• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Jan

Kjaradeilu Sementsverksmiðjunnar vísað til Ríkissáttasemjara

Samninganefnd Sementsverksmiðjunnar hefur vísað kjaradeilu sinni við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara.  Kjarasamningur starfsmanna Sementsverksmiðjunnar rann út 1. desember sl. en viðræður við SA um nýjan kjarasamning hafa ekki gengið sem skyldi hingað til.

Samninganefndin hefur átt nokkra fundi með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins að undanförnu en eins og áður hefur komið fram hafa þær viðræður ekki borið árangur.  Krafa starfsmanna Sementsverksmiðjunnar hljóðar uppá sambærilegar launahækkanir og um samdist hjá Elkem Ísland.

Ríkissáttasemjari hefur boðað deiluaðila til fundar á morgun í húsakynnum sáttasemjara og hefst fundurinn kl. 14.00 

26
Jan

Ríkissáttasemjari leggur fram sáttatillögu vegna kjarasamnings Klafa

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur Verkalýðsfélag Akraness verið að vinna að lausn á kjarasamningi starfsmanna Klafa en þeir sjá um upp- og útskipanir á Grundartangasvæðinu ásamt því að þjónusta eigendur sína sem eru Elkem Ísland og Norðurál en hvort fyrirtæki um sig á 50% í Klafa.

Krafa félagsins hefur verið skýr, að starfsmenn Klafa fái sambærilegar launahækkanir og um samdist hjá Elkem Ísland í desember sl. en sú hækkun hljóðaði upp á 17-18% við undirskrift samningsins. Það hefur einnig komið fram hér á heimasíðunni að starfsmenn Klafa eru fyrrverandi starfsmenn Elkem Ísland og á þeirri forsendu er afar erfitt að veita einhvern afslátt af þeim kröfum sem lagðar hafa verið fram. 

Ríkissáttasemjari hefur tekið þá ákvörðun að leggja fram innanhúss sáttatillögu á fundi á miðvikudaginn og hefur hann verið að ráðfæra sig við deiluaðila. Er það mat félagsins að full ástæða sé til að skoða þá tillögu sem sáttasemjari er að vinna að. Á fundinum á miðvikudaginn mun það koma í ljós hvort deiluaðilar munu ná saman eða ekki og vill formaður ekki hugsa þá hugsun til enda ef niðurstaða fæst ekki í þetta mál á miðvikudaginn kemur því þá er ljóst að deilan er komin í algert öngstræti.

23
Jan

Um 100 manns á mótmælafundi á Akranesi

Um 100 manns mættu á mótmælafund sem haldinn var á Akratorginu á Akranesi í dag.  Tilefni fundarins var að mótmæla því grafalvarlega ástandi sem nú ríkir í íslensku atvinnu- og efnahagslífi.  Þau sem stóðu fyrir þessum fundi voru Anna Lára Steindal og Kristinn Pétursson. Sá síðarnefndi hélt ræðu þar sem hann fordæmdi það aðgerða- og úrræðaleysi sem ríkt hefur hjá stjórnvöldum frá hruni bankanna.

Skipuleggjendur fundarins óskuðu eftir því að formaður Verkalýðsfélags Akraness myndi flytja ræðu á fundinum og að sjálfsögðu varð formaður félagsins við þeirri ósk.  Í ræðu formanns kom m.a. fram að það væri frábært að sjá þann árangur sem mótmælin á höfuðborgarsvæðinu væru búin að skila, en eins allir vita þá eru miklar líkur á að það verði kosið til Alþingis 9 maí n.k. 

Það kom einnig fram í ræðu formanns að draga þyrfti þá aðila innan fjármálakerfisins sem mögulega bera ábyrgð á því ástandi sem nú ríkir í íslensku samfélagi til ábyrgðar og einnig þá aðila innan stjórnsýslunnar sem brugðist hafa sínu eftirlitshlutverki.

