í Nettó 47%, í Krónunni 47% og í Hagkaupum, Nóatúni og Samkaupum-Úrval milli 24% og 35%. Minnst hafa bananarnir hækkað í Fjarðarkaupum um 5%.

Af öðrum vörum má nefna púðursykur frá Dansukker hefur hækkað um 106% í Krónunni og 88% í Bónus frá því vor. Um 47% í Nóatúni, 38% í Fjarðarkaupum og 18% í Hagkaupum og er nú dýrari í lágvöruverðsverslununum en í Hagkaupum og á svipuðu verði og í Nóatúni.

Þegar skoðaður er munur á meðalverði í lágvöruverðsverslunum og öðrum stórmörkuðum nú í nóvember og í vor má sjá að í flestum tilvikum er mun minni munur á meðalverði í þessum verslunargerðum nú en í vor. Verð í lágvöruverðsverslunum hefur almennt hækkað meira en í öðrum verslunum sem þýðir samkvæmt þessu að verðmunur á milli lágvöruverðsverslana og annarra stórmarkaða hefur minnka.

Þær verðbreytingar sem hér eru birtar miða við breytingar á verði verslana milli verðkannana verðlagseftirlits ASÍ frá 27. mars og 18. nóvember 2008. Rétt er að árétta að mæld eru þau verð sem eru í gildi á hverjum tíma í verslunni og geta tilboðsverð haft áhrif á verðbreytingar einstakra vara.

Samanburð á verðkönnunum ASÍ í mars og nóvember 2008 má sjá hér.

Verðbreytingar eru skoðaðar í eftirtöldum verslunum; Bónus, Krónunni, Nettó, Kaskó, Hagkaupum, Nóatúni, Samkaupum-Úrval Hafnarfirði og Fjarðarkaupum.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu.

 

Heimild ASÍ

21
Nov

Munu erlendir aðilar eignast auðlindir hafsins?

Í hádegisfréttum RUV kom fram að Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, telji rétt að skoða af fullri alvöru að útlendingar eignist hlut í bönkunum. 

Almenningur í þessu landi þarf að fá að vita hversu mikið gömlu bankarnir lánuðu útgerðamönnum til kvótakaupa með veði í aflaheimildunum.  Í dag er talað um að íslenskur sjávarútvegur skuldi allt að 500 milljarða króna.  Hversu mikið af þeirri skuld er með veðsetningu í aflaheimildum sem eiga að kallast sameign þjóðarinnar? 

Hvað gerist ef nýju ríkisbankarnir verða seldir að hluta til eða að öllu leiti til erlendra aðila.  Munu erlendir aðilar því hugsanlega eignast auðlindir hafsins í gegnum hlut sinn í bönkunum?  Er þessi 500 milljarða króna skuld sjávarútvegsins ef til vill næsti reikningur sem þessi þjóð fær í hausinn?

Formaður félagsins fjallaði um sjávarútvegsmál í ræðu sinni á fundi sem Alþýðusamband Íslands stóð fyrir undir yfirskriftinni Áfram Ísland - hagur heimilanna.  Formaður sagði m.a. þetta um sjávarútvegsmál þjóðarinnar:

"Það á einnig að skoða það núna af fullri alvöru hvort ekki eigi að þjóðnýta aflaheimildir útgerðamanna og endurskipuleggja íslenskan sjávarútveg algjörlega upp á nýtt.  Krafa almennings í þessu landi um allanga hríð hefur verið sú að afnema eigi gjafakvótakerfið.

Það fiskveiðistjórnunarkerfi sem hér hefur verið lýði frá 1984 hefur farið eins og hvirfilbylur um hinar dreifðu byggðir þessa lands og skilið fiskvinnslufólk og sjómenn eftir í átthagafjötrum.  Það þekkjum við Skagamenn mæta vel enda  virðast útgerðamenn ekki vilja bera neina samfélagslega ábyrgð eins og dæmin svo sannarlega sýna um allt land. Ráðamenn þessarar þjóðar og forysta LÍÚ hafa sagt að þetta sé besta fiskveiðistjórnunarkerfi sem völ er á.  Rétt er að minna á að þegar kvótakerfið var sett á árið 1984 þá mátti veiða 267 þúsund tonn af þorski. Í dag 24 árum síðar má veiða 130 þúsund tonn og þessu til viðbótar er áætlað að íslenskur sjávarútvegur skuldi allt að 500 milljarða kóna. Svo segja menn að þetta sé besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi.   

Ég spyr hvort þetta sé næsti reikningur sem alþýða þessa lands fær í hausinn".

20
Nov

Formaður félagsins ekki sammála forseta ASÍ varðandi verðtrygginguna

Annar fundurinn í fundarherferð ASÍ um landið fór fram í Grundaskóla á Akranesi í gærkveldi.  Yfirskrift herferðarinnar er Áfram Ísland - fyrir hag heimilanna.

