• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
03
Dec

Nýr kjarasamningur vegna Elkem Ísland gefur 22% á tveggja ára samningstímabili

Nú í morgun gekk Verkalýðsfélag Akraness frá kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins vegna stóriðjunnar Elkem Ísland á Grundartanga. Fyrri kjarasamningur rann út 1. desember sl. og mun nýi kjarasamningurinn gilda frá þeim tíma til 31. desember 2010.

Samningurinn á að geta gefið byrjanda sem starfar sem ofngæslumaður tæpa 45.000 króna hækkun á mánuði við undirskrift en sú hækkun nemur um 17,3%. Starfsmaður sem starfað hefur sem ofngæslumaður í 10 ár mun fá um 56.500 króna hækkun á mánuði við undirskrift eða sem nemur 18,7%. Í þessum nýja samningi er tekið upp nýtt bónuskerfi sem mun geta gefið allt að 10% en nýja bónuskerfið verður fest að lágmarki í 7% fyrstu 4 mánuðina.

Þann 1. janúar 2010 kemur næsta hækkun og þá hefur byrjandi hækkað um samtals 53.000 frá undirritun samningsins sem gerir 20,4% hækkun. Starfsmaður með 10 ára starfsaldur verður þá með 65.000 krónur hærri laun á mánuði en hann er með fyrir undirritun samningins. Nemur sú hækkun tæplega 22%.

Trúnaðartengiliður starfsmanna voru með hjá ríkissáttasemjara þegar samningurinn var undirritaður og voru þeir almennt ánægðir með þann árangur sem náðist með þessum samningi þótt vissulega vilji menn alltaf ná öllu sínu fram.

Samningurinn verður kynntur fyrir starfsmönnum á föstudaginn kemur og verður kosið um samninginn að aflokinni kynningu.

02
Dec

Fundað með Launanefnd sveitarfélaga

Fulltrúar Verkalýðsfélags Akraness funduðu í morgun með Launanefnd sveitarfélaga í húsakynnum Ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings starfsmanna Akraneskaupstaðar. Samningurinn rann út 1. desember og var þetta þriðji fundurinn sem formaður hefur átt með Launanefnd sveitarfélaga.

Á morgun munu samningsaðilar funda aftur en fundurinn í morgun var nokkuð gagnlegur og árangursríkur. Það voru nokkur atriði sem formaður gerði athugasemdir við sem eru nú til skoðunar hjá forsvarsmönnum Launanefndar sveitarfélaga og mun væntanlega fá svar við þeim spurningum á morgun.

01
Dec

Kjaradeilu starfsmanna Elkem Ísland og Klafa vísað til ríkissáttasemjara

Á miðvikudaginn í síðustu viku var kjaradeilu Verkalýðsfélags Akraness við Elkem Ísland vísað til ríkissáttasemjara.  Viðræður við Samtök atvinnulífsins sem fara með samningsumboðið fyrir Elkem hafa staðið yfir meira og minna allan nóvember mánuð án árangurs.

Á þeirri forsendu var ekkert annað í stöðunni en að vísa deilunni til ríkissáttasemjara. Fyrsti fundurinn hjá sáttasemjara var á föstudaginn sl. og kom lítið sem ekkert út úr þeim fundi.  Sáttasemjari hefur boðað til fundar í dag kl 15 og er vonast til að línurnar skýrist mun betur eftir þann fund.

Kröfur félagsins og starfsmanna eru þær að launataxtar starfsmanna taki sömu krónutöluhækkunum og um var samið á hinum almenna vinnumarkaði 17. febrúar sl.  Því miður hafa Samtök atvinnulífsins alfarið hafnað slíkum samningi og veldur sú afstaða Verkalýðsfélagi Akraness umtalsverðum vonbrigðum.

Verkalýðsfélag Akraness og starfsmenn Elkem Ísland munu standa grjótharðir á þessari sanngjörnu launakröfu einfaldlega vegna þess að útflutningsfyrirtæki eins og t.d. Elkem og Norðurál hafa fulla burði til að semja með sambærilegum hætti og gert var á hinum almenna vinnumarkaði í vor.  Sem dæmi þá má nefna að afurðaverð á kísiljárni hefur hækkað gríðarlega á síðustu tveimur árum og nemur sú hækkun 116% fyrir utan gengisbreytingar.

