• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Jan

Ágreiningi vegna launahækkana starfsmanna Norðuráls vísað til félagsdóms

Í gær fundaði samninganefnd stéttarfélaganna með forsvarsmönnum Norðuráls í húsakynnum ríkissáttasemjara vegna breytinga á launum starfsmanna Norðuráls fyrir árið 2009 . Þetta var þriðji fundurinn sem samningsaðilar hafa átt til að leysa úr ágreiningi um hver hækkun til handa starfsmönnum Norðuráls eigi að vera.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá er kveðið á um í kjarasamningi Norðuráls frá árinu 2005 að laun starfsmanna Norðuráls taki að meðaltali sömu breytingum fyrir árið 2009 og laun samkvæmt kjarasamningum stéttarfélaga og vinnuveitenda í sambærilegum orkufrekum iðnaði.

Skilningur Verkalýðsfélags Akraness og annarra sem sátu í samninganefndinni 2005 var hvellskýr, en hann er sá að átt hafi verið við meðaltalshækkanir hjá Járnblendiverksmiðjunni Elkem Ísland á Grundartanga og álverksmiðjunni Alcan. Samningsaðilar eru búnir að vera að reyna að komast að samkomulagi um hver meðaltalshækkun í þessum fyrirtækjum var en því miður ríkir ágreiningur á milli aðila um hver sú hækkun sé. Byggist sá ágreiningur á því hve mikið laun í þessum verksmiðjum hækkuðu og hvernig slíkur útreikningur eigi að fara fram.

Verkalýðsfélag Akraness og samninganefndin öll hefur farið yfir þessa tvo kjarasamninga og hefur komist að niðurstöðu um hver þessi meðaltalshækkun sé en eins og áður sagði þá ber útreikningum samningsaðila ekki saman. Því miður ber of mikið á milli aðila til að ástæða hafi verið til að halda viðræðum áfram og var niðurstaða samninganefndarinnar sú að málinu yrði vísað til félagsdóms sem mun dæma í málinu.

Verkalýðsfélag Akraness harmar þessa niðurstöðu því það mun verða þess valdandi að starfsmenn munu ekki fá sína umsömdu hækkun fyrr en félagsdómur hefur tekið málið til afgreiðslu, en á þessari stundu liggur fyrir að það geti tekið allt að 4 til 6 mánuði að fá niðurstöðu í málið.

20
Jan

Aðgerðahópurinn fundaði í gærmorgun

Í gærmorgun var haldinn fundur í aðgerðanefnd sem bæjaryfirvöld Akraneskaupstaðar settu á laggirnar fyrir áramót vegna efnahagshrunsins.  Þeir sem skipa nefndina eru Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness, Ólafur Þór Hauksson sýslumaður, Sveinborg Kristjánsdóttir félagsmálastjóri, Gunnar Richardsson frá Vinnumálastofnun, og Helga Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri fjölskyldustofu Akraneskaupstaðar.

Nefndin hefur fundað reglulega frá því hún var stofnuð en hlutverk nefndarinnar er að fylgjast með afleiðingum efnahagshrunsins og leita leiða til upplýsa bæjarbúa um þau úrræði sem í boði eru hjá hinum ýmsu stofnunum og félagasamtökum vegna ástandsins í íslensku efnahagslífi.

Fyrir áramót stóð aðgerðanefndin til að mynda fyrir opnum upplýsinga- og fræðslufundi sem bar yfirskriftina Úrræði vegna efnahagsmála.

Á fundinum í gærmorgun var farið yfir stöðuna og kom fram í máli nefndarmanna að allir finna fyrir auknu álagi í störfum sínum vegna þess ástands sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi.  Fram kom hjá Gunnari Richardssyni forstöðumanni Vinnumálastofnunar að 270 einstaklingar séu á atvinnuleysisskrá á Akranesi en á sama tíma í fyrra voru skráðir 44 einstaklingar.

Einnig var ákveðið á fundinum að reynt verður að bjóða upp á viðtöl á vegum Ráðgjafarstöð heimilanna en gríðarlegt álag er á þeim aðilum sem sjá um ráðgjafastöðina þessa daganna. Að lokum var ákveðið að vinna að því að bjóða uppá fjármálanámskeið í samvinnu þeirra aðila sem koma að þessum aðgerðahóp.

Ólafur Þór Hauksson sýslumaður tilkynnti að þetta væri síðasti fundur sem hann myndi sitja þar sem hann væri að hverfa til annarra starfa tímabundið í tvö ár en sá sem myndi leysa hann af sem sýslumann myndi taka hans sæti.  En eins og fram hefur komið fram í fréttum þá hefur Ólafur verið skipaður sérstakur saksóknari vegna efnahagshrunsins.

19
Jan

Árangurslítill fundur hjá ríkissáttasemjara

Fundur var haldinn hjá ríkissáttasemjara í morgun vegna kjarasamnings starfsmanna Klafa, en þeir sjá um upp- og útskipanir á Grundartangasvæðinu. Kjarasamningur Klafa rann út 1. desember sl. og hafa samningsaðilar verið að reyna að ná niðurstöðu um alllanga hríð.

Það er skemmst frá því að segja að náðst hefur samkomulag varðandi nokkur atriði, t.d. um nýtt bónuskerfi en því miður er stóra málið um almenna launahækkun algerlega strand þessa stundina og ákvað ríkissáttasemjari því í morgun að slíta fundi en boðar samningsaðila jafnframt til fundar á morgun kl. 15:00 til að reyna að ná niðurstöðu.