Formaður félagsins sagði að lokum í sinni ræðu að þau gildi sem ríkt hafa í íslensku samfélagi á liðnum árum og áratugum þurfi að heyra sögunni til.  Þau gildi sem um ræðir lúta að græðgi, sérhagsmunagæslu og hroka í garð almennings.  Það þarf að taka upp ný gildi í íslensku samfélagi, gildi sem lúta jöfnuði, réttlæti og virðingu.    

23
Jan

Félagsmenn ASÍ ákveði sjálfir hvort fresta skuli endurskoðunarákvæði kjarasamninga

Formenn aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands komu saman til fundar kl. 11 í morgun á Grand Hóteli þar sem til umræðu var endurskoðunarákvæði í kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði. En eins og fram kom á miðstjórnarfundi ASÍ í fyrradag þá er vilji hjá miðstjórninni fyrir því að fresta viðræðum um endurskoðun kjarasamninga fram í júní.

Slíkt myndi hafa í för með sér að þær launahækkanir sem eiga að taka gildi 1. mars nk. eins og 13.500 kr. taxtahækkun og almenn launahækkun upp á 3,5% myndu frestast um 4 mánuði.

Fram kom í máli forseta Alþýðusambands Íslands að hann skynji að atvinnurekendur hafi jafnvel í huga að segja kjarasamningunum upp þegar að endurskoðun kemur ef ekki næst samkomulag um frestun á endurskoðuninni.  Einnig kom fram í máli forseta að SA sé ekki búnið að taka neina ákvörðun ennþá, en að þetta sé krafa sem hann hafi heyrt.

Það fór ekkert á milli mála á fundinum í dag að það eru afar skiptar skoðanir um hvað gera skuli og t.a.m. kom fram í máli einstakra fundarmanna að það verði einfaldlega að koma í ljós hvort atvinnurekendur ætli sér ekki að standa við þann kjarasamning sem undirritaður þann 17. febrúar sl. Krafa okkar eigi hins vegar sú að kjarasamningurinn verði framlengdur óbreyttur og þannig staðið við þær umsömdu launahækkanir sem í honum er kveðið á um.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness tók til máls á fundinum og kom fram í hans máli að hann dragi í efa að fulltrúar ASÍ í forsendunefnd hafi heimild til að ákvarða breytingar á kjarasamningi til lækkunar. Formaður lagði til að ef það verður lagt í þá vegferð að fresta endurskoðunarákvæði og umsömdum launahækkunum þá verði skýlaust að leggja það undir þá félagsmenn sem vinna eftir umræddum kjarasamningum, annað standist hreinlega ekki neina skoðun. Slíkt myndi gera það að verkum að það verða félagsmennirnir sjálfir sem taka ákvörðun um að fresta umsömdum launahækkunum, en ekki fámennur hópur innan verkalýðshreyfingarinnar.

Það kom líka fram í máli formanns að krafa almennings í þessu landi er sú að viðhöfð séu lýðræðisleg vinnubrögð og breytt siðferði og á þeirri forsendu ber verkalýðshreyfingunni skylda til þess að leggja slíkar veigamiklar breytingar á kjarasamningi undir alla félagsmenn sína sem vinna eftir áðurnefndum samningum.

Það skynja allir afar erfiða stöðu atvinnulífsins um þessar mundir en það er mat formanns að það gleymist oft að heimilin eiga einnig í gríðarlegum erfiðleikum um þessar mundir og því verði þær umsömdu hækkanir sem eiga að koma til handa okkar fólki samkvæmt kjarasamningi að taka gildi 1. mars eins og um var samið.

23
Jan

Mótmælafundur á Akranesi í dag

Boðað hefur verið til mótmælafundar á Akratorgi kl. 17:00 í dag.

Vegna þess skelfilega ástands sem nú ríkir í íslensku efnahags- og atvinnulífi eru félagsmenn hvattir til að mæta og sýna stuðning í verki.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image