28
Nov

Formaður í viðtali á Morgunvakt Rásar 1

Í morgun var rætt við formann félagsins á Morgunvakt Rásar 1. Þar var farið yfir það ástand sem nú ríkir á íslenskum vinnumarkaði. Einnig var verðtryggingin til umræðu svo og atvinnuástandið á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness.

Fram kom í máli formanns að hann telur afar brýnt að verðtryggingin verði tekin úr sambandi, eða fryst í kringum 3-4% á meðan mesta verðbólguskotið ríður yfir. Flestum hagfræðingum ber saman um að slíkt verðbólguskot muni dynja á landsmönnum á næstu mánuðum og getur farið allt upp í 20-30%.

Einnig kom fram í máli formanns að það sé ekki hægt að leggja meiri byrðar á almenning í þessu landi sem nú þegar hefur þurft að þola gríðarlegan skell svo sem atvinnumissi, skerðingu á starfshlutfalli, lækkun launa og hækkun á matvöruverði um 30-50%.

Hægt er að hlusta á viðtalið við formann með því að smella hér. Einnig var vitnað í viðtalið í hádegisfréttum RUV, hægt er að hlusta með því að smella hér.

27
Nov

Vel heppnaður fundur í Tónbergi í gærkvöldi

Í gærkvöldi var haldinn opinn upplýsinga- og fræðslufundur í Tónbergi þar sem kynnt voru úrræði vegna efnahagsmála. Fyrir fundinum stóðu auk Verkalýðsfélags Akraness Akraneskaupstaður, Sýslumaðurinn á Akranesi og Vinnumálastofnun.

Framsöguerindi voru afar fróðleg og einnig bárust fjölmargar spurningar frá fundargestum. 

Vissulega hefði mætingin mátt vera betri enda spurning hvort tímasetning fundarins hefði verið heppilegri í janúar þegar þrengingarnar verða betur komnar í ljós. Þrátt fyrir það eru aðstandendur fundarins mjög ánægðir með það hvernig til tókst.

Fjöldi fyrirspurna berast skrifstofu félagsins á degi hverjum um hin ýmsu atriði er varða efnahagsástandið. Því hefur ýmis konar upplýsingum verið safnað saman undir hnappi sem ber heitið "Efnahagsástandið" og er staðsettur hér til hægri á síðunni.

26
Nov

Fundur í Tónbergi í kvöld

Verkalýðsfélag Akraness vill minna á opinn upplýsinga- og fræðslufund sem haldinn verður í Tónbergi, sal Tónlistarskólans á Akranesi, í kvöld miðvikudaginn 26. nóvember kl. 20:00

Yfirskrift fundarins er: „Úrræði vegna efnahagsmála“

Eftirtaldir aðilar eru með framsögu:

  • Íbúðalánasjóður:  „Úrræði Íbúðalánasjóðs vegna greiðsluvanda"   Svanhildur Guðmundsdóttir sviðsstjóri.
  • Félags- og tryggingamálaráðuneytið:  „Aðgerðir í þágu heimilanna“  Guðbjartur Hannesson formaður félags- og tryggingamálanefndar Alþingis og fulltrúi í starfshópi í félags- og tryggingamálaráðneyti um aðgerðir í þágu heimilanna.
  • Vinnumálastofnun:  „Atvinnuleysisbætur“   Gunnar Richardsson forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Vesturlandi. 
  • Alþýðusamband Íslands:  „Staða Heimilanna“   Ólafur Darri Andrason hagfræðingur ASÍ. 
  • Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi:  „Í aukinni færni felst styrkur”  Inga Dóra Halldórsdóttir framkvæmdastjóri

Að loknum framsöguerindum verður opnað fyrir spurningar úr sal.

Fundarstjóri:  Ólafur Hauksson.

Að fundinum standa:  Akraneskaupstaður, Sýslumaðurinn á Akranesi, Verkalýðsfélag Akraness og Vinnumálastofnun

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image