• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
06
Feb

Mikill stuðningur við hvalveiðar

Það er óhætt að segja að fundurinn sem Verkalýðsfélag Akraness og bæjaryfirvöld stóðu fyrir í gær hafi heppnast fullkomlega. Bíóhöllin var kjaftfull af fólki og mikill stuðningur var við því að reglugerð fyrrverandi sjávarútvegsráðherra sem heimilar auknar hvalveiðar yrði látin standa.

Fundurinn byrjaði á ávarpi frá formanni Verkalýðfélags Akraness. Sagði hann m.a. þetta hér:

"Það er óhætt að segja að það ríki skelfingarástand í atvinnumálum okkar Íslendinga eftir þær efnahagslegu hamfarir sem hafa riðið yfir íslenskt samfélag á undanförnum vikum og mánuðum.  Í dag eru 13.468 einstaklingar skráðir atvinnulausir á hér á landi og fer þeim ört fjölgandi. Til dæmis gerir Vinnumálastofnun ráð fyrir því að allt að 20.000 manns verði án atvinnu þegar líður á vorið.

Það voru því afar ánægjulegt tíðindi sem bárust 27. janúar síðastliðinn þegar fyrrverandi sjávarútvegsráðherra tilkynnti að gefin hefði verið út reglugerð um auknar hvalveiðar til ársins 2013.  Í þessari reglugerð er veiðiréttarhöfum heimilt að  veiða  100 hrefnur og 150 langreyðar á ári.  Fram hefur komið í fréttum að þessar veiðar geti skilað allt að 300 hundruð nýjum störfum á ársgrundvelli."

Eftir að formaður hafði lokið máli sínu tók bæjarstjóri Akraneskaupstaðar til máls og skoraði hann á sjávarútvegsráðherra að vera ekki með neinn gunguskap og láta áðurnefnda reglugerð standa óhaggaða.

Allir þeir sem tóku til máls, sama hvort það voru þingmenn NV-kjördæmis eða þá núverandi eða fyrrverandi sjávarútvegsráðherrar, voru sammála því að Íslendingar ættu að nýta sínar sjávarauðlindir að gefnu áliti frá Hafrannsóknarstofnun. Með öðrum orðum þá virtust allir vera sammála því að við ættum að hefja auknar hvalveiðar.

Hins vegar sagði núverandi sjávarútvegsráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, að hann ætlaði sér að kanna lagalegt gildi þess að fyrrverandi sjávarútvegsráðherra hafi heimilað þessar auknu hvalveiðar á síðustu starfsdögum sínum og dró Steingrímur í efa að ráðherra í starfsstjórn hefði heimild til að setja slíka reglugerð. Hann ætlaði einnig að kalla alla þá hagsmunaaðila sem koma að þessu máli til fundar við sig og vonaðist hann til að niðurstaða myndi liggja fyrir í málinu fljótlega. Hann lofaði þó ekki að það myndi taka einhverja daga, frekar vikur.

Magnús Stefánsson frá Framsóknarflokki sagði að ef Steingrímur drægi það í efa að Einar K. Guðfinnsson hefði haft heimild til að gefa þessa reglugerð út þá væri ekki nema eitt að gera fyrir Steingrím, það er að gefa út nýja reglugerð á sömu forsendum.

Kristinn H. Gunnarsson Frjálslynda flokki sagði að ef sjávarútvegsráðherra vogaði sér að afturkalla áðurnefnda reglugerð þá yrði lögð fram vantrauststillaga á Steingrím J. Sigfússon.

Herdís Þórðardóttir, Sjálfstæðisflokki, sagði að það væri skýlaus réttur okkar að nýta okkar sjávarauðlindir og því væri það glapræði ef núverandi sjávarútvegsráðherra myndi afturkalla þessa reglugerð.

Sturla Böðvarsson lýsti yfir fullum stuðningi við þessa ákvörðun Einars K Guðfinnssonar og það gerði einnig Guðjón Arnar Kristjánsson og tóku þeir sterkt til orða um að það væri skylda okkar að nýta okkar sjávarauðlindir með skynsömum hætti.

Guðbjartur Hannesson frá Samfylkingu gagnrýndi fyrrverandi sjávarútvegsráðherra fyrir það hvernig hann stóð að þessari reglugerð og sagðist ekki skilja hvers vegna hann hefði ekki fyrir löngu verið búinn að heimila auknar hvalveiðar. Með því að hafa ekki verið búinn að því hefði hann stefnt málinu í hættu. En hann vildi ítreka það að hann væri talsmaður þess að hefja hvalveiðar og nýta þá stofna í samráði við veiðiráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar.

