• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
31
Oct

Ráðamenn þjóðarinnar vaknið !

Það er óhætt að segja að algjör ringulreið ríki nú á íslenskum vinnumarkaði ef marka má þá holskeflu uppsagna sem nú ríður yfir íslenskan vinnumarkað.  Íslenskir launþegar vita vart hvaðan á sig stendur veðrið og ríkir ótti og angist víða í þjóðfélaginu vegna þeirra uppsagna sem nú dynja á landsmönnum.

Eins og fram kom hér á heimsíðunni í fyrradag þá óttaðist formaður félagsins að fleiri uppsagnir myndu líta dagsins ljós áður en mánuðurinn yrði allur, en á miðvikudaginn sl. var búið að tilkynna 42 einstaklingum um uppsögn í vikunni hér á Akranesi.  Í dag er þessi tala því miður komin uppí 63 einstaklinga.  Sem dæmi þá þurfti fyrirtæki sem tilkynnti á miðvikudaginn um uppsagnir á 13 starfsmönnum að segja upp 9 til viðbótar í dag.  Með öðrum orðum þá ríkir algjört panik hjá atvinnurekendum vegna þess ástands sem ríkir í efnahagslífi þjóðarinnar.

Formaður félagsins vill hvetja atvinnurekendur til að virða þær leikreglur og kjarasamninga sem gilda á íslenskum vinnumarkaði þegar staðið er að uppsögnum og breytingu á vinnutilhögun.  Sem dæmi þá ætlaði t.d. fyrirtæki að segja upp núverandi vaktakerfi og setja upp nýtt vaktakerfi með einungis nokkurra daga fyrirvara þótt kveðið sé á um að slíkt sé ekki hægt að gera með svo stuttum fyrirvara. 

Stjórn félagsins vill minna félagsmenn sína á að leita upplýsinga hjá félaginu ef þeir eru í minnsta vafa um að verið sé að ganga á kjarasamningsbundinn rétt þeirra.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness vill segja við ráðamenn þessarar þjóðar, vaknið, því íslenskum fyrirtækjum, launþegum og heimilum er að blæða út.  Stjórn félagsins vill ítreka að ríkisstjórn Íslands verður að koma fyrirtækjum,launþegum og heimilum landsins til hjálpar og það tafarlaust og það aðgerða- og úrræðaleysi sem blasað hefur við þjóðinni að undanförnu verður að heyra sögunni til.

30
Oct

Brýnt að auka aflaheimildir í þorski tafarlaust

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur Verkalýðsfélag Akraness lagt til að ríkisstjórn Íslands auki nú þegar aflaheimildir í þorski umtalsvert á yfirstandandi fiskveiðiári. Slík ákvörðun ætti alls ekki að stofna þorsksstofninum í neina hættu þótt slíkt væri gert í eitt fiskveiðiár eða svo.

Nú er ástandið með þeim hætti í íslensku atvinnulífi að stjórnvöld verða að koma með einhverjar lausnir til að skapa hér auknar gjaldeyristekjur og aukin störf handa verkafólki og sjómönnum.  Að auka aflaheimildir í þorski væri tilvalin leið til þess.

Nú hafa fleiri verið að þrýsta á stjórnvöld að auka aflaheimildir að undanförnu. Til að mynda hefur LÍÚ skorað á sjávarútvegsráðherra að auka þorskkvótann um 30 þúsund tonn. 

Á bæjarstjórnarfundi á þriðjudaginn var lögð fram tillaga til bæjarstjórnar sem hljóðaði eftirfarandi:

"Með hliðsjón af þeirri alvarlegu stöðu sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir nú um stundir, fyrirsjáanlegu atvinnuleysi og þrengingum, hjá bæði fjölskyldum og fyrirtækjum á næstu misserum, skorar bæjarstjórn Akraness á sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórn Íslands að nú þegar verði auknar fiskveiðiheimildir.“  

Með tillögunni er gerð krafa um að aukningunni verði úthlutað til sveitarfélaga sem síðan ráðstafi aflanum til vinnslu innan síns sveitarfélags. Þannig verði stuðlað að minna atvinnuleysi, auknum útflutningstekjum og meiri umsvifum í þjóðfélaginu.  Formaður félagsins tekur undir með bæjaryfirvöldum að sveitarfélögum verði úthlutuð sú viðbót í þorski ef til aukningar kemur.

29
Oct

Á fimmta tug hefur verið sagt upp störfum í þessari viku

Það er óhætt að segja að þessi mánaðarmót ætli að verða blóðug fyrir verkafólk, iðnaðarmenn og skrifstofufólk.  En samkvæmt upplýsingum sem Verkalýðsfélag Akraness hefur þá hefur á fimmta tug verkamanna, iðnaðarmanna og skrifstofumanna verið sagt upp í þessari viku hér á Akranesi.  Flestir þeirra sem sagt hefur verið upp eru með eins mánaðar uppsagnarfrest þannig að síðasti starfsdagur flestra verður 30. nóvember.

Nánast allar þessar uppsagnir tengjast starfsemi í byggingariðnaði og er óhætt að segja að byggingarmarkaðurinn sé nánast helfrosinn og því miður ber formaður félagsins verulegan kvíðboga fyrir því að mun fleiri uppsagnir eigi eftir að líta dagsins ljós áður en kemur að mánaðarmótum.

Það er algerlega morgunljóst að mörg heimili munu eiga um sárt að binda í þeim hörmungum sem nú dynja á íslensku atvinnulífi í kjölfar þeirrar hrinu uppsagna sem nú ríður yfir íslenskan vinnumarkað.  Það er deginum ljósara að íslensk stjórnvöld verða að koma íslenskum launþegum og heimilum landsins til hjálpar og það tafarlaust ef ekki á verulega illa að fara fyrir íslenskum heimilum.

