• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Jan

Nýtt deiliskipulag fyrir 100 iðnaðarlóðir á Grundartanga

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá telur formaður félagsins félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness standa eins vel og hægt er að hugsa sér miðað við þann ólgusjó sem atvinnulífið siglir í gegnum þessa mánuðina. Ástæðu þessarar góðu stöðu má rekja til þeirrar jákvæðu og miklu uppbyggingu sem verið hefur á Grundartangasvæðinu á liðnum árum. Ekki spillir fyrir að auglýst hefur verið nýtt deiliskipulag fyrir allt að 100 iðnaðarlóðir á Grundartangasvæðinu.

Það er alveg ljóst að fjölmörg iðnaðarfyrirtæki hafa hug á að flytja starfsemi sína upp á Grundartanga í náinni framtíð og mun það styrkja félagssvæðið enn frekar og mjög líklegt að Grundartangasvæðið verði eitt alstærsta iðnaðarsvæði landsins til lengri tíma litið.

Eftirfarandi frétt birtist í Viðskiptablaðinu í dag:

Auglýst hefur verið nýtt deiliskipulag fyrir Klafastaðahluta Grundartangans þar sem til verða yfir 100 iðnaðarlóðir sem að sögn Gísla Gíslasonar, framkvæmdastjóra Faxaflóahafna, verður spennandi kostur fyrir alls kyns atvinnustarfsemi.

Ætlunin er að stækka athafnasvæðið til vesturs og nýta þannig hafnarsvæðið betur. Gísli sagði mikilvægt að hafa lokið skipulagsvinnu til að geta boðið nýjum aðilum upp á lóðir.

Að sögn Gísla hafa nokkrir áhugasamir aðilar verið að spyrjast fyrir um lóðir og er þar m.a. fyrirspurn Elkem Solar um lóð undir afar spennandi framleiðslu á kísilflögum. Félagið er nú að skoða 3 til 4 staði fyrir slíka verksmiðju og sagði Gísli að spennandi væri að sjá hvað kæmi út úr því.

Sömuleiðis er í gangi viljayfirlýsing gangvart Greenstore sem hefur hug á að setja upp netþjónabú. Sú yfirlýsing gildir út júní á þessu ári.

05
Jan

Skatthlutfall og persónuafsláttur 2009

Skatthlutfall í staðgreiðslu árið 2009 er 37,2%. Skatthlutfall barna, þ.e. þeirra sem fædd eru 1994 eða síðar, er 6% af tekjum umfram frítekjumark barna sem er kr. 100.745.

Persónuafsláttur
Persónuafsláttur er kr. 506.466 á ári, eða kr. 42.205 á mánuði.
Heimilt er að nýta allan (100%) ónýttan persónuafslátt maka á árinu 2009. 

Einn mánuður kr. 42.205
Hálfur mánuður kr. 21.103
Fjórtán dagar kr. 19.426
Ein vika kr. 9.713


Ef launatímabil er annað en að ofan greinir skal ákvarða persónuafslátt þannig:
506.466 / 365 x dagafjöldi launatímabils

Sjá nánar á vef Ríkisskattstjóra .

Hér er að finna reiknivél en skrá þarf launafjárhæð, iðgjald í lífeyrissjóð og hlutfall persónuafsláttar sem það skattkort sýnir sem nýtt er hjá launagreiðanda.

05
Jan

Tilkynning frá Símenntunarmiðstöðinni á Vesturlandi

Námsvísir vorannar hefur komið inn um lúguna um þetta leyti, en brugðið verður út af vananum í þetta sinn. Ástæðan er sú að Símenntunarmiðstöðin á 10 ára afmæli á þessu ári eða 19. febrúar nk.

Af því tilefni hefur stjórn stofnunarinnar skipað afmælisnefnd sem mun vinna að veglegu afmælisblaði sem verður gefið út á vormánuðum.  Einnig er fyrirhugað að halda upp á þessi tímamót með ýmsu móti sem mun vara allt afmælisárið.

Námskeið vorannar verða birt á vefnum okkar www.simenntun.is og einnig munu námskeið verða auglýst í staðarmiðlum og með öðrum hætti jafnt og þétt alla vorönnina.

Við vonum að þetta valdi ekki óþægindum og hlökkum til að vinna áfram  að því að byggja upp öfluga  stofnun á sviði sí- og endurmenntunar á Vesturlandi.