Jón Bjarnason sagði að við ættum að veiða og nýta en það væri mikilvægt að þetta væri gert í sátt og samlyndi við ferðaþjónustuna í landinu.

Sent var beint út frá fundinum í tíu-fréttum RUV í gær, sjá hér.

Einnig var viðtal við formann í síðdegisútvarpi rásar 2, hlusta hér

Hægt er að lesa ræðu formanns í heild sinni með því að smella á meira.

Fundarstjóri, sjávarútvegsráðherra þingmenn, fulltrúi Hafrannsóknarstofnunnar, ágætu fundarmenn.

Það er óhætt að segja að það ríki skelfingarástand í atvinnumálum okkar Íslendinga eftir þær efnahagslegu hamfarir sem hafa riðið yfir íslenskt samfélag á undanförnum vikum og mánuðum.  Í dag eru 13.468 einstaklingar skráðir atvinnulausir á hér á landi og fer þeim ört fjölgandi. Til dæmis gerir Vinnumálastofnun ráð fyrir því að allt að 20.000 manns verði án atvinnu þegar líður á vorið.

Það voru því afar ánægjulegt tíðindi sem bárust 27. janúar síðastliðinn þegar fyrrverandi sjávarútvegsráðherra tilkynnti að gefin hefði verið út reglugerð um auknar hvalveiðar til ársins 2013.  Í þessari reglugerð er veiðiréttarhöfum heimilt að  veiða  100 hrefnur og 150 langreyðar á ári.  Fram hefur komið í fréttum að þessar veiðar geti skilað allt að 300 hundruð nýjum störfum á ársgrundvelli. 

Það liggur fyrir að hrefnuveiðimenn hafa í hyggju að stunda veiðar og vinnslu frá Akranesi, en slíkt myndi að sögn hrefnuveiðimanna skapa allt að 30 ný störf  í okkar samfélagi og veitir ekki af þegar um 300 manns eru nú án atvinnu í bæjarfélaginu. 

Það er ljóst að verði hafnar hvalveiðar á grundvelli þeirrar reglugerðar sem hefur verið gefin út myndi það þýða gríðarlega innspýtingu fyrir atvinnulífið hér á Vesturlandi og það mun einnig skapa þjóðinni umtalsverðar útflutningstekjur.

Það var því sorglegt að heyra í fulltrúum nýrrar ríkisstjórnar og það strax á meðan viðræður um stjórnarmyndun áttu sér stað að það yrði eitt af fyrstu verkum nýrrar ríkisstjórnar að endurskoða þá ákvörðun að heimila hvalveiðar og það var gefið sterklega í skyn að heimildin um auknar hvalveiðar yrði jafnvel afturkölluð.

Í fyrradag samþykkti síðan ríkisstjórnin tillögu Steingríms J. Sigfússonar sjávarútvegsráðherra um að hvalveiðiréttarhöfum yrði send formleg viðvörun um að ákvörðun fyrri ríkisstjórnar hafi verið tekin til endurskoðunar.  Sagði sjávarútvegsráðherra að viðvörunin væri send út  til að tryggja að umræddir veiðiréttarhafar ættu ekki bótarétt á hendur ríkinu.

Þessi samþykkt ríkisstjórnar er með öllu óskiljanleg sérstaklega í ljósi þess að ný ríkisstjórn hefur sagt að eitt af brýnustu verkefnum hennar sé að koma tannhjólum atvinnulífsins að stað aftur og koma í veg fyrir stóraukið atvinnuleysi. 

Í starfi mínu sem formaður í Verkalýðsfélagi Akraness fæ ég oft í viku til mín félagsmenn sem hafa misst atvinnu sína og það er oft nöturlegt að sjá þann ótta,vonleysi og angist sem skín úr andlitum þessara einstaklinga.  Því spyr ég, hvernig geta menn svo mikið sem leyft sér að hugsa um að slá allt að 300 störf út af borðinu í því skelfilega ástandi sem nú ríkir á íslenskum vinnumarkaði?