28
Oct

Passaðu að missa ekki rétt þinn !

Allar líkur eru á því að margt launafólk geti staðið frammi fyrir uppsögnum á næstu vikum og mánuðum. Mikilvægt er að minna á að þegar sótt er um atvinnuleysisbætur, þá er launamanni það í sjálfsvald sett hvort hann greiðir félagsgjald til stéttarfélags síns eða ekki. Með því að greiða félagsgjaldið viðheldur félagsmaður réttindum sínum hjá félaginu svo sem réttindum í sjóðum félagsins sem taka þátt í kostnaði vegna sjúkradagpeninga, sjúkraþjálfunar og menntunar félagsmann.

Þegar sótt er um atvinnuleysisbætur eða greiðslur í fæðingarorlofi fyllir viðkomandi út umsóknareyðublað um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði eða hjá Atvinnuleysistryggingasjóði. Þá þarf að merkja við að umsækjandi vilji að félagsgjöld séu dregin af viðkomandi greiðslum.

Með því að greiða ekki félagsgjald af þessum greiðslum tapast því mikilvæg réttindi.

27
Oct

Verðbólgan náði nýjum hæðum í október

Verðbólga mældist 15,9% í október og hefur verðlag hækkað um 2,2% frá því í septembermánuði. Þetta er mesta verðbólga sem mælst hefur hér á landi síðan vorið 1990.

Mest áhrif til hækkunar á verðlagi nú hefur hækkun á mat og drykkjarvörum um 4,3% á milli mánaða. Þar af hækkar verð á innfluttum mat- og drykkjarvörum um rúm 8%, innlendum vörum öðrum en grænmeti og búvörum um 4%, grænmeti um tæp 9% og búvörur um 1,7%. Á síðustu 12 mánuðum hefur verð á mat- og drykkjarvörum hækkað um 24,5%.

Þá hækkar verð á fötum og skóm um 4,9% frá því í septembermánuði og þar af hækkar verð á barnafötum mest eða um tæp 14%. Verð á ýmsum öðrum innfluttum vörum hækkar mikið á milli mánaða.  Má þar nefna húsgögn, heimilistæki og ýmsan húsbúna sem hækka um 7,1%, varahluti og hjólbarða sem  hækka um 19,6%, flugfargjöld til útlanda um 18,7% og verð á sjónvörpum, dvd-spilurum, tölvum o.fl. um 10,6%.

Af öðrum liðum vístiölunnar sem hækka á milli mánaða má nefna að hitakostnaður hækkar um 6,6% sem rekja má til hækkunar á gjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur fyrir heitt vatn.

Til lækkunar á vísitölunni nú kemur verðlækkun á bensíni og olíum sem lækka um 3,4% frá því í september. Þá lækkar kostnaður vegna eigin húsnæðis um 1,3% á milli mánaða sem rekja má að mestu til lækkunar á markaðsverði húsnæðis.

Alþýðusambandið hefur ítrekað á síðustu mánuðum bent á að við núverandi aðstæður er nauðsynlegt að opinberir aðilar og fyrirtæki á þeirra vegum gangi á undan með góðu fordæmi og hækki ekki gjaldskrár sínar. Slíkt er þó enn raunin. Mikil óvissa í gengismálum um þessar mundir gerir alla verðlagningu á innfluttum vörum erfiða og staðfestir enn nauðsyn þess að koma gjaldeyrisviðskiptum í eðlilegt horf. Það er brýnna nú en nokkru sinni að allir, bæði fyrirtæki og opinberir aðilar, leggist á árar og haldi aftur af verðhækkunum á vörum sínum og þjónustu til þess að koma í veg fyrir frekari hækkun verðlags á næstu mánuðum.

25
Oct

Ársfundi ASÍ lauk í gær

VLFA þakkar Grétari Þorsteinssyni fyrir gott samstarfVLFA þakkar Grétari Þorsteinssyni fyrir gott samstarfí gær lauk ársfundi Alþýðsambands Íslands. Yfirskrift fundarins bar heitið Áfram Ísland - fyrir ungt fólk og framtíðina.  Verkalýðsfélag Akraness átti fimm fulltrúa á fundinum.

Kosið var um nýjan forseta ASÍ en fyrir lá að Grétar Þorsteinsson myndi ekki gefa kost á sér til áframhaldandi setu sem forseti ASÍ. Gylfi Arnbjörnsson framkvæmdastjóri ASÍ og Ingibjörg R. Guðmundsdóttir varaforseti ASÍ buðu sig fram til forseta og bar Gylfi sigurorð í þeirri kosningu.

Gylfi Arnbjörnsson nýkjörinn forseti Alþýðusambandsins sagðist árétta fyrirheit sín um að efla samstöðu og samheldni innan verkalýðshreyfingarinnar, þegar hann sleit 8. ársfundi ASÍ síðdegis. Hann sagðist hafa staðfasta trú á því að með samstöðunni muni verkalýðshreyfingunni takast að vinna sig í gegnum þrengingarnar, fyrir ungt fólk og framtíðina. Í lok fundarins var Grétar Þorsteinsson fráfarandi forseti ASÍ ákaft hylltur fyrir frábær störf í þágu verkalýðshreyfingarinnar.

Stjórn Verkalýðsfélag Akraness vill þakka Grétari Þorsteinssyni kærlega fyrir mjög gott samstarf á liðnum árum og óskar honum velfarnaðar á komandi árum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image