Ef þú hefur ósk um námskeið eða ábendingar um bætta þjónustu þá sendu endilega póst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.  eða hringdu í okkur í síma 437-2390.

Með afmæliskveðjum,

Inga Dóra Halldórsdóttir framkvæmdastjóri

02
Jan

Greiðslur úr sjúkrasjóði námu 26,5 milljónum á árinu 2008

Greiðslur úr sjúkrasjóði Verkalýðsfélags Akraness á árinu 2008 voru 26,5 milljónir og jukust um 4 milljónir á milli ára.  Ástæða þessarar aukningar er sú að félagið hefur að undanförnu að fjölgað og hækkað styrki sem félagsmönnum standa til boða. 

Það er afar ánægjulegt að geta látið félagsmenn njóta góðrar afkomu félagsins undanfarinna ára með hækkun og fjölgun á nýjum styrkjum, enda er það yfirlýst stefna stjórnar félagsins að reyna eftir fremsta megni að þjónusta sína félagsmenn eins vel og kostur er. 

30
Dec

Atvinnurekendur úr stjórnum lífeyrissjóða og frysting verðtryggingar

Á forsíðu Fréttablaðsins þann 27. desember sl. var viðtal við forseta Alþýðusambands Íslands þar sem hann taldi endurskoðun kjarasamninga í uppnámi. Ástæða þess að forseti ASÍ telur samningana í uppnámi segir hann vera þá að ríkisstjórnin hafi ekki sýnt áhuga á samstarfi við verkalýðshreyfinguna og einnig óánægja með fjárlagafrumvarpið og vill verkalýðshreyfingin sjá frekari breytingar á eftirlaunafrumvarpinu. Undir þessi sjónarmið tekur stjórn Verkalýðsfélags Akraness með ASÍ

Einnig telur stjórn Verkalýðsfélags Akraness að nýta eigi ákvæði um endurskoðun kjarasamninga til að knýja ríkisstjórn Íslands til þess að frysta verðtrygginguna á meðan mesta verðbólguskotið gengur yfir. Það liggur fyrir að eignir almennings eru að brenna upp í þeirri óðaverðbólgu sem nú geisar hér á landi og það gengur ekki upp að lífeyrissjóðir, bankar og fjármagnseigendur séu þeir einu sem hagnist á því verðbólguskoti sem nú geisar. Það er lag núna að beita ákvæði um endurskoðun kjarasamninga til að knýja á um frystingu verðtryggingar.

Það á einnig að gera þá kröfu á samtök atvinnulífsins við endurskoðun kjarasamninga að atvinnurekendur víki úr stjórnum lífeyrissjóða því það er á engan hátt eðlilegt að atvinnurekendur séu að véla með lífeyrir launafólks. Þetta á að vera eitt af grundavallaratriðum við endurskoðun kjarasamninga að atvinnurekendur víki úr stjórnum lífeyrissjóða.

Ekki alls fyrir löngu var fjallað um það hér á heimasíðunni hversu óeðlilegt það sé að atvinnurekendur sitji í stjórnum þessara sjóða. Það var því mjög ánægjulegt að sjá að sjómannadeild Framsýnar á Húsavík ályktaði nýverið um að gerð verði krafa um að atvinnurekendur víki úr stjórnum lífeyrissjóða. Það þyrfti að kanna hvort að það sé ekki orðinn víðtækur stuðningur innan verkalýðshreyfingarinnar um þetta atriði því eins og áður sagði þá nær það engri átt að atvinnurekendur séu að taka ákvarðanir um fjárfestingarstefnu sjóðanna, þeir eru jú lífeyrir okkar félagsmanna og einnig eru þetta kjarasamningsbundin réttindi sem um hefur verið samið í kjarasamningum.

30
Dec

Lækkun krónunnar hefur jákvæð áhrif á laun sjómanna

Í gær var haldinn aðalfundur Sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness.  Auk venjubundinna aðalfundastarfa þá var nýgerður kjarasamningur sjómanna kynntur og voru fundarmenn almennt nokkuð sáttir við hann þó vissulega séu alltaf einhver atriði samningsins sem menn hefðu viljað sjá með öðrum hætti.

Fram kom hjá fundarmönnum að þetta ár er búið að vera almennt nokkuð fengsælt fyrir sjómenn en hrun íslensku krónunnar hefur leit til þess að laun sjómanna hafa hækkað umtalsvert á árinu sem nú er að líða. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image