Ágætu fundarmenn

Það eina sem ég get gagnrýnt fyrrverandi sjávarútvegsráðherra fyrir í þessu máli er að hafa ekki verið búinn að tilkynna auknar hvalveiðar mikið fyrr.  Hann hefði til að mynda getað gert það samhliða tilkynningunni um 30 tonna aukningu í þorski. Aðalmálið hins vegar er að það búið er að heimila auknar veiðar á hval, íslensku þjóðinni til hagsbóta. 

Hver eru rök þeirra sem ekki vilja auknar hvalveiðar?  Jú, þau eru þau að hvalveiðar geti skaðað ferðaþjónustuna hér á landi.  Þessi rök halda ekki, einfaldlega vegna þess að frá því við hófum veiðar á hrefnu árið 2003 hefur verið gríðarleg aukning á ferðamönnum ár frá ári.  Það er búið að veiða uppundir 300 hvali frá árinu 2003, samt fjölgar erlendum ferðamönnum stöðugt. Það er mat mitt að hvalaskoðun og hvalveiðar geti vel farið saman ef báðir aðilar sýna hvorum öðrum fullan skilning.

Ég man hér á árum áður, þegar vinnsla var í Hvalstöðinni í Hvalfirði, þann mikla fjölda erlendra ferðamanna sem þangað komu og oft og tíðum voru fimm eða sex rútur fullar af erlendum ferðamönnum að skoða hvalskurð.

Önnur rök sem heyrst hafa eru þau að hvalveiðar skaði okkar fiskmarkaði erlendis. Við þessu er ekki nema eitt að segja: Samtök fiskvinnslustöðva og Landssamband íslenskra útvegsmanna  styðja þessar hvalveiðar. Það eru þessir aðilar sem eru að selja sínar afurðir á erlendum fiskmörkuðum og ef þeir hafa ekki áhyggjur af sínum viðskiptamörkuðum þá er ástæðulaust að vera með einhverja forræðishyggju í þeim efnum.

Þriðju rökin eru þau að ekki sé til markaður fyrir þessar afurðir.  Því vísa þeir aðilar sem munu stunda þessar veiðar alfarið á bug og telja að þeir geti hæglega selt allar sínar afurðir bæði á erlendum mörkuðum og á innlendum markaði.  Það er engin ástæða né rök til að draga orð þeirra í efa.

Að sjálfsögðu eigum við að nýta allar okkar sjávarauðlindir að gefnu áliti frá Hafrannsóknarstofnun.  Það er skýlaus réttur okkar sem sjálfstæðar þjóðar að nýta okkar auðlindir á skynsaman hátt.

Kæru fundarmenn

Rétt er minna menn á að einstaka þingmönnum sem nú eru orðnir ráðherrar hefur verið tíðrætt um að það eigi að viðhafa lýðræðisleg vinnubrögð í íslensku samfélagi og þessir sömu aðilar hafa kallað eftir því að hlustað sé á þjóðina

Málið er einfalt, það liggur fyrir að hagsmunaaðilar vítt og breitt um samfélagið hafa lýst yfir fullum stuðningi við þessa ákvörðun fyrrverandi sjávarútvegsráðherra.  Þessu til viðbótar var birt skoðanakönnun í fyrradag sem Sjávarnytjar lét gera, þar kom fram að um 70% þjóðarinnar styðja hvalveiðar og allt bendir til þess að þingmeirihluti sé fyrir þeirri ákvörðun sem nú liggur fyrir. Á þeirri forsendu verður fróðlegt að sjá hvort þeir aðilar sem nú stjórna hlusti ekki örugglega á þjóðina, vilji þjóðarinnar er skýr.

  

 

Ágætu fundarmenn

Það er hlutverk Verkalýðsfélags Akraness að verja öll þau störf sem eru á okkar félagssvæði og það er einnig hlutverk félagsins að leggja okkar af mörkum til þess að störfum fjölgi. Á þeirri forsendu styður Verkalýðsfélag Akraness þessa ákvörðun heils hugar.  Einfaldlega vegna þess að auknar hvalveiðar stuðla að endurreisn íslensks efnahagslífs.

Að lokum skora ég á sjávarútvegsráðherra að láta reglugerðina frá 27 janúar sl. um auknar hvalveiðar standa óhaggaða.  Takk fyrir….

05
Feb

Sjávarútvegsráðherra hefur boðað komu sína á fundinn vegna hvalveiða í kvöld

Verkalýðsfélag Akraness vill minna félagsmenn sína á opinn fund um hvalveiðmál sem félagið og Akraneskaupstaður standa að og hefst fundurinn kl. 20:00 í Bíóhöllinni í kvöld.