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ var þar með framsögu og formaður Verkalýðsfélags Akraness flutti ræðu á fundinum.


Því miður var aðsóknin ekki nægilega góð en samt sem áður sköpuðust ágætar umræður m.a. um verðtryggingu lána, en áhyggjur fundarmanna af hækkandi lánum var augljós og fundarmenn vildu vita hvert Alþýðusamband Íslands stefndi í þeim málum.

Það er ljóst að formaður Verkalýðsfélags Akraness er ekki sammála forseta ASÍ varðandi verðtrygginguna enda kom það fram í ræðu sem formaður félagsins hélt á fundinum.  Þetta sagði formaður VLFA m.a. í sinni ræðu:

"Það olli mér hins vegar gríðarlegum vonbrigðum að ekki skyldi hafa verið tekin ákvörðun um að frysta verðtrygginguna á meðan mesti verðbólgu skellurinn dynur á skuldsettum heimilum þessa lands.  Það liggur fyrir að hinir ýmsu aðilar hafa spáð því að verðbólgan fari í 20 til 30% á næstu mánuðum, þar á meðal hagdeild ASÍ. 

Ég skil ekki af hverju ekki er hægt að frysta verðtrygginguna  meðan mesta verðbólguskotið gengur yfir því flestum aðilum ber saman um að verðbólgan muni ganga hratt niður á næsta ári.  Ég geri mér grein fyrir því að með því að frysta ekki verðtrygginguna er verið að verja Íbúðalánasjóð, bankastofnanir, lífeyrissjóðina og sparifjáreigendur.  Ég spyr af hverju eru lánveitendur bæði með belti og axlabönd á meðan skuldsett heimili sem eru með verðtryggð lán taka alla ábyrgð á sínar herðar? Vart er verið gæta hags heimilanna með því að frysta ekki verðtrygginguna. 

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að þeir tímar sem við horfum nú uppá eru afar afbrigðilegir og á þeirri forsendu eigum við að frysta verðtrygginguna á meðan mesta verðbólguskotið gengur yfir. 

Ég veit að forseti ASÍ er mér ekki sammála og verður bara svo að vera, en þetta er mín skoðun og ljóst að ég er ekki einn um þá skoðun".

Hægt er að lesa ræðuna sem formaður Verkalýðsfélags Akraness flutti í gær í heild sinni með því að smella hér.

19
Nov

Verkalýðsfélag Akraness tekur þátt í tilraunaverkefni Endurhæfingarsjóðs

Endurhæfingarsjóður er nýr sjóður sem stofnaður var með kjarasamningum Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins í febrúar sl. Markmið sjóðsins er að draga markvisst úr líkum á því að launafólk lendi í varanlegri örorku með aukinni virkni þeirra og eflingu endurhæfingar.

Undirbúningur að faglegri vinnu og uppbyggingu sjóðsins hófst í ágúst. Þessa dagana er Endurhæfingarsjóður að fara af stað með tilraunaverkefni í samvinnu við sjúkrasjóði þriggja stéttarfélaga og er Verkalýðsfélag Akraness eitt þeirra. Markmið þessarar tilraunar er að undirbúa og þróa starf ráðgjafa hjá sjúkrasjóðum stéttarfélaga um allt land og meta þörf fyrir fræðslu og aðstoð.

Stefnt er að því að fyrstu ráðgjafar sjúkrasjóðanna taki formlega til starfa á landsvísu í byrjun árs 2009. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Endurhæfingarsjóðs.

14
Nov

Áfram Ísland - fyrir hag heimilanna

Forysta ASÍ ætlar að efna til fundarherferðar um landið undir yfirskriftinni Áfram Ísland - fyrir hag heimilanna.  Hvert skal stefna? Haldnir verða sjö fundir vítt og breitt um landið í samstarfi við aðildarfélögin. Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ mun ræða um stöðuna og framtíðarsýn Alþýðusambandsins.

Formenn landssambanda og stærstu félaga ASÍ munu einnig sitja fyrir svörum. Auk ræðuhalda verður boðið upp á tónlistaratriði. Áhersla verður lögð á fyrirspurnir úr sal þar sem formenn landssambanda og forsetinn munu sitja fyrir svörum.

Fundurinn sem haldinn verður á Akranesi verður í Grundaskóla miðvikudaginn 19. nóvember og hefst fundurinn kl 20:00.  Formaður Verkalýðsfélags Akraness mun á fundinum flytja ræðu, en gert er ráð fyrir því að forystumenn hvers aðildarfélags þar sem fundurinn er haldinn verði með ræðu.  Fundaherferðinni lýkur með  útifundi á Ingólfstorgi í Reykjavík 27. nóvember. 

Dagskrá fundaherferðar ASÍ

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image