Eins og staðan er núna lítur það alls ekki vel út, en krafa starfsmanna Klafa er sú að fá sömu launahækkun og um samdist hjá starfsmönnum Elkem Ísland sem starfa á sama svæði. Rétt er að minna enn og aftur á að starfsmenn Klafa voru eitt sinn starfsmenn Elkem Ísland, en fyrir örfáum árum síðan var ákveðið að stofna sér fyrirtæki í kringum þá sem störfuðu í flutningadeild fyrirtækisins.

Það er því alveg ljóst að félagið mun ekki geta sætt sig við það að stofnuð séu dótturfyrirtæki í kringum Elkem Ísland sem verði þess valdandi að starfsmenn þeirra sitji eftir í launum miðað við starfsmenn móðurfyrirtækisins.

17
Jan

Unnið að samkomulagi

Í gær var haldinn fundur í húsakynnum ríkissáttasemjara vegna launahækkana hjá starfsmönnum Norðuráls.

Gríðarlegur fjöldi starfsmanna hefur haft samband við formann Verkalýðsfélags Akraness í dag til að fá upplýsingar um gang viðræðnanna og er það ósköp eðlilegt að starfsmenn vilji fá að vita um ganginn á þessum viðræðum.

Það sem hægt er að segja núna um stöðuna er að samningsaðilar eru að reyna eftir fremsta megni að komast að niðurstöðu um hver hækkunin eigi að vera og hafa aðilar einnig verið að fara yfir þá samninga sem gerðir hafa verið nýverið í orkufrekum iðnaði

Enda á hækkun starfsmanna að taka að meðaltali þeim hækkunum sem um var samið í orkufrekum iðnaði.  En í kjarasamningi Norðuráls frá árinu 2005 er kveðið á um laun starfsmanna Norðuráls taki að meðaltali sömu breytingum fyrir árið 2009 og laun samkvæmt kjarasamningum stéttarfélaga og vinnuveitenda í sambærilegum orkufrekum iðnaði.

Það er verkefni samningsaðila að finna út og vera sammála um hver meðaltals hækkun í nýgerðum kjarasamningum í orkufrekum iðnaði var og er það sú vinna sem samningsaðilar vinna nú að.

Næsti fundur verður haldinn á miðvikudaginn nk. kl 10:00 og verður hann einnig í húsakynnum sáttsemjara.    

16
Jan

Mikið annríki

Það er mikið annríki hjá félaginu þessa dagana en félagið vinnur nú að lausn á tveimur kjarasamningum, annars vegar málum starfsmanna Norðuráls og hins vegar nýjum kjarasamningi fyrir starfsmenn Klafa.

Í dag verður fundað um launahækkanir hjá starfsmönnum Norðuráls. Hefst sá fundur kl 14:00 í húsakynnum ríkissáttasemjara.  Eins fram hefur komið hér á heimasíðunni þá stefna samningsaðilar að því að ná niðurstöðu fyrir 20. janúar nk.

Á mánudaginn verður fundað um nýjan kjarasamning fyrir starfsmenn Klafa og stjórnar ríkissáttasemjari þeim viðræðum, en sá samningur rann út 1. desember á síðastliðnu ári.

Viðræðurnar vegna kjarasamnings Klafa hafa gengið fremur treglega hingað til.  Það eru tvö atriði sem standa útaf í viðræðum við Samtök atvinnulífsins vegna Klafa en þau mál lúta að nýju bónuskerfi fyrir starfsmenn Klafa og einnig hver almenn launahækkun skuli vera.

Eins og staðan er í dag þá virðast samningsaðilar vera að ná niðurstöðu varðandi nýtt bónuskerfi, en eftir stendur ágreiningur um hver launahækkunin eigi að vera.  En krafa félagsins er sú að laun starfsmanna Klafa skuli taka sömu hækkunum og starfsmenn Elkem Ísland fengu í sínum samningum, enda er um sama vinnusvæði um að ræða. 

15
Jan

Fundað um launahækkun starfsmanna Norðuráls

Í gær var fundað með forsvarsmönnum Norðuráls vegna launahækkana starfsmanna sem taka eiga gildi frá frá 1. janúar 2009.

En eins áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá er kveðið á um í kjarasamningi Norðuráls frá árinu 2005 að laun starfsmanna Norðuráls taki að meðaltali sömu breytingum fyrir árið 2009 og laun samkvæmt kjarasamningum stéttarfélaga og vinnuveitenda í sambærilegum orkufrekum iðnaði.

Ekki náðist niðurstaða á fundinum í gær en á fundinum voru samningsaðilar að fara yfir áðurnefnt ákvæði og skipst var á skoðunum um hvernig túlka eigi ákvæðið.    

Skilningur VLFA er að átt sé við Alcan og járnblendiverksmiðjuna Elkem Ísland þegar talað er um að laun starfsmanna Norðuráls taki að meðaltali sömu breytingum fyrir árið 2009 og laun samkvæmt kjarasamningum stéttarfélaga og vinnuveitenda í sambærilegum orkufrekum iðnaði. Það liggur fyrir að starfsmenn Elkem fengu launahækkun frá 17% uppí 18,4% við undirskrift.  Samkvæmt upplýsingum frá hagfræðingi ASÍ þá gaf kjarasamningur Alcan eitthvað minna heldur kjarasamningur Elkem.

Samningsaðilar voru sammála um að reyna eftir fremsta megni að vera búnir að ná niðurstöðu um launahækkunina fyrir 20. janúar nk. en næsti fundur verður haldinn á morgun í húsakynnum ríkissáttasemjara.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image