Sjávarútvegsráðherra hefur boðað komu sína á fundinn ásamt fjöldanum öllum af þingmönnum úr kjördæminu svo sem Einari K. Guðfinnssyni, Guðbjarti Hannessyni, Magnúsi Stefánssyni, Herdísi Þórðardóttur, Sturlu Böðvarssyni, Jóni Gunnarssyni, Guðjóni Arnari Kristjánssyni og Kristni H. Gunnarssyni. Einnig hafa hagsmunaaðilar tilkynnt komu sína svo sem Kristján Loftsson frá Hval og Gunnar Bergmann Jónsson framkvæmdastjóri Hrefnuveiðimanna.

Verkalýðsfélag Akraness hvetur alla til að mæta á þennan fund, enda er um mikla hagsmuni að ræða fyrir okkur Akurnesinga sem og Vestlendinga alla.

04
Feb

Opinn fundur um hvalveiðar á Akranesi á morgun

Eins og flestum er kunnugt þá gaf fyrrverandi sjávarútvegsráðherra út leyfi til veiða á hrefnu og langreyði frá árinu 2009 til 2013. Hafa fjölmargir hagsmunaaðilar fagnað þessari ákvörðun gríðarlega vegna þess að þeir telja að við eigum að nýta okkar sjávarauðlindir í samræmi við veiðiráðgjöf frá Hafrannsóknarstofnun Íslands.

Það vita það einnig flestir að þessi jákvæða ákvörðun frá 27. janúar sl. er í uppnámi vegna þess að núverandi ríkisstjórn íhugar að endurskoða þá ákvörðun að heimila hér hvalveiðar á ný.

Eins og fram kom í fréttum í gær þá samþykkti ríkisstjórnin tillögu frá Steingrími J. Sigfússyni sjávarútvegsráðherra um að hvalveiðiréttarhöfum verði send formleg viðvörun um að ákvörðun fyrri ríkisstjórnar um hvalveiðikvóta hafi verið tekin til endurskoðunar. Sagði sjávarútvegsráðherra að þetta væri gert til að tryggja að umræddir veiðiréttahafar ættu ekki bótakröfu á hendur ríkinu. Það eru margir sem skilja þetta á einn veg, að sjávarútvegsráðherra íhugi alvarlega að afturkalla þessa ákvörðun.

Í ljósi þessara tíðinda hafa Verkalýðsfélag Akraness og bæjaryfirvöld á Akranesi boðað til opins fundar um hvalveiðimál á morgun í Bíóhöllinni og hefst fundurinn kl. 20:00. Áðurnefndir aðilar hafa boðið þingmönnum kjördæmisins sérstaklega til þessa fundar, einnig hefur verið haft samband við sjávarútvegsráðherra, umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra og þeim einnig boðið að koma á fundinn.

Þeir sem þegar hafa tilkynnt komu sína á fundinn eru m.a.: Einar K. Guðfinnsson fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Herdís Þórðardóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Guðjón Arnar Kristjánsson formaður Frjálslynda Flokksins, Guðbjartur Hannesson forseti Alþingis og þingmaður Samfylkingarinnar, Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Sturla Bövarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Framsóknarmenn hafa gefið út að fulltrúi frá þeim komi á fundinn og væntanlega verður það Magnús Stefánsson. Aðrir eru ekki búnir að tilkynna komu sína en reikna fundahaldarar að þeir muni allir mæta. Hins vegar hefur iðnaðarráðherra tilkynnt að hann geti ekki komið og kom ekki fram í svari hans af hverju það stafar.

Einnig hafa hrefnuveiðimenn tilkynnt að þeir muni mæta á fundinn ásamt Kristjáni Loftssyni frá Hval hf. og fulltrúi frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna mun einnig mæta á fundinn.

Það eru gríðarlega miklir hagsmunir í húfi fyrir okkur Akurnesinga sem og Vesturland í heild sinni því áætlað er að þessar veiðar geti skapað allt að 300 störf og veitir ekki af þegar atvinnulausir hér á landi eru orðnir 13.300 og þar af eru 450 manns án atvinnu á Vesturlandi. Það er með hreinustu ólíkindum að ríkisstjórnin skuli yfir höfuð vera að velta því fyrir sér að endurskoða eða afturkalla áðurnefnda reglugerð í ljósi þeirra grafalvarlegu stöðu sem nú er í íslensku atvinnulífi. Við slíkt er ekki hægt að sætta sig við enda ekki nein haldbær rök fyrir því að afturkalla áðurnefnda ákvörðun um hvalveiðar að nýju.

Fjallað var um hvalveiðar við formann félagsins í gær í Reykjavík síðdegis hægt að hlusta hér

04
Feb

Kjarasamningur Klafa samþykktur með 90% greiddra atkvæða

Í gær var haldinn kynningarfundur vegna nýs kjarasamnings starfsmanna Klafa og fór formaður yfir helstu atriði samningsins með starfsmönnum. Að lokinni kynningu voru greidd atkvæði um samninginn og var hann samþykktur með 90% greiddra atkvæða.

Starfsmenn voru almennt sáttir með að tekist hefði að ganga frá kjarasamningi sem gerði það að verkum að ekki þurfti að grípa til vinnstöðvunar sem átti að hefjast 12. þessa mánaðar. Eins og fram hefur komið þá gildir samningurinn frá 1. desember sl. og munu starfsmenn því fá afturvirkni samningsins greidda í næstu útborgun.

03
Feb

Kjaradeilu Verkalýðsfélags Akraness vegna Klafa við Samtök atvinnulífsins lokið

Síðdegis í gær skrifuðu formaður Verkalýðsfélags Akraness og trúnaðarmaður starfsmanna undir nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins vegna kjarasamnings starfsmanna Klafa.  Nýi kjarasamningurinn gildir frá 1. desember 2008 til 31. desember 2010.

Eins og fram kom hér á heimasíðunni þá voru starfsmenn búnir að samþykkja að grípa til vinnustöðvunar 12. febrúar nk. ef ekki hefði tekist að semja fyrir þann tíma.

Í þessum samningi er búið til nýtt bónuskerfi sem getur gefið allt að 10% en gamla bónuskerfið gaf að hámarki 7%.  Samningsaðilar eru sammála því að hið nýja bónuskerfi eigi að geta skilað starfsmönnum að jafnaði 7% sem er um 2% meira en í því bónuskerfi sem nú er verið að leggja niður.

Orlofs- og desemberuppbætur hækka úr 210.110 kr. í 243.000 kr. eða sem nemur 32.980 kr.  Einnig mun veikindadögum vegna barna fjölga úr 10 í 12. 

Eins og áður hefur komið fram þá gildir samningurinn frá 1. desember og mun byrjandi hækka í launum við undirskrift um tæpar 30.000 kr. eða sem nemur tæpum 12%. Starfsmaður sem unnið hefur í 10 ár hjá fyrirtækinu mun hækka um rúmar 35.000 kr eða sem nemur 13,14% við undirskrift.  Grunnlaun hjá byrjanda verða 175.640 kr. og eftir 10 ára starf 207.255 kr.

1. janúar 2010 munu byrjandalaun fara í 180.031 kr. og eftir 10 ára starf í 212.437 kr.  Á samningstímanum gefur samningurinn starfsmönnum hækkun sem nemur frá 14,8% uppí tæp 16%

Formaður félagsins er nokkuð sáttur við þessa niðurstöðu og þá sérstaklega í ljósi þess alvarlega ástands sem nú ríkir á íslenskum vinnumarkaði.  Einnig er formaður ánægður með að allt bendi til þess að náðst hafi að forða þessari deilu frá því að enda í verkfalli sem hefði ekki verið gott í því ástandi sem nú ríkir í íslensku samfélagi.

Mun formaður kynna nýjan kjarasamning fyrir starfsmönnum í dag og að lokinni kynningu munu starfsmenn kjósa um samninginn.

02
Feb

Aðalfundir deildanna hefjast í kvöld

Aðalstjórn Verkalýðsfélags Akraness minnir félagsmenn Almennrar deildar félagsins á aðalfund deildarinnar í kvöld. Hefst hann klukkan 18:00 og er í fundarsal félagsins að Sunnubraut 13.

Á morgun þriðjudag er aðalfundur Iðnsveinadeildar og á miðvikudaginn verður síðan aðalfundur Matvæladeildar. Hefjast þeir fundir einnig kl. 18:00 í fundarsal félagsins að Sunnubraut 13.

Dagskrá aðalfundanna er svohljóðandi:

1.  Venjubundin aðalfundarstörf

2.  Farið yfir stöðu kjarasamninga

3.  Önnur